föstudagur, október 30, 2009

Dagur 240 ár 5 (dagur 2064, færzla nr. 844):

Það kemur að því að rafbílar fara að fást. Ég spái því að þeir muni allir líta eins út, þ.e. eins og afkvæmi hamsturs og bólgins nýra, og þeir munu allir verða gráir á litinn, en mis-gráir til að þekkjast í sundur.



Með heppni verður bíll framtíðarinnar bara 35% ljótari en þessi.

En hvernig veit maður þá hvar bílinn sem maður ekur er framleiddur? Jú, ég get hjálpað:

Rafbíllinn þinn r sennilega amerískur ef:

Rafmagnsdótið inni í bílnum (sat-nav, rúðuupphalararnir, loftljósin osfrv)notar meiri orku en vélin.
Þú getur komið IKEA húsgögnunum inn í hann. Samsettum.
Það myndast dularfullur olíupollur þar sem þú leggur honum yfir nótt.

Rafbíllinn þinn gæti verið Ítalskur ef:

Hann virkar ekki.

Rafbíllinn þinn gæti verið breskur ef:

Það kemur blár reykur úr honum. Og daginn eftir virkar hann ekki. Og svo myndast olíupollur...

Þýski rafbíllinn virkar mjög vel svona á pappírunum, en þú færð ekki að keyra hann út af einhverju bírókratísku vandamáli.

Rafbíllinn þinn er örugglega Franskur ef:

Hann gengur fyrir Diesel.

Rafbíllinn þinn gæti verið Rússneskur ef:

Hann er búinn til að miklu leiti úr blýi, það þarf aldrei að setja hann í hleðzlu og það er gríðarstór kassi aftan á honum sem þú veist ekkert um, nema að í notendaleiðbeiningunum stendur: Не беспокойтесь об этом. Выпей водки и забыть о нем.

Rafbíllinn þinn gæti verið japanskur ef:

Það er ekkert að bílnum per se, en í hvert skifti sem þú ferð út að keyra ræðst zaku á þig.

Það fylgdi með honum afar krípí vélmenni sem þráir ekkert heitar en að hreinsa úr eyrunum á þér með eyrnapinna.

þriðjudagur, október 27, 2009

Dagur 236 ár 5 (dagur 2061, færzla nr. 843):

Topp 10 vísbendingar um að þú horfir á of mikið af anime:

1: þú heldur að stelpan sem þú nefbraust þegar þú skallaðir hana í andlitið þegar þú hljópst í hugsunarleysi fyrir horn sé nú kærasta þín.

2: þú ert að horfa á einn af þessum "greatest ever" þáttum á Discovery, og ferð að velta fyrir þér af hverju það er ekki einn svoleiðis um risa-vélmenni.

3: þú ferð á rakarastofu til að láta lita hárið á þér, og litirnir sem koma til greina eru: svart, ljóst, rautt, brúnt, fjólublátt, blátt, bleikt og grænt. Og þú ákveður að velja ekki ljóst, því það er eitthvað svo ónáttúrulegt.

4: Þú hefur verið að fylgjast með hernaðinum í Afganistan, og skilur ekki af hverju kaninn sendir ekki inn mecha-sveitirnar sínar.

5: þú talar ekki japönsku en endar samt allar setningar á "nano desu."

6: þú neitar að sætta þig við að Moe Szyslac sé "moe," þó hann heiti það.

7: þú heldur að "Yuri Andropov" sé lesbíu-bar með vélmenna þema.

8: þú neitar að fara í bólusetningu vegna H1N1 vegna þess að þú heldur að það sé samsæri til að breyta þér í vélmenni.

9: kunningi þinn sýnir þér sniðuga asíska tattóið sitt, og þú sérð strax að það snýr öfugt.

og númer 10: þú ert að spila Ólsen-Ólsen, og andstæðingur þinn setur niður laufa gosa á hjarta gosann. Þá stendur þú upp, tekur spaða-áttuna upp úr vasanum og sveiflar henni fram, hrópandi: "HAHA! ÉG er með LAUFA-ÁTTUNA! Hún fannst við fornleyfauppgröft í Egyptalandi og býr yfir dulmögnuðum kröftum! Hún er búin til úr RISAEÐLUM! Og ÉG BREYTI Í HJARTA! In the name of the MOON! Hvað ætlar þú að gera við því!?! IN YOUR FACE!" Og skellir spilinu ofaná hin spilin.
Kunningi þinn hristir bara hausinn og setur út hjarta fjarkann. Hann er orðinn vanur þessu.

sunnudagur, október 25, 2009

Dagur 234 ár 5 (dagur 2059, færzla nr. 842):

Jæja, hvað er langt í að landið fari á hausinn? 2010? 2024? Ég hef nægan tíma, ég get beðið.

Sumir eru að spá því að Bandaríkin fari á hausinn, jafnvel bara á þessu ári. Byggt á einhverju. Jú, þeir skulda, sum fylki meira en önnur - Kalífornía nokkuð meira en flest. Önnur eru bara á góðri leið með að renna niður í þriðja heim. Þetta verður stór Brazilía eftir svona 50 ár. Með favelum og allt.

Við hinsvegar, við fáum að vera í kreppu smá stund. Lengur en Evrópa, sennilega. Við erum líka með verðbólguaukandi aðgerðir, fælandu burt fjárfesta og olíuleitendur og iðnaðarmenn.

Það er ekkert langt í meira hrun hjá okkur. Það verður þegar stjórnin kemst að því, empírískt, að fjárlögin eru byggð á draumórum en ekki raunsæi. Það sem þeim finnst að eigi að vera hægt, vs. það sem er hægt í alvöru.

Hér er mynd til að draga athyglina frá þessum ferlegu hugleiðingum:



Hugsum bara um að fara í sólbað.

þriðjudagur, október 20, 2009

Dagur 229 ár 5 (dagur 2054, færzla nr. 841):

Þá er komið að því aftur - þó það kæmi betur út á föstudegi: Kvikmynd kvöldsins. Eftir þessa treilera:



Stacy. Kvikmynd sem skoðar hvað gerist ef allar stelpur á milli 15-17 ára breytast skyndilega í zombíur. Og ég sem hélt að Saikano væri með dáldið absúrd plotti.



Six String Samurai. Er það bara ég, eða lítur þessi náungi út eins og Guðni?



Star Crash

Og kvikmyndin:



Death Rage, frá 1976, með Yul Brynner.

Ekki al-slæm mynd. Hún hreyfist stundum. Eins og síðasta kvikmynd kvöldsins er hún, ja, B-mynd. Það eru þarna einhverjir mafíósar með hatta. Verður að hafa svoleiðis. Svo keyrir einhver fyrir björg, sem er líka nauðsynlegt.

Poppið bara fyrst.

föstudagur, október 16, 2009

Dagur 225 ár 5 (dagur 2050, færzla nr. 840):

Er þá ekki kominn tími til að fara að undirbúa Páskana? Ég meina, sumir eru þegar búnir með jólaundirbúninginn, búnir að hrista rykið af jólaskrautinu og búnir að búa til smákökur. Þá er spurning að fara að huga að páskunum.

Hvað gerir fólk á páskunum? Jú, það borðar súkkulaði, tilbiður hænuunga og irriterar kínversk stjórnvöld með gulum borðum út um allt. Því eins og allir vita, þá kom Falun Gong með páskana.

Á sama tíma er kannski athugandi að byrja að undirbúa sprengidaginn. Það þarf að lagera kjötið aðeins svo það verði eins og í gamla daga. Það voru engar frystikistur þá.

Vissuð þið, að þegar amma var ung, þá voru gafflarnir til þess að halda matnum föstum til þess að hann skriði ekki af disknum á meðan maður var að borða hann?

Söguleg staðreynd.

þriðjudagur, október 13, 2009

Dagur 222 ár 5 (dagur 2047, færzla nr. 839):



Hmm... Lát oss sjá...

AK-47, M-16, FN-eitthvað, Mini-Uzi, .50 cal eitthvað, Walther PPK, CZ-75, RPG-7, eitthvað, Ford Cortina.

***



Ford Cortina MK III. Það var slatti af þessu á götunni svolítinn tíma. Það var voða markt MK þetta og MK hitt þá: Lincoln MK V, Toyota Mark II, osfrv.



Einfaldur bíll að innan og utan. Búnir til úr álpappír eins og allt annað þá. Þeir hættu að framleiða þá svona 1976. Entust að jafnaði í svona 8 ár, sem þýðir að síðustu eintökin fóru af götunni rétt fyrir 1990. Sem er svolítið gott.

Hmm... verstu bílarnir núna endast alltaf 10 ár. Ef maður nennir að teipa á réttum stöðum og veit hvar maður á að nota hamarinn.

föstudagur, október 09, 2009

Dagur 218 ár 5 (dagur 2043, færzla nr. 838):

Mikið er stelpan hennar Kristínar hárprúð. Eitthvað meira, og það væri hægt að vefja hana inn í þetta.

Til samanburðar er hér vídjó af Birni þegar hann var nokkurra mánaða:

mánudagur, október 05, 2009

Dagur 214 ár 5 (dagur 2039, færzla nr. 837):

Mamma sendi mér um það skeyti rétt fyrir 10:30 - tvö reyndar, með mínútu millibili - að Kristín væri búin að eignast afkvæmið sitt.

Ágætt.

Skála fyrir því á eftir.

Það þurfti tvö skeyti. Annað með broskalli.

föstudagur, október 02, 2009

Dagur 211 ár 5 (dagur 2036, færzla nr. 836):

Einn af þessum dögum mun hundurinn andast. Ég tek eftir því hvað hægir á tíkinni.

Þá er málið, held ég, að stoppa hana upp. Setja undir hana hjól, nokkra mótora á viðeigandi stöðum, og servóa. Hafa svo kvikyndið bara fjarstýrt.

Verður flott. Útfæri það betur seinna.