Dagur 240 ár 4 (dagur 1324, færzla nr. 600):
MBL frétt dagsins:
Launafólk fái stærri hlutdeild í aukningu þjóðarverðmæta
Verðugt markmið það, en: Launafólk fái stærri hlut af auknum þjóðarverðmætum.
Sem er samt rangt, því þeir eru að heimta hlut af framleiðzlunni, ekki framleiðzlutækjunum ... sem er í einhverjum tilfellum náttúran. En ég er bara að spá í orðalagið hérna.
Ársfundur Alþýðusambands Ísland krafðist þess í ályktun um launamál,
Fundurinn krafðist einhvers. Það var nú ágætt. Einhvernvegin grunar mig að þess hafi verið krafist á fundinum að, en það er náttúrlega bara ég.
Segir í ályktuninni, að þrátt fyrir að gerð kjarasamninga sé viðfangsefni einstakra félaga og landssambanda leggi ársfundurinn áherslu á að í komandi kjarasamningum verði samið um launahækkanir sem tryggi aukinn kaupmátt, sérstaka hækkun lægstu launa, auk þess sem tekið verði af festu á launamisrétti kynjanna.
Maður fær grænar bólur af stofnanamállýzkunni í þessari setningu. Jú, þetta er EIN setning. Að ég tali nú ekki um merkinguna. Æ... Þetta er rangt á marga mismunandi vegu.
Sko:
"Í ályktuninni stendur..." er erfitt að skrifa það? Höldum áfram: "að þó einstök félög og landssambönd geri kjarasamninga, þá er lögð áherzla á það í fundinum að í næstu kjarasamningum verði tryggður aukinn kaupmáttur, sérstaklega lægstu launa. Að auki verði tekið á launamismun kynjanna."
Ég sleppi úr "launahækkunum" en held "kaupmáttaraukningu" vegna þess að hægt er að hækka í launum og fá minna fyrir peninginn en áður. Það væri kaupmáttarrýrnun. Það er svona hagfræðilegt orð. Já, ég skil hagfræði alveg fullkomlega. Ég kann bara ekkert að reikna.
Svo er í raun ekkert "launamisrétti kvenna". Þær hafa sama tímakaup. Við karlmennirnir höfum bara svo gaman af allri yfirvinnunni. Miklu meira en þær dömurnar. Annars er það mikil snilld ef kvenfólk er til í að vinna fyrir miklu lægri laun. Ef ég ætti fyrirtæki, myndi ég einungis ráða kvenfólk í topp stöðurnar, og fá þannig lið sem sættir sig við 400.000 á mánuði þar sem karlmaður tæki 4.000.000.
Jafnframt verði öryggisnet kjarasamninganna styrkt og þannig komið í veg fyrir félagsleg undirboð.
Hvað í helv. er öryggisnet kjarasamninga? Í samhenginu dettur mér helst í hug gengið sem Hoffa stofnaði, áður en hann týndist.
Það verði meðal annars gert með því að færa taxta að greiddu kaupi og með því að tryggja að fagleg starfsréttindi launafólks verði virt.
Færa taxta að greiddu kaupi? Parlez vous Íslensku? Veit einhver hvað þetta þýðir? Einhver sem getur þýtt þennan frasa? Í alvöru, ég hef ekki græna glóru um hvað er verið að tala.
Þá segir í ályktununni, að ársfundurinn telji mikilvægt að aðildarsamtökin standi saman að kröfum, sem varði sameiginlega hagsmuni alls launafólks gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum.
Aftur er þessi fundur að tjá sig.
Að lokum stendur í ályktuninni að fundarmönnum finnist mikilvægt að aðildarsamtök standi saman að kröfum um sameiginlega hagsmuni launafólks til stjórnvalda og atvinnurekenda.
Því maður gerir kröfur til eða kröfur um, ekki kröfur gagnvart. Sá sem heldur öðru fram skilur ekki málið.
Þetta var MBL frétt dagsins, þýdd á Íslensku.
Amen.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli