Dagur 218 ár 3 (dagur 948, færzla nr. 461):
Sá í blaðinu að þeir hyggist láta lögguna fá byssur. Hmm. Þá er hætt við að við verðum skotin. Sko: það eru fleiri löggur en eru stórhættulegir dópdílerar. Það eru fleiri stórhættulegir dópdílerar en stórhættulegir dópdílerar með byssur. Stórhættulegir dópdílerar umgangast mestmegnis dópista - eðli málsins samkvæmt.
Það er allt fullt af löggum, og fer fjölgandi. Sem mér finnst skrítið í ljósi þess að það er velmegun í gangi, og hún veldur minnkandi glæpatíðni - bófarnir eru allir uppteknir í vinnu einhversstaðar. Ef fram fer sem horfir verður fullt af vopnuðum löggum. Löggur umgangast allt fólk. Taugaveiklaðar löggur eru miklu fleiri en stórhættulegir vopnaðir dópdílerar.
Niðurstaða: ef löggan fær byssur aukast líkurnar töluvert á að einhvert okkar verði skotið "bara af því". Já. Það heitir víst öryggisgæsla nú til dags.
Og það versnar: dæmigerður dópdíler kann ekkert að skjóta, en löggurnar fá þjálfun, sem þýðir, að ef brjálaður dópdíler plaffar á þig, er eins víst að hann hitti ekki, á meðan allar líkur eru til þess að brjáluð lögga sem ákvæður að snöffa þig hitti. Líður ykkur ekki betur að vita þetta?
***
Svo er það ÍSLENSKI HESTURINN! Já. Íslenski hesturinn. Ég frétti það um daginn, fyrir kannski svona viku eða svo, að þá höfðu 13 manns stórslasað sig á Íslenska hestinum. Sumir alvarlega. 2 voru dauðir. Skilst mér að það sé bara venjulegt ár.
Aldrei heyrum við af slysum tengdum Íslenska hestinum. Það er, ekki fyrr en einhver deyr. Annars er um það mál þögn. Hugsið ykkur ef sama gilti um Japanska Bílinn.
Og ég fór að hugsa: nú er það svo, að ef eitthvað virðist hættulegt á Fróni, þá er það bannað. Er þá ekki kominn tími til að banna Íslenska hestinn? Ég meina, ljóst er að fjöldi fólks hlýtur af honum skaða með beinum hætti á hverju ári. Meira en einn á mánuði.
Hlutir hafa verið bannaðir fyrir minna. (Krókódílar).
Svo ég legg til að Íslenski hesturinn verði bannaður - með undanþágu til manneldis, þar sem ljóst er að Íslenski hesturinn er holl og góð neyzluvara, á meðan hann er alveg deadly sem farartæki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli