fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Dagur 171 ár 4 (dagur 1266, færzla nr. 579):

Var að glápa á slatta af undarlegum kvikmyndum. Auðvitað. Sá nokkrar gerðar af Dario Argento. Hann er ítalskur kvikmynda-iðnaðarmaður. Gerir 1-3 myndir á ári, að ví er virðist, og við nánari skoðun kemur á daginn að þar fer verulega ruglaður maður. En ég er ekkert að velta mér uppúr því.

Hvað um það. Dæmigerð Dario Argento mynd er svona: það er morðingi með svarta leðurhanska - maður sér aldrei allan morðingjann, bara hendurnar - hann er með hníf, svo rekur hann 5-6 fórnarlömb á hol með hnífnum, og svo deyja 2-3 á einhvern annan skrautlegri hátt. Svo kviknar í húsi. Alltaf tími milli morða til að ná í meira poppkorn.

Meikar sens?

Ástæðan til að horfa á þessar kvikmyndir er ekki hve hádramatísk lystaverk þetta eru. Ég get heldur ekki sagt með góðri samvisku að þetta séu lélegustu myndir í heimi. Ég sá "Nei er ekkert svar". Í samanburði við þá ræmu eru þetta snilldarverk.

Hafandi núna séð meira en 4 myndir gerðar af þessum peyja, fer ég að velta fyrir mér hvort það er handrit að þessu hjá honum, eða hvort hann bara býr þetta til jafn-óðum. Ég sé hann fyrir mér, ráfandi um á settinu, pælandi í hvað ætti að vera næst:


"Hmm... kannski lýtur eðlilega út ef það kemur morðingi og drepur þennan mann þegar hann er að fá sér nammi. - Nei, við getum það ekki, þá höfum við ekki efni á öllu blóðinu sem við ætlum að nota í lokaatriðinu."

"Hey, Dario, við fundum 20 lítra tank af blóði í skottinu á bílnum hans Sergio!"

"Jess! Þá get ég haft morð í þessu atriði! Töff töff töff."


Það er ekkert langt síðan ég sá Inferno. Það var mjög fyndin mynd. Ég gleymdi plottinu nokkurnvegin jafnóðum. Það var auðvelt.

Fyrst kom nefnilega atriði þar sem þessi stelpa fór inní einhverjar skuggalegar rústir í New York. Þar missti hún lyklana sína oní holu fulla af vatni, sem kom á daginn að var heil íbúð. Flott íbúð meira að segja. Hvernig komumst við að því? Jú, stelpan kafaði oní holuna á eftir lyklunum.

Alveg eins og kvenfólk er víst til að gera.

Kafandi oní vatnsfyllta lúxusíbúð - í KJALLARA!

Eftir svona korter kom fiskdaman upp aftur, eftir að hafa verið elt af nokkrum líkum. Já. Daman þarf sko ekkert að anda neðansjávar, og það voru mörg lík fljótandi þarna um. Það kom aldrei fram neitt hvað þau voru að gera þarna, eða hvaða íbúð þetta var, en mig grunar að þarna hafi verið á ferðinni fólk sem lét plata inná sig þessari íbúð fyrir slikk án þess að vita að hún var á kafi í vatni, en ákveðið að flytja bara inn samt.

Svo kemur morðingi og drepur aðalpersónuna og vin hennar. Held ég. Nema það hafi verið tvífari hennar. Svo er hin aðalpersónan eða tvífari hennar drepin seinna í myndinni. Þá tekur við önnur aðalpersóna sem mig mynnir að hafi lifað af.

Svo er þarna sena þar sem einhver dama er hengd. Það kom aldrei fram hver það var eða neitt. Gæti hafa verið sena úr annarri mynd, sem þeir ákváðu að nota... bara af því. Hærra bodycount, eða eitthvað. Ég veit það ekki. Ég veit aldrei hvað kvenfólk er að hanga í ítölskum b-myndum.

Snilldin ein er samt atriðið þar sem kellingin dettur niður lyftugöng. Logandi. Og kveikir í húsinu. Það var svo súrt að það var fyndið. Svo var beinagrind. Já... og hún talaði.

Og atriðið með rottunum. Og atriðið með öllum köttunum.

Það er nefnilega þekkt klysja, að ef einhver er að þvælast einhversstaðar á dimmum stað, og það er morðingi einhversstaðar að fela sig... þá skýst skyndilega fram köttur. Auðvitað er þannig atriði. Á sterum. Og það er auðvitað mjög asnalegt og sniðugt, allt samtímis.

Inferno er miklu skrýtnari en til dæmis Profondo Rosso, en í þeirri mynd er þó sena þar sem mekanísk dókka ræðst á einhvern, og svo deyr einhver í einkennilegu hálsmensslysi. Sem hefur eitthvað með lyftu að gera. Svo er senan í Tenebrae þar sem morðinginn heggur hendina af þessari kellingu, sem verður til þess að hún æðir um allt hús, spreyjandi veggina rauða. Það þarf að sjá til að ná almennilega. Með svona aksjón þarf plottið ekkert að meika sens.



"One of the scariest movies of all time". Yeah right.

Íslenskar kvikmyndir eru ekki svona. Nei. Íslenskar myndir þurfa allar að vera ógurlegt drama, eða ægilega fyndnar. Yfirleitt misheppnast dramað alveg ægilega, og húmorinn fer fyrir ofan garð og neðan.

Einhver þarf að gera kvikmynd þar sem Jólasveinar koma niður í bæ, um hásumar, í leit að Jólakettinum, sem er að föndra við að snæða smábörn, einstæðar mæður, róna, löggur, litlar byggingar... Það verða sprengingar, bílaeltingaleikir og fullt af blóði spreyjast í allar áttir.

Svo kviknar í húsinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli