föstudagur, maí 07, 2004

Dagur 64:

Var um daginn í tollhúsinu, þar sem er ætlast til þess að maður skili skattframtalinu, til þess að ná í blöð. Ég fyllti framtalið nefnilega vitaust út, og vissi það - seinna kom reyndar í ljós að ég fyllti það út vitlaust á annan hátt sem ég þekki minna inná... hvað um það, ég fór þar inn, og ég vissi ekkert hvar þeir geyma þessi blöð.

Svo ég leita um svæði. Ég kíkti niður í kjallara - nei, ég var ekkert að spyrjast fyrir í afgreiðzlunni, ég hef svo mikla óbeit á að tala við fólk - og ég veit vel að ég hélt prófdómaranum á snakki áðan í klukkutíma, það er öðruvísi, svona hegða ég mér bara - en ég leitaði að þessum blöðum niðri í kjallara, og þau voru ekkert þar.

En þar er hurð, sem ég opnaði, í þeirri von að það væri kannski lagerinn, þar sem öll formin væru geymd, og ég gæti kannski í leiðinni skráð mig sem einstæða móður með sex börn, í háskóla og 110% örorku. Það væri fínn aukapeningur. A.m.k þar til þeir áttuðu sig á því að ég get ekki undir neinum kringumstæðum verið móðir, hvorki einstæð né annarskonar...

En ég fann inni í þessu herbergi engin slík form. Nei. Það voru bara gamlar tölvur og slíkt, húsgögn síðan 1970, rusl semsagt. Í hinum enda herbergisins vor dyr, sem ég laumaðist til að opna. það var bara lítið herbergi, en á gólfinu var hleri...

Sem ég lyfti auðvitað upp, og kíkti niður. Þetta var forvitnilegt. Það voru tröppur þangað niður, og ég heyrði óm í vélum, djúpt undir niðri...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli