þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Dagur 146 ár 3 (dagur 876, færzla nr. 434):

Sól og blíða. Fór af því tilefni með hundinn út. Hún þefaði náttúrlega af öllum hornum þar sem einhver eða eitthvað hefur kastað vatni. Og nú veit ég allt um það.

Tíkin fer svo úr hárum, að hvar sem hún fer er eftir henni svona loðský. Mig undrar að hún skuli ekki verða sköllótt, eins og hárin falla af henni.

Ég skil ekki af hverju fólk leyfir hundum að sleikja sig. Þeir hafa verið með nefið í hvers manns koppi, bókstaflega. Ég geri mér grein fyrir því að fleiri tegundir gerla eru uppi í venjulegum manni en uppi í hundi, en þegar ég hugsa til þess að uppi í hundi eru saurgerlar.... þá hljómar það ekki svo vel.

Tegund skiftir nefnilega máli. Ostar og hverskyns mjólkurvörur innihalda fjölbreytt magn gerla, en við myndum samt öll frekar fá okkur ost með smá AB-mjólk en sleikja petrískál sem á væri bara ein gerð gerla: kamfílóbakter.

Pælið aðeins í þessu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli