Dagur 235 ár 3 (dagur 965, færzla nr. 471):
Ég var að tala við ömmu um daginn, og þá ryfjaðist aftur upp fyrir mér að amma var uppi á miðöldum. Það kemur nefnilega alltaf sá púntur í öllum okkar samtölum að amma segir með mikilli áherzlu að hún hafi verið af Alþýðufólki.
Eins og amma segir frá, þá fæ ég á tilfinninguna að þetta alþýðufólk hafi verið samansafn af slefandi mongólýtum. Já, þegar amma var ung rann einungis frosið vatn um bæjarlækinn. Þá var annar hver maður með kóleru, berkla og ginklofa, og hinir voru með sýfilis og mýrarköldu. Að vísu var krabbamein ekki til, en amma segir það hafi verið fundið upp af læknum einhverntíma eftir stríð. Þá var vistarbandið við lýði, og allir bjuggu í einu stóru torfhreysi, innanum kindur, og þetta hreysi döbblaði sem kamar, og er þaðan kominn málshátturinn að ganga í hægðum sínum. Og á hverju kvöldi barði húsbóndinn heimilsifólkið góða nótt.
Og þannig var það í Reykjavík árið 1930.
Ég man eftir fólkinu fyrir norðan, afa og ömmu, þeim Ásgrím nafna mínum og Helgu. Umgekkst þau svolítið. Samkvæmt þeim, þá var Ólafsfjörður anno 1930 ekkert svo slæmur staður. Þar bjó fólk í þokkalega einangruðum húsum, með kæli-aðstöðu í kjallaranum, umgekkst hvort annað án alls ofbeldis og var bara gott við hvort annað. Það var að skilja á þeim allavega.
Þau voru mjög rólegt fólk, og þau grettu sig aldrei og töluðu um hvað þau voru af mikilli alþýðu. Nei. Heimurinn sem þau lifðu í var bara ekkert svo frábrugðinn heiminum sem við lifum í núna - fyrir utan það að þá var ekkert sjónvarp, svo menn urðu að lesa bækur eða segja hvor öðrum sögur í staðinn, nú eða skrifa bréf. Í raun var þetta bara Viktoríutímabilið að renna sitt skeið, ekkert svo hræðilegt, alveg eins og allstaðar annarsstaðar í heiminum.
Nú skilst mér að þær báðar ömmur mínar séu frá Siglufyrði, báðar fæddar 1917. Hvernig stendur þá á því að önnur segir sífelldar hryllingssögur af undirokaðri alþýðu með slefið lafandi niður hálsmálið á sér, Á MIÐÖLDUM! Á meðan hin var bara ánægð með ástandið á einhverju rómantísku endurreisnartímabili? Allt var bara gott! Manneskjan var á bleiku skýi allan þann tíma sem ég þekkti hana.
Kannski koma þær ekki úr sömu vídd. Kannski. Mig grunar samt frekar að Hólmfríður Sölvadóttir sé að búa eitthvað til. Ýkja svolítið. Hvað fær mig til að halda það? Nú, það kemur ekki satt orð uppúr henni nema fyrir slysni, tóma tilviljun. Það er ástæðan.
Mynnir mig á það... hún reiknar ennþá með mér í mat, af einhverjum orsökum. Ég kemst ekki alltaf. Þarf að vinna. Farið endilega til hennar, þið sem getið og fáið ykkur kaffi og snúð. Hún á það til.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli