föstudagur, ágúst 17, 2007

Dagur 163 ár 4 (dagur 1258, færzla nr. 577):

Var að velta fyrir mér þessari Grímseyjarferju...

Núverandi Sæfari er næstum 40 metra skip, um 370 tonn, smíðað 1978. Og í staðinn vilja þeir fá skip ekki eldri en 15 ára... skv. mínum heimildum er það úttjaskað og ónýtt skip strax þar, og gjörsamlega verðlaust nema sem brotajárn. En skoðum þetta aðeins fyrst til að glöggva okkur á verðlaginu.

Hmm... Mér sýnist þessi 75 metra fraktari með 2 krönum kosta um 100 krónur íslenskar. Ekki slæmur díll það.

Og hérna hef ég fundið 454 farþega skemmtiferðaskip verðlagt á 450 millur. '62 módel. Klassi.

Ekki hefur ein 50 manna ferja kostað svona mikið? Nýleg ferja frá Grikklandi kostar ekki nema hálfan milljarð. Miklu tilkomumeira skip það; næstum þrefalt þyngra. Og þessi 140 farþega hraðbátur kostar ekki nema 100 millur.

En höldum áfram að skoða blaðagreinar:

Skv. þessari grein kostaði ferjan 100 millur. Og hún nær ekki einusinni 50 km/h. Eins og ég hef komið inná, þá er hægt að kaupa ansi ölugan hraðbát sem getur farið með alla Grímseyjinga og suma vini þeirra í smá ferðalag fyrir þann pening. En nei, það var keyptur einhver bilaður ryðkláfur. Bilaður? Það þurfti að fjárfesta í vélbúnaði fyrir 50 millur. Það er sko almennileg bilun. Öll skipin sem ég er með á lista eru "gangfær". Hér lét einhver svindla illilega á sér.

Sko, ef spaðabáturinn er Ferrari, þá er Grímseyjaferjan Hyundai Pony. Maður borgar ekki það sama fyrir Pony og fyrir Ferrari. Samkvæmt þessari grein
gerðu Grímseyjingar sér grein fyrir þessu.

Hverjar eru svo þessar óskir Grímseyjinga? Það er alltaf vitnað í þær. Mig grunar að það sé bara verið að kenna þeim um eitthvað: þeir komu með lista yfir hluti sem ferja þarf að hafa, svo er keypt ferja sem lýkist ekkert þeim kröfum, og svo er henni breytt... Höfum hér í huga að ansi stórt sjóskip virðist ekkert kosta neitt svo mikið. Svona hálfan milljarð, nánast nýtt.

Það er eitthvað rangt við þetta allt. Eru þessir menn hjá vegagerðinni sem keyptu þessa ferju svona vitlausir? Hver réð þá eiginlega? Hvernig komust þeir í þetta djobb? Hvaða spilling er eiginlega í gangi?

Eða, þeir vita hvað þeir eru að gera. Ferjan kostaði engar 100 millur. Hún kostaði í raun 50 millur, og þeir skiftu hinum 50 bróðurlega á milli sín. Með því að yfirheyra seljendurna er unnt að komast að þessu.

Svo getur verið að þessir gaurar séu bara á valdatrippi, kaupandi ferjur fyrir fullt af pening til að hafa eitthvað til að monta sig yfir í veizlum. Sem er mjög geðveikislegt.

Mér sýnist að það þurfi að reka alveg fullt af fólki útaf þessu. Við skulum byrja á Sturlu ráðherra. Hann er ráðherrann, hann ber ábyrgð á undirmönnum sínum. Þið vitið, þessum gaurum sem sóuðu peningum Landans, af fjárlögum, án samráðs við þing, án samráðs við menn sem vissu hvað þeir voru að gera. Svo má reka þá gaura alla með tölu. Reka þá sem lengst. Til Síberíu, helst.

Vegna þess að þetta er greinilega þeim að kenna, burtséð frá hvaða hvatir lágu þarna að baki.

Og allt þetta fær mig til að hugsa um hve mikið er að marka kostnaðaráætlanir þeirra peyja í vegagerðinni um göng. Mig grunar sterklega að það sé miklu meira að marka Árna Johnsen en þá. Svo ég er með tillögu: gerum göng, en höldum vegagerðinni út úr því dæmi. Það gæti marg-borgað sig.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli