laugardagur, maí 08, 2004

Dagur 65:

Ég held áfram með hina mjög svo trúverðugu sögu:

Ég klifra niður þennan stiga, hann liggur djúpt í iður jarðar, þessi stigi minnti reyndar svolítið á vélinda... Svo loksins næ ég niðrá botn. Það voru kyndlar á veggjunum til að gefa ljós, og nú er véladynurinn háværari en áður.

Það var greinilegt að þetta voru íslenzk göng, þau voru hlaðin úr torfi. Það voru steinhellur á gólfinu, svona eins og í garðinum hennar ömmu. Ég fikraði mig hægt eftir þeim. Þessi göng voru ekki alveg bein, svo ég sá ekki strax fyrir endann á þeim, en þegar ég sá loks út, þá trúði ég vart mínum eigin augum: Ég sé inn í stóran sal, fornlegan að sjá, með viðarklæddum veggjum og miklum bjálkum til að halda uppi loftinu.

Það voru þrjár stórar gufuvélar þarna inni, og það voru meira en tíu manns við þær, að henda í þær allskyns dóti, ónýtum tréhúsgögnum, gömlum vörubrettum... Það voru líka stórir teningar úr pappa á gólfinu, sem þeir voru að brytja í sundur og setja í vélarnar.

Ég laumaðist meðfram veggjunum til að líta betur á þetta. Það var auðvelt, því salurinn var frekar illa upplýstur. Ég sá að það voru göng þarna, bakvið pappírs-staflann, nógu stór til að keyra vörubíl gegnum. Þau voru líka torfhlaðin, með miklum bjálkum með reglulegu millibili til að halda uppi loftinu. Það voru hjólför á gólfinu. Hjólför eftir trukka.

Ég laumaðist inn göngin. Þau voru illa upplýst og verr lyktandi. Einskonar sambland af mold og dieselútblæstri. Ekki hefi ég gengið langt, þegar trukkur birtist fyrir horn, og snýr við í útskoti sem er þarna í horninu, og ég hafði ekki komið auga á. Það var of dimmt. En ég sá þó, þegar trukkurinn bakkar í áttina til mín, að hann er greinilega merktur Sorpu.

Ég forðaði mér út, og faldi mig í öðru horni á meðan trukkurinn var á leiðinni út. Hann var að koma með meiri pappa. Allir mennirnir fóru að ná pappateningunum úr trukknum. Á meðan þeir voru að því, leit ég betur á gufuvélarnar:

Þær voru tengar við dýnamóa, og háspennuvírarnir lágu eftir loftinu inn önnur göng, breið en ekki fær trukkum. Ég ákvað að rölta þar inn. Ef einhver kæmi, þá myndi ég bara segjast vera að leita að skattframtalseyðublaði.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli