fimmtudagur, október 14, 2004

Dagur 225:

Kókómjólk er mjög merkilegt fyrirbæri. Það er, í rauninni, eitthvað duft, sem maður fær út í búð, því það er ekki gott bragð af mjólkinni. Stundum er mjólkin fín alveg ein og sér, mjög svalandi og góð, en, það er munur á milli ferna. Svo er líka þannig með öll matvæli, að það fer að slá í þau eftir vissan tíma. Þegar það er farið að slá aðeins í mjólk, er gott að eiga svona kókómjólkurduft.

Hér áður fyrr, til forna, þegar maður var ungur að árum enn, ekki enn kominn með skorpulifur og gikt, nokkra mismunandi hjartakvilla og malaríu, þá blandaði maður meiri kókómjólk en nú. Það var alveg ofsalega gaman að landa kókómjólk. Það var fjör að sökkva heilu fjöllunum af dufti í mjólkina.

Í þá daga drakk maður yfirleitt leðju með súkkulaðibragði. Núna kann maður sér hóf. Nú er það ekki lengur leðja. Nú er það sannarlega kókómjólk. Það er betra svoleiðis, ég er á því.

Samt er best að hafa nóg af dufti í mjólkinni, því annars er það bara enn eitt dularfullt aukabragð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli