sunnudagur, janúar 30, 2005

Dagur 332:


Gott í hálkunni.

Sleppum því að tjúna drusluna. Það er ódýrara að nota sprey!

Mig langar í svona...

Hvern hefur ekki langað að gera þetta?

Reynir???

Ég veit ekki alveg hvað þetta á að vera...

föstudagur, janúar 28, 2005

Dagur 330:

Þjáist þú nokkuð af algengum en ólæknandi sjúkdóm?
Sjúkdóm sem hrjáir milljónir manna um allan heim?
Hræðilegum, illvígum sjúkdómi, sem minnkar bæði lífsgæði þín og þeirra sem þú þekkir?

Ert þú nokkuð húmorslaus?

En, ekki er öll von úti enn.
Margir halda að húmorsleysi beri vott um gáfur.
Þú gætir kannski fengið vinnu hjá Ríkinu.

Já, húmorsleysi er vissulega hryllilegur sjúkdómur.
Sérstaklega vegna þess að aukaverkanirnar eru auknar líkur á vinnu fyrir Ríkið.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Dagur 329:

Ugh... Ég hata háskólapólitíkina. Ég hata vöku. Ég hata röskvu. En, lof mér segja ykkur af hverju:

Fyrst: Pólitík er fyrir þurrkuntur og sósíópata.

En þar fyrir utan: Röskva og vaka eru með NÁKVÆMLEGA SÖMU STEFNUMÁLIN!. Og með það í huga: afhverju allt þetta rifrildi? Það getur ekki annað en skemmt fyrir.

Pólitík er nefnilega eins og fótbolti. Það eru lið, og það er ætlast til að maður haldi með einu liði. Í landspólitíkinni heldur fólk til dæmis með Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni. Svo mætir það á fundi og hrópar húrra.

Og eins og í fótbolta, þá hafa bæði lið sama takmark: að vinna. Málefnin eru aukaatriði. En þau koma næst. Vaka og Röskva eru cirka jafn stór, þannig að hvor sem vinnur, þá verður annar alltaf að taka hinn með í reikninginn.

Sem veldur því að flokkarnir berjast gegn hvor öðrum, gegn EIGIN STEFNUMÁLUM bara vegna þess að hinir eru með þau líka. Svo ef þau álpast til að ná einhverju í gegn, þá gagga þau á hina: In your face! Eins og þau hafi verið að ná einhverju í gegn sem var þeim á móti skapi.

Ég styð engan flokk sem veldur því að ég þarf að borga meira. Allir pólitískir flokkar valda verðlagshækkunum. Ég held ekki með neinum flokki.

Gefið mér bjór, og ég styð ykkur. Ef ekki... ja, angrið mig þegar ég er edrú og ég borða úr ykkur lifrina.

This site is certified 57% EVIL by the Gematriculator

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Dagur 327:

Það er hlýtt í dag. Svo hlýtt, að appelsínuguli kötturinn hefur ekki látið sjá sig.

Í gær drakk ég mikið te, og borðaði mikið af súkkulaðiköku. Ég giska á að það hafi valdið því hve skemmtilegan draum mig dreymdi í nótt. Stundum er það þannig, að mann dreymir skrýtna drauma ef maður borðar fyrir svefninn. Þessvegna reyni ég alltaf að fá mér smá snarl þá.

Annars er það merkilegt hvað þeir vilja oft verða mónókrómatískir.

Ég sé litríkari hluti ef ég stend snöggt upp.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Dagur 325:

Glápti á sjónvarpið í gær.

Í dag er ég að hugsa um að kveikja kannski á því líka.

laugardagur, janúar 22, 2005

Dagur 324:

Og hvað gerir maður í dag?

Ekkert, svosem.

Einhverjar aðrar hugmyndir?

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Dagur 322:

Þú!!!

Samkvæmt einföldu leikskólareglunni þinni, get ég ekki tjáð mig um þig. Eða nokkurn annan. Og þú ekki um mig. Neibb. Ekki hægt. Því að: Ef þú segir eitthvað um aðra þá ertu það sjálfur og margfalt meira. Eða, eins og littlu krakkarnir segja: "Þú ert það sem þú segir sjálfur".

Sem er bara rangt.

Við skulum fyrst fara út í hvernig það er rangt, röklega:

Ef ég segi við þig, Þóranna: "Þú heimska kona!"

Hvað gerir það mig? Er ég eitthvað af þessu? Við skulum einfalda þetta aðeins:

A gengur upp að B, og segir við B: "B=B".

En samkvæmt kenningunni hér að ofan, er þetta rangt, því allt það sem A segir, getur einungis gilt um A. Semsagt:

A gengur upp að B, og segir við B: "B=A".

Sem sagt, mjög margt sem maður segir um sjálfan sig er rangt, því það á við um eiginleika sem maður ætlar öðru fólki. Ég er í raun bundinn við að tala aðeins um sjálfan mig. Ég veit að ég er stórmerkilegur náungi og allt það, en það er svo mikið af liði þarna úti sem ég tel mér trú um að ég þurfi að tjá mig eitthvað um.

En er það það eina? Er þetta aðeins bundið við fólk? Hvað með dýr?

Ef ég segi til dæmis: "En hvað þetta er loðinn köttur", er ég þá ekki að segjast vera loðinn köttur? því þú manst, að ég er allt sjálfur sem ég segi við aðra, rétt?

En um hluti? Staðhæfingin: "Þetta hús er rautt", ber það með sér að ég er að segja eitthvað um eitthvað sem er ekki ég, og ég get ekki talað um neitt annað en sjálfan mig, svo ég hlýt að vera rautt hús, ekki satt?

Eða er þetta alfarið tengt fólki?

Skoðum nú hvernig er rangt að halda þessu fram út frá notkun tungumálsins sjálfs:

Ef þú segir eitthvað um aðra þá ertu það sjálfur og margfalt meira.

Að segja eitthvað um einhvern annan er að segja hvaða álit ég hef á einhverjum, hvað ég sá einhvern aðhafast, hvað ég held að einhver hafi verið að aðhafast, ýmis vitneskja sem ég hef um einhvern; hvað hann er þungur, gamall, hár í loftinu, hvar hann býr.

Ég get einungis talað um mig. Ég get einungis lýst mér, tjáð mig um mig. Ég get ekki sagt frá neinum öðrum, hvorki til góðs né ills. Hluti tjáningar-getunnar hefur verið fjarlægður.

Ég get ekkert sagt um þig.

Ég get ekki sagt: "Þóranna er svo vinaleg og góð stelpa", því það getur aðeins þýtt: "ég er vinaleg og góð stelpa", og ekki bara það, ég er margfalt vinalegri og betri stelpa en ég er. -því ég get ekki tjáð mig um aðila sem eru ekki ég.

Sem þýðir, að ef ég reyni að tjá álit mitt á öðru fólki, er ég að ljúga einhverri bölvaðri steypu uppá sjálfan mig. Ekki er ég vinaleg og góð stelpa. Ég væri það ekki jafnvel þó ég færi í kjól og háhælaða skó. Gleymdu því.

Ég get ekki einusinni sagt hvernig hárið á þér er á litinn. Ég get logið til um minn eigin háralit, en get ekki tjáð mig um þinn.

Skoðum aðeins siðferðilega vandamálið sem kemur upp:

Er rétt að segja þetta við litla krakka? Ræna þá getunni til að tjá tilfinningar sínar í garð annarra? Lýsa útliti fólks í eigin orðum? Minnka við þá notkunareiginleika tungumálsins?

Við yrðum að tjá okkur eingöngu með látbragði: ef mér væri illa við þig myndi ég neyðast til að slá þig, því ég gæti ekki sveiað þér í orði, ef mér væri hlýtt til þín yrði ég að klóra þér bak við eyrað, og svo framavegis.

---

Ég segi, leyfum fólki að segja "þessi og hinn er fífl". Í nafni tjáningarfrelsis. Við erum ekkert bundin við það að trúa hverju orði sem einhver gaur af handahófi segir um einhvern sem við höfum aldrei hitt. Og leyfum okkur ekki að dæma af eigin orðum þá fífl sem kalla aðra fífl. Hver veit nema þeir hafi rétt fyrir sér?

Amen.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Dagur 321:

Hagfræði 001:

Ríkið er að láta smíða fyrir sig stíflu. Stíflan kostar X mikinn pening, og vinnan við hana kostar Y mikinn pening.

Svo Ríkið bíður stíflugerðina út, og viti menn, X er bara föst tala sem ekki verður breytt, en, Y, það er hægt að lagfæra:

Fyrirtæki A er íslenskt, og ræður íslenskt vinnuafl til stíflugerðar. Fyrirtækið borgar hverjum verkamanni 200.000 krónur á mánuði.

Fyrirtæki B er líka íslenskt, en það ræður pólverja, sem taka jobbið að sér fyrir einungis 120.000 krónur.

Fyrirtæki C er ítalskt, og það ræður kínverja sem taka þetta að sér fyrir 60.000 kall.

Förum nú yfir þetta:

Af 200.000 kr er tekinn 38% skattur. Þannig að í raun er ríkið bara að borga hverjum íslending 124.000. Íslendingar eiga það til að eyða megninu af sínum pening innanlands, og það þýðir að þeir eru að greiða að jafnaði 20% í söluskatt af öllum laununum sínum, tolla og vörugjöld og hvaðeina, og það reiknast til 35-40% af öllum þeirra pening. Það er 80.600 - 68.200 á mánuði sem ríkið er í raun og veru að greiða þeim. Þar að auki, þar sem þeim fjármunum er eitt innan lands, þá ýta þeir undir hagkerfið og skapa vinnu, svo fleiri geta borgað þessi 38%, sem þýðir að á endanum hagnast ríkið.

Af 120.000 kalli er tekinn 10% skattur. Þannig að í raun er ríkið að borga hverjum pólverja 108.000 kall. Pólverjar fara með allan sinn pening til Póllands, þannig að ríkið er í raun að greiða 108.000 krónur. Þar sem allur þessi peningur fer úr landi, skapast engin störf í kringum hann, og ríkið fær ekkert til baka annað en þessi 10%.

Af 60.000 kalli er enginn skattur tekinn. Sá peningur fer beint til Kína. Sem leiðir til uppbyggingar í Kína, sem er, svo framarlega sem ég veit, eitthvað land í asíu.

Ef þú værir ríkið, hvað myndir þú velja?

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Dagur 320:

Oft rekst ég á orð og frasa sem hljóma einstaklega illa í mínum eyrum. Hvaða frasar eru þetta, og hvað þýða þeir? Ég hef mínar kenningar um það:

Frasar:

"Þessi orð dæma sig nú sjálf": Þýðir í alvörunni: Þessi orð voru mjög ó-PC, og allir sem eru sammála þeim eru fífl, og verða útskúfaðir úr samfélagi heilagra að eilífu, Amen.

"Ég er auðvitað ekki að segja að ég sé sammála neinu af því sem X segir, en...":Þýðir í alvörunni: X sagði eitthvað voðalega ó-PC sem mér finnst athyglisvert, ekki lemja mig.

"Auðvitað eru ekki allir með sömu skoðanir, og það er gott, en því miður eru ekki allir á sömu skoðun og við": Þýðir í alvörunni: Það er slæmt að allir skulu ekki vera á sama máli og ég, því ég er svo ofsalega PC. (Þetta heyrðis mjög oft þegar þjóðernissinninn þarna var kærður fyrir að tjá sig.)

Einstök orð:

"Sendiráð": elliheimili fyrir aldraða stjórnmálamenn, og sem slíkt, hluti af heilbrigðiskerfinu.
"Stofnun": gamalt orð sem merkir stofnun á vegum ríkisins. Úrelt. Nú heitir það "hús".
"Ósamræmi": orð, sem felur í sér bann við sjálfstæðum stíl.
"Umhverfismat": hömlur á nýbyggingar - komið upp til þess að menn geti ekki bara vaðið uppi og smíðað það sem þeir vilja á sinni eigin lóð fyrir lítinn pening.
"Auðvitað": orð sem er notað til að byrja setningar sem standast illa nánari skoðun, en eru það sem hávær hópur hefur í frammi. Dæmi: "Auðvitað þarf að endurskoða stjórnarskrána."
"PC": politically correct. Viðtekin skoðun afar háværs og ofbeldisfulls fólks.
"Ofbeldi": Ofbeldi er aldrei PC nema því sé beint gegn einhverjum sem er ó-PC. Líkamlegt ofbeldi er aldrei PC, andlegt ofbeldi er því aðeins PC að því sé beitt af hópi fólks gegn einstaklingum.
"Einelti": Þegar hópur PC einstaklinga berst gegn ó-PC einstaklingi, en almenningur veit ekki af hverju, og veit þessvegna ekki að ofbeldið er PC, og byrjar að finna til með fórnarlambinu.

Og að lokum:

Dýrt hverfi/dýr lóð: staður þar sem lítið útsýn er, saltrok, skólpdæla, umferðarniður, glæpir og læti um helgar, eða að minnsta kosti þrennt af þessu. Dæmi: 101 svæðið og Ægissíðan.

mánudagur, janúar 17, 2005

Dagur 319:

-Þessi orð dæma sig auðvita sjálf-

Var að hugsa:

Afhverju er það "Bóksali"? Afhverju ekki "Bókasali"?
Eins og það er "Fasteignasali", en ekki "Fasteignsali". Afhverju sleppa þessu "a"?

Ég veit ekki.

Þetta er eins og með mexíkanana hér í denn. Nú heita þeir víst ekki lengur mexíkanar. Veit ei af hverju. Það hljómaði vel. Það hljómaði "rétt".

"Mexíkói" hljómar ekki rétt. Nei. Því út frá því, hlýtur maður að kalla ameríkana "ameríkóa", ekki satt? Þetta er af sama stofni, hefur mér ætíð sýnst.

Og ekki má þá stytta það í "kanann" lengur, það verður að vera "kóinn". Það er bara rangt, á 200 mismunandi vegu er ég viss um.

En versta orðabrenglingin varð þegar "þeir" - þá í merkingunni ekki ég eða neinn sem ég þekki - breyttu "peningaþvotti" í "peningaþvætti". Og svo eru menn látnir komast upp með þetta! Hvað á þetta að fyrirstilla?

Nú, ef þetta á að viðgangast, á maður þá ekki að fara með óhreyna tauið í þvættavélina og nota þvættaefni? Þvættingur.

Nei, segi ég.

Fyrir mér mega mexíkanskir bókasalar þvo peninga. Það angrar mig ekki neitt.

laugardagur, janúar 15, 2005

Dagur 317:

Útvarp. Í útvarpi er vinsælt að hafa menn sem eru hressir og vinalegir, að minnsta kosti ef eitthvað er að marka hann Jón hérna.

Ég er hress, ég er vinalegur - sérstaklega eftir 1-2 flöskur af víni. Ég er málið næstu 70 árin eða svo. Afhverju fer ég ekki í útvarp? Ég get sponsorað vín - gegn einni flösku á dag. Já. Ég gæti verið með minn eigin þátt: "Í glasi í hádeginu!"

Ég get fjallað um daginn og veginn. Ástand mála í Elliðavoginum, snjó, hálku, svoleiðis kjaftæði. Ég get verið með svona útvarp umferðarráð. Já. Ég legg til að andlit verði spreyjuð á þjóðvegina eins og í auglýsingunni, svo ég viti hvar ég á að mökka af stað á kagganum mínum.

Ég hef skoðanir á hlutunum, sem amma telur einmitt að sé mikilvægara en að hafa aðgang að staðreyndum. Hún var nefnilega uppi í móðuharðindunum, og man því ekki stundinni lengur, hvað þá tímana tvenna.

Ég veit allt, ég skil allt, ég fatta allt miklu betur en Ingvi og Stefán.

Ég get talað við hálf-heiladautt fólk alveg eins og þeir hjá dægurmálaúvarpi rásar 2. Ég get gefið vinninga eins og liðið á FM og Bylgjunni. Ég get plöggað baneitraða drykki eins og Diet-þetta og Max-hitt.

Eða:

Ég get alveg verið í sjónvarpi!

Ég get alveg mætt heim til fólks og sagt því að húsgögnin þess séu athyglisverð. Ég get spurt hvort hlutir séu frá Epal, Kópal eða PayPal.

Ég get setið kjur í klukkutíma og lesið upp random bull sem ég eða einhver annar hefur grafið upp af internetinu, alveg eins og Auddi og Sveppi.

Ég get alveg sett upp illskuglott og spurt fólk hvað flaug í huga þess þegar barnið þess dó, og rætt svo um sæta kettlinga strax eftir hlé, eða talað við fórnarlömb eineltis og nauðgana og snjóflóða, eða fólki sem varð fyrir einelti eftir að því var nauðgað á meðan það lenti í snjóflóði og missti öll börnin sín, hundinn, köttinn, báðar beljurnar og páfagaukinn, og farið svo útí að ræða blómaskreytingar, alveg eins og Sirrý.

Ég get alveg fengið til mín rithöfunda, og tilkynnt þeim: "Nú var að koma út eftir þig bók."

Ég tel mig líka vera fullfæran um að sjóða saman leikna seríu, líkt og mörgum á undan mér hefur mistekist. Trykkið er að hafa hvern þátt bara nógu stuttan. Svona korter.

Ég kíki á það ef ég fæ ekki vinnu í álverinu.

This site is certified 57% GOOD by the Gematriculator

föstudagur, janúar 14, 2005

Dagur 316:

Hef verið að fylgjast með samgöngum til eyja með öðru eyranu. Sá til dæmis í blaðinu um daginn hugmyndir um að koma upp ferðum með loftskipi, svona zeppelin/goodyear tæki, í stað Herjólfs.

Nú, fyrir þá sem komu með þá hugmynd, er ég með eitt orð: Ófært.

Það vill nefnilega svo skemmtilega til, að á svæðinu milli lands og eyja vill verða ansi vindasamt stundum, 8-12 vindstig. Giska ég á að afar léttur hlutur með stórt yfirborð, eins og loftskip, myndi auðveldlega fjúka, jafnvel alla leið til grænlands í slíku veðri.

Á meðan slíkt veður stæði yfir, yrðu því ferðir að A: bjóðast hvert sem er undan vindi, eða B: leggjast niður.

Flugfélagið getur flogið í allt að 8 vindstigum, gefið að vindur sé bæði stöðugur, þ.e. komi ekki í einhverjum brjálæðislegum viðum, og sé beint á braut. Loftskip þarf á logni að halda, helst, til að það taki ekki mánuð að fara á milli.

Hugmyndin um göng, hinsvegar, hefur á sér þá gagnrýni að hún sé dýr - sem mér finnst della. Ef það eru til 800 millur fyrir sendiráði í þýskalandi sem við þurfum ekki (betra væri að notast við ræðismann þar, það kosta ekkert), þá höfum við efni á 20 milljarða göngum sem við þurfum.

Loftskip???

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Dagur 314:

Mér er drulluheitt. En ég er vel klæddur til að forkelast ekki, því það væri slæmt vegna kvefsins sem ég er með.

Þegar maður er með kvef og hálsbólgu eins og ég, er gott að fá sér brenni, en brenni (AKA victory) inniheldur eter, sem er milt verkjastillandi efni. Það stendur amk í innihaldslýsingunni. Annars er brenni ekkert spes sem slíkt. En ég er voða lítið fyrir nammi almennt.

Gott er að fá sér smá súkkulaði öðru hvoru. Fyrir jól nældi ég mér í svona flöskur með vínanda inní. Gott stöff. Einusinni var hægt að fá hringi fulla af koníaki. Þá hef ég ekki séð lengi. Ætli sé búið að banna þá?

Það væri eftir öllu.

Te er líka gott ef maður er með kvef.

Hinsvegar er ekki til nein lækning við kvefi. Þið getið tekið það sem þið viljið, en kvefið fer ekki fyrr en það vill.

mánudagur, janúar 10, 2005

Dagur 312:

Frétti um daginn að það þarf sér leyfi til að vítamínbæta matvæli. Sem fékk mig til að hugsa:

Það er ekki búið að sækja um leyfi til að vítamínbæta neitt frá General Mills: Cocoa Puffs, Cheerios, Lucky Charmas; Kellogg's: Corn Flakes, Special K.

Er þetta stöff þá ekki ólöglegt?

Bara spyr.

Ég veit að fyrir nokkru tóku danir uppá þeim óskunda að láta fjarlægja næringarefni úr öllum þarlendum bjór. Finniði ekki hvernig þið verðið alltaf aðeins þynnri af Carlsberg en Corona?

Nú er það víst gert við allan evrópskan bjór. Nú er maltöl einskonar bjór. Er þá ekki búið að afnema úr því næringarefni líka?

Þær eru undarlegar þessar reglugerðir. Þeim tekst alltaf að vera uppá kant við alla skynsemi. Bæði innlendum sem og útlendum. Kannski er þetta keppni? Hvaða land er með vannærðustu fitubollurnar.

Gæti verið, gæti verið.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Dagur 311:

Glápti á Silfur Egils áðan.

Þessi gæi var þar að reyna að réttlæta tilvist Symfóníuhljómsveitar íslands. SÍ stendur ekki undir sér fjárhagslega, og verður að fá fullt af styrkjum til að ganga upp.

Gæinn hjá Agli hélt því fram, að tónlist á Íslandi afkastaði 1% af þjóðartekjum Íslands. Gott og vel. Gefum okkur það. Symfónían étur upp pening, en gefur ekkert af sér. Það er vitað. Svo symfónían er ekki hluti af þessu 1%, heldur mínus stærð á þessu 1%. Þá kemur semsagt meira inn gegnum íslenska músík en kallinn segir.

Kallinn segir líka að symfónían sé góð fyrir tónlistarskólana. Má vera. En ekki allir sem læra tónlist fara í symfóníuna. Sumir fara í hljómsveitir sem gefa af sér pening. Get ég nefnt í því sambandi hina margfrægu en að mínu viti ömurlegu hljómsveit Sigurrós, sem er full af liði sem kann á hljóðfæri, ekki ósvipað liðinu sem er í Symfóníunni.

Hvað annað gengur vel í útlandann? Mínus... Maus, hef ég heyrt, Quarashi - það er a.m.k einn gæi þar sem kann á eitthvað hljóðfæri. Man ekki eftir meiru, fylgist ekki það vel með.

Nú vilja örugglega margir benda mér á að klassísk tónlist er spiluð með fiðlum og sellóum og slíku dóti sem er ekki notað við iðkun neinnar annarrar tónlistar, og þeir sem kenna á slík tæki yrðu þá sennilega atvinnulausir.

Nú veit ég hinsvegar ekki betur en pönkarinn Magga Stína spili á fiðlu, og gæinn í Todmobile spilar á ... stórt strengjahljóðfæri af gerð mér alls ókunnri. Ég hef meira að segja nýlega heyrt í sembal, og það var ekki í neinu klassísku tónverki frá 18. öld heldur.

En sem sagt, Symfónían er enginn sérstakur grundvöllur fyrir tónlistarskólana. Reyndar virðist mér það væri best ef liðið færi bara inn í næsta bílskúr til að æfa einhverja músík sem Bakk og Mósart hafa ekki komið nálægt.

laugardagur, janúar 08, 2005

Dagur 310:

Eldaði spaghetti í gær. Amma bað um smá, svo ég sauð smá fyrir hana líka. Setti töluvert minna af pipar á hakkið sem ég ætaði henni, og bara örlítið karrí. Samt kvartaði hún undan sviða.

Ég setti þrefalt meira af pipar á mitt, og mér fannst það bara milt. Ég held, að ef ég geri þetta einhverntíma aftur, setji ég engan pipar á ömmu skammt. Hún virðist ekki þola það.

En, ef ég krydda hakkið ekki, þá finnst á bragðinu að það er byrjað aðeins að slá í það... sem er að vísu ekki vandamál fyrir ömmu. Þegar amma var ung þótti nú ekki mikið varið í kjöt þegar það var nýtt. Nei. Það var ekki talið neyzluhæft fyrr en það var orðið grátt, og lyktaði eins og sjálfdautt, vatnssósa hræ.

Nú er öldin önnur. Mikið er ég sáttur við að vera uppi á 21. öldinni, og hafa stundum aðgang að ferskum hráefnum.

Nema karríið - ég held að það sé minnst 5 ára gamalt.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Dagur 308:

Og þá er ég kominn til RKV aftur.

Það er líka snjór hér. Bíllinn fór í gang. Það var, og er, þykkt snjólag á honum. Merkilegt hvað þessi bíll þolir frost mikið betur en Range Roverinn gerði. Ég get á þessum bíl bæði opnað dyrinar OG lokað þeim aftur í frosti.

Já.

Svo fékk ég síma í jólagjöf. Þannig er það alltaf. Foreldrar mínir gefa mér alltaf í jólagjöf það sem þeim finnst ég þurfa. Svo nú getur hvaða bjáni sem er hringt í mig. Vúppí.

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Dagur 306:

Það er nú meira veðrið. Í gær lék allt á reiðiskjálfi. Nú er bara vindur, en nógu hvasst fyrir það. Það held ég að ég verði aðeins seinn til RKV úr því það á að vera svona.

Það er á svona dögum, sem gott væri að hafa göng. Þegar kemur að því að ræða um það, er viðkvæðið alltaf: Það eru engir peningar.

Það eru víst til peningar, þeir renna bara ekki í vegakerfið. Ef þeir rynnu þangað, þá værum við með bezta vegakerfi í heim; göng gegnum hvert fjall og undir hvern fjörð, almennileg gatnamót, ekki þessi ljós útum allt.

Hverjum bíl á íslandi er nefnilega ekið yfir 10.000 kílómetra á ári. Miðað við 100.000 bíla, og að meðaltali 10 lítra eyðzlu á hundraðið, gera það hundrað lítra á hverja 100.000 bíla, sem eru 10.000.000 lítrar af eldsneyti, sem kosta 1.000.000.000 krónur. Af því tekur ríkið 80%, sem eru 800.000.000 krónur á ári.

Sem er vanáætlað um örugglega 100%.

Fyrir þennan pening væri hægt að stunda vegagerð þvers og kruss um landið án þess að hafa áhyggjur af því hvað það kostaði.

En peningarnir virðast fara einhvert annað en til okkar sem þurfum þá.

Það tekur varla nema 2-3 ár að safna fyrir göngum. Það sem við þurfum er Árna Johnsen aftur. Hann skilaði afköstum, meir en nokkur annar þingmaður, hvar sem er á landinu. Þessi gæji sem er núna honum er alveg sama um okkur í eyjum. Hann má hverfa.