föstudagur, apríl 30, 2004

Dagur 57:

Kominn tími til að fikta, aftur. Ekki í litunum þó... eða... hmm. Ja, nei. Við skulum lofa græna bakgrunninum að vera í friði. Hann fer svo vel með augun.

Svo ég áhvað núna að setja upp mynd. Það var bara að velja einhverja verulega flotta mynd. Það er ekki hægt að setja bara upp mynd af bara einhverju. Nei, það verður að vera eitthvað alveg sérstakt. Eitthvað flott, tignarlegt, glæsilegt...

Eitthvað stórt. já, bara nógu andskoti stórt. Svo það fylli út í bloggið.

En hvað er nógu stórt, hugsa ég? Hmm.

Búrhvalur? Já. Búrhvalir eru stórir. En þeir eru líka ekki mikið fyrir augað, er það? Eitthvert langt, hárlaust kvikindi, með engar lappir, lítil stingandi augu, nefið á bakinu, stóran stóran munn með tönnum einungis í neðri skolti. Ekki fallegt, engan veginn.

En Steypireyður þá? Nah. Það kvikindi er jafnvel ennþá ófrýnilegra.

Hvað þá? Spyr ég mig.

Ég veit! Jörðin! Öll jörðin eins og hún leggur sig ætti að vera svona nokkuð impressive. Og bara til að vera öðruvísi, þá er nótt, en ekki dagur.

Þannig sést hvert byggt ból á að minnsta kosti vestur-helmingi jarðar á myndinni.

Já, ég er sammála mér um að Jörðin sé talsvert flottari í myrkri, og ákveð þessvegna að skella upp mynd af fyrirbærinu.

Það búa nú ekkert ofsalega margir í Alaska, er það?

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Dagur 56:

Er geimurinn óendanlegur, og óendanlega fullur af stjörnum?

Sumir segja, að ef geimurinn væri óendanlega fullur af stjörnum, þá væri næturhimininn hvítglóandi, og hvergi svartan blett að sjá. En væri það svo? Ímyndum okkur heiminn aðeins óendanlega fullan af stjörnum:

Nú er það svo, að massi getur dregið að sér ljós, beygt það og sveig á ýmsa kanta. Svarthol, td, sjást ekki, því þau draga að sér allt ljós. Svo ef ljósgjafi er í 10.000 milljarða ljósára fjarlægð, þá er eins víst að ljósið frá honum sé dregið að og frá öðrum hnöttum, aðeins til að sameinast sem ein tíra á himni, svo líti að við vart greinum hana, með nóg af svörtu á milli.

Annað: það er ekki eins dimmt þarna úti og þið haldið. Himnarnir eru í raun þaktir geislum. Reyndar sá ég einhversstaðar að geimurinn er í raun brúnn, ljósbrúnn, á litinn. Og hvernig eru vel-flestar plánetur í sólkerfinu á litinn? Brúnar. Svo er ekki eins víst að himininn sé þakinn stjörnum? Við bara greinum þær ekki sem slíkar. Þær eru bakgrunnur.

Að vísu er tunglið svart. Það glampar bara svona á það í sólskininu.

Sé Hubble beint að auðum bletti á himnum, kemur í ljós að sá blettur er ekki svo auður. Það er fullt af litlum ljósum, sem við nánari skoðun eru kannski ekki svo lítil, að minnsta kosti miðað við Heimaklett.

Er til eitthvað sem er fjarlægasta stjarnan? Ef heimurinn er óendanlegur, og í honum er óendanlegt magn efnis sem er safnað saman í stjörnum, þá er ekkert víst að svo sé. Þá er alltaf eitthvað þarna hinumegin.

Jæja. Ætli það sé ekki samt best maður haldi sig hér eftir við stjörnuþokur sem maður getur skilið.

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Dagur 55:

Höldum áfram með ódýra líkanið okkar af geimnum:

Sólin er 100 sinnum breiðari en jörðin. Fáið 44 tommu dekk lánað. Það er sólin. Notum 1 krónu fyrir jörðina, og tíeyring fyrir tungl. Tíeyringurinn er fet frá krónunni. Krónan á að vera í 150 metra fjarlægð frá '44 dekkinu.

Fyrir plútó, endimörk sólkerfisins skulum við nota teiknibólu. Setjum hana niður í 6 kílómetra fjarlægð frá dekkinu.

Alpha centauri er í 1.3 ljósára fjarlægð frá sólkerfinu okkar, eða í 12.299.000.000.000 kílómetra fjarlægð, svona circa. Sem þýðir, að ef '44 dekkið er á stakkó, þá á það sem þið notið til að tákna Alpha centauri, nálægustu stjörnuna, að vera einhversstaðar í Afríku.

Það er náttúrlega bara tóm tjara, svo við skulum minnka módelið aðeins.

Tökum tíkall, það er sólkerfið. Leggjum tíkallinn niður á jörðina, og notum svo krónu til að tákna alpha centauri. Göngum 1000 skref, og setjum krónuna niður. Göngum önnur 1000 skref, og setjum þar annan tíkall, til að tákna Síríus. Förum svo til Akureyrar. Þar finnum við hentugt hús, td. kirkjuna, og segjum að hún sé Óríon. Svo er Andrómeda, við höfum ekkert efni á að fara þangað, en hún er 3xlengra frá okkur á þessum skala en tunglið. Miðað við að Sólkerfið sé á stærð við tíkall.

Já. Vill einhver bjóða sig fram til að vera geimfari? Fara til Andrómedu kannski? Þú munt aldrei koma aftur.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Dagur 54:

Jörðin snýst enn umhverfis sólina, eftir ekki alveg sporöskulaga eða egglaga hringferli, heldur meira svona beigluðum gormlaga ferli, og tunglið þar umhverfis, og eins er ástatt fyrir því; það fjarlægist jörðina um 1 tommu eða svo á hverjum hring sem það fer umhverfis jörðu, svo á endanum mun það týnast einhvert, flytjast kannski til mars.

Svo er tunglið langt frá jörðu. Hvað er jörðin, 20.000 kílómetrar í þvermál? Og tunglið er 1/4 af stærð jarðar, þ.e allri stærð, finnið út úr því. Svona svipaður munur og á tíkalli og fimmkalli, giska ég á. Tunglið er að mér skilst í 250.000 mílna fjarlægð frá jörðu, þ.e 400.000 kílómetra fjarska. Sem er langt í burtu. Bílum er yfirleitt hent áður en þeir ná 250K markinu. Nema Bens og jeppum.

Svo við höfum tíkall og fimmkall. Setjum tíkallinn á borð, og segjum að hann tákni jörðina. Setjum fimmkallinn við hliðina, og segjum að hann tákni tunglið. Höfum 40 sentimetra bil á milli þeirra, og þá sjáiði hvað langt er frá jörðinni til tunglsins, í réttum hlutföllum.

Og nú skulum við hugsa: menn fóru þangað.

Og við skulum líka hugsa: Ekki kaupa þetta geimskip af þeim, það er allt of mikið ekið.

mánudagur, apríl 26, 2004

Dagur 53:

Heyrði útundan mér í gær að fallbyssa hefði sprungið í loft upp á mannfagnaði niðri í bæ. Sperrti eyrun. Auðvitað. Var hér á ferðinni frekar lítil fallbyssa, einungis nokkur kíló að þyngd, og úr pottjárni. Slíkan grip er hægt að verzla sér hér.

Mínar heimildir, (Reisubók Jóns Indíafara) segja mér, að þegar danskir kanónusmiðir voru búnir að steypa hólkana, röðuðu þeir þeim upp, hlóðu þá, komu fyrir kveik á milli þeirra allra, kveiktu í, og hlupu í burtu. Þetta var gert vegna þess að viss fjöldi af fullgerðum kanónum sprakk alltaf í loft upp, og fæstir kærðu sig um að vera nærri er það gerðist.

Hefi ég eftir öðrum heimildum, (fallbyssuskyttu vestmannaeyjabæjar) að járnkanónur eigi það til að springa í loft upp eftir langvinna notkun, sökum málmþreytu. Var þetta þekkt vandamál til forna, og var passað uppá að skifta alltaf reglulega um kanónur. Sömu heimildir segja að brons-kanónur deildu ekki þessu vandamáli. Þær þendust bara út með tímanum þartil þær urðu ónothæfar (en sennilega mun öflugri áður en þær fóru úr notkun).

Bendi ég hér með þessum merka félagskap á þennan kost, bronsfallbyssur. Þær springa ekki.

Reyndar er ekki mælt með af framleyðanda að verið sé að plaffa úr þessum tækjum. Þau eru upp á punt.

sunnudagur, apríl 25, 2004

Dagur 52:

Það eru skip í eimskipahöfninni. Var að koma auga á þau núna. Djöfull eru stór á þessu möstrin. Mikið af lotnetum og drasli, næstum eins og jólatré - það stærsta neðst. Ef ég tala við þá, ætli ég geti fengið þá til að gefa mér eldflaug?

laugardagur, apríl 24, 2004

Dagur 51:

Maltöl er ekki morgunmatur. Þvert á hvað sem aðrir koma til með að segja þér. Steik, hinsvegar, er snilldar morgunmatur. Ah, ekkert er betra en að snæða vel steikta piparsteik þegar maður vaknar um morguninn! Eða nautalund. Mmm. Miklu betra en allt þetta kókópöss sem fólk er alltaf að háma í sig, eða séríós. Þú finnur muninn betur þegar fer að líða á daginn. Maltöl hinsvegar, er ekki morgunmatur.

Mig langar í steik.

föstudagur, apríl 23, 2004

Dagur 50:

Datt í hug að angra ykkur í dag með þessu. Þið getið dundað ykkur við þetta í sumarfríinu. Að láta sér detta þetta í hug, það er snilld, á sinn geðveikislega hátt. það er ekki fjör fyrr en einhver forn illska hefur verið særð fram.

Og svo er komið sumar. Og af því tilefni var bara skaplegt veður í gær. Ég vann hinsvegar ekki það sama glapræði og hann Helgi fosseti, að hanga inni í dimmu bíói og glápa á sjónvarp í eitt af þeim örfáu skiftum er sól skín á himnum yfir árið. Sóun á landsins gæðum er það. Það er alltaf hægt að hanga inni í rigningu.

Hmm. Man eftir því, óljóst þegar ég var að vinna hjá bænum. Það voru þarna einhverjir gaurar, sem voru alltaf vaktir upp löngu fyrir háttatíma til þess að slá grasið. Oft í rigningu. Það rigndi stanslaust aðra hverja viku það sumarið, og var sól aðra hverja. Þegar þeir voru allir saman, voru þeir háværir, stoltir af því að vinna við að þeyta upp blautu grasi, stundum í bland við hundaskít. Allt fór þetta að sjálfsögði beint í andlitin á þeim, þannig virkar vélorfið. En þegar þeir voru einir, þá kvörtuðu þeri yfir hve ferlegt það var að vakna fyrir allar aldir til þess að þeyta köldu og blautu heyi yfir sig.

Svo, ef maður slær nógu lengi, nötra hendurnar allan daginn á eftir.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Dagur 48:

Hefur einhvern einhverntíma langað að tala við einhvern sem er ekki einhver heldur eitthvað? Ja, ef svo er þá er þetta tækifærið. Mikið bölvað rugl segir þetta kvikindi samt.

Svo, ef einver hefir áhuga á blóðflokkum... Þið ættuð að hafa gaman að þessu. Ef þið eruð í A flokki, þá eruði líklega skyld eskimóum, nu, eða sömum. Fólk í B flokki hinsvegar virðist eiga uppruna sinn frá norður Indlandi og Norður Rússlandi. Skoðið bara myndina, OK?

Ég er farinn. Þarf að borða, horfa á sjónvarpið, leika mér í tölvunni... þið vitið, stunda mikilvæga hluti.

þriðjudagur, apríl 20, 2004

mánudagur, apríl 19, 2004

Dagur 46:

Helvíti. Þetta var ömurlegt, hörmulegt, hræðilegt, ógurlegt, skelfilegt. Viðbjóðslegt, voðalegt og ægilegt. Þetta fólk! Það ímyndar sér að það sé sniðugt að syngja í bílnum alla leið frá Bakka! Ég óska þeim barkabólgu, vona að ég hafi smitað þau af því sem ég er með.

Og þetta var líka alveg ógurlega lélegur bíll. Engin loftkæling. Hann rakst upp í grjótið á bakkavegi. Náði ekki nema 140 kmh. Skandall.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Dagur 45:

Það er kominn upp síða vegna árgangsmótsins. Ég held ég hafi haft orð um hana áður. Ein bekkjarmynd enn. Á fullt af þessu hangandi á veggjunum sjálfur. Þessa líka held ég, sem er sjáanleg þarna. Óþarfi að skoða þetta á netinu.

Ég nenni engan veginn að setja link til hliðar. Þið getið bara klikkað á Þórönnu. Þannig sé ég þetta. Veit ekki hvort Boggi er með link. Það er svo andskoti mikið kraðak af linkum þar, að mann svimar. En hann er náttúrlega með link á Þórönnu. Klikkið bara á hana. Hún hefur gott af því. Hún er ekki nógu klikkuð.

Og hvernig verður svo þetta mót? Það verður rigning...

Já, bjartsýnin er allsráðandi í dag. Það gerir sólin. Það er hræðilegt þegar það skín á mig sól, hefi ég tekið eftir. Það er ekki verandi úti í svona skyggni. Þoka er vanmetið veður.
Dagur 44:

Kvikindið var fermt, eins og oft er gert við svona kvikindi. Svo voru snæddar kökur og slíkt. Matur: eina ástæðan fyrir því að maður þolir fermingaveizlur.

Er greinilega kominn úr æfingu. Ég hefi verki í fótunum eftir stanslaus hlaup upp og niður. Kemst í lag í sumar. Svo þarf ég líka að æfa mig í að sofa ekki, heldur hanga á internetinu og skoða rússnesk limmó. Flott?

föstudagur, apríl 16, 2004

Dagur 43:

Kominn heim. Komst að því áðan að þetta pakk sem ég var með í hinum og þessum skólum er búið að setja upp bekkjamynd með mér á. Ég er eitthvað svo unglegur að sjá á henni.

Hefi svo fátt annað gert í dag en að hlaupa upp og niður stiga. Jú, annars. Ég hefi nú þegar þurft að fara af internetinu. Það orsakaði auðvitað að tölvan fraus, eins og lög gera ráð fyrir.

Hmm. Bókasafnið var ekki svo slæmt þegar á allt er litið. A.m.k frá internetssjónarmiði.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Dagur 42:

Var að hugsa um fólk springandi í loft upp, eins og svo oft áður. Datt í hug að úr því að spánn hefur verið sprengdur einusinni, þá verði næst sprengt einhversstaðar annarsstaðar. Eða verður spánn sprengdur aftur? Það myndi enginn búast við því.

Var að spökulera í þessu. Hvað næst? Frakkland, sennilega. Bretland yrði þá næst. Þýskaland fljótlega, býst ég við. Er ekki auðvelt annars að sprengja danmörku? Hvað með ítalíu? Hún er að mestu ósprengd ennþá af alkæda. Hingað til hefir mafían séð um allar slíkar skemmtanir. En mafían er alveg safe. Ef maður er inní þjóðmálunum á ítalíu á maður að vita nokkurnveginn hverjum henni er illa við, og þar af leiðandi hverja á að forðast.

Alkæda aftur á móti, segir að ef þú ert ekki með túrban og átt ekki asna, þá ertu gyðingur, síonisti og ameríkani, og þá á að sprengja þig. Þeir eru svona eins og íslenskir 19 aldar bændur með sprengiefni.

Þeir mega þó eiga það, að þeir gera ferðalög mun meira spennandi. Nú þarf fólk ekki lengur að ferðast um kólumbíu til að eiga á hættu að vera skotið eða sprengt. Það er nóg að fara til evrópu.

Þeir hafa líka afrekað það að þagga niður í nánast öllum öðrum hryðjuverkasamtökum í heiminum, sem nú keppast við að lýkjast þessum gaurum ekki. Nú seinast ETA.

Og það er ekki eins og við getum orðið við þeim kröfum sem okkur grunar að þeir hafi. Það væri ekki einusinni æskilegt að verða við þeim.

Þetta er allt mjög athyglisvert. Hvað ætli gerist næst?

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Dagur 41:

Hvef. Nei. Ekki hvef. Þetta eru örugglega berklar. Brátt fer blóð að skyrpast upp úr mér. Ah! Draumur minn um að gerast smitberi gæti orðið að veruleika! Hallelúja! Gleði.

Þetta er samt hvimleitt helvíti. Rífur í hálsinn. Ætti líklega að fara og drekka afganginn af teinu hennar ömmu?

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Dagur 40:

Hann er kominn aftur, maðurinn sem sletti skyrinu á þingheim. Helgi Hó. Ég kom auga á hann þegar ég var á leiðinni hingað. Hélt hann væri kominn á elliheimili.

Hann hélt á priki, með skilti áföstu. Sá ekki hvað stóð á því. Skiftir ekki máli. Alltaf sami boðskapurinn.

Hef svolítið verið að velta fyrir mér afhverju þeir geta ekki bara gert það sem hann byður um. Vantar fordæmi, segja þeir afsakandi. Hvernig halda þessir jólasveinar að fordæmin verði til? Þau spretti upp, á prenti kannski? Nei. Kallinn er ekki að byðja um neitt ólöglegt. Hann vill bara vera skráður trúlaus. Sé ekki vandamálið. Það þarf bara að búa til eitt fordæmi eða svo.

Ekki fæ ég séð að það yrði af því einhvert vandamál.

En, nú er það svo, að vér erum öll umkringd vitleysingum, sem sjá vandamál þar sem engin eru fyrir. það er furða að þetta lið komist á fætur á morgnana.

Jólaálfurinn stæði upp um morguninn, og finnur að gólfið er svo kalt, að það stenst ekki reglur ESB um hlý gólf á morgnana.
"Ó vei! Gólfið er kalt! Ég kemst ekki upp!"
Svo hringir síminn, og það er vinnuveitandinn:
"Ertu veikur?"
"Kannski. Ég þarf kannski prósak, og ritalín og panódil."
"Flensa?"
"Nei. Vélindabakflæði. Ég get ekki andað."
"Hvernig geturu þá talað við mig?"
"Þetta er bara búktal."
"Ó... Kemuru á morgun?"

Að lokum sverfur hungrið að Jóaálfinum. Hann drattast á fætur, þrátt fyrir köfnun sökum vélindabakflæðis og skorts á geðlyfjum, og vill fá sér eitthvað að borða. Hann tékkar inn í ísskápinn. Hann ætlar að fá sér brauð, en sér að það er fullt af E-efnum. Bæði A og B vítamíni. Nú er illt í efni. Kannski ef hann setur kotasælu á það, þá vinna hin hættulegu E-efni ekki á honum.

Hann áræðir að fá sér appelsínusafa. Nýjan evrópskan appelsínusafa. C-vítamínskertan, of course. (C-vítamín er eitrað skilst mér, óætur andskoti, ekki evrópumönnum bjóðandi. - því til sönnunar bendi ég á, að skv evrópskum reglugerðum, má ekki vera C-vítamín í vissum neyzluvörum, svo deadly er það.) Okkar maður hefur blæðandi góm, merki mikillar heilsu. Sýnir að hann hefir látið vítamínið eiga sig.

Jólaálfurinn snæðir morgunverð, og uppúr hádegi finnst honum hann sé upplagður til að halda til vinnu. Hann hoppar upp í bíl og fer af stað. Þarf að stoppa á öllum ljósum á leiðinni, vera miðlægur á götunni, aka undir hámarkshraða, í fyrsta gír. það er svo gott fyrir olíufélögin, svo gott fyrir apótekin, svo gott fyrir partasölurnar. Stuðlar að hagvexti.

Á leiðarenda er jólaálfurinn kominn með tak í bakið, verk í liðþófa, gömul íþróttameiðzl eru að taka sig upp. Þarf meira panódil, mogadón, laudanum. Ah, íþróttir, bæta geð og þrótt allan, halda við líkamanum alla ævi. Sérstaklega handbolti og fótbolti. Slitin liðbönd, allir þurfa svoleiðis. Gott fyrir hagvöxtinn. Eymzl í nára, offita. gott stöff. Nota bara herbalæf og vera á atkins.

***

Greinilegt að ég hegða mér ranglega. Kem ekki til með að snæða panódil með morgunmatnum, eða nota herbalæf. Hleyp ekki í spik heldur. Svona er að vera antísportisti.

laugardagur, apríl 10, 2004

Dagur 37:

Kominn úr langferðum. Var eltur stuttlega af tröllum, en það var svo kalt á fjöllum að þau frusu, á alfaraleiðum uppi á heiðum. Þurfti að fara gengum 2 göng. Einbreið, ein mjó. Það er mikið af breiðum brúm á leiðinni líka.

Ein breið brú, tvær breiðar brýr, þrjár breiðar brýr... önnur breið brú... fullt af þessu. Verst að þær eru ekki breiðari en svo að ekki er hægt að mæta bílum ofaná þeim. Meira segja eru þær svo mjóvar að sérstaklega er varað við þeim á leiðinni. Ein breið brú framundan. Já. Ekki mjó brú, breið brú. Já. Sem hægt væri að mætast á værum vér öll hestgangandi.

Hlýtur að vera hér á ferðinni sama fíflið og sauð saman vegi innan RKV.

Svo fórum við ferðafélagarnir til frænku og hún spáði fyrir okkur. Við erum víst öll að fara í langt ferðalag, og svo munum við eyða fullt af peningum. Já. Við fórum einmitt öll til Ólafsfjarðar, og héldum uppi ekónómíinu þar, og það kostaði fullt af moulah. Svo þurftum við að keyra til baka, og það var langt ferðalag skal ég þér segja.

Þessi frænka mín veit hvað hún syngur.

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Dagur 34:

Rigning. Og það á að fara í langferðir. Vonandi út úr rigningunni. Kemst líklega ekki í að tjá mig um dag 35. Nei. Kemst til Dalvíkur í staðinn. Og lengra. Gegnum fjöll og undir höf. Yfir holt og heiðar. Keyri á leiðinni yfir fuglana rollurnar hestana og beljurnar. Næ ekki til hreyndýranna, því þau eru öll hinumegin á landinu. Fæ einhvern annan til að klessa á þau fyrir mig í staðinn. Býður sig einhver fram?

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Dagur 33:

Eyddi gærdeginum ofaní helli. Já. Segir það ekki allt sem segja þarf?

mánudagur, apríl 05, 2004

Dagur 32:

Þá eru fermingarveizlurnar byrjaðar. Og serímóníur þeim fylgjandi. Var í einu svoleiðis setti í gær. Þurfti nefnilega að taka upp serímóníuna. Krakkinn gretti sig og yggldi allan tímann. Þegar við skoðuðum það um kvöldið minnti það svolítið á Mr. Bean.

Krakkinn dansaði. Hann nagaði bókina. Hann boraði í nefið. Það var greinilegt að honum drepleiddist allan tímann. Á einhverjum tímapúnti hneppti hann frá efstu tölunum í kuflinum sem hann var dubbaður upp í. Svo þegar átti að standa, stóð hann þarna með krosslagðar hendur, og vaggaði á fótunum.

Við ultum af hlátri þegar við horfðum á þetta eftir á.

Matur... jum. Laxinn var svolítið vanreyktur samt. Mig grunar sterklega að honum hafi bara verið skellt inn í reykherbergið yfir nótt. Annað hvort það, eða þá hann var bara spreyjaður appelsínugulur. Allt hitt var eins gott og það gat verið.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Dagur 31:

Bensín vs Dísel. Nú á að jafna verðið út sko. Það var alltaf dýrara að aka dísel ef maður ók undir 15.000 km á ári. Nema maður svindlaði of course.

Það er eitthvað blaður í gangi út af litun. Ég kem ekki auga á af hverju þarf að lita þetta sull. Ég sé það aldrei hvort eð er. Er á því að um gervi þörf sé að ræða, bara til þess að ýta upp verðinu og gera reglurnar flóknari. Og ýta upp verðinu. Var ég búinn að mynnast á að gera það dýrara?

Lítra á móti lítra mengar dísel jafn mikið, ef ekki meira an bensín. Jafnvel þó bensínvélar fái hjálp til þess með hvarfakútum og yfirleitt of fáum hestöflum miðað við þyngd ökutækis. Það er allt svifrikið. Þið vitið, smá svona korn, sem fólk á svo eftir að anda að sér, svo fer þetta niður í lungu og sker upp háræðarnar. Þannig eykur það hættu á krabbameini. Ef það er alltaf verið að ýta undir óþarfa frumuskiftingar er verið að auka líkur á krabba.

Lítra á móti lítra ýtir dísel jafnþungum bíl lengra en bensín, miðað við jafnstóra vél, þ.e.a.s.

Sem dæmi má nota landcrusher. (slæmt dæmi, því bensín toyotan svolgrar í sig bensín örar en "71 hemi-cuda) Bensín týpan skilst mér að sé að eyða þetta 25 á langkeyrzlu, á meðan dísellinn fer þetta á 12-15. Svipað og minn. (Reyndar fer sá niður í 10 á langkeyrzlu - stór vél í léttum bíl).

Og ég fer að velta fyrir mér: hvernig hyggjast þeir skemma þessa fínu hugmynd sína, að jafna eldsneytisverðið?

Nú þegar er búið að hækka kostnaðinn við að taka bílpróf upp í 100.000 kr. Það á eftir að valda vandræðum seinna. Kannski hækka þeir bílprófsaldurinn líka. Það er ein leið til að búa til vandamál.

laugardagur, apríl 03, 2004

Dagur 30:

Búinn að vera að þessu í mánuð þá. Framför? Skal ekki segja.

Var á fjöllum og niðri í fjöru í gær. Á fjöllum var þessi yfirgefni fjallakofi, með lykilinn í skránni svo maður kæmist inn. Sniðugt. Þar var ekkert til að stela...

Niðri í fjöru var þessi flugvél. Kannski ekki nákvæmlega þessi vél, en svona vél.

Það var búið að skjóta hana all sundur og saman með haglabyssu, og rífa af henni hreyflana og annað nýtilegt. Eginlega bara skelin af flugvélinni eftir.

Hún tók sig samt vel út þarna á sandinum. Það þýðir sennilega að hún er umhverfisslys.

föstudagur, apríl 02, 2004

Dagur 29:

Það er margt athyglisvert í veröldinni. Samt er fátt jafn skrítið eins og er og þetta. Dansandi vélmenni. Furðulegt. Hvað með dansandi hamstra? Ekki? En Beljur? Allir fíla beljur. Sérstaklega grillaðar, með brúnni sósu og glóðaðri kartöflu. Eða svo er sagt.

Ég persónulega er svolítið fyrir risaeðlur.

Þannig er það.

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Dagur 28:

Tók eftir því núna að ég gleymdi mikilvægasta atriðinu þarna í gær: Nefnilega þessu með olíuna.

Þó olía sé alltaf góð og fín og allt það, þá er hún samt ekki 100% af ástæðunni fyrir styrrjöld kanans í Írak. Sennilega aðeins 50%. Afgangurinn er Fíflagangur í evrópumönnum. Liði sem kann ekki að heyja stríð frekar en ég kann að tala frönsku. Hryðjuverkamenn eru enginn hluti af dæminu, heldur eru þeir ímyndun, bara til að höfða til vitleysinga. Hvaða heilvita maður heldur eiginlega að Saddam fasisti sé eitthvað að púkka uppá einhverja terrorista sem eru engir sérstakir vinir hans?

Jú, þeir voru búnir að troða Írak í duftið, allt í lagi. Þeir sýndu frammá að stærsti her í heimi var bara stór her, ekkert meira. Þeir sýndu hverjir áttu bestu græjurnar.

En þeir unnu ekki. Neibb. Eins og til forna, þegar þeir gleymdu að vinna fyrri heimstyrrjöldina. Svo settu þeir bara á viðskiftabann, sem var ekkert virt, og voru bara að dunda sér við að hafa í hótunum. Hótununum var svo fylgt eftir með hangandi litlafingri, svona öðru hvoru. Akkúrat nógu lítið til að enginn fyndi fyrir því nema akkúrat sá sem fékk sprengjuna (í eintölu) í hausinn.

Og með allar þessar hótanir í gangi, sem ekkert mark var tekið á, því þeim var ekki fylgt eftir, var trúverðugleiki UN smám saman að hverfa út í bláinn. Hugsiði: ef þið eruð á daglegu vappi, og alltaf kemur upp að ykkur krakki sem segir hótandi: Ég kýli þig ef þú gengur hérna aftur. Og þið hafið gengið þar um hundrað sinnum, og alltaf segir krakkinn það sama. Takiði mark á honum? Auðvitað ekki.

Og ef enginn tekur mark á hótunum þínum, vegna þess að allir vita að þú fylgir þeim ekki eftir í verki, þá hefur þú engin völd.

Þannig að ef UN átti að geta verið trúverðug valdastofnun varð einhver að taka sig til og fylgja hótununum eftir. Allt annað hefði bara verið að ala á vantrausti, og allskonar minni einræðisherrar hefði getað vaðið uppi með vitleysu, alveg öruggir í þeirri fullvissu að UN myndi ekki gera þeim neitt mein þó þeir hundsuðu það batterí og ályktanir þess alveg.

Friður á jörð.