föstudagur, október 05, 2007

Dagur 224 ár 4 (dagur 1309, færzla nr. 593):

Þá er það mynd vikunnar. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að vikurnar eru svolítið langar hjá mér. Það er bara óskhyggja, náttúrlega. Vildi ég helst að dagarnir væru svona 5 tímum lengri. Það myndi henta mér ágætlega.

Það var töluverð rigning í gær. Kom stöðuvatn á bílastæðið. Nennti ekki að skoða hvort það hafði lekið í burt yfir nóttina, en geri ráð fyrir því, því það voru bílar þarna. Fólk er minna fyrir að leggja þar sem það stígur út úr bílnum í ökkladjúpt vatn.

Annars sýnist mér líka að sumt fólk sé á stærri bílum en það ræður við. Honda Civic, til dæmis, vex svo í sumra augum að ótrúlegt er. Hvernig væri að banna fólki sem ekki getur lagt ekki stærri bíl að vera með ökuleyfi? Það meikar meiri sens en þessar hraðasektir: ef þú hefur ekki rýmisskynjun til að leggja farartækinu þínu í stæði, þá hefur þú ekki rýmisskynjun til að aka, hvað þá ganga um götur. Púntur.

Annars var einum góðum púnti velt upp um daginn: ef bíllin hefði verið fundinn upp í gær, og væri kominn á markað í dag, þá fengju almennir borgarar ekkert leyfi til að þvælast um á slíkum ökutækjum. Einungis þrautþjálfaðir ríkisstarfsmenn fengju það, eftir að hafa annað hvort verið rukkaðir um milljónir eða ráðnir sem einkabílstjórar fyrir ráðamenn.

En hvað um það...

Hvað er þetta með alla þessa F-350 jeppa? Þeir eru 8 metra langir. Hvaða meingallaða kerfi er það sem gerir það praktískt að aka um á svoleiðis farartækjum? Og af hverju F-350? Af hverju ekki fara alla leið og vera á Úral trukk? Kostar ekkert, þannig lagað. Svona 2 millur, er með 3 öxla og drif á öllum, vegur svona 5 tonn. Hörku kaggi, það. Eyðir svona 30 lítrum af dísil eða steinolíu á hundraðið, sem er svipað og þessir jeppar eru allir að eyða núorðið svo það breytir engu. Maður sem getur ekki lagt Opel Corsa getur heldur ekkert lagt svoleiðis.

Undarlegt, allt saman.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli