sunnudagur, júlí 29, 2007

Dagur 144 ár 4 (dagur 1239, færzla nr. 570):

Nú þegar það er búið að salta göng um óákveðinn tíma, þá er málið að byrja að heimta þrefalda hraðbraut til Þorlákshafnar, og eina tvöfalda út á Bakka - eða að minnsta kosti að afleggjaranum þangað. Til öryggis fyrir Eyjamenn og aðra sem langar að fara þangað stundum.

Þessi rolluslóði sem liggur þessar leiðir er til skammar í vestrænu landi. Nú veit ég vel að kommúnistarnir sem stjórna þessu óska þess helst að þetta væri ekki malbikað, því það var ekki þannig á tímum móðuharðindanna, þeim mikla gósentíma sem þeir horfa nostalgískum augum aftur til, en þeir verða að fara að átta sig á því að sá tími er liðinn. Hlutirnir hafa breyst. Við eigum bíla núna. Og mat. Og okkur langar að fara út á bakka og taka Herjólf til baka, eða öfugt, stundum.

Svo ég spyr: erum við vestrænt land, eða erum við í Afríku? Hvort er? Eigum við að bera okkur saman við stórveldi, þar sem borgurunum líður bara ágætlega, eins og í hinum vestræna heimi, eða eigum við að bera okkur saman við Afríku eða einhverja skuggalega fortíð þakta eitraðri ösku?

Komið með hraðbrautir. Það er búið að borga fyrir þær fyrir löngu.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Dagur 141 ár 4 (dagur 1236, færzla nr. 569):

Þá:BMW Isetta.

Nú:Toyota Yaris.

Munur: Isettan var léttari, einfaldari... nú, og ef maður keyrði á eitthvað þá endaði maður á garði. Framför? Smá.

Þá:Imperial LeBaron

Nú:Landcruiser

Munur: Imperial er stærri á alla kanta, bæði að utan og innan, léttar - og það þó bíllinn hafi verið smíðaður á alveg solid grind, með X bitum og hvaðeina, svos sterkbyggður að hann var og er bannaður í Demo-derby. Því hver sem mætir á Imperial vinnur. Hann státar líka af stærri vél og meiri snerpu. En það er ekki í honum drif á öllum.

Framför? Nei.

Þá:Svarti Dauði.

Nú:Svarti Dauði.

Munur: í denn var SD eitthvað sem maður fékk hvort sem maður langaði eða ekki. Nú, er SD eitthvað sem maður fær bara ef maður vill það. Dauði eftir notkun er optional.

Framför: augljóslega.

Þá:Þorramatur

Nú:Pizza.

Framför: skoðum þetta aðeins: fyrir aldamótin 1900 át fólk bara Þorramat í öll mál. Þá voru meðal lífslíkur Íslendinga um 50 ár. Núna borðar fólk Pizzu, og meðallífslíkurnar eru 80 ár. Hmm... meltum þetta aðeins.

Þá:Torfbær.

Nú:Gamaldags einingahús, AKA bjálkakofi.

Munur: torfbæjirnir voru ekki allir svo slæmir - en það þurfti að slá á þeim þakið. Sumir voru með dýr á neðri hæðinni til að hita efri hæðina. Núna er hitaveita til þess. Og það eru færri ormar og pöddur í nútíma húsum vegna moldarinnar. Og betra loft af sömu ástæðu. Og yfirleitt hærra upp í það líka. Og það er rafmagn og rennandi vatn. Of tvöfalt gler, en ekki líknarbelgur úr einhverju dýri strekktur yfir ramma.

Fortíðin gaf okkur hluti eins og Pláguna og Þorramat, sem er augljóslega verra en nútíminn, en líka Toyotu Yaris, sem er eiginlega eins og BMW Isetta, sem er status quo, og Lancruiser og Hummer og allskyns svoleiðis crapp sem er afturför síðan 1960.

Svo í raun erum við heilbrigðari núna, með betri mat, betri hús, en ljótari og verri bíla. Jæja... þeir bila allavega minna núna.

mánudagur, júlí 23, 2007

Dagur 138 ár 4 (dagur 1233, færzla nr. 568):

Í eggjaköku er gott að nota 2 egg - 3 ef þau eru mjög lítil. Finnst mér. Of mörg egg eru ekki til bóta. Svo setur maður út í þetta hveiti - ekki alveg bolla, en megnið úr einum, með smá mjólk. Þetta skal allt kryddast með season all, eða salti og pipar, eða salti, pipar, karrý, chili, (hinu og þessu sem finnst uppí skáp) og season all.

Þetta þeytist allt saman þartil blandan er ekki lengur kekkjótt.

Það er gott að hita helluna á meðan á blöndun og þeytingu efnanna stendur. Svo setur maður annaðhvort á pönnuna smjörlíki eða olíu, skiftir ekki máli hvort, bara það sé ekki svo mikið af því að það fljóti um einsog eiithvert stöðuvatn, og gumsið hverfi á kaf í það og djúpsteikist. Ef það gerist veit maður að maður er með stórlega alltof mikið smjör/olíu.

Einnig skal hitanum stillt í hóf, of mikill hiti veldur því að kakan brennur að utan en verður áfram hrá og slepjuleg að innan, sem er ekki mjög listaukandi.

Gott er að notast við sæmilega stóra pönnu - svona rétt undir feti í þvermál - þá passar kakan á disk, og verður nógu þunn til að bakast í gegn á skikkanlegum tíma ognógu þykk til að hægt sé að snúa henni við.

Þegar kakan er orðin þurr að ofan má snúa henni við. Hún er ekkert endilega brúnuð þá, en hún er vissulega heit í gegn. Hún þarf að vera "á hvolfi" í 2-3 mínútur, svo skal henni hent á disk.

Þetta er einstaklega gott með tómatssósu.

föstudagur, júlí 20, 2007

Dagur 135 ár 4 (dagur 1230, færzla nr. 567):

Hvað á að gera við Þingvelli? Ég veit að það eru aðilar þarna sem vilja höggva niður öll jólatréin sem eru þar - ekki í þeim göfuga tilgangi að kolefnis-ójafna bílana sína - heldur til að koma Þingvöllum í það ástand sem þeir voru í á Þjóðveldisöld. Þegar þeir voru í notkun.

Hugmyndir Össurar og slökkvimannsins um að rífa Valhöll falla vel að þeirri hugmynd, en það eru áhveðin vandamál á þessari hugmynd sem mér finnst rétt að reifa stuttlega:

Á Þjóðveldisöld voru engir sumarbústaðir á Þingvöllum. Það er staðreynd. Ekki man ég til þess, svona svo dæmi sé tekið, að Þorgeir Ljósvetningagoði hefði skroppið upp í bústað til að lyggja undir feldi og slappa af. Né heldur var Auður Djúpúðga þar í sólbaði né var Gísli Súrsson þar að grilla pylsur.

Svo bústaðirnir verða að fara.

Vegurinn niður í gjána var ekki settur upp fyrr en eftir móðuharðindi. Svo augljóst er að hann verður að fara. Vegna þess að móðuharðindin fóru fram eftir að þjóðveldistímanum var lokið. Amma man vel eftir þessu. Segir að þá hafi tímarnir verið betri.

Reyndar þurfa allir vegir um svæðið að fara. Ég veit að einn af Ynglingum var uppnefndur braut-Önundur, því hann var svo mikið fyrir vegagerð, en hann kom ekkert hingað, svo hér voru engir vegir, bara slóðar eftir rollur, og kannski nokkrar hetjur í litklæðum.

En allt þetta smá fiff fölnar í samanburðinum við aðal vandamálið:

Sko, meira en helmingurinn af hinum eiginlegu Þingvöllum, eins og þeir voru á þjóðveldisöld, eru núna staðsettir ofaní Þingvallavatni. Nei, ég er ekki að búa þetta til. Það kom gífurlegur jarðskjálfti einhverntíman um 1800 (+- 50 ár), og þá sökk hellingur af landi - allt draslið seig um 1-2 metra, og fór á kaf í vatn. Ég giska að það hafi lítillega teygst á landinu við þetta líka.

Ekki veit ég hvernig þeir ætla að fara að því að laga þetta.

Þessi tré eru nefnilega minnsta málið. Þau eru reyndar bara hluti af sögu svæðisins, og að ætla að fjarlægja þau væri að falsa söguna. Það væri svona svipað eins og ef grikkir endurbyggðu Meyjarhofið, eða Egyptar endurbyggðu Pýramídana. Eða Enzo Ferrari sæist aka um á Ferrari kit-bíl með fólkswagen undirvagni.

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Dagur 132 ár 4 (dagur 1227, færzla nr. 566):

Þá kom loksins þessi götuveizla. Allir í götunni mættu. þetta er nú stutt gata, en það var nú samt nóg fólk.

Við Björn hrúguðu upp þessu einstaklega glæsilega grilli. Erum að pæla í að láta gylla það og setja á þjóðmynjasafnið. Það átti að vera miklu flottara, en við því var hreyft mótmælum. Til dæmis hefðum við vel geta haft þak á því, en því trúir náttúrlega enginn.

Svo var brenna. Fyrst var þetta bara lítil brenna, með smá veggpanel. Svo sáum við að nágranni okkar var að henda einhverjum spítum, svo við spurðum hann hvort við mættum ekki bara hirða þær. Sem við máttum, og við það stækkaði brennan töluvert.

Maturinn var ekki bara ætur, heldur bara fínn, rann ljúflega niður með bjór og 3 tegundum af víni.

***

Fer reglulega að láta hundinn vaða í sjónum. Dýrinu finnst gaman að svamla í sjónum, mér finnst gaman að sjá Herjólf reyna að ýta öllu hafinu inn í höfnina.

laugardagur, júlí 14, 2007

Dagur 129 ár 4 (dagur 1224, færzla nr. 565):

Ég held að það hafi verið eitthvað skrýtið í kvöldmatnum í gær. Amfetamín eða eitthvað. Það hefur sennilega verið þriðji hamborgarinn. Gat ekkert sofið í nótt. Sem er náttúrlega alltaf ávísun á skemmtilegan dag.

Ég þarf... eitthvað.

Er enn saddur síðan í gær. Kannski hefur það haft eitthvað að segja? Maður á að borða allan þennan mat á morgnana, er ég viss um, til að vera ekki á fullu við að melta á nóttunni. Morgunmaturinn er nefnilega mikilvægasta máltíðin, ekki kvöldmaturinn. Ekki nema maður borði bara einusinni á dag, og það sé kvöldmatur. Sem er náttúrlega bara ósiður. Sykurmagnið í blóðinu verður allt rangt.

***

Einn vinsælasti grínþátturinn í sjónvarpi er og hefur alltaf verið Fréttir - þó auglýsingar sæki á. Bullið sem vellur uppúr þeim stundum...

Í gær kveikti einhver asni í sér inní bíl. Auðvitað var fréttagengi sent á staðinn að skoða. Kom á daginn að það var sendibíll - L 300, eða hvað þetta er kallað, brunninn til ösku, í hálfs kílómeters fjarlægt frá næsta húsi - steinhúsi.

"Mikil mildi þykir að vindátt stóð frá bænum, annars hefði geta farið illa," sagði fréttamaður. Já. Hún er eldfim, þessi sveita-steinsteypa. Eldur sem kemur upp góðu steinsnari frá getur valdið í henni sjálfsíkviknun ef ekki er rétt með farið.

Auglýsingar eru enn meiri steypa.

"Þessi bíll er grænn!"

Aha... hvað er fólk vitlaust, ef það trúir því að það sé einhverju bættara að kaupa sér bíl sem búið er að gróðursetja tré fyrir? Kjaftæði. Og ég hristi enn hausinn yfir þessu Hæbrid dóti öllu. Og vetnið... sjitt! Hvaða djöfuls drusla var þeta þarna um daginn, sem varla skreið yfir 30 km/h, og komst varla nema 150 km á hleðslunni? Gerið bílinn stærri, setjið í hann stærri tanka og öflugri vél, gerið það. Þegar bíllinn er 5 sek í hundrað og kemst 400 km á hleðslunni eruði með góða vöru í höndunum, fyrr en þá: gleymið þessu.

Rafmagnsbíllinn er allur að koma til. Væri fín græja á Íslandi, eða einhversstaðar þar sem rafmagn er ekki búið til með jarðefnum frá Arabíu. Allstaðar annarsstaðar er hann bara bull... sko: þetta tæki mengar ekki, þegar það er búið að smíða það. Eftir það? Hvenær þarf að skifta um batterí?

Jay Leno á rafbíl síðan 1909. Það hefur aldrei þurft að skifta um batterí í þeim bíl. Eða nokkurn hlut. Bara bóna hann reglulega, og hann virkar. Segir Jay Leno.

Sko, ef fólk vill og þarf bíl, og vill ekki menga úber mikið, þá á það að fá sér bíl með eins litlu í og hægt er. Aygo, til dæmis. Eða Fiat Pöndu. Eða Kia Picanto eða Chevy Kalos.

Og Umferðarráð:

Það kemur ekki satt orð uppúr þeim, er það? Allt umferðarbatteríð á Íslandi virðist rekið af kommúnistum, bæði vegagerð og áróður. Ég er viss um að þetta lið horfir með söknuði til þess tíma þegar menn fóru allra sinna ferða á hestbaki. Miðað við það sem á sér stað meðal hestamanna núna, held ég að ef íslendingar myndu allir sem einn selja alla bílana til útlanda og fara að notast við hesta, myndi dauðsföllum í umferðinni fækka úr 25 (og var að fjölga í 20 á á ári með stöðugri þróun og auknum umferðarhnútum alveg af sjálfu sér) að jafnaði á ári í um 40 á ári. Að ótöldum þeim sem deyja því að sjúkrakerran er öf lengi á leiðinni. Sem mun fækka látnum úr hjartaáföllum og öðru úr 50 í 200.

Nei nei, menn hálsbrotna ekkert ef þeir detta af hestbaki. Það hefur aldrei gerst. Lalala.

Mér finnst skemmtilegt til þess að hugsa að alvarlegum slysum fjölgaði með umferðarátakinu sem er í gangi. Er þetta tengt?

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Dagur 125 ár 4 (dagur 1220, færzla nr. 564):

Í ár eru 60 ár síðan Kalashnikov-riffillinn fór í framleiðzlu. Það var, eins og talnaglöggir einstaklingar hafa tekið eftir, árið 1947. Sem er einmitt ástæða þess að tækið heitir AK-47, sem stendur fyrir Avtomat Kalashnikova. Samkvæmt mínum heilimdum þýðir "Kalashnikov" Málarastrigi.Þetta er venjulegur AK Riffill, caliber 7.62x39.Þetta er 7.62x39 skot. Ekki rugla því saman við 7.62x51 (aka .308) sem er töluvert öflugra, eða 30.06, sem er það sama og 7.62x51, bara með lengra brass.

Þetta er stórmerkilegt kaliber, því af öllum þeim skotfærum sem hefur verið plaffað í gegnum tíðina, hafa fá verið notuð til jafn-margra víga og þetta. Aðallega af Rauðu Khmerunum, grunar mig. Reyndar er skuggalega stór hluti þeirra sem farast eftir að hafa fengið svona skot í gegnum sig óvopnaðir. Sem orsakast af því að þetta vopn fyrirfinnst oftast í höndum kommúnista. Þeir eru mikið fyrir aftökur.

Skot fyrir skot er .308 sennilega banvænna - því það er meiri orka á bakvið það, og .22 er mjög banvænt (það er á því eðlileg skýring sem ég nenni ekki að fara út í núna), en þökk sé hverjir það eru sem hafa venjulega kalashnikov riffla í höndunum, þá á þetta metið.

Nú, hinn herriffillinn er Stoner M-16 (AR-15, Colt M-16... blah). Það er sjálfvirkur varmint-riffill, ekki nema 5.56 mm, og hefur þann kost helstan að drífa í gegnum fleyri lög af kevlar en AK-47. Ég held það séu 2 SWAT kallar sem maður getur skotið í gegnum, á móti bara einum ef maður notar AK.

En M-16 á ekkert í AK-47, því A: það eru amk 3 AK-47 á hvern einn M-16 í heiminum, eða um 60 milljónir, og B: einungis Ameríkanar fá að eiga svoleiðis... og Svisslendingar. Og Ísraelar. Allt mikið friðsemdarfólk. Og C: 5.56? Fólk er medium game! Á það þarf eitthvað aðeins stærra.

Auðvitað er AK-47 ekkert fullkomið tæki. Þeir eru frekar stórir og þungir, og þykja ekki mjög nákvæmir. Ekki misskilja, þetta eru engar haglabyssur. Af 100 metra færi á góður maður að hitta það sem maður miðar á. Vandinn er að eigendurnir eru yfirleitt ekkert góðir menn...

En þar sem hönnunin er sú áreiðanlegasta í heimi, þá hafa önnur lönd tekið hana og lagfært aðeins:Zastava M 70. Framleitt af sama fyrirtæki og smíðar asnalega bílinn í N1 auglýsingunni. Og er miklu áreiðanlegra tæki en bíllinn í N1 auglýsingunni, og miklu betri sem riffill en bíllinn sem bíll yfir það heila.Valmet M 62. Finnska útgáfan. Miklu nákvæmari.og svo er þetta Galil, en mér skilst að það sé með Valmet hlaupi, kaliber .308. Aftur, miklu nákvæmari riffill, miklu betur smíðaður og öflugri. Maður getur skotið gegnum 3 SWAT kalla með 7.62x51.

Árið 1974 reyndu Sovétmenn sjálfir að lagfæra riffilinn, og hafandi séð M-16 riffla, vildu þeir gera svoleiðis, og fundu upp nýtt skot, 5.45 mm, og notuðu það til að smíða AK-74. Sem kom á daginn að var jafn deadly og loftriffill. Það sáu þeir í Afganistan, þegar það kom í ljós að það þurfti 15 skot til að stöðva Múdjahaddín stríðsmann. Bömmer. Það hafði áður þurft 3-5. 5.45 komst samt miklu betur í gegnum brynvörn.

Jamm. AK-47. Allir ættu að eiga einn.

sunnudagur, júlí 08, 2007

Dagur 123 ár 4 (dagur 1218, færzla nr. 563):

Um daginn var ég að fylgjast með keppni í þeirri afar áhugaverðu bardagaíþrótt sem þjóðhátíðartjaldauppsetning er. Merkilegt nokk, þá fór enginn burt með sjúkrabíl, en mér sýndust sumar tjaldsúlurnar hafa litið betri daga.

Aðrar keppnisgreinar voru... man ekki hvað þær hétu en þær fólust í að keppandi fylkingar reyndu sem mest þær gátu að svindla í þeim, ef það var á annð borð hægt. Önnur eins trúðalæti hef ég ekki lengi séð.

En komum þá að keppnisliðunum: Vinir Ketils Bónda, aðilar allt sem ég hef hitt og rabbað við. Þeir eru flestir í nokkuð hörmulegu ástandi eftir að hafa stundað ölvun mjög lengi. Stuðningsmenn þeirra var fólk úr sama árgangi og þeir, fólk sem lætur sig dreyma/fær martraðir um að stunda jafn mikla drykkju og þeir.

Hitt liðið var hópur ökumanna... eða eitthvað. Fyrirmyndarökumenn. Held ég. Hef aldrei heyrt af þeim hóp fyrr, enda allir vel 10-15 árum eldri. Gott nafn á hópnum samt. Sem mynnir mig á það: er Elliði búinn að fylla út tjónstilkynningu vegna ökutækisins sem hann skemmdi við komuna á völlinn? Hvað um það: þeir komu með sína eigin stuðningsmenn, sem þeir hafa alið upp sjálfir. VKB eru ekki komnir svo langt ennþá. Kannski eftir 1-2 ár enn. Hvað er krakkinn hans Begga annars gamall?

***

Illugi kom í gær. Hann hafði margt undarlegt að segja um flug til eyja þegar hann kom. Það var þoka þá. Svo bilaði vélin. Sem gerist alveg. Við erum að tala um flug til vestmannaeyja. Það kemur þoka. Og flugvélar bila líkt og önnur mannanna verk. Hinsvegar þá skilst mér á honum, að ef maður á pantað með vængjum, og þeir komast ekki, sé best að FV komist ekki að því. Veit ekki hvort það virkar öfugt líka. Veit ekki einusinni hvort það virkar þannig utan Selfoss. Þetta hef ég frá Illuga.

Þetta hljóðaði allt eins og einhverjar smábæjarerjur.

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Dagur 119 ár 4 (dagur 1214, færzla nr. 562):

Fór með hundinn í fjallgöngu um daginn. Tróð henni undir kindagirðinguna til að komast inn, og lyfti henni yfir stigann til að komast út hinumegin. Svo gat dýrið gelt á nokkrar rollur. Ég vissi alveg að kvikyndið er lofthrætt, en það merkilega er, að það kemur bara fram stundum. Til dæmis kom það ekki fram í snarbröttum hlíðunum undir Blátindi, þar sem dýrið hljóp um í skriðunum, en um leið og ég ætlaði með dýrið eftir einhverjum stígum þar sem var nóg pláss, þá neitaði hún að labba. Varð að draga hana. Tvisvar. Bara stutt í hvort skifti. Ég sá engan mun á brekkunum í hvorugt skiftið, en hundurinn var á öðru máli.

Hundar eru vitlausir. En hverju er svosem við að búast frá kvikyndum sem þefa af rassinum á hvort öðru, og taka meiri tíma í að finna stað til að ganga örna sinna en til að borða á?

Svo þegar ég kom niður af fjallinu var tíkin búin.

sunnudagur, júlí 01, 2007

Dagur 116 ár 4 (dagur 1211, færzla nr. 561):

Margir hafa velt fyrir sér af hverju það er miklu meira til af klámi fyrir karla en fyrir konur. Það þarf ekki mikið að leita að því, það bara er sent með ímeilinu til þín hvort sem þú biður um það eða ekki.

Tökum sem dæmi þessa mynd sem er hér til hliðar: Það er frekar lítið vesen að finna svona lagað á netinu. Þó þessi sé nú ekki í svæsnasta lagi, og væri svosem hæf til birtingar á almannafæri. Það er jafnvel vafamál hvort akkúrat þessi mynd sé klám (sem er nú eiginlega málið með allar myndir á blogginu enn sem komið er).

Og hægt er að fara út og kaupa tímarit með þessu og hvaðeina.

En nú vil ég halda fram að það sé í raun meira framboð af klámi fyrir konur en fyrir karla. Og það er sýnt í sjónvarpinu á besta tíma, og börnunum er leyft að horfa á það. Sem er munurinn á klámi fyrir karlmenn og fyrir konur: annað er ekki boðleg börnum, hitt ... í raun ekki heldur, en þykir í lagi af félagslegum ástæðum.

Og já, klám fyrir konur er alveg jafn mikið líkamlegt, en það er vissulega öðruvísi. Helstu klámhetjur kvenna eru Oprah Winfrey, Sirrý, og Varis Dírí. Og nokkurnvegin allar þær sem hafa verið í sjónvarpinu talandu um þegar þeim var nauðgað eða þegar barnið þeirra dó, eða var nauðgað, eða bæði, í hvaða röð sem verða vill.

Man einhver eftir því þegar Sirrý tók viðtal við varis Dírí? Ég kom inn í það nokkru eftir að þær vour byrjaðar að tala, og skildi ekkert:

Sirrý: "Segðu mér meira"
Varis dírí: "Það var hræðileg"
Sirrý: "En skelfilegt, hvað svo?"
Varis dírí: "Það ætti enginn að lenda í þessu"
Sirrý: "En hræðilegt, hvað svo?"
Varis dírí: "Þetta var bara svo skelfilegt, að það var hræðilegt!"
Sirrý: "Og það ætti enginn að lenda í þessu?"
Varis dírí: "Já. Því það var hræðilegt."

Og þannig hélt það áfram í korter án þess að ég yrði nokkru nær. Ég vissi ekkert hver þessi Varis Dírí var eftir þetta viðtal við hana, né í hverju hún hafði lent, sem var svona hræðilegt. Hún gæti hafa óvart sett salt í kaffið sitt eða eitthvað, ég fékk ekki meiri upplýsingar úr henni.

Svo komst ég að því frá einhverjum öðrum, þegar ég sagði frá þessu mjög svo innihaldslausa viðtali (sem var frásögum færandi því það stóð svo lengi yfir og var svo innilega kómískt í innihaldsleysi sínu) að þessi Varis Dírí hefði verið tekin fanga og nauðgað, brennd lifandi, flengd og steikt á teini og margt fleyra, sem var náttúrlega ógurlegt og allt það, en Sirrý var of vitlaus til að ná fram almennilega í þessu viðtali.

Svo var náttúrlega farið að ræða um blómaskreytingar eða kettlinga eða eitthvað.

Þetta er náttúrlega bara klám. Sadískt klám meira að segja. Að hafa gaman af að horfa á eitthvað fórnarlamb engjast, koma ekki einu sinni orðum að eigin reynzlu, og finna innilega til með henni. Þetta er mjög sick.

En það er líka mergurinn málsins, ég er ekkert kvenkyns, og skil þetta því ekki. En hafandi séð úr hverju kvenfólk fær kick, þá get ég gert mér í hugarlund hina ultimate kvenna-klámmynd:

"Konan sem fór í brjóstastækkun bara öðrumegin því hún hafði ekki efni á 2 implöntum!"

Þetta hefur það allt: er yfirmáta heimskulegt, kvalafullt að horfa uppá, allt viðkomandi að kenna - en öllum öðrum verður kennt um hvernig fór, og svo verður kafað í alla komplexa sem gætu hugsanlega komið upp, með að sjálfsögðu langri ræðu í lokin um hvernig á að setja lög til að hindra að svona undarlegir hlutir geti gerst, og svo verður komið á fót svona félagi til styrktar konum sem hafa látið stækka bara annað brjóstið á sér - það verður til húsa við hliðinni á félagi kvenna sem hafa misst annað brjóstið vegna krabbameins.

Fyrir sjónvarp má að sjálfssögðu vera mínísería um hjón sem eignast Mongólíta viljandi, og sería í mörgum þáttum um nokkrar spólgraðar vinkonur á fertugsaldri, ein sem þjáist af óstöðvandi þvagleka, önnur sem er með sýfilis og vörtur og ... fullt af öðrum áhugaverðum hlutum (meðfylgjandi extrím klósöpp af því öllu), ein sem er greinilega með amk 3 geðsjúkdóma og ein ofur þunglynd, með 3 krakka (einn af hverju). Svo verður eð vera heimildarmynd um nauðganir - í heimsendastíl, eins og allir þessir þættir um heimshlýnun eru.

Konu softcore eru svo allir þessir læknaþættir, því þeir hafa allt: alvarleg veikindi (en sáralítinn tíma til að velat sér uppúr þeim), ælu, blóð og lifur á gólfinu... stundum.

En um leið og einhver tekur sig til og skellir Dönsku stjörnumerkjamyndunum á dagskrá verður allt vitlaust.

Svo eru allir þessir þættir um eldamennsku. Það er ekki klám. Það er ekki einusinni spurning um eldamennsku. Það er bara eins og bílaþættirnir: enginn á Ferrari, en það er gaman að sjá einhvern missa stjórn á einum og klessa á staur. Það er sami kynjamunurinn á áhorfendahópnum líka.