sunnudagur, mars 30, 2008

Dagur 26 ár 4 (dagur 1486, færzla nr. 667):

Þá er fermingin hans Björns búin, með tilheyrandi tveggja daga átveizlu. Það verður að hafa svone veizlu. En hvað svo? Nú er engin ferming fyrirsjánleg næstu 14 árin eða svo, nema einhverjumdetti í hug eitthvað sniðugt til að veizlast útaf. Það þar jú að nota húsið. Og grillið.

Það var eitthvað verið að hafa áhyggjur af veðri. Ég gluggaði veðrinu bara upp á netinu. Það er náttúrlega bara mamma sem hefur áhyggjur af því, enda hefur hún sérstakt lag á að ferðast þegar það er ekki fært.

Það var nú frekar hlýtt í Eyjum miðað við hvernig það er hér. Það er við frostmark hérna. En það kom svo mikill jökull niður á eyjuna þarna um daginn, að hann verður ekki farinn fyrr en þar næsta sumar, giska ég á.

Svo hringdi útgefandi í mig. Sá er að spá í að gefa út þetta schlock-horror ritverk mitt. Heyri betur um það í næstu viku, hvort honum lýst eitthvað á það þá. Kannski tekst mér ætlunarverkið, að komast í jólabókaflóðið, hver veit?

***

Mynd:

mánudagur, mars 24, 2008

Dagur 20 ár 4 (dagur 1480, færzla nr. 666):

Vegna fjölda áskorana:

Ford Fairmont:



Þetta er 1978 módel Ford Fairmont. Ég veit það vegna þess að ég á bæklinginn sem umboðið var með fyrir fólk að skoða. Þessi mynd er í honum. Svo þið skiljið það sem ég meina:

1979 Fairmont:



1983 Fairmont:



Sjáið muninn? Þetta eru í alvörunni 1979 Fairmont og 1983 Fairmont.

Fairmont voru smíðaðir milli 1978 og 1983, nema maður vilji telja með LTD týpurnar sem komu á eftir og voru smíðaðar alveg þar til Taurus tók við 1985-6. Fairmontinn var skilgreindur sem Smábíll, enda ámóta langur og Volvo 240, sem er bara smá-dós miðað við venjulegan bíl frá sama tíma, til dæmis Ford LTD, eða Marquis, eða Fury MK III, eða Chevrolet Caprice.

Ford Fairmont kom fram þegar Bandaríkjamenn voru byrjaðir að fatta að orkukreppan hafði gerst, og á sama tíma voru sett í gildi einhver lög sem bönnuðu Detroit að framleiða bíla sem gengu fyrir blý-bensíni. Kaninn er snöggur að fatta. Orkukreppan skall á 1973. Það voru líka einhverjar kvaðir á hve miklu eldsneyti kagginn mátti ganga fyrir. Það mátti ekki lengur bara stika út einhverja lengd, segja bara svona langur á bíllinn að vera, henda 8 lítra vél fremst og helvítis helling af leðri og flottheitum og kalla það bíl.

Það var um það bil þá sem Amerískir bílar hættu að vera flottir. Og með þeim, smám saman allir aðrir bílar. Tíu-fimmtán árum seinna komust japanar að því hvernig á að smíða blikk sem ryðgar ekki í gegn á 4 mánuðum, og þá lágu þeir alvarlega í því.



Fairmont var til í ýmsum útfærzlum.

Aftur að Fairmont: Þessi sami undirvagn og Fairmont er á var á sama tíma notaður á undir Ford Mustang. Sem hefur verið... skelfilegt.

Ég ók einusinni svona bíl:



1985 Ford LTD (L stendur fyrir "L", T stendur fyrir "T" og D stendur fyrir "D".) Þetta er bara Fairmont með öðrum fram og afturenda, en að öðru leiti eins. Jú, vélin í þessu er 3 lítra V-6. Hann einhvernvegun dróst áfram, rann ekki yfir eins og flestir amerískir bílar fyrr og síðar, heldur... ja... dróst. Rispaðist einhvernvegin áfram. Hvernig hefur þá Mustanginn verið?

Það var í upphafi hægt að fá þessa bíla með 4 mismunandi vélum: 140 tommu 4 sílyndra, 200 tommu 6 sílyndra línuvél - sem er týpan sem var í bílnum hans afa, og 255 og 302 V-8.

Ekki var þessi 200 mótor nú upp á marga fiska. Ég hefði ekki boðið í 4 sílyndra vélina. Það hefur verið ógnvekjandi. Ef maður hefði tekið af stað árið 1978 væri maður enn ekki kominn upp í 100.

Ford seldi alveg helling af þessu. Þetta voru jú alveg voða praktískir bílar, eyddu til dæmis miklu minna en 30 á hundraðið.

Sætin voru afar þægileg. Sem var eins gott í tilfelli afa bíls, því framsætin hölluðu ískyggilega aftur, og það var ekkert hægt að breyta því neitt. Svo voru öll þessi hljóð: suð þegar maður skildi lyklana eftir, píp þegar maður var ekki búinn að spenna beltið, og þar fram eftir götunum.



Ískyggilegt. Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar bílar voru ekki bara svartir að innan by default. Núna... svei. Dodge Aries bíllinn sem ég átti var blár að innan. Blazer jeppinn sem hann pabbi var með inni í skúr var líka blár að innan, Buickinn var (og er) rauður.

Þetta er svo miklu hlýlegra. Svo virkar þetta allt svo nett og meðfærilegt. Það var til dæmis alvöru vökvastýri, sem maður gat bara notað með mættinum, en ekki þetta djöfuls rusl sem er í öllum bílum núna sem maður veit ekkert hvort eru með vökvastýri eða ekki. Maður fær harðsperrur af að keyra nútíma bílum með vökvastýri. Það vandamál var ekki til í Fairmont.

Annað skemmtilegt atriði um þessa bíla: á sama tíma og verið var að selja Fairmont á Íslandi var verið að selja Toyotu MKII. Það þóttu miklu betri bílar í alla staði, miklu betri aksturseiginleikar og minni eldsneytiseyðzla.

Ég fann ekki mynd af svoleiðis bíl, því þeir virðast ekki hafa enst nógu lengi til að fólk hefði rænu á að taka eina. Ég man ekki eftir neinum á götunni eftir 1989. Eða 1987, fyrir það. En Fairmont voru að læðast um göturnar fram til 1996-7.

Ekki voru þessir bílar smíðaðir til að endast. Það voru bara góð efni í þeim.



Í ástralíu framleiddu þeir fairmont, en þeir bílar voru ekkert líkir ameríska Fairmontinum:




Já. Þetta er bíll eins og Mad Max ók um á.

Þeir eru bara nýlega hættir að framleiða bíla undir Fairmont nafninu þarna í Ástralíu.



Þetta er 2006 módel Fairmont. Ég er hreint ekki viss um að þeir litu svona út í USA hefðu þeir enn verið framleiddir. Ég held það hefði bara verið Taurus með öðru nafni.

föstudagur, mars 21, 2008

Dagur 17 ár 4 (dagur 1477, færzla nr. 665):

Þá eru komnir páskar - Föstudagurinn Langi reyndar... Og komið að kvikmynd kvöldsins.

Mér datt í hug að vera með eina mjög páskalega kvikmynd núna, svona í tilefni af föstudeginum langa, og Uppstigningardeginum, og þá á engin kvikmynd betur við en einmitt "Night of the Living Dead"



Þetta er orginal zombí-myndin. Ekkert vúdú, og zombíurnar eru ekkert meinlausar eins og í "White Zombie," þar sem aðal ógnin fólst í að verða breytt í uppvakning og þvingaður til að vinna við sykurframleiðzlu. (Nú til dags vinna aðallega kommúnistar við sykurframleiðzlu, en að vera kommúnisti er svona eins og að vera zombía.)

Já, dauðir rísa og byrja að ráfa um, á meðan slatti af fólki felur sig inni í stóru húsi og rífst á fullu um hver á að ráða. Svo koma rednekkar og bjarga deginum.

Einmitt myndin til að horfa á meðan maður maular páskaeggið. Og hún er svart-hvít. Því það kostar minna að dánlóda svarthvítu.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Dagur 14 ár 4 (dagur 1474, færzla nr. 664):

Ef ég kynni fleiri tungumál, þá gæti ég sagt óviðeigandi hluti á fleiri tungumálum.

Það er einmitt þess vegna að það er mjög mikilvægt fyrir mig að kunna ekki of mörg tungumál.

This site is certified 52% EVIL by the Gematriculator

laugardagur, mars 15, 2008

Dagur 11 ár 4 (dagur 1471, færzla nr. 663):

Skoðum aftur rafmagnsbíla. Ég er búinn að benda á Reva-bílinn, sem mun ná 40 mílum á fyllingu. Sem er of lítið. Bíllinn er nánast óökuhæfur á höfuðborgarsvæðinu, nema fyrir fólk sem ekur grunsamlega lítið. Ég meina, ég ók einusinni 350 km yfir eina helgi, að meðtöldum föstudegi. Það eru meira en 100 km á dag. Og það þarf að skifta um batterí á 3 ára frsti, og þau eru ekkert ókeypis.

En þessi Reva bíll virðist samt besti bíllinn, því samkeppnin er:

Dynasty Rafbíllinn:



Framleiddur í Kanada, og kemst aumar 30 mílur (50 km) á hleðzlunni. Sömu batterí, þyngri bíll. Skárri í útliti og stærri, en jafnvel enn óhagkvæmari. Svo kemst hann varla úr sporunum. Kostar svipað og Reva-bíllinn.

Detroit electric:



Helsti ókostur: ekki framleiddur í næstum 70 ár. En hann komst töluvert lengra á hleðzlunni en Reva bíllinn, eða 80 mílur. Hah! Hámark tækni, eða hitt þó...

Th!nk (sic):



Töff... ekki. (þetta bil á eftir, það er þar sem mennirnir sem voru að ýta stóðu, áður en þeir voru fótósjoppaðir af myndinni.)

Á að komast 170 km ef það er slökkt á miðstöðinni. Og það er sumar. Og ef enginn er í bílnum á meðan. Örugglega lúðalegasti blæjubíll sem völ er á. Og fyrir u.þb 2 milljónir króna, í Evrópu - sem þýðir vel yfir 3.5 hingað kominn, þá er nú skárra að kaupa Ford ka, og aka þeim bíl út.

Zap:



Kínverskur bíll, fánalegur hjá bíllinnsemlíturúteinsoghamstur.com. Nær 60 km/h, og kemst úr úr innkeyrzlunni á aðeins einni hleðzlu. Þar að auki eru bara 3 hjól undir þessu, eins og á Robin Reliant, sem er frægur bíll úr Mr. Bean þáttunum - og við vitum öll hvernig gekk að halda þeim bíl á 2 hjólum.

Tesla:



Sem er ekki seldur hér. Og það er biðlisti. Og bíllinn myndi kosta 13 millur+ hingað kominn. Og hann tekur bara 2 í sæti - (en að halda því fram að Reva bíllinn sé 4 manna er eins og að halda því fram á Pajero-jeppi sé 7 manna, svo það er eiginlega ekkert spes.)

En þessi bíll ber höfuð og herðar yfir allt hér að ofan. Öll tæknin er margfalt betri. Rafgeymirinn á að endast í 150.000 kílómetra, bíllinn á að komast 220 mílur á einni hleðzlu, sem tekur 3.5 tíma að hlaða aftur. Og hann er yfir 250 hestöfl og 4 sekúndur í hundraðið með hámarkshraðann 200 km/klst.

Það er augljóslega miklu betra batterí í honum. Af hverju í dauðanum er ekki þessi rafhlaða í hinum bílunum? Ég er viss um að Reva bíllinn kæmist umhverfis landið á hleðzlunni með þeirri rafhlöðu sem er í Tesla bílnum. Þetta eru rafhlöður eins og eru í símanum mínum! Hvurn andsk...

Bíll með sama krami, en 4 dyrum, skotti og plássi fyrir 4 farþegar og hund myndi slá almennilega í gegn. Það yrði hinsvegar að smíða hann úr einhverju öðru en koltrefjum. Þær eru alveg endalaust dýrar. Bara þakið kostar 3200 dollara, sem er 1/3 af því sem heill Reva bíll kostar út úr búð í útlandinu. Sem þýðir að bara boddíið kostar meira en milljón. Að auki kosta sportbílar alltaf meira í framleiðzlu en allt annað. Svo venjulegur fjölskyldubíll úr áli þyrfti ekki að kosta "nema" 7-8 millur hingað kominn. En ég veit það ekki.

Tæknin er til, þessi bíll sannar það. Af hverju er hún ekki notuð?

fimmtudagur, mars 13, 2008

Dagur 9 ár 4 (dagur 1469, færzla nr. 662):

Ég fékk svar hjá JPV núna áðan. "Nei takk," sögðu þeir. Engum sögum fer af hvernig þeim líkaði. Þá er bara að simsöbba á nokkra aðila. Nyhil lofar góðu. Hljómar amk mjög schlock-lega eitthvað.

Annars eru fórnarlömb mánaðarins: Nýhil, Ormstunga og Uppheimar. Ef það gengur ekki... ja, ég hlýt að geta skrifað eitthvað aðeins barn-vænna, og prófað setberg.

Ég geri mér fulla grein fyrir að ég skrifa pulp. Ég gæti keppt við Henri Vernes. Eða þennan Hugleik. Og allt sem ég skrifa er sjálf-auglýsandi. Ég verð auglýstur í dægurmálaútvarpi Rásar 2, kvörtunardeild. Fokk je!

Kannski verður bókin svo bönnuð. Það væri töff. En fyrst þyrfti hún náttúrlega að koma út.

mánudagur, mars 10, 2008

Dagur 6 ár 4 (dagur 1466, færzla nr. 661):

Í ljósi þess hve bensín er að verða dýrt, þá er spurning að splæsa á einn svona: Reva.

Verst hvað bíllinn er ógeðslega dýr: næstum 1.800.000 fyrir grunntýpuna. Það er svona 1.000.000 of mikið. Þetta er framleitt á Indlandi! Hvernig tollar eru eiginlega á þessu? Söluskatturinn er bara sa´sami og á öllu öðru. Sem leiðir hugann að hve mikið rafhlöður eiginlega kosta.

En: Hann gengur ekki fyrir bensíni. Sem er gott ef maður er í Eyjum, eða í litlum kaupstað úti á landi, vegna þess að hann á að komast allt að 80 km. Sem er ekki mikið í borg óttans, en alveg skítnóg úti á landi. Nema maður hafi hugsað sér að keyra frá Akureyri til dalvíkur. Þá er þetta ansi glatað farartæki.

Og 670 kílóa bíl þarf líklega að tjóðra í verstu veðrunum.

Hmm... ekkert bensín...



Þetta er ljótur andskoti. Og dýr. Rán-dýr.

Kostir: ódýr í akstri. Ókostir: stærð, útlit, drægi og verð.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Dagur 2 ár 4 (dagur 1462, færzla nr. 659):

Sá það var hægt að fá páskaöl. Páskaöl. Það var nú ágætt. Jæja, varð að prófa það. Það er svosem hugsanlegt að ég hafi smakkað það einhverntíma áður, en gleymt því.

En var ölið páskalegt? Æ, ég veit ekki. En það var smá gult bragð af því. Ég er á því. Ef maður ætti að ímynda sér hvernig gult væri á bragðið, þá væri það ósköp keimlíkt. Kannski með minna gosi samt.

Já. Þetta var svona eins og safi kreistur úr páskaungum á bragðið. Þannig einhvernvegin var þetta. Jólaölið fannst mér betra. Og maður fær ekki upp í hugann einhvern kreistandi safa úr páskaungum oní fötu þegar maður er að drekka það.

miðvikudagur, mars 05, 2008

Dagur 1 ár 4 (dagur 1461, færzla nr. 658):

2008-2004 = 4, sem þýðir ár 4.
4*365 = 1460, + 1, því það er hlaupár; dagur 1461.

Þar höfum við það.

Já... mynd:



Artý.