laugardagur, apríl 30, 2005

Dagur 55 ár 2:

Þá er kominn tími til að dusta rykið af illskumælinum:

This site is certified 35% EVIL by the Gematriculator

Hmm...

Jæja.

Ég fékk áheyrn hjá þeim í álverinu. Þeir sögðu mér að ég yrði að læra á lyftara. Frábært. Svo ég tékka á því. Það er náttúrlega allt útréttað af ríkinu, svo það gæti tekið smá tíma. Hvað um það, það getur ekki verið slæmt að kunna á lyftara.

Mig fer að vanta pening á hverri stundu núna. Áður en ég þarf að fara að innleysa skuldabréf og selja hluti í hinu og þessu.

Hvað um það. Uppi á vegg í skrifstofunni þar sem ég mætti hjá þeim í gær er svona sjónvarp í staðinn fyrir málverk. Þar er loftmynd af landinu á stöðugu lúppi. Sjór, klettar, fossar og stöku rolla. Mjög svo framtíðarlegt.

Það er mikið af oddhvössum klettum á landinu, vitiði það?

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Dagur 52 ár 2:

Þegar ég vaknaði í morgun var einhver brjáluð kelling niðri að þrífa. Hún gargaði hástöfum á ömmu. Mig grunar sterklega að hér hafi verið á ferðinni nágrannakellingin. Hún á það til að vera fremur hávær. Sennilega verið mikið innan um gamalt fólk.

Samt heyrir amma ekki það illa. Málið er að hún heyrir bara það sem hún vill heyra. Svipað og afi gerði. Sem gerir það að verkum að það er ekki talandi við hana, frekar en það er talandi við hund.

Svo hringdi Alcan í mig. Varð að fara á fætur þá, þó ég nennti því eiginlega ekki. Það væri fínt að fá vinnu í álverinu. Þessu sem er nær okkur, þ.e. Mér skilst það sé boðið upp á rútuferðri þangað. Gott stöff. Sé til... sé til...

mánudagur, apríl 25, 2005

Dagur 50 ár 2 (dagur 415, færzla nr. 275):

Það er slæm hugmynd að fara á elliheimili skilst mér. Ef það brotna í þér beinin á elliheimili fá þau að vera brotin þartil þú færð þér gistingu á garði, skilst mér. Ef þú átt einhvern pening þegar þú ferð inn, og hlýtur af hunum góðan lífeyri, mun hann allur verða tekinn af þér og notaður til að halda uppi þeim sem ekki hafa neinn lífeyri.

Þannig er það. Svo það er best að sleppa því alveg að fara á elliheimili í framtíðinni. Sleppa bara þeim hluta alveg, og fara í staðinn beint á garðinn.

Gisting á garði er samt ekki að eilífu. Þegar ekki hefur verið hirt um leiðið í nokkur ár verður grafið aftur , og þá mun hræið af ykkur fá smá félagsskap, þ.e. ef eitthvað er eftir af því.

laugardagur, apríl 23, 2005

Dagur 48 ár 2 (dagur 413, færzla nr. 274):

Nú veit ég afhverju páfar taka sér nöfn. Það er ekkert af neinum merkilegum orsökum. Þetta er bara hefð síðan sjöhundruðogeitthvað.

Þá komst í stól maður að nafni Merkúríus. Nú var það svo að ekki þótti við hæfi að páfinn, æðsti maður hinnar kristnu kirkju héti nafni sem dregið er úr Rómverskri goðafræði, svo okkar maður skifti einfaldlega um nafn, og kallaði sig í staðinn Jón 2.

Næsti páfi á eftir honum sá ástæðu til að apa það eftir honum.

Það er nú öll sagan.

Hálf fúlt, ekki satt. Maður bjóst við einhverju rosalegu, eins og þeir tækju sér nýtt nafn því Guð Almáttugur hefði sagt þeim það persónulega, komið að þeim inni í dimmu skoti einn daginn og hvíslað að þeim: "Þú átt að heita Loðvík XIV".

Nei. Ekkert slíkt. Týpískt.

föstudagur, apríl 22, 2005

Dagur 47 ár 2 (dagur 412, færzla nr. 273):

Ég botna ekkert í þessu með páfann. Hef aldrei gert. Af hverju þarm maðurinn að skifta um nafn þegar hann gerist páfi? Er það ekki ruglingslegt fyrir hann? Ég meina, hann er 78 ára, og allt í einu heitir hann ekki það sem hann heitir, heldur einhverju funky páfanafni, sem 15 aðrir hafa heitið á undan honum. Hvað er eiginlega með það?

Ég veit, að amma myndi aldrei fatta ef einhver myndi til dæmis breyta litnum á mjólkurumbúðum úr gulu og bláu yfir í grænt. Það er sama hve oft það væri sagt við hana, hún myndi ekki ná því. Hugsið ykkur nú nýja páfann, sem hefur heitið sama nafninu í 78 ár. Hvað haldið þið að hann verði lengi að ná því að hann heitir skyndilega Benedict 16?

Hugsið ykkur bara ef Boggi yrði skyndilega valinn forseti, og yrði að breyta nafninu sínu í Vigdís 2. Það væri svona svipað.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Dagur 44 ár 2 (dagur 409, færzla nr. 272):

Hér er svo ný og endurbætt útgáfa af sama kafla í sömu sögu, síðan ca. 1995:

Upphaf

Sir Alex Bach, feitur maður bæði og skorpinn, sextíu og sjö ára, þingmaður í efri deild breska þingsins, og hafði verið í hálfa öld. Hann var með þeim ósköpum fæddur að hafa sex fingur á vinstri fæti og hann var því í verkamannaflokknum. Maður þessi gekk út að bifreið sinni, silfurgráum BMW, ættardýrgrips frá tíð Groliers XXIV, en hann var mikill höfðingi Búa, og öðlaðist mikinn og góðan orðstír í Búastríðunum 1984-6, þar sem hann meðal annarra frægðarverka sem og stórvirkja réði niðurlögum hinnar alræmdu ókindar Rowlands Westwood, betur þekktur sem Epsononwa, sem lauslega snarað útleggst Skallablettarotta. Hann, þ.e Sir Alex, opnaði ættardýrgripinn og steig inn. Þegar hann ræsti bílinn varð hann var við ljós á himni sem nálgaðist óðfluga. Ljós þetta var í öllum litum regnbogans, og virtist breyta um lögun í hvívetna og mynnti einna helst í útliti á fjóra uppblásna líknarbelgi úr rauðskjöldóttri belju bundna saman með þæfðri kattargörn. Skyndilega var ljósið aðeins um 10 metra frá ökutæki Sir Alexar. Eftir að hafa sveimað um yfir ökutækinu þónokkra tíð, líkt og blindfullur kólibrífugl með astrónómískar geðflækjur og á meskalíni, sendi þessi furðulegi ljósgjafi frá sér rauðleitan geisla sem hitti bílinn miðsvæðis í gegnum topplúguna. Ægileg sprenging rauf næturkyrrðina. En um tíu mínútum síðar þegar fyrsti lögreglubíllinn kom á vettvang var ljósið skæra á bak og burt og bifreið Sir Alex Bach hafði fuðrað upp.

Þetta er miklu flottara svona, ekki satt?

laugardagur, apríl 16, 2005

Dagur 41 ár 2 (dagur 406, færzla nr. 271):

Harðjaxlar í London

Höfundar: Ásgrímur Hartmannsson & Haukur Guðmundsson

1. kafli.

Upphaf

Sir Alex Bach gekk út að bifreið sinni, silfurgráum BMW. Hann opnaði bílinn og steig inn. Þegar hann ræsti bílinn varð hann var við ljós á himni sem nálgaðist óðfluga. Skyndilega var ljósið aðeins um 1o metra frá ökutæki Sir Alexar. Þá sendi þessi furðulegi ljósgjafi frá sér rauðleitan geisla sem hitti bílinn. Ægileg sprenging rauf næturkyrrðina. En um tíu mínútum síðar þegar fyrsti lögreglubíllinn kom á vettvang var ljósið skæra á bak og burt og bifreið Sir Alex Bach hafði fuðrað upp. Albert Lucas var lögreglufulltrúi hjá Scotland yard í London, honum var falin rannsókn þessa furðulega og ógnvekjandi máls.

***

Já. Við byrjuðum á þessu 1993 held ég. Héldum áfram til 1998. Parturinn sem ég er með er 30.000 orð, allur meira og minna í þessum anda.

Skrollið nú niður og horfið á myndina. Gerið það bara, engar óþarfa spurningar.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Dagur 39 ár 2 (dagur 404, færzla nr. 270):

Erótíska mynd vikunnar:Þetta kemur vel út svona rétt hjá páfanum. Ég er að spá í að halda þessu áfram, þ.e. að setja upp nýja erótíska mynd í hvert skifti sem sú seinasta fellur niður. Maður verður að halda í við klámvæðinguna.

Annars er vafamál hvort þessi ákveðna mynd er klám. Hvað er klám? Það er að skiljast á feministanum Catharine MacKinnon, að til dæmis erótískt myndefni af lesbíum sé ekki klám. Eða var það Dworkin? Þetta rennur allt saman.

Ekki er þessi mynd neitt meira klám en til dæmis Glitnisauglýsingin, er það?

En hugsið ekkert um það. Horfið bara á myndina.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Dagur 38 ár 2 (dagur 403, færzla nr. 269):Páfinn. Ég virðist alveg hafa gleymt að tjá mig um páfann. Já. Þeir voru farnir að rúlla gamla kallinum út í glugga undir það síðasta svo hann gæti dæst á fólkið, og gefið kannski frá sér ógnvekjandi hryglukennd hljóð ef þannig lá á honum.

Já. Persónulega, þá hefði ég ekkert verið að segja fólkinu eitthvað frá því að páfinn væri fallinn frá. Ég hefði bara fest í hann strengi og notast við hann svolítið lengur til að skemmta fólkinu úr glugganum.

Það hefði verið hægt að sjóða saman eitthvað fyrir hann að segja úr gömlum upptökum síðan hann var en á lífi.

Já. Það hefði verið flott.

Kastró, þú ert næstur.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Dagur 37 ár 2 (dagur 402, færzla nr. 268):

Skólinn er að verða búinn. Gott eða slæmt? Veit ekki. Þurfti að vera með framsögu um eitthvað í gær. Tókst að troða Aztekum inní það, sem er gott. Reyndar veit ég fátt eitt um Azteka. Ég veit meira um Maya.

Blómaskeið Maya ver nefnilega milli 600-900. Svo virðist sem allt loft hafi bara lekið úr þeim, og þeir hættu að vera merkilegir. Afkomendur þeirra eru enn í Mexíkó, en þeir reisa ekki lengur flott hof eða skera hjörtu úr fórnarlömbum.

Síðasta áletrun sem Mayarnir skildu eftir sig áður en þeir hrörnuðu að fullu var letruð árið 909.

Fall Mayaveldisins kemur á sama tíma og hlýindaskeiðið sem Víkingarnir notfærðu sér til að leggja undir sig Evrópu, eða amak Írland og England. En sá er munurinn, að Mayarnir voru umkringdir regnskógi, sem hlýtur að hafa tekið mikinn vaxtarkipp þegar hlýnaði, og þá höfðu Mayarnir ekki undan að höggva það sem óx, enda voru þeir uppteknir við að fórna fólki til að róa guðina. Þá auðvitað fóru allar þeirra byggingar á kaf í skóg, og sumar eru þar enn.

Þið getið örugglega farið til miðameríku og hjálpað til að moka ofanaf eins og einu hofi ef þið nennið.


"Hver ætli sé að klóra mér á hausnum?"

laugardagur, apríl 09, 2005

Dagur 34 ár 2 (dagur 399, færzla nr. 267):

Þetta er AMC Matador. Mér hefur alltaf líkað við útlitið á þeim.

Tveggja dyra týpan leit aðeins öðruvísi út:

Þetta voru mjög öflugir bílar. Virkuðu töluvert betur en aðrir sambærilegir bílar á þeim tíma. Eitthvað fór útlitið samt fyrir brjóstið á fólki. Ég man að þegar pabbi átti svona einhverntíma á bilinu 1984-86, þá notuðum við krakkarnir í hverfinu þennan fyrir rennibraut - þartil okkur var bannað að gera það. Sem var slæmt. Þessi bíll var svo helvíti góð rennibraut.

Það er 304 V-8 þarna einhversstaðar:

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Dagur 32 ár 2 (dagur 397, færzla nr. 266):

Nú þarf að skrá sig á annað tímabil. Og svo þarf að fá vinnu. Á lager vona ég. Lagerar eru mjög kósý staðir. Fullt af kössum sem hvorki segja né gera neitt. Sem mynnir mig á það: ég ætti kannski að rölta niður í flytjanda líka á eftir, og fylla inn nokkur umsóknareyðublöð. Og eimskip, það er þarna rétt hjá. Og svara einhverjum af þessum atvinnumiðlunarumsóknum sem heimta að ég sé þrítugur.

Lít ég ekki út fyrir að vera þrítugur?

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Dagur 30 ár 2:

Var í Skálholti á sunnudag. Ég sagði ömmu áður en ég fór að ég væri að fara í Skálholt. Samt ákvað amma að elda. Jája. Henni hafði verið sagt að ég væri á leið út í langan langan tíma, og væri ekkert væntanlegur fyrr en eftir dúk og disk, en samt tók hún sig til og eldaði, á venjulegum matartíma eins og ekkert hefði í skorist.

Í Skálholti eru neðanjarðargöng sem liggja eins og staðan er ekki neitt. Þau eru dimm og köld, og þar er lágt til lofts. Þar er líka turn sem ég hefði þurft að ráfa uppí. Varð að láta mér nægja að læðast uppá hanabjálka.

Tók eftir því að það sést miklu meira af stjörnum við Skálholt en í útjaðri RKV. Miklu meira. Við sjáum ekki nema 1/2 % af þeim úr Heiðmörk.

föstudagur, apríl 01, 2005

Dagur 26 ár 2:

Sá árekstur áðan. Einhver asni ók yfir á rauðu, og einhver kelling keyrði í hliðina á honum. Beint í hægra afturdekkið. Bíllinn snerist 90°. Skemmdist ekki mikið. Subaru station. Felgan tók við mestu af högginu, svo mig grunar að það komi til með að kosta eitthvað að gera við þetta. Ekki það mikið högg samt. Bara rétt nóg til að snúa 1500 kílóa bíl 90°.

En það var ekki allt. Nei. Svo námu þau bæði staðar, úti á miðri götu. Auðvitað.

***

Hlupuð þið fyrsta apríl? Ég hlustaði á fréttirnar til að reyna að ná aprílgabbinu, en það var ekkert sem hefði getað fengið neinn til að hlaupa.

Ég bjóst við einhverju flottu, einhverju of augljósu, eins og td: Bobby Fisher teflir fjöltefli í Smáralind, eða eitthvað svoleiðis.