sunnudagur, janúar 13, 2008

Dagur 324 ár 4 (dagur 1408, færzla nr. 640):

Stundum fæ ég áhugaverðan ruslpóst. Oftast ekki, en stundum. Einusinni var það "debt consolidation", og "porn" í nokkurvegin 50-50 skiftingu. Svo komu "það var brotist inn á e-bay reikninginn þinn" tilkynningarnar. Og ég sem er ekki með neinn e-bay reikning.

Öðru hvoru undan farið hef ég fengið sendingar frá einhverri Höllu. Grunar að það sé vírus á tölvunni hennar sem er að gera þetta. Vegna þess að ég ímeilaði henni til baka og hún virtist ekkeert skilja hvað ég var að segja.

Halla Víðisdóttir, það er örugglega vírus á tölvunni þinni.

Ég fæ ennþá póst frá henni öðru hvoru. Kannast ekkert við nafnið.

En það er ekki allt. Hér um Jólin fékk ég póst frá einhverjum Gunnari og einhverri Debóru, sem vildu bjóða uppá aðgang að einhverju dönsku vef-svikamillufyrirbæri, eins og MSN eða hvað þær heita allar þessar vírusveitur. Það er hægt að yfirtaka tölvuna þína í gegnum MSN, vissirðu það?

Jæja, þessi Gunnar og Debóra sendu mynd af sér.



Gunnar.

Kannast ekki við manninn á mynd. Veit ekki hvað hann er að gera með þennan mótor.

Málið er að ég kannast við nokkra Gunnara. Ja, tvo. Gunnar í barnaskóla, sem ég man ekki til þess að hafa hitt í allnokkurn tíma, og svo Gunnar sem ég var að vinna með í Flytjanda fyrir að verða 3 árum.



Debóra.

Ekki get ég sagt ég þekki, eða hafi nokkurntíma hitt neinn með þessu nafni. Kannast heldur ekkert við manneskjuna á mynd. Hver er þetta? Og hvaða illskulegi svipur er þetta á henni? Ég man ekki eftir að hafa nokkurtíma umgengist neina svona forn-egypta.

Ekki líst mér á að skrá mig inn á meðfylgjandi link, því við það sleppur örugglega inn á háskólanetið rafræn fuglaflensa.

Af hverju getur fólk ekki bara ímeilað mér, eða sent mér bréf? Eða hringt í mig? Allt í lagi, það næst ekkert í mig fyrr en eftir hádegi...

Nei nei, ég fæ dularfull skeyti frá mönnum sem heita kunnuglegum nöfnum og múmíu-vinum þeirra.

Furðulegt. Hvað næst?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli