mánudagur, mars 24, 2008

Dagur 20 ár 4 (dagur 1480, færzla nr. 666):

Vegna fjölda áskorana:

Ford Fairmont:



Þetta er 1978 módel Ford Fairmont. Ég veit það vegna þess að ég á bæklinginn sem umboðið var með fyrir fólk að skoða. Þessi mynd er í honum. Svo þið skiljið það sem ég meina:

1979 Fairmont:



1983 Fairmont:



Sjáið muninn? Þetta eru í alvörunni 1979 Fairmont og 1983 Fairmont.

Fairmont voru smíðaðir milli 1978 og 1983, nema maður vilji telja með LTD týpurnar sem komu á eftir og voru smíðaðar alveg þar til Taurus tók við 1985-6. Fairmontinn var skilgreindur sem Smábíll, enda ámóta langur og Volvo 240, sem er bara smá-dós miðað við venjulegan bíl frá sama tíma, til dæmis Ford LTD, eða Marquis, eða Fury MK III, eða Chevrolet Caprice.

Ford Fairmont kom fram þegar Bandaríkjamenn voru byrjaðir að fatta að orkukreppan hafði gerst, og á sama tíma voru sett í gildi einhver lög sem bönnuðu Detroit að framleiða bíla sem gengu fyrir blý-bensíni. Kaninn er snöggur að fatta. Orkukreppan skall á 1973. Það voru líka einhverjar kvaðir á hve miklu eldsneyti kagginn mátti ganga fyrir. Það mátti ekki lengur bara stika út einhverja lengd, segja bara svona langur á bíllinn að vera, henda 8 lítra vél fremst og helvítis helling af leðri og flottheitum og kalla það bíl.

Það var um það bil þá sem Amerískir bílar hættu að vera flottir. Og með þeim, smám saman allir aðrir bílar. Tíu-fimmtán árum seinna komust japanar að því hvernig á að smíða blikk sem ryðgar ekki í gegn á 4 mánuðum, og þá lágu þeir alvarlega í því.



Fairmont var til í ýmsum útfærzlum.

Aftur að Fairmont: Þessi sami undirvagn og Fairmont er á var á sama tíma notaður á undir Ford Mustang. Sem hefur verið... skelfilegt.

Ég ók einusinni svona bíl:



1985 Ford LTD (L stendur fyrir "L", T stendur fyrir "T" og D stendur fyrir "D".) Þetta er bara Fairmont með öðrum fram og afturenda, en að öðru leiti eins. Jú, vélin í þessu er 3 lítra V-6. Hann einhvernvegun dróst áfram, rann ekki yfir eins og flestir amerískir bílar fyrr og síðar, heldur... ja... dróst. Rispaðist einhvernvegin áfram. Hvernig hefur þá Mustanginn verið?

Það var í upphafi hægt að fá þessa bíla með 4 mismunandi vélum: 140 tommu 4 sílyndra, 200 tommu 6 sílyndra línuvél - sem er týpan sem var í bílnum hans afa, og 255 og 302 V-8.

Ekki var þessi 200 mótor nú upp á marga fiska. Ég hefði ekki boðið í 4 sílyndra vélina. Það hefur verið ógnvekjandi. Ef maður hefði tekið af stað árið 1978 væri maður enn ekki kominn upp í 100.

Ford seldi alveg helling af þessu. Þetta voru jú alveg voða praktískir bílar, eyddu til dæmis miklu minna en 30 á hundraðið.

Sætin voru afar þægileg. Sem var eins gott í tilfelli afa bíls, því framsætin hölluðu ískyggilega aftur, og það var ekkert hægt að breyta því neitt. Svo voru öll þessi hljóð: suð þegar maður skildi lyklana eftir, píp þegar maður var ekki búinn að spenna beltið, og þar fram eftir götunum.



Ískyggilegt. Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar bílar voru ekki bara svartir að innan by default. Núna... svei. Dodge Aries bíllinn sem ég átti var blár að innan. Blazer jeppinn sem hann pabbi var með inni í skúr var líka blár að innan, Buickinn var (og er) rauður.

Þetta er svo miklu hlýlegra. Svo virkar þetta allt svo nett og meðfærilegt. Það var til dæmis alvöru vökvastýri, sem maður gat bara notað með mættinum, en ekki þetta djöfuls rusl sem er í öllum bílum núna sem maður veit ekkert hvort eru með vökvastýri eða ekki. Maður fær harðsperrur af að keyra nútíma bílum með vökvastýri. Það vandamál var ekki til í Fairmont.

Annað skemmtilegt atriði um þessa bíla: á sama tíma og verið var að selja Fairmont á Íslandi var verið að selja Toyotu MKII. Það þóttu miklu betri bílar í alla staði, miklu betri aksturseiginleikar og minni eldsneytiseyðzla.

Ég fann ekki mynd af svoleiðis bíl, því þeir virðast ekki hafa enst nógu lengi til að fólk hefði rænu á að taka eina. Ég man ekki eftir neinum á götunni eftir 1989. Eða 1987, fyrir það. En Fairmont voru að læðast um göturnar fram til 1996-7.

Ekki voru þessir bílar smíðaðir til að endast. Það voru bara góð efni í þeim.



Í ástralíu framleiddu þeir fairmont, en þeir bílar voru ekkert líkir ameríska Fairmontinum:




Já. Þetta er bíll eins og Mad Max ók um á.

Þeir eru bara nýlega hættir að framleiða bíla undir Fairmont nafninu þarna í Ástralíu.



Þetta er 2006 módel Fairmont. Ég er hreint ekki viss um að þeir litu svona út í USA hefðu þeir enn verið framleiddir. Ég held það hefði bara verið Taurus með öðru nafni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli