Dagur 162 ár 4 (dagur 1257, færzla nr. 576):
Áðan kom lundapysja til okkar í kassa. Frá Reykjavík. Þeir sögðust hafa fundið hana á vappi í kringum vélina inní skýli. Datt í hug hún hefði komið frá okkur. Laumast um borð þegar við vorum ekki að horfa. Klifrað upp í hjólabúnaðinn eða eitthvað. Hver veit? Kannski átti hún pantað? Á nafninu Lund A. Pysja eða eitthvað. Kannski með flugkort.
En hvað um það, þar sem eyjar eru þekktar fyrir lunda en Reykjavíkurflugvöllur ekki, þá ályktuðu þeir að dýrið kæmi frá eyjum en ekki úr esjunni, eða einhverri af þessum eyðieyjum sem eru í nágrenni Reykjavíkur. Svo þeir sendu hana til okkar aftur. Þeir eru einhversstaðar að henda henni fyrir björg núna.
Hannes tók af henni einhverjar myndir, og þessi hér að ofan er ekki ein af þeim.
Já. Ljótt er, ef pysjurnar eru farnar að flýja úr eyjum með flugi. Hve margar ætli laumist burt með Herjólfi?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli