föstudagur, febrúar 03, 2006

Dagur 332 ár 2 (dagur 697, færzla nr. 363):

Ég lét mér detta í hug um daginn að skrifa leikrit, því ég sá nokkuð ömurlegan þátt í sjónvarpinu um daginn. Skemmtanagildi hans var dauðadæmt frá upphafi, enda áherzlan á drama. Það, og nafnið á þáttunum er það asnalegasta sem ég hef séð í langan tíma. Og ég hugsaði: ég get gert betur.

Svo hér kemur það: hið frábæra leikrit "Fótur er hugarástand" eftir mig. Þið getið dundað ykkur við það í ykkar frítíma að setja það upp.

Fótur er hugarástand

Glæpaleikrit í fáeinum þáttum.

Persónur:

Máni Snær: snjall lögfræðingur
Drífa Mjöll: viðhald
Fura Ösp: innanhússarkitekt
Kolbrún Lind: eiginkona Mána
Tumi Freyr: leiðinlegur krakki
Höskuldur: fórnarlamb
Sunna Sól: listamaður
Hallur og Bjarni: löggur
Þjónn: þjónn
Feng Su Ling: kínverskur matsölumaður.
Satan: hann sjálfur.

1:

Það er kvöld. Höskuldur liggur á gólfinu heima hjá sér. Dyrnar eru opnaðar og Fura Ösp kemur inn, sér Höskuld liggjandi á gólfinu:

Fura: Ó nei! Það er búið að myrða Höskuld!
Höskuldur: Ha? Nei, ég bara ligg hérna því það er svo gott fyrir bakið.
Fura: guði sé lof!

***

Máni Snær liggur sofandi uppí rúmi. Dyrnar opnast og in kemur Tumi Freyr, sonur hans úr nokkrum fyrri hjónaböndum. Tumi heldur á risastórum málmgjöllum, og er með dómaraflautu í kjaftinum. Hann prílar upp í rúmið, kemur sér vel fyrir og byrjar svo að hoppa í rúminu, berja saman málmgjöllunum og flauta með dómaraflautunni. Máni vaknar með andfælum:

Máni: leggðu frá þér þessi hljóðfæri Tumi minn.

Tumi heyrir ekkert og heldur áfram að hamast. Máni hækkar raustina:

Máni: Tumi minn! Tumi... æ, ég nenni þessu ekki.

Máni stígur fram úr rúminu, og röltir fram í elhús. Tumi eltir hann þangað, klingjandi gjöllum og flautandi allan tímann. Máni fær sér morgunmat í rólegheitunum og reynir að lesa blöðin. Eftir svona korter gefst Tumi upp á hamaganginum:

Tumi: gemmér að borða!
Máni: það er kókópöss inní skáp.
Tumi: Ég vil að þú hellir því í skál fyrir mig!
Máni: Þú ert orðinn svo stór að þú átt að geta fengið þér að borða sjálfur.
Tumi: Ég klaga þig til barnaverndareftirlitsins! Gemmér kókópöss! Núna!
Máni: Tumi minn...
Tumi: Ég vil fá kókópöss! Gemmér kókópöss! Núna! Arrg!
Máni: Tumi...
Tumi: Nei!

Tumi hendir sér í gólfið og byrjar að grenja hástöfum. Auk þess lemur hann með báðum hnefum og báðum fótum í gólfið. Máni stendur upp og dregur hann inn í forstofu:

Máni: Tumi Freyr, ég hef ekki tíma til þess að standa í þessu, ég þarf að fara í vinnuna.
Tumi: Ég fer með!
Máni: Tumi minn, ég lofaði mömmu þinni að fara með þig til hennar.
Tumi: Nei! Nei! Nei! Þú getur ekki gert mér þetta!

Máni reynir árangurslaust að klæða Tuma í úlpu, húfu og skó. Að lokum neyðist hann til að teipa hendurnar og fæturnar á Tuma saman, og teipa svo fötin og skóna á hann. Að svo búnu tekur Máni Tuma undir hendina of labbar með hann út.

***

Kolbrún og Sunna eru uppi í rúmi, naktar, að reyna að hafa kynmök. Allt í einu ýtir Kolbrún Sunnu frá sér:

Kolbrún: ég nenni þessu ekki.
Sunna: er eitthvað að?
Kolbrún: Sunna, sko, ég veit að við erum alveg rosalega hip og kúl á meðan við erum saman og allt það, en, það er bara eitthvað... æ ég veit það ekki.
Sunna: er ég feit?
Kolbrún: Það er ekki þú, það er ég. Þú ert mjög falleg og allt það. Ég bara get þetta ekki. Ég held ég sé... gagnkynhneigð.
Sunna: *tekur andköf*
Kolbrún: Fyrirgefðu. Það er allt í lagi að vera ekki samkynhneigð. Við getum samt ennþá verið vinir, er það ekki?
Sunna: Æi, reyndar þá er ég líka bara að þykjast. En það er svo inn að vera gay. Allar vinkonur mínar eru í samtökunum 68. Þau bjóða upp á svo góða leik-aðstöðu fyrir börnin, vissir þú það?

Dyrabjallan glymur. Kolbrún og Sunna standa upp, og reyna að finna eitthvað til að klæða sig í. Þegar þær eru í takt við nýjustu tískustrauma þá fara þær báðar til dyra.

Máni stendur á tröppunum, við hlið hans er Tumi, með úlpu, húfu og skó teipaða við sig á viðeigandi stöðum.

Kolbrún: Sunna Sól, segðu honum að hann sé of seinn.
Sunna: Þú ert of seinn.
Máni: segðu henni að ég sé ekkert of seinn. Ég eigi að koma á morgun.
Sunna: hann segist ekki vera of seinn, hann eigi að koma á morgun.
Kolbrún: segðu honum að hann sé þá of snemma, ég vil ekkert taka við krakkanum núna.
Sunna: hún segir að þú sért of snemma á ferðinni, og hún vill ekkert taka við krakkanum núna.
Máni: segðu henni að ég sé upptekinn. Hún hlýtur að geta hugsað um hann í einn auka dag.
Sunna: hann segist vera upptekinn, og að þú hljótir að geta tekið við honum einn auka dag.
Kolbrún: segðu honum, ókey, en þá verður hann að taka hann alla næst helgi.
Sunna: hún segir, ókey, en þá verður þú að taka hann alla næstu helgi.
Máni: segðu henni að það sé ekki sanngjarnt. Ég verð með fólk í mat þá.
Sunna: hann segir að það sé ekki sanngjarnt...
Kolbrún: Máni, ég fer í mál við þig og fer frammá að þú takir að þér allan umgegnisrétt að barninu. Já! Ég ræð heilan her af lögfræðingum, og læt setja á hann nálgunarbann við mig! Já! Hlustaðu á mig! Ha! Já! Ég mun sjá til þess að þú munir þurfa að ala önn fyrir þessum krakka alla hans ævi! Já! Uhmu! Já!
Máni: það er ekki mannúðlegt! Og þetta er líka þitt barn.
Kolbrún: en ég er lessa, ég get ekki hugsanlega hafa eignast þetta barn.

Kolbrún grípur Sunnu og kyssir hana.

Kolbrún: sjáðu bara!
Máni: en...
Kolbrún: Ekkert en. Farðu, og hafður gerpið með þér.

Kolbrún skellir hurðinni. Máni tekur Tuma upp, fer með hann bak við hús og laumar honum inn um opinn glugga. Tumi krækir fótunum í gluggakarminn svo hann fellur ekki inn, en Máni nennir ekki að ýta honum lengra heldur hleypur á braut.

Inni snýr Kolbrún sér að Sunnu:

Kolbrún: Veistu Sunna, ég held ég sé hætt við að hætta að vera lessa.

Sunna brosir, og þær faðmast.

Sunna: förum saman í bað.
Kolbrún: já, gerum það!

Kolbrún og Sunna fletta sig klæðum og hlaupa skríkjandi að baðherbergishurðinni. Þær fallast í faðma áður en þær opna dyrnar:

Þá blasir Tumi við þeim, hangandi á hvolfi niður úr glugganum, grettir sig illilega og urrar á þær. Kolbrún og Sunna öskra.

Lok fyrsta þáttar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli