Dagur 246 ár 4 (dagur 1330, færzla nr. 603):
Af eyjar.net:
Einkaaðilar standa sig oft betur í rekstri en hið opinbera. Spurningin er hins vegar sú hvort samgöngur um þjóðvegi séu ekki hluti af velferðarkerfinu og því ekki gerð arðsemiskrafa af rekstri þjóðvega. Arðsemiskarfan hefur tilhneigingu til þessa að einbeita sér að pyngjunni frekar en þjónustunni. Við höfum slæma reynslu af því.
Það er ekki spurning að vegakerfið er hluti af velferðarkerfinu. Það hefur verið þannig frá dögum Rómverja, og gefst best þannig. Þess vegna er það haft þannig á flestum stöðum. Það eykur hreyfanleika alþýðunnar.
Við búum ekki í Norður Kóreu.
Og það er arðsemiskrafa af vegagerð. Ólafsfjarðargöngin spara helling af snjómokstri á hverju ári, og svo hefur enginn ekið þar útaf síðan... einhverntíma. Það kom alltaf fyrir annað hvert ár í denn. Að vísu er rangt af mér að taka mannslíf inn í dæmið sem arðsemi, því ríkið hugsar þetta þveröfugt: slys eru nefnilega hagvöxtur, örkumlun ögn meiri hagvöxtur en dauði. Allt afar atvinnuskapandi: vinna við greftrun eða sjúkrahúslegu, innflytjendur græða á málningu á kistuna og krossinn eða sárabindum, það er söluskattur og tollur af þessu öllu... þið sjáið hvað ég meina.
En ég er augljóslega ekki ríkið. Reyndar er ég slíkur óvinur ríkisins að ég hef aldrei legið á spítala.
En hvað um það: styttri og beinni og breiðari vegir auka samgang á milli bæja, sem ætti að auka viðskifti, sem ríkið ætti að græða á í gegnum söluskatt.
En af einhverjum sökum þráast ríkið við að bæta vegina. Af hverju er það? Er verið að seilast eftir krónunni svo mikið að þeir sjá ekki þúsundkallinn sem liggur rétt við hliðina á þeim?
Allt í lagi, hver bíll eyðir að jafnaði 10 á hundraðið, og hver trukkur svona 100-150. Þegar það allt er lagt saman er til nóg af pening til að þekja landið malbiki. En í stað þess að smíða almennilega Ártúnsbrekkuhraðbraut yfir hálendið til Akureyrar og Egilsstaða, þá er hafður mjór sveitavegur á báða staðina.
Jú, það er miklu lengri vegur, með tilheyrandi hættu á slysförum og auknum eldsneytiskostnaði. Svo liggur hann í gegnum krummaskuð eins og Blönduós.
Ég er ekki að segja að neinn eigi að rífa upp veginn til Blönduóss, en það væri miklu hagkvæmara ef allir sem ætla til Akureyrar þyrftu ekki að koma þar við. Þetta fyrirkomulag hamlar viðskiftum, og þar af leiðandi peningaflæði, bæði til fyrirtækja, einstaklinga og ríkis. Og lifandi, óörkumlaðir menn skapa meiri skatttekjur af því að vera til en einhvert örkumlað kryppildi inni á stofnun, jafnvel þótt tekjuskattur yrði lækkaður í 10%. Og ríkið sér þetta ekki.
Eða ríkið sér þetta, en vill vera Norður Kórea.
Ríkið stendur sig bara ekkert í að vera ríki. Í stað þess að sinna frumskildu sinni: leggja almennilega vegi, þá er það að reyna að komast í Öryggisráðið, því þar er boðið í svo fínar veizlur. Það er ekki nóg fyrir þetta lið að vera með sendiráð í hverju einasta ríki veraldar, heldur þurfa þeir líka að vera í Öryggisráðinu, og sóa þar fullt af pening sem þeir gætu betur gefið mér.
Og ég rökstyð það: allur peningur sem fer í öryggisráðið er horfinn úr landi algjörlega. Ef þeir myndu gefa mér peninginn, kæmi eitthvað af honum til baka inn í atvinnulífið, gegnum hvert það flipp sem mér dytti í hug með nokkra milljarða í vasanum.
Og ef þetta pakk sem við kusum yfir okkur ræður ekki við að gera fyrsta heims vegakerfi í fyrsta heims landi fyrir fyrst heims pening, hvernig dettur nokkrum manni þá í hug að það ráði við að reka ferju sómasamlega?
***
Í blaðinu um daginn rakst ég á auglýsingu. Það var verið að auglýsa einbýlishúsalóðir einhversstaðar úti í sveit, lengra en Mosó. verð: 18.5 millur og uppúr.
Bjóddu 18.5 millur í íbúð í miðbænum, og eftir svona mánuð fattar eigandinn að hann fær ekki meira fyrir hana en það og selur þér hana á því verði. Eða kauptu eina sem kostar minna: MBL. Takið eftir að 50-70 fm íbúð nær aldrei 20 millum. (Sem skýrir vel afhverju Framnesvegur 28 er enn auður. Hlýtur að vera utanbæjarmaður).
Hver kaupir lóð með engu á fyrir meira en 18 millur? Og hvað er fólk að kaupa fyrir þennan pening?
Förum yfir þetta aðeins: vegur: Ríkið borgar það. Það er það sem ríkið á að gera. Það er búið að taka peninginn í gegnum sérstakt bensíngjalt, veggjald, sérstakt bensíngjald af veggjaldi, veggjald af sérstöku bensíngjaldi, bensíngjald, söluskatt og toll, að ógleymdu veggjaldi af sérstöku bensíngjaldi af tolli.
Skolp: ríkið/sveitarfélagið borgar það. Útsvar. Hvað annað hélduði að það færi í? Jú, það fer líka í leikskóla, en það fer í vöxt líka.
Rafmagn: Útsvar & skattar. Ríkið á grunnetið.
Síminn er að verða einkarekinn, svo þú borgar einhverju einkafyrirtæki til að koma og reisa loftnet svo þú getir SMSað ömmu þína.
Svo verð á hektara er svona hátt? Túnið hennar ömmu er þá minnst 100 milljón króna virði. Ekki hef ég orðið var við að neinn væri tilbúinn til að greiða það.
Svo þetta er okur, sýnist mér. En samt er mikið af þessu selt. Undir 300 fm einbýlishús. Sem eru frekar ljót, af myndum að dæma, ég vona að fólk sjá að sér og smíði falleg hús. Eins og Árni Johnsen.
Eða það er ekki fólk sem er að kaupa þetta, heldur verktakar... þeir smíða gráa og ljóta nazistakassa fyrir lítið fé, og reyna að pranga þeim út fyrir 50-60 millur á eftir.
Úff. Keyrði inn í 110 um daginn; Gámasvæðið við Rauðavatn. Það var niðurdrepandi. Allt fullt af gráum kössum, allir nákvæmlega eins. Mér leið eins og nazistarnir hefðu unnið.
ARGH!.
"Hraunhamar fasteignasala var að fá í sölu Hamrakór 10 Sérlega fallegt og vel hannað 228,5fm einbýlishús"
Þetta er grár kassi. Og þakið mun byrja að leka innan 2 ára. Góð hönnun? Jæja... Og ég reiknaði það út að vaxtakostnaðurinn er yfir milljarð. Þann pening á ég bara ekki til, enda hefur ríkið enn ekki gefið mér peningana sem það ætlar að kveikja í... ég meina nota til að komast í Öryggisráðið. (miðað við 9.9% verðbólgu, ég er svo bjartsýnn.)
Amen.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli