laugardagur, janúar 08, 2005

Dagur 310:

Eldaði spaghetti í gær. Amma bað um smá, svo ég sauð smá fyrir hana líka. Setti töluvert minna af pipar á hakkið sem ég ætaði henni, og bara örlítið karrí. Samt kvartaði hún undan sviða.

Ég setti þrefalt meira af pipar á mitt, og mér fannst það bara milt. Ég held, að ef ég geri þetta einhverntíma aftur, setji ég engan pipar á ömmu skammt. Hún virðist ekki þola það.

En, ef ég krydda hakkið ekki, þá finnst á bragðinu að það er byrjað aðeins að slá í það... sem er að vísu ekki vandamál fyrir ömmu. Þegar amma var ung þótti nú ekki mikið varið í kjöt þegar það var nýtt. Nei. Það var ekki talið neyzluhæft fyrr en það var orðið grátt, og lyktaði eins og sjálfdautt, vatnssósa hræ.

Nú er öldin önnur. Mikið er ég sáttur við að vera uppi á 21. öldinni, og hafa stundum aðgang að ferskum hráefnum.

Nema karríið - ég held að það sé minnst 5 ára gamalt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli