fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Dagur 265 ár 4 (dagur 1349, færzla nr. 616):

Var að aka út pakka í Furuhlíðinni áðan. Fór í rangt hús, sem skiftir í sjálfu sér engu máli. En þá hafði einhver pjakkur á öðrum sendibíl keyrt upp innkeyrzluna, og hindraði að ég gæti bakkað út.

Nú er furuhlíðin stutt og þröng þar sem ég var, og ekki sá ég framm á að gæinn kæmist þangað sem hann vildi jafnvel þó ég æki áfram. Svo ég bakkaði niður götuna, til að gefa honum til kynna að ég væri á leið út. Ekki gaf pjakkurinn sig, enda þrjóskur mjög.

Þegar ég hafði beðið eftir því að hann færði sig í nokkra stund nennti ég þessu ekki lengur, og ók upp götuna í því skyni að snúa við - sem var snúið, því það er eiginlega ekkert pláss til þess. Ef ég gerði það, þá yrði peyjanum frekar ljóst að það væri ekki pláss fyrir hann til að aka upp á meðan ég ók niður.

Þegar ég var að snúa við virðist ég hafa ekið yfir mikið grjót sem er þarna á planinu. Það varð til þess að sauð á kunningja mínum, og hann stökk út úr bíl sínum, froðufellandi af illsku og gaf mér bendingu að nema staðar.

Ég gerði það, og skrúfaði niður rúðuna til að heyra hvað hann hafði að segja.

Já. Hann var reiður út af þessu grjóti, sem ég var þá ekki alveg með á hreynu hvort ég hafði lent á eða ekki. Hafði satt að segja meiri áhyggjur af bílnum sem var lagt við hlið þess.

Reykmökkurinn stóð úr báðum eyrum mannsins undir miklum þrýstingi þegar hann lýsti fyrir mér hverskonar stórglæpur það væri að aka yfir svona mosavaxna steina og ætla svo að stinga af. Hann lét eins og hann hefði farið öfugu megin frammúr hvern morgun alla vikuna, slík voru lætin.

Mér sýndist hann helst verða vonsvikinn þegar hann sá að þetta var bara mosavaxinn steinn sem hann var að æsa sig svo mjög yfir, en tók samt þá stefnu að vera mjög mjög reiður. Veit maðurinn ekki að það er ekki hollt að vera sífellt reiður?

Ekki tók ég mikið mark á manninum, frekar en öðrum mönnum í jafn-lélegu andlegu jafnvægi, þar sem ég stóð hjá og velti fyrir mér hvort ég ætti að vera dipló eða espa hann aðeins meira upp. Ég kaus að fara milliveginn, og sýna honum bara óvirðingu. Það hefði sennilega verið gaman að láta hann elta sig aðeins um hverfið.

Það veit ég að hann hyggst hringja í yfirmanninn. Verð að inna hann eftir því á morgun. Verð að spyrja hann hvort tryggingafélögin hafi hringt, svona í framhaldinu. Út af þessum steini, sem þeir hirtu ekki að fara með á brott þegar húsið var byggt.

Hmm... já. Ég tók númerið á bílnum hans: þetta er Renault Traffic, nr. OO-P70. Flautið á hann ef þið sjáið hann, og sjáið hvort hann froðufellir ekki fyrir ykkur.

Ef ég ætti að stoppa og tilkynna í hvert sinn sem ég rekst utan í einhvern kant... ég myndi ekki gera annað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli