miðvikudagur, október 17, 2007

Dagur 237 ár 4 (dagur 1321, færzla nr. 599):

Loksins búinn að fá heila felgu undir bílinn. Nú get ég farið í beygjur eins og áður án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að druslan affelgist.

Þurfti að hringja í náunga áðan. Símsvarinn hjá manninum talaði til mín á engilsaxnesku. Svo mér datt í hug að hafa svona Íslenskan mánuð. Þar til 17 nóvember verða öll útlend orð þýdd á hið ástkæra ylhýra, og eins og ein grein úr MBL líka.

MBL er nefnilega ekkert á góðu máli. Ég er ekki að segja að ég sé einhver snillingur í málfræði, en ég er betri en fréttamenn. Og þingmenn. Sem dæmi, þá hef ég aldrei notað orðið "varðandi". Það finnst mér lýsa slæmu valdi á tungumálinu að þurfa að notast við eitthvert stofnana-týskuorð til að lýsa hlutum í hvaða samhengi sem verða vill. Talar fólk svona heima hjá sér?

"Ég er búinn að elda, varðandi matartímann. Ertu búin með borðið, varðandi diskana og það?"

En fyrst:

Nú var Loftbylgjuhátíðin að byrja. Reyndar heitir hún fullu nafni "Ísland Loftbylgjur". Sem er afar einkennilegur titill, þegar maður spáir í því. Ég er ekki viss um hvað það þýðir.

Þetta er náttúrlega í fullu samræmi við hljómsveitirnar, sem heita margar gjörsamlega óþýðanlegum nöfnum. Viljandi. Þess vegna ætla ég að láta eiga sig að hæðast að þeim. Það þýðir ekkert að hæðast að einhverju sem er meðvitaður brandari.

MBL fréttin:

Stakk af frá slysstað eftir árekstur

Fyrst lenti maðurinn í slysi. Svo varð árekstur. Þá flúði hann af vetvangi. Enginn veit af hverju. Eða það stendur þarna. Það hefði átt að standa: "Stakk af eftir árekstur." Ég hélt að blaðamennska gengi út á að skrifa hnitmiðaðan texta?

Ökumaður sem ók á bíl í Blikahjalla í Kópavogi skömmu fyrir klukkan 21 ók á brott frá slysstað á ofsahraða og bárust lögreglunni fregnir af ferðum hans víðsvegar um Kópavog og inni í Hafnarfirði.

Ökumaður sem ók, ók á brott. Já... þessi maður á skilið að fá Bulwer-Lytton verðlaunin.

Hvernig er þetta:

Ökumaður sem lenti í árekstri við Blikahjalla í Kópavogi rétt fyrir níu, flýði burt á ofsahraða. Lögregla frétti af honum á ferð í Kópavogi og Hafnarfirði.

Í bílnum sem ekið var á var kona og ungt barn. Sjúkrabíll var kallaður til. Að sögn lögreglu þurfti barnið aðhlynningu en ekki er talið að meiðslin séu alvarleg.

Ungt barn? Ja hérna. Hve ungt þarf barn að vera til að vera "ungt?" Ég hélt það væri hluti af því að vera barn að vera ungur, eða er það bara ég? Já. Hvað er þá "gamalt barn?"

Orðum þetta frekar svona:

Í bílnum sem ekið var á voru kona og barn. Sjúkrabíll kom á slysstað, en samkvæmt lögreglu þurfti barnið aðhlynningu.

Lögregla höfuðborgarsvæðisins náði síðan manninum sem er talin hafa valdið árekstrinum á Nýbýlavegi við Reykjanesbraut og var hann í annarlegu ástandi sem og drukkinn. Maðurinn sem er 32 ára er í haldi lögreglunnar. Hann var einn í bílnum.

Lögreglan í Reykjavík fann seinna mann sem er grunaður um að hafa valdið árekstrinum, á Nýbýlaveginum. Hann var einn á ferð og undir áhrifum.

Þarf í alvöru að taka til hve gamall hann er? Ég held ekki.

***

Ég ætla að enda þennan pistil á lagi með hljómsveitinni Rúllandi Steinum, aðallega vegna þess að titillinn hljómar afar asnalega á íslensku: Ég get ekki fengið neina fullnægingu. Gerið svo vel:



(Nei, ég veit ekki hvaða mál er í textanum, en ég giska á að það sé spænska.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli