Dagur 349 ár 2 (dagur 714, færzla nr. 371):
Ég datt í stiganum um daginn, sem væri ekki frásögum færandi í sjálfu sér, nema...
Nú, ég missteig mig eitthvað þarna og datt, og rak fótinn svo heiftarlega í að það kom risastórt blæðandi sár. Sem ég reyndar vissi ekki af fyrr en seinna um daginn... en hvað um það. Þetta sár er staðsett rétt fyrir ofan annað sár, engu minna, sem er búið að vera að gróa þarna í eins og tvær vikur. Það var verulega stórt sár.
En. Þó fyrra sárið hafi nú á sínum tíma verið mjög stórt og mikið, þá varð ég ekki var við það þegar það myndaðist. Ég hef ekki hugmynd um hvernig mer tókst þarna að stórslasa mig. Ég veit ekki hvað það var búið að vera þarna lengi þegar ég fyrst tók eftir því.
Sem fær mig til að velta fyrir mér: hve mikið man ég af atburðum dagsins svona venjulega? Hvað er ég eiginlega að gera þennan tíma sem ég man ekki eftir? Eða er ég að stunda eitthvað á nóttunni kannski? Án þess að ég viti nokkuð af því?
Ég veit það ekki. Kannski er ég bara svona tilfinningalaus stundum. Kannski er það eitthvað í matnum. Kannski er það eitthvað sem er ekki í matnum. Hver veit. En þar til ég kemst að því, þá veit ég ekki meir. Ég gæti þessvegna verið að stunda einhver myrkraverk þennan hluta sólarhringsins sem ég man ekkert eftir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli