Dagur 208:
Var á röltinu í gærkvöld. Það er enginn í Elliðaárdalnum í myrkrinu. Sem er kannski ekki skrítið, það verður svo helvíti dimmt þarna. Það sáust engar stjörnur í nótt, og tunglið var heldur lágt á himni. Bara ljósin í bænum, og þau voru frekar til trafala en hitt.
Það eru góðir göngustígar þarna, sem hlykkjast svona inn á milli trjánna. Svo er niðurinn í umferðinni í fjarska, og niðurinn í ánni aðeins nær. Mjög róandi umhverfi. Allt verður grátt í myrkrinu, hafiði tekið eftir því? Þegar maður er kominn inn á milli trjánna, er allt grátt.
Svo, þegar ég hafði gengið í gegnum skóginn, og var kominn hinumegin, þar sem niðurinn í umferðinni yfirgnæfði næstum lækinn, þá varð ég var við að ég var kominn með marga skugga. Örugglega fjóra, misdaufa. Ennþá ekkert að sjá nema svart á gráu, þannig að ég efast um að ég hefði getað náð mynd af þessu merkilega fyrirbæri hefði ég haft myndavél.
Stundum heyrðist mér sem fleyri væru þarna á ferðinni en ég, ég þóttist heyra fótatak. Ég hitti tvær manneskjur á leiðinni inn, svo ég hugsaði, að kannski væru fleiri í dalnum en ég. Það er ekki ólíklegt. Elliðaárdalurinn var víst einn aðal-felustaðurinn í stóra kókaínmálinu. Kannski hefði ég getað hitt einhverja athyglisverða bófa?
En þegar ég leit við sá ég engan. Kannski því það var enginn, kannski því það var kol-niðamyrkur, kannski vegna þess að hver sem það var, hafði sá hinn sami beygt af leið, og var kominn inn á milli trjánna.
Ég heyrði þetta alltaf öðru hvoru, fótatak, skammt frá. Og stundum datt mér í hug, að einn af þessum auka skuggum sem fylgdu mér, gætu hugsanlega tilheyrt einhverjum öðrum. Einhverjum sem er ekki svo líkur mér.
Ég sá einusinni kanínu í dalnum. En þá var að sjálfsögðu bjart.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli