mánudagur, janúar 07, 2008

Dagur 318 ár 4 (dagur 1402, færzla nr. 638):

Jólin og áramótin eru þá loksins búin. Búinn að prenta út stundaskrána. Gæti hugsanlega þurft að vakna á skikkanlegum tíma amk einn dag í viku.

Sá nýja bílinn hans Reynis. það var ógurlegur landprammi. Virðist svífa yfir götuna svipað eins og Dodge Aries. Skilur ekki eftir sig jafn mikla olíu samt, og er aðeins öflugri og aðeins betur smíðaður.



Veit ekki hvernig mun ganga að lesa bækurnar sem ég fékk í jólagjöf. Mig grunar að annað muni ganga fyrir. Þó er ég að verða búinn með þá sem ég fékk frá Hauk. Hún er skrítin.

Ég fann uppi í hillu hjá mér eina síðan í fyrra. Kannski ég lesi þá bók einhverntíma í góðu tómi.

Það eru eiginlega of langir kaflar í bókum til að maður nenni að lesa þær í stuttum frítímum. Ég þarf að athuga þetta þegar ég fer yfir mína. Passa vel uppá að partarnir fari ekki mikið yfir fimm síður. Ég held að passleg lengd sé svona tvær. Það er hægt að lesa á undir korteri, sem er sá tími sem tekur að bíða eftri strætó, eða fara með strætó einhvert, eða hita pizzu, eða bíða eftir pizzu.

Þannig verk má líka við að vera svolítið skrykkjótt - að vísu eru líka sumir sem lesa allt í einum rykk, og fyrir þá er gott að það sé flæði. Þeir mega alveg við stuttum köflum. Þeim mun finnast þeim miða vel í lestrinum þannig.

Ég fékk einhver föt líka. Það er alltaf. Sokka og slíkt, enda segir mamma að maður eigi að henda sokkum um leið og það koma göt á þá. Ekki alveg það sem ég geri. Fékk þessar buxur frá systrunum, sem passa ekki á mig. Eða nokkurn mann sem ég hef séð. Veit ekki hvernig þær eiga að tolla uppi um mig, satt að segja, þar sem þær ná ekki upp á mjaðmagrind. Svo eru þær sjálfniðurgirðandi, sem er voða gott ef maður þarf á klósettið og nennir ekki að girða niður um sig sjálfur; maður bara sest.

Ég skil ekki hvaða tendensar stjórna framleiðzlu svona fatnaðar.

Ég þarf að fara að ná mér í mat, hitta ömmu... gera hluti.



Held þær hafi ekki farið í jólaköttinn. Þær eru nefnilega með húfu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli