föstudagur, nóvember 03, 2006

Dagur 239 ár 3 (dagur 969, færzla nr. 473):

Ég tek eftir því að nú er farið að fækka þeim hlutum sem maður getur gert við fólk. Nú er nefnilega til siðs að vinna gegn fólki. Sko:

Það er aldrei talað um að brjóta á mönnum rétt. Það er brotinn gegn þeim réttur. Ekki veit ég hvernig, hvort staðið er fyrir framan menn og réttur brotinn fyrir framan þá eða hvað, ég er ekki viss.

Svo er ofbeldi alltaf farið að snúast gegn hinum og þessum. Hvenær nákvæmlega hætti fólk að berja á hvort öðru, og byrjaði að berja gegn hvert öðru?

Sko, fólk lemur hvert annað, eða lætur höggin dynja á hvort öðru. Það að berja gegn öðru fólki er þegar maður stendur fyrir framan það og slær vindhögg í átt til þess. Það er það sem það merkir. Að berjast gegn öðru fólki er annað mál, en það er að hindra það í að koma yfir á okkar svæði.

Í gær heyrði ég svo Helga Hjörvar tala um ótta gegn útlendu fólki. Mér féllust hendur, og það lá við að ég keyrði gegn ljósastaur, svo var ég gáttaður gegn þessari orðnotkun. Maður er hræddur við eitthvað, það er gjörsamlega ómögulegt að vera hræddur gegn einhverju. Ég get a.m.k ekki ímyndað mér hvernig það fer fram.

Ofbeldi gegn konum, mótmæli gegn XXX, ótti gegn útlendingum... hvað verður það næst? Veiðar gegn hvölum? Djöfulsins!

Svo er náttúrlega það sem fólk gerir gegn borgun, en hvað þýðir það núorðið? Þegar einhver mætir til þín og bíðst til að slá lóðina hjá þér gegn greiðzlu, þá er viðkomandi ekkert að meina að hann ætli sér að hindra borgun á lóðinni þinni eða af henni né heldur vill hann berja greiðzlu á þínu svæði. Hann vill fá greitt fyrir að slá grasið. Það er rétt merking.

Það sem ég er að reyna að segja við ykkur, krípin ykkar, er þetta: Talið fokking Íslensku! Við getum ekkert ætlast til að allir þessir Pólverjar og Tælendingar sem eru alltaf að flytja til okkar tali málið ef við kunnum það ekki einusinni!

Hverskonar fífl vaða eiginlega uppi í fjölmiðlum?

Úr blöðunum:

Ég sá að það hefur komið til stympinga á vellinum. Það er nefnilega alveg rétt að það er strangt til tekið bannað að flytja ofur-ölvi fólk með flugi. Maður veit ekkert hvað það gerir; hvort það verður vitlaust og ætlar út yfir hafi, eða hvort það ælir yfir hina farþegana. Það virðist samt sem þetta hafi ekki verið sumum ljóst. Meira segja á þjóðhátíð hef ég séð fólk kyrrsett þar til nægjanlega var runnið af því.

Og hvað þarf oft að segja við fólk að standa ekki úti á miðri götu?

***



Klámvæðingin... verð að halda í við hana.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli