þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Dagur 336 ár 2 (dagur 701, færzla nr. 365):

Hey, ef þið læsuð eftir mig einn pistil á dag núna, þá tæki ár að fara í gegnum allan listann. Flott.

En hvað um það, hér er lokaþáttur af hinu æsispennandi og mjög svo raunsæa leikriti sem ég hef því miður hvorki tíma né pening til að setja á fjalirnar:

Fótur er hugarástand:

3:

Hallur og Bjarni eru úti að aka. Það glymur í talstöðinni:

Talstöð: Bíll 22, það hefur verið framið morð á veitingastaðnum Le déchets répugnants. Þið eruð í næsta nágrenni, haldiði að þið takið það ekki?
Bjarni: við erum á leiðinni.
Hallur: er morð refsiverður glæpur?
Bjarni: það fer eftir því hver fremur það.

***

Hallur og Bjarni mæta á vetvang: Sunna liggur dauð á gólfinu, þakin þykku lagi af ælu frá toppi til táar svo hvergi sést í hold né klæði. Uppúr brjóstkassa hennar stendur hnífsskaft. Við hlið hennar liggur Tumi í eigin ælu, fölur og tekinn, engist við að kúgast, en hefur ekkert til að æla. Hjá honum situr Kolbrún Lind, einnig þakin ælu um allan líkamann en rauð af blóði á höfðinu, og klappar barninu sínu.

Hallur: allt í lagi. Hvað gerðist hér?
Kolbrún: Ég ætlaði ekki að gera það.
Hallur: þá er það allt í lagi.
Þjónn: hvað með skemmdirnar?
Hallur: hvaða skemmdir?
Þjónn: nú, barnið hennar ældi út allt veitingahúsið, svo nú eru allir gestirnir flúnir.
Kolbrún: Þú mundir ekki segja þetta ef það væri þitt barn sem hefði ælt út um allt!
Þjónn: Kæra frú, mín börn koma málinu ekkert við...
Kolbrún: þið eruð alltaf eins! Ekkert sem þið gerið er ykkur að kenna! En ég skal sko segja ykkur það, að það er líka óþefur af ykkar ælu!
Þjónn: Fröken...
Kolbrún: engin hortugheit! Þetta er mitt barn! Það hefur ekki skemmt neitt! Þetta er ykkur að kenna!
Þjónn: þið sjáið að konan er svolítið illa fyrir kölluð...
Kolbrún: hvað varstu að kalla mig? Þú skalt ekki komast upp með þetta!

Kolbrún tekur gaffal og stingur þjóninn ítrekað með honum. Þjónninn deyr.

Kolbrún: Ó nei! Hvað hef ég gert?

Kolbrún fellur á hné sér og lítur á gólfið. Þar er stór hraukur af kekkjóttri seigfljótandi ælu sem hún rekur andlitið á kaf ofaní. Hún lyftir höfðinu aftur upp:

Kolbrún: oj...
Hallur: (við Bjarna) vilt þú snerta hana?
Bjarni: nei. Þetta mál er upplýst. Förum.

***

Máni er að ráðfæra sig við Höskuld:

Máni: hér stendur að þú hafir framið nauðgun.
Höskuldur: ég gerði það ekki.
Máni: en nauðgun er glæpur.
Höskuldur: ég nauðgaði engum, það er lygi.
Máni: það breytir því ekki að nauðgun er refsiverður glæpur. Þú ferð örugglega inn fyrir þetta.
Höskuldur: en ég gerði ekkert!
Máni: ég er ansi hræddur um að ég geti ekki mikið hjálpað þér.
Höskuldur: hvernig er hægt að dæma mig fyrir eitthvað sem ég hef ekki gert.
Máni: þú varst kærður, það er nóg.
Höskuldur: já en...
Máni: því miður.
Höskuldur: en ef kæran er dregin til baka?
Máni: nauðgun er samt glæpur.
Höskuldur: allt í lagi... þá kæri ég Furu Ösp líka.
Máni: fyrir hvað?
Höskuldur: Nauðgun.
Máni: Ertu að segja að Fura Ösp hafi nauðgað þér? Hvernig?
Höskuldur: með því að kæra mig fyrir nauðgun.

***

Hallur og Bjarni banka upp á hjá Furu Ösp. Fura kemur til dyra, haldandi á hundi:

Bjarni: Fura Ösp Hallormstedeskøg?
Fura: já?
Bjarni: þú ert hér með handtekin fyrir nauðgun.
Fura: hvað? Ég hef ekki nauðgað neinum.
Bjarni: Jú, Höskuldur hefur kært þig, við verðum að handtaka þig.
Fura: Þetta er fáráðlegt.
Bjarni: nei, þetta er glæpur.
Fura: Nei! Ég er fórnarlambið hér!
Bjarni: það breytir því ekki að þú ert líka nauðgari.
Fura: hvað með hundinn minn?
Bjarni: hann verður í góðum höndum.

***

Feng Su Ling er að búa til súpu í eldhúsinu á kínverska veitingastaðnum sínum Gullna Drekanum þegar það er barið að dyrum. Feng opnar dyrnar, og þar stendur Hallur, haldandi á hundinum hennar Furu:

Hallur: sæll Feng.
Feng: Hallur! Gaman að sjá þig!
Hallur: ég get ekki stansað, en ég heyrði að þig vantaði alltaf ódýrt kjöt.
Feng: Já, mig vantar kjöt. Kjöt mjög dýrt.

Hallur réttir Feng hundinn:

Hallur: þetta ætti að endast í viku eða svo.
Feng: Takk.

***

Kolbrún kemur heim til sín með Tuma í fanginu. Þegar hún kemur inn í stofu sér hún að þar stendur sjálfur Andskotinn í öllu sínu veldi, og teygja sig logar umhverfis hann og uppúr ljótri holu við hlið hans:

Satan: Kolbrún, ég er kominn til að fá forræði yfir syni mínum.
Kolbrún: hey! Ég var full þegar það gerðist! Ég samþykkti ekki neitt! Og þú hefur aldrei borgað meðlög!
Satan: Ég er líka kominn vegna hins málsins...
Kolbrún: hins málsins?
Satan: já, þú sagðir að ef ég gerði þig unglega til fertugs mætti ég eiga þig eftir það. Þú ert fertug. Ég á þig.
Kolbrún: Hvernig dyrfistu...
Satan: ég er Satan, sjálfur andskotinn. Ég má alltaf eiga fólk eins og þig. Reyndar allt fólk, ef marka má suma lifendur.
Kolbrún: þú munt iðrast þess!
Satan: ég ætla ekki að tala við þig. Þú átt að vera matur fyrir köttinn minn, hann Hnoðra. Hann mun melta þig að eilífu. Komdu.

Satan réttir út hönd sína og brosir vingjarnlega.

Kolbrún: Aldrei!

Satan yppir öxlum:

Satan: ókey.
Kolbrún: Ég kæri þig!
Satan: gerðu það; ég hef alla beztu lögfræðingana.

Satan veifar hendinni og jörðin rifnar undan fótum Kolbrúnar; hún og Tumi hverfa niður í undirheima. Mikill eldur gýs upp á eftir þeim og svo lokast holan. Satan hverfur og ofaní sína holu, og svo verður allt sem fyrr.

***

Máni er úti í hesthúsinu sínu að moka skít. Þá skyndilega myndast mikil hola á gólfið, svo stór að hesturinn hverfur þar ofaní, og upp sprettur Satan sjálfur.

Máni: Hvað er eiginlega að þér maður! Sjáðu hvað þú gerðir við hestinn minn!
Satan: Þegiðu. Þetta leikrit er orðið alltof langt og leiðinlegt. Þú þarft þessvegna að koma með mér.
Máni: Ha? Af hverju.
Satan: vegna þess að höfundurinn nennir ekki að skrifa meira um þig.
Máni: Hvað hef ég gert?
Satan: þú hefur verið óáhugaverð persóna. Komdu.

Satan dregur Mána með sér niður í eldsdýkið. Jörðin lokast á eftir þeim og allt verður sem áður.

***

Máni, Tumi og Kolbrún sitja á kafi í glóandi hrauni líkt og þau séu í heitum pott, á meðan þrír púkar dunda sér við að stinga þau til skiftis með heygöfflum.

Kolbrún: Þetta er allt þér að kenna!
Máni: hey! Þú varst leiðinleg líka!
Kolbrún: Þú varst leiðinlegur fyrst!

Púki stingur Kolbrúnu í hausinn með gafflinum sínum og ýtir henni á kaf í hraunið. Þegar hún kemur upp aftur er allt hold brunnið af henni. Tumi snýr höfðinu á sér 360°.

Endir

Engin ummæli:

Skrifa ummæli