fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Dagur 253:

Þeir segja að Arafat sé dauður núna. Sem er gott fyrir hann, því ég var farinn að óttast að þeir myndu grafa hann lifandi. Sem hefði verið slæmt.

Á sínum tíma var mjög vinsælt að grafa vestu-meyjar lifandi. Það er ég viss um að það hefur verið mikið stuð að sitja yfir gröfum þeirra og hlusta á þær væla: "hleyptu mé út! Ég meinti þetta ekki! Ég skal vera góð!" í svona 2-4 daga. Menn hafa örugglega haft með sér snakk og bjór, og rætt um daginn og veginn þarna. Núna höfum við Dylan.

Já. Það var búið að moka holu fyrir Arafat kallinn löngu áður en hann var dauður. Hvað ef hann hefði verið í coma í svona 10 ár? Hefði ekki verið meiri og meiri freisting að nota gröfina undir einhvern annan?

Amma sagði mér í gær, að þetta sé ekkert nýtt. Á Siglufirði þegar hún var ung, þ.e.a.s á for-kambríum tímabilinu, þá var tekin gröf 20 árum áður en sá sem hana átti lagðist þar til hinstu hvílu. Að vísu var gæjinn sem átti gröfina og gæinn sem tók gröfina sami gæinn, svolítið sérvitur, en það er ekki hægt að segja að hann hafi verið óundirbúinn. Er þín gröf tilbúin? Ef ekki, mæli ég með að þú pantir pláss núna á garði. Það er aldrei að vita nema öll pláss verði full þegar röðin kemur að þér.

Já, það er svo praktískt að vera dauður. Fyrir þann sem er dauður. Dauðir menn hafa aldrei áhyggjur af fjármálum. Né nokkru öðru. Þessvegna eru rónar svo sniðugir. Þeir eiga engan pening, ekki einusinni fyrir eigin útför, vitandi það innst inni að það yrði ekki tekið í mál að leyfa þeim bara að rotna á Hlemmi.

Hvað er annars verið að serímóníast með þessi lík? Og því að taka sér landsvæði undir þau? Indverjarnir vita, og hafa vitað lengi að það er tóm tjara að taka land undir lík. Þeir brenna bara sín lík og dömpa svo öskunni í Ganges. Þannig fer ekkert land til spillis, og líkið hverfur aftur til náttúrunnar. Það er ég viss um að sé slíkur hlutur sem sál er sögð vera, þá hverfi hún við dauðann hvert sem verða vill. Allar þessar serímóníur eru ekki fyrir þá dauðu, heldur fyrir þá lifandi.

Ég hef talað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli