Dagur 254 ár 3 (dagur 984, færzla nr. 482):
Það er bölvaður skítakuldi úti. Sem betur fer hef ég skipulagt vinnuna þannig að ég þarf sjaldan að taka af mér vettlingana. Svo var það í gær að ég ók þessum gríðarstóra bíl með kæliboxi. Það þótti mér afar sérstakt í öllum þessum kulda - og þó sérstaklega að það virtist hlýrra inní kæliboxinu en úti.
Keyrði með ömmu út í búð í gær. Hún keypti fullt af mat. Það gæti verið ímyndun í mér, en mér virðist að hún geri ráð fyrir bæði Hauk Guðmunds og Hauki Sveins - Afa. Ekki sé ég fyrir mér að hún sé að fara að torga þessu öllu ein. Eða ég. Kannski kemur Hartmann litli og Siggi í mat, eða einhver annar. Hver veit?
Ég hef tekið eftir miklu röfli um slæmar merkingar undanfarið. Það þurfti einhver að deyja til að koma af stað umræðu um það. Hver þorir að veðja að merkingar muni ekkert batna í framhaldinu? Það verður bara umræða, held ég, og svo breytist ekkert. Mig vantar betri merkingar. Allstaðar. Sum hús eru ekkert merkt. Sum eru merkt með frímerkisstórum spjöldum sem eru að auki falin bakvið útiljósin - eða í myrkri. Hvernig á ég, eða nokkur annar að sjá dökkblátt spjalt með einhverjum pínulitlum tölum á sem er sett á grásvart hús á einhverju dimmu horni? Einhver?
Götumerkingar er annað: afhverju er eins og það sé ætlast til að maður aki alltaf inn í götu úr ákveðinni átt? Afhverju eru helv. merkin ekki þar sem þau sjást úr báðum áttum?
Og hvað með merkið þarna sem á stendur "Þorlákshöfn"? Afhverju er það staðsett þar sem það er? Hvernig væri nú að hafa það svona kílómetra nær Reykjavík? Svona svo menn sem hafa aldrei ekið þarna um áður viti í hvaða átt þeir eiga að beygja.
Það er margt sem við getum lært af Ameríkönum. Umferðarmerkingar eru eitt af því.
***
Það er greinilega gúrkutíð. Um daginn kom einhver frétt frá bifröst. Þar var maður sakaður um "eitthvað" - ég lýg því ekki, það kom aldrei fram hvað það var - og svo voru miklar og mjög svo Varis Dírí-legar umræður um þetta "eitthvað", sem var mjög "einhvernvegin".
Ég hlustaði á þetta í bílnum og skildi ekkert. Svo var ég að fylgjast með fréttum með ömmu í gær, og enn kom þetta ekki-mál upp, og viti menn: Engar upplýsingar! Fréttir eru svolítið svona. Það þarf að giska. Stundum fær maður upplýsingar af vefnum í gegnum aðra fréttamiðla, t.d. þegar Ísrael-Palestínu málið er annarsvegar, en stundum ekki. Ég hef ekki nóg infó til að mynda mér aðra skoðun en þá að þetta sé eitthver filler hávaði.
Frjálslyndir vs. allir hinir er annað sérstakt dæmi: við fáum allar upplýsingar í hendurnar beint úr kúnni, en það er eins og enginn skilji þær. Hvernig fá allir út að það sé verið að stunda eitthvert kynþáttahatur? Það er ekkert í gefnum forsendum sem styður það. Allt þetta hróp um kynþáttahatur virðist þó tvíeggjað, því nú styðja allir opinberir kynþáttahatarar á landinu þennan flokk.
Fjölmenningarhyggja og Pólitísk rétthugsun, hvert mun það fara með okkur? Við getum lært af Ameríkönum (Og Bretum, og Frökkum, og Dönum, og svo frv.) hvað það gerir. Ekkert gott. Það er ekki kynþáttahatur, það er raunsæi. En það eru svo fáir raunsæir.
***
Allir segja að kvikmyndin "Mýrin" eftir samnefndri bók sé mjög góð. Nú er mig farði að gruna að þar sé á ferðinni versta kvikmynd ever, byggt á því hvað mér hefur fundist um aðrar kvikmyndir sem svipað hefur verið sagt um:
"Með allt á hreinu" var sú kvikmynd sem fékk mesta aðsókn árið 1817, þegar amma var ung. Allir segja að það sé alveg frábær mynd. Ég sá hana, fannst hún langdregin og leiðinleg.
"There's something about Mary" er sögð fyndnasta kvikmynd ever. Sá hana. Ámóta fyndin og slappur spaugstofþáttur, með meiri áherzlu á sársauka. Má ég mæla með Japönsku kvikmyndinni "Audition" fyrir þá sem skemmtu sér mest. Mig grunar að þeim muni fynnast hún fyndin.
"Kill Bill" var úthrópuð sem besta mynd Tarantinos. Aha... neibb. "Pulp Fiction" er hans besta mynd ennþá. Þetta er eins og kvikmynd gerð af 14 ára krakka. Ég er ekki 14 ára. Á móti, þá er hún svo hæg að maður missir ekki af neinu þó maður bregði sér á salernið á meðan hún rúllar í gegn. Ég meina það, ef allir hefðu talað á venjulegum hraða hefði myndin styst um minnst hálftíma. Ef þetta er snilld, þá get ég tekið plottið úr heimsfræga stórvirkinu "Bambó" og gert úr því 3 klukkutíma epic í 2 pörtum með því einu að láta alla tala hægar. Jess! Ég verð fokking ríkur!
Svo eru myndir sem miklir fordómar eru fyrir en hafa komið þokkalega út fyrir mig:
"Börn náttúrunnar" mætti hugsuninni "ef það er tilnefnt til óskarsverðlauna er það varla gott" sem er alveg réttmæt hugsun með hliðsjón af fyrri reynzlu. Málið er, að það er bara fyrsti hálftíminn sem er svolítið slappur - jafnvel kvalafullur, en svo breytist þessi mynd í súrrealíska grínmynd sem er svo fáránleg og skrítin að það er ekki hægt að gera grín að henni. Það var reynt, en orginallinn er miklu fyndari.
"Waterworld" er þrusugóð. Ekki er mér ljóst af hverju hún kostaði svo mikið í framleiðzlu, þó ég geri mér grein fyrir að það kosti eitthvað að halda svona ruslahrúgu á floti. Samt - B-mynd sem kostar 200 milljón dollara í framleiðzlu? Og hún er miklu skemmtilegri en Titanic. Það sekkur meira, það eru sprengingar, og flugvélar og menn með vélbyssur... hvað meira gæti maður viljað?
***
Var næstum búinn að klikka á þessu...
Það er ekki kalt allstaðar í heiminum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli