miðvikudagur, apríl 30, 2008

Dagur 57 ár 4 (dagur 1517, færzla nr. 678):

Útgefandinn lét einhverja stelpu lesa textann hjá mér til að athuga hvort ég hefði ekki rétt fyrir mér með markhópinn.

"Ekki nógu blóðug," sagði hún.

Merkilegt. Alltaf eins, þessir krakkar.

***

Náði í Riffilinn og skoðaði hann aðeins nánar. 1917, Spandau, stendur á honum, og svo er kóróna, og þar fyrir ofan: 1920. Mekanisminn er síðan 1917, hlaupið síðan 1920, held ég. Svo er gert ráð fyrir að hann sé hlaðinn með svona clip, og svo bara skotið þar til ekkert er eftir. Herriffill, sko.

"Ætlarðu að skjóta úr honum eða hafa hann uppi á vegg?" spurði kallinn.

Já. Flott tæki. Jafnvel flottara eftir að köngulóarvefirnir hafa verið fjarlægðir.

Það var fullt af einhverju brúnu efni á honum, allstaðar. Það þvæst af ef ég set á það spritt.

laugardagur, apríl 26, 2008

Dagur 53 ár 4 (dagur 1513, færzla nr. 677):

Sumar. Hvað þá?

Ja, ég gæti prófað riffilinn...


+

=


6.5X55, me þungu hlaupi. Eitthvað National Match dæmi. Djöfull held ég það sé mikið overkill á kanínurnar.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Dagur 49 ár 4 (dagur 1509, færzla nr. 676):

Aðeins meira um rafbíla:

Gleymum eitt augnablik Reva bílnum, því hann heldur ekki í við eitthvað sem var hætt að framleiða fyrir seinna stríð. Ef ekki væri fyrir Smart bílinn, þá hefðu eigendur Reva ekkert til að gera grín að.

En hvað um það:

Ég var búinn að nefna hinn merka Tesla bíl. Eins og staðan er, er það besti rafbíll sem til er, og þó er ég búinn að leita víða. Reyndar er hann nokkuð góður sem bíll; þetta er jú Lotus, að mestu leiti, og það eru ekkert margir sem kalla það slæman bíl. Tollir alveg á veginum og svona.

En það er meira á leiðinni:

Fyrst er að nefna rafjéppann: Fönix.

Glöggir lesendur kannast við þetta farartæki sem Ssang Young Actyon (sic),Sem eru náttúrlega gífurlega misheppnuð byrjun á ágætis hugmynd: Þessi bíll vegur nefnilega 2.5 tonn. Og hann er bara ekkert það stór! Þetta er byggt á grind, örugglega með drif á öllum, og það segir allt til sín. Helvítis bíllinn er með hátæknilegustu rafhlöðum sem til eru, en kemst samt ekki meira en 130 kílómetra á hleðzlunni - sem er samt betra en farartækið sem við skulum ekki nefna. Og þetta hreyfist. Kemst frá 0-100 á 10 sekúndum. Sem væri gott ef nú væri 1960.

Hvað um það - þetta er eitthvað nanó-tec dót sem knýr þetta apparat. Tekur rétt um 10 mínútur að hlaða þetta með einhverjum spes hleðzlutækjum.

En af hverju í dauðanum völdu þeir boddý sem vegur 2.5 tonn? Þeir hefðu betur valið gamla Cherokee boddíið, það vegur ekki nema 1.5 tonn með öllu. Sama vél og sömu rafhlöður, og þannig bíll hefði brunað frá 0-100 á 7 sekúndum, og náð heila 200 km á hleðzlunni. Hvað voru þeir að hugsa?

Að næsta bíl í röðinni:

Lightning.

Þessi bíll vegur ekki nema 1350 kg, og á að performa næstum jafn vel og Tesla bíllinn. Og eins og trukkurinn hér að ofan eru í honum nanó-batterí sem tekur 10 mínútur að hlaða, en þökk sé því að bíllinn er margfalt léttari kemst hann að öllum líkindum aðeins lengra.

Það eru 4 vélar, ein fyrir hvert hjól, sem er áhugavert. Og það eru 30 rafhlöður, hver á stærð við venjulegan rafgeymi. Það er ekki eins slæmt og það hljómar, munið - þetta er rafbíll - ekkert bensín - enginn bensíntankur - engin vél... þannig lagað.Helstu gallar: verðið. Ég sem hélt að Tesla bíllinn væri dýr... vó. Þetta farartæki á að kosta milli 150.000 - 200.000 bresk pund. Sem er hellingur. það eru jú 4 vélar.

Annar svolítið hvimlett vandamál: þessi bíll er breskur. Og sportbíll. Samtímis. Og hvað vitum við um breska sportbíla? Jú, þeir bila.

En svo aftur að því sem þessi tæki keppa við: Kíkjum á heimasíðuna thiscarsucks.com, og könnum málið:Þetta er Zenn, sem er kanadíska, og þýðir "Dauður Lundi." Hann nær 40 km hraða og kemst eina 90 km á hleðzlunni. Semsagt, uppáhalds-bíll Greenpeace samtakanna. Eii kosturinn sem þetta apparat hefur umfram hið ónefnda skotmark brandara er að það er stærra.

Af hverju skildi nokkurn langa í svona?

Og svo er þetta:Þetta er þjóðhátíðartjald á hjólum, ekki bíll!

Gerir það sama og öll hin hallærisfarartækin, nema er... tjald.

Þú getur sem sagt fengið sportbíla, og jeppa, meira að segja nokkuð stóran pallbíl, og ekki bara eru það stórir og þungir bílar, sem geta haldið í við umferð og farið alla leið upp á Akranes, heldur eru þeir eigulegir.

Hvort viltu heldur: tjald sem kemst 50 kílómetra á 40 kmh, eða pallbíl sem kemst 130+ á 90? Tjald, eða pallbíll, tjald, eða pallbíll, það er spurningin.

mánudagur, apríl 21, 2008

Dagur 48 ár 4 (dagur 1508, færzla nr. 675):

"Þetta er hann Jón, hann er með verk," sagði gæinn við mig í auglýsingu um daginn.

Merkilegt nokk, þá var ekki verið að selja verkjalyf, heldur var maðurinn með verkinn að vinna hjá Odda. Hvort hann var með hausverk eða bakverk kom heldur ekki fram, hann bara hafði verk.

Ég er svosem oft með verk líka, þó þeir séu oftast ekki sérlega til þess fallnir að talað sé um. Ég er meðal annars að taka tennur - sem hefur í för með sér áhugaverða verki í tannholdi í hvert sinn sem ný tönn skýst upp á yfiborðið. Það líður svo hjá á svona einni-tveimur vikum.

Bakverkurinn er öllu andstyggilegri, en hverfur þegar ég stend upp á morgnana. Nú, svo ef það er enginn verkur, þá hverfur ahnn ekki. Þá get ég legið þar til ég fæ höfuðverk, nú, eða þar til hungur sverfur að, sem er annar verkur.

Odda gæinn ætti kannski bara að standa upp og fá sér smá göngutúr, þá myndi verkurinn hans minnka. Fá sér kannski eina panódil með.

Að lifa, það er verkur. Nema maður taki þeim mun meira heróín.

laugardagur, apríl 19, 2008

Dagur 46 ár 4 (dagur 1506, færzla nr. 674):

Komið að kvikmynd kvöldsins, það er jú Laugardagur:The Corpse Vanishes, frá 1942.

IMDB gefur henni 3.6 af 10. Það er ekki í neinu samræmi við skemmtanagildi þessa listaverks. Gæðin, að vísu, en ... þetta heldur alveg áhuga í þessar 63 mínútur sem hún varir. Ef þú hafðir gaman af White Zombie, sem ég var með hér þann 18. september í fyrra, þá mun þér líka þessi, þó hún sér ekki jafn góð. Eða kannski vegna þess að hún er ekki jafn góð.

Þessi mynd er afar fyndin á köflum, ekki allan tímann, en þegar hún er fyndin, þá slær hún í gegn:

Tilvitnun:
"Það dó önnur brúður"
"Jess!"

Plottið gengur út á að brjálaður vísindamaður stundar það að eitra fyrir brúðum; brúðgumum og fjölskildum brúðhjóna til mikillar armæðu, skemmtilega siðblindum fréttamönnum til mikillar kátínu; og stela svo líkinu. Dvergur kemur við sögu. Og leynileg rannsóknarstofa.

Já, hver kannast ekki við að hafa komið heim, og hugsað með sér: "Ég vildi að það væri dauð brúður í kjallaranum mínum akkúrat núna?"

Þessi kvikmynd, held ég að ég geti lofað, verður aldrei endurgerð af Hollívúdd. Tæknin sem heldur plottinu uppi er allt of gotnesk, og aðalhetjan er geðsjúklingur (sjá tilvitnun).

Þá er bara að hita smá popp og koma sér fyrir.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Dagur 43 ár 4 (dagur 1503, færzla nr. 673):

Af einskærri illsku, nú og pínulítilli leti, hef ég ákveðið að sýna bara tónlistarmyndbönd í dag, njótið vel:Þetta var nú almennilega Pirrandi, með stóru P.

"The Ultimate showdown of Ultimate Destiny"Eða þetta: Þetta er eitthver Borat-legur tónlistarmaður frá... einhversstaðar.5-4-3-1...

laugardagur, apríl 12, 2008

Dagur 40 ár 4 (dagur 1500, færzla nr. 672):

Rakst á smá test á blogginu hans Bogga. Þar kemur fram að Toyota Prius eyðir ekkert minna á langkeyrzlu en, ja, töluvert mikilvægari bíll. Dularfullt, eða hitt þó. Bíllinn er reyndar sérhannaður til að vera gridlockd, og stendur sig bara ágætlega þannig - sem sagt kyrrstæður, enda þarf bíll ekkert að vera í gangi við slíkar aðstæður.

En hvað um það: Fífl... hálf... bílgreinasambandið, held ég það heiti, heldur því fram að Íslendingar ættu að endurnýja bílaflotann hraðar, til að aka um á umhverfisvænni farartækjum. Eitthvað í sambandi við útblástur.

Aha?

Þessir gaurar hafa ekki hugsað málið alveg í gegn, held ég, því að bíll sem er tekinn og endurunninn eftir 10 ár er í raun að spúa út meira eitri en bíll sem fær að hanga saman þar til hann er 15 ára, eða betra, til 25 ára.

Þannig er nefnilega mál með vexti, að enginn bíll sem ég veit um eyðir að jafnaði minna en 5 á hundraðið. Og fæstir bílar eru þess eðlis hér á landi. Og á 10 árum er þeim ekið um 150.000 km. Sem gerir ca 15.000 lítra af eldsneyti, eða þar um bil, fyrir ekkert of stóran bíl. Það losar fullt af deadly heilsuspillandi stöffi sem heitir NOX, sem er fullt af efnum sem enginn nennir að telja upp, enda bara of mörg. Svo er þessi meinlausi koltvísýringur sem allir hafa svo miklar áhyggjur af, haldandi að hann muni bræða af þeim skinnið, drepa mörgæsirnar, siga geimverunum á þau og sökkva svo alheiminum í sæ.

En til að bræða upp þetta tonn af málmi + plast og gúmmí, þá þarf örugglega helling af orku, og jafnvel þó notað væri rafmagn búið til með sólarselum, þá væri útblásturinn frá þeirri aðgerð engin hátíð.

Það eru nefnilega tveir frekar áberandi mengunarbroddar á grafi ferils líftíma bílsins: þegar hann er framleiddur, og þegar honum er eitt. Þess á milli er útblástur hans sáralítill.

Það verður til mengun þegar málmurinn er unninn í bílinn, á öllum stigum, þegar hann er ryðvarinn og þegar plastið og málningin er búin til og fest við.
Aftur, þegar bílnum er hend er hann settur í tæki sem mengar, sullar niður smurolíu og hvaðeina, svo er málningin brennd af með tilheyrandi krabbameinsvaldandi útblæstri. (Nei, ekki bara CO2, heldur líka efni sem eru í alvörunni skaðleg) Sér það enginn?

Hvernig væri nú að tefja þann seinni mengunarbrodd, með því að halda bílnum við í 5 ár í viðbót?Ég hef þá gutta sem vilja að við endurnýjum bílaflotann örar grunaða um græsku. Þeir eru að styðja umboðin, ekki neytendur, og síst af öllu umhverfið. Þett umhverfi er líka bara afsökun allra til að selja vörur nú til dags. Nú, eða heimta pening. Segir ekki Grínpís: "Gefið okkur pening eða landið þitt mun sökkva í sjóinn eins og Atlantis!"? Hvernig er það?
Dagur 39 ár 4 (dagur 1499, færzla nr. 671):

Bíllinn komst í gegnum skoðun. Merkilegt. Þá á hann að endast í ár í viðbót. Enginn tók eftir kælivatnslekanum. En það er ryð-gat. Stórt. Það stækkar þá bara.Ekkert að þessu.Ekkert sem ekki er hægt að laga með því að hundsa það bara.Ekkert sem ekki er hægt að laga með smá teipi.

Ja, minn bíll er ekki boginn, eða skakkur, eða svona ryðgaður - ennþá. Það eru rispur, en ég er bara ekkert að stressa mig á þeim. Svo virðist hann viljugri til að fara í gang eftir því sem hlýnar. Sem er gott. Þá þarf ég síður að ýta. Lét hann standa meira en sólarhring um daginn, og hann skrölti í gang.

***

Annað bílatengt: enginn hefur flautað á mig nú í mánuð þó ég hafi notað stefnuljósin. Hvað veldur?

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Dagur 35 ár 4 (dagur 1495, færzla nr. 670):

Rabbaði aftur við útgefandann. Hann var enn að skoða þetta. Fannst helst sögunni til foráttu hve yfirgengilega ofbeldisfull hún er. Kem aftur að því eftir svona tvær vikur. Hún sker sig líka úr á nokkra aðra vegu, sem hann týndi nú ekki til.

Svo var það líka markhópurinn sem ég benti á þegar ég sendi hana af stað, sem hann efaðist um. 14 ára og þar um kring, minnir mig að ég hafi sagt. Sem stemmir, miðað við reynzlu mína af því að vera 14 ára.

Tár, bros & takkaskór? Ekki mín deild. Hálfur haus uppi ljósakrónu? Það fílar þetta 14 ára lið. Þeir sem ég þekkti lásu Morgan Kane og Alistair MacLean, ef þeir nenntu þá að lesa eitthvað.

Ekki nenni ég mikið að skrifa hefðbundna glæasögu. Það er allt of félagslega raunsætt fyrir mig. Las einusinni Rebus, sem var allt um raunir þessa skoska gæja. Allt. Þegar ég var hálfnaður var morðið löngu gleymt, og öllum sama um það.

Og það sem kemur sjónvarpi... úff! Tómar skapvondar einstæðar mæður forræðisdeilum, grátt fólk, ofur-plebbar sem eiga hest og landcrusherjeppa, og eiga í forræðisdeilum við skapvondar einstæðar mæður. Af hverju kemur ekki morðnginn og myrðir þetta fólk? (Í minni sögu gerir hann það) Því þetta eru aðalhetjurnar! Fokk!

Ein spurning: af hverju eru allir íslenskir glæpaþættir SVARTHVÍTIR?!?

sunnudagur, apríl 06, 2008

Dagur 33 ár 4 (dagur 1493, færzla nr. 669):

Einn daginn leiddist Jónasi voða mikið. Svo hann fór að róta uppi á háalofti. þar fann hann borð-sög. Ekki vissi Jónas alveg hvað hann átti að gera við þessa sög - þar til honum flaug í hug að gaman gæti verið að saga af sér hendina. Svo hann gerði það.Jónas var ekki fyrr búinn að saga af sér hendina er hann sá ógurlega eftir því. Hann vafði stubbinn og barmaði sér ógurlega, áður en hann rölti niður í bæ.

"Æ-æ, ó-ó," sagði Jónas, og fólkið horfði á hann í forundran.
"Þvílíkt ólán! Ég hef misst aðra hendina!" sagði hann, "ég þarf hjálp!"

Og fólkið safnaðist umhverfis Jónas og vorkenndi honum þar sem hann engdist í ógæfu sinni. Og Jónas var hrærður vegna þess að fólkið vorkenndi honum. Og það fór fram söfnun út um allt land til handa Jónasi. Jónas fékk slatta af pening þann mánuðinn, og gat pantað margar Pizzur.

En athyglin stóð ekki lengi yfir, því skömmu seinna var lítill kettlingur að sögn myrtur á hrottalega hátt, þegar enginn sá til, og líkið fannst ekki, og fólkið varð allt brjálað og fór að fylgjast með því, ef vera skildi að einhver birtist sem það gæti hótað líkamsmeiðingum ef það næði í.

Jónas var líka svosem alveg á því að beita einhvern sem var sakaður um kattapyntingar meiðingum, en hann þjáðist. Hann var líka bara með eina hendi, sem var mikið ólán.

Svo Jónasi fór að leiðast. Og þarna var sögin ennþá inni í bílskúr, og honum flaug í hug hvort ekki gæti verið gaman að saga af sér eins og einn fót.Það var öllu sársaukafyllra en Jónas bjóst við, ekki verra en þegar höndin fór af, en málið vara bara að Jónas hafði gleymt því hvernig það var. Og það blæddi líka miklu meira. En Jónas batt um sár sitt og stökk út á götu, en var ekki í standi til þess, svona einfættur og svimandi af blóðleysi. Hann datt beint niður stigann heima hjá sér, og féll út á götu þar sem hann rotaðist.

Þegar Jónas rankaði við sér þá var hann á spítala.

"Af hverju ert þú einfættur," spurði einhver Jónas.
"Pólska mafían réðist á mig og sagaði af mér fótinn," sagði Jónas.

Hann hafði varla sleppt orðinu er mikil skelfing greip um sig um allt land. Fólk var fyrir löngu búið að gleyma hinum ógnvænlegu kattapynturum, enada kom á daginn að það var uppspuni frá rótum. En það skifti engu máli lengur, þegar Pólska mafían var mætt, og byrjuð að saga af mönnum fætur.

Jónas var í viðtölum á hverjum degi næsta mánuðinn, og Jónasi leið vel. Svo fékk hann líka verkjalyf. Þau voru góð.

Gerð var mikil dauðaleit að pólsku mafíunni. Hún hafði reyndar verið gerð brottræk viku áður en Jónas fannst úti á götu, en samt var leitað hátt og lágt. Víkingasveitin var kölluð til og gerði hún innrás hjá öllum sem töluðu með hreim, og sprengdi hjá þeim reyksprengjur og úðaði táragasi, enda það nauðsyn þegar leitað er að hættulegum mönnum. Ekkert fannst, svo menn gerðu helst ráð fyrir að hún hefði flúið land.

Loksins var Jónas útskrifaður af spítala. Hann gat nú haltrað um hverfið sitt á hækjunum sínum, og það fáa fólk sem var á ferli heilsaði honum. En það voru mjög fáir á ferli, því allir voru uppteknir við vinnu.

Og innan skamms fór Jónasi að leiðast.

Og Jónasi datt í hug hvort ekki væri skemmtilegt að saga sig í tvennt.

Mánuði seinna fannst Jónas í tveimur pörtum á gólfinu í kjallara sínum.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Dagur 30 ár 4 (dagur 1490, færzla nr. 668):

Nú eru vörubílstjórarnir búnir að vera pirraðir í alllangan tíma. Aka um, flautandi, stöðvandi umferð, skapandi fullt af ímyndaðri hættu sem fólk getur nöldrað útaf.

Og flestir virðast standa með þeim.

Fæstir stóðu með Seiving Æsland genginu. En það er nú fullkomlega eðlilega skýring á því:

Seiving Æsland gengið var á fullu að mótmæla byggingu atvinnutækja, sem koma til með að gefa af sér fullt af arði og redda fjölda fólks ágætlega launaðri vinnu. Fólki er ekkert vel við þá sem skammast yfir vel launaðri vinnu.

Vörubílstjórarnir eru að mótmæla þrennu: Ríkið skikkar þá til að hvíla sig öðru hvoru, en hefur enn ekki séð þeim fyrir aðstöðu til þess. Allstaðar annarsstaðar þar sem eru kvaðir á atvinnuökumönnum að þeir hvíli sig, þar er aðstaða fyrir þá. Allstaðar nema hér í Afríku. Í þriðja lagi er kílómetragjald á þeim, sem bara trukkar þurfa að borga. Og það er ekkert lágt.

Mál tvö er bensín og olía. Sem er öllu merkilegra mál:

Við það að eldsneyti á öll farartæki hefur hækað um vel 50%, þá hækka flutningsgjöld í samræmi við það. Við getum alveg tekið kílómetragjaldið inn í þetta enda kemur það á sama stað niður: í hækkun á verði allra þeirra hluta sem fluttir eru með trukkum. Sem stuðlar að verðbólgu, einmitt þegar það er bullandi verðbólga.

Ríkið tekur nefnilega helming alls penings sem fer í bensín, og allt þetta kílómetragjald.

Á sama tíma og allt þetta lendir á vörubílstjórum, þá segjast þessir pjakkar á þingi vera að reyna að halda verðbólgunni niðri.

Jæja...

Nú, seðlabankinn er alltaf að hækka stýrivexti, er það ekki? Myndi einhver spyrja. Það ku virka þannig á kerfið að útlendir peningar komi frekar hingað og setjist að í bönkum. Það virðist hinsvegar ekki vera að gerast, a.m.k ekki í nægum mæli. Það sem hinsvegar er að gerast, er að hækkandi vextir valda fólki sem hefur tekið lán og er að greiða þau upp auknum útgjöldum. Og ekki bara það, heldur eru ýmsir aðrir að borga lán, menn sem flytja inn vörur til dæmis, og menn sem selja vörur eru með aðstöðu í húsum sem þarf að borga lán af, og búa sjálfir í húsum sem þarf að borga lán af. Og allt þetta fer beint í verðlagið, svo það hækkar.

Og hvað köllum við það þegar eitthvað verður dýrara? Jú, það er verðbólga!

Sem sagt: Ríkið er að búa til verðbólgu, en virðist ekki fatta það. Eða það er það sem þeir segja sjálfir. Annað hvort eru þessir gaurar svona ofsalega vitlausir, eða þeir eru að búa til verðbólgu í einhverjum vafasömum tilgangi.

Ég er einna helst á því að þeir séu svona vitlausir. Ef þeir væru ekki vanhæfir, þá væru þeir að vinna annarsstaðar.

Svona líta nú hlutirnir út fyrir mér.