Dagur 59:
Helgi Hóseasson. Náunginn á götuhorninu, þessi með skiltið. Þið vitið hvern ég meina. Ef þið akið eftir langholtsveginum hafið þið trúlega séð hann. Hann er húsasmíðameistari.
Þessi maður kom meðal annars að smíði Langholtsvegs 154, þar sem ég hefi nú aðsetur. Það er ekki fullkomin smíð, það hús, ekki það að önnur hús séu neitt fullkomin. Það er til dæmis ekki eitt rétt horn í því. Maður getur séð hvernig loftið hallar öðruvísi en gólfið.
Ekki mikið, maður tekur ekki eftir þessu nema maður horfi sérstaklega eftir því. Svo hefur það sigið aðeins síðan það var smíðað, en það gera öll timburhús. Það er bara eðlilegt.
Það var alltaf kynt aðeins of mikið, afi sá til þess. Það var til dæmis stöðugur 37°C hiti í einu herberginu uppi. Og gluggarnir voru og eru of litlir til að hægt sé að kæla almennilega þegar svo er ástatt. þetta hefur lagast í seinni tíð, nú er líft í öllum herbergjunum. Það er mikill hitamunur á degi og nóttu útaf þessu, sem veldur því að húsið er sífellt á iði.
Traustabrestir. Maður heyrir skruðninga á efri hæðinni. Það er amma, eitthvað að þvælast. Hurð lokast. Jú, það er hún. Síminn hringir. Er amma heima? Það er einhver af gömlu kellingunum sem hún þekkir, og ég segi, jújú, hún er við. Ég heyrði nefnilega í henni uppi á lofti. Og ég fer upp til að vekja hana. Þá sé ég að kellingin er ekki uppi.
Ég segi að amma hljóti að hafa farið út í búð eða eitthvað. Kelling kveðst hringja síðar. Ég held áfram að glápa á sjónvarpið. Nokkru seinna kemur hún heim. Var í heimsókn hjá Völlu, eða Kristínu. Hafði sagt mér frá því, en ég gleymt því, eins og svo mörgu.
Stundum hef ég heyrt stigann marra, líkt og einhver sé að koma niður hann, hægt og rólega. Og það er ekkert gefið að það sé vegna þess að einhver sé að koma niður stigann.
Þetta hefur náttúrlega sína kosti, maður verður til dæmis svo lítið einmana þegar maður heldur að það sé einhver þarna. Svo ef þið eruð ein, þá er illa smíðað og gamalt timburhús kannski málið?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli