mánudagur, maí 29, 2006

Dagur 82 ár 3 (dagur 812, færzla nr. 415):

Það er ekkert auglýst í dag nema 4 herbergja íbúðir á Spáni.

Í dag sé ég hvort ég fer til Eyja eða held til í RKV. Ég nenni ekki að troðast inná fólk sem hefur ekkert pláss til lengri tíma.

Sem fær mig til að hugsa... ég hlýt að koma þessu rúmi fyrir í kjallaranum hennar ömmu. Mér skilst hann sé stærri en íbúðin hennar. Og amma er búin að segja að hann sé fullur, svo það hlýtur að vera nóg pláss. Stóllinn myndi fylgja með því.

Ég veit að einhver vill hirða þetta borð, þó það sé ljótt. Amma á bollana, og glösin, og skeiðarnar. Reynir eða Þógga & Stjáni eiga helluna.

Hmm... það mun taka smá stund að koma þessu öllu til skila. Skápnum á víst að henda, en ég veit ekki... ég gæti þurft að nota hann. Í geymsluna þá.

Þá hlýt ég að geta komið afgangnum fyrir í bílnum. Ég er ekki með það mikið.

***

Kosningar. Plöh. R-listinn í RKV splittaðist í 3 hópa og fékk samanlagt að mér reiknast til 46% atkvæðanna. Sem er meira en sjálfstæðisflokkurinn fékk. Sem þýðir að fólk hefur ekkert breyst, ekkert lært.

Og afhverju heitir Ólafsfjörður núna Fjallabyggð? Hver samþykkti það? Og hvað er þetta með að kalla allt byggðir og bæi? Var eitthvað að því að kalla það hrepp?

Guðni benti á það í gær að nú heita sum sveitarfélög nöfnum sem myndu hæfa leikskólum eða mongólýtageymslum ágætlega: td, Árborg. Það hljómar svipað og Sólheimar, ekki sagt? Keimlíkt. Maður gæti séð fyrir sér hóp af mongólýzkum krökkum hlaupandi um í einhverju sem héti Árborg. Eða Bláskóabyggð, eða Fjarðarbyggð, (Gott nafn á hippa-kommúnu).

Það myndi enginn ruglast á Vatnsleysustrandarhreppi og leikskóla, eða Húnaþingi vestra og hippakommúnu.

laugardagur, maí 27, 2006

Dagur 80 ár 3 (dagur 810, færzla nr. 414):

Hef ekkert gert undanfarið af viti. Fékk lánaðar nokkrar kvikmyndir hjá Hartmanni. Hef enn séð 3. Þar af hafa 2 verið alveg hrikalega slæmar. Meira að segja myndin um risa-kolkrabbann var slæm. Hver vissi að kvikmynd um risa-kolkrabba gæti verið svona slæm?

Hinsvegar var kung-fu/Mad-Max/kúrekamyndin nokkuð góð. Hefði varla verið betri þó það hefði verið risa-kolkrabbi í henni.

***

Svo fór mikill tími í það að spila hinn æsispennandi tölvuleik "Einar the Dvergur berst við púka" eða hvað sem það heitir. Það eru þarna einhverjir púkar og Sarúman og Hobbitar og hvaðeina. Og trékallar. Ekki má gleyma tréköllunum.

***

Og enn heldur leitin að húsnæði áram. Eða eins og réttara væri að kalla hana: mission impossible. Ég vona að ég fái herbergi á garði svo ég lendi ekki í mission impossible 2.

miðvikudagur, maí 24, 2006

Dagur 77 ár 3 (dagur 807, færzla nr. 413):

Var að horfa á sjónvarpið í gær. Sá einhvern ferlegan þátt um hryðjuverkamenn. Allavega, þá réðust þeir á þessa araba sem voru að halda fólk inni í byggingu. Fyrir utan voru þeir með bíl, sem í voru nokkrar tunnur, líklega fullar af própani.

Arabarnir sögðust vera í Al-kæda söfnuðinum. Ég sá að það var lygi, því ef þeir hefðu verið í þeirri grúppu, hefðu þeir sett alvöru sprengiefni í þessar tunnur og sett þær í gang einhversstaðar þar sem var nóg af fólki.

En hvað um það. Þegar arabarnir voru búnir að ná því göfuga takmarki sínu að plaffa á nokkrar löggur, ruddust inná þá nokkrir þrjótar undir stjórn þessa líðalega sköllótta gæja. Ekki veit ég hvað fertugur gæi með bjórvömb var að vilja þeim, en að lokum stal hann þessum sendibíl og ók honum niður í námu.

Í námunni kom á daginn að tunnurnar voru fullar af einhverju allt öðru en alvöru sprengiefni. Það varð til þess að bíllinn hélt lagi þegar dótið sprakk í loft upp.

Ég held líka að þessir arabar hefðu þurft að rabba aðeins við gæjann sem seldi þeim eldflaugar í rakettubyssurnar sínar. Þær voru ekkert að virka hjá þeim. Ég hef meðhöndlað flugelda með meiri eyðingarmætti en þær.Mynd dagsins/vikunnar er af ballet, því ég er svo menningarlegur.

mánudagur, maí 22, 2006

Dagur 75 ár 3 (dagur 805, færzla nr. 412):

Enn að leita að íbúð. Náði í eitt símanúmer og sendi 3 ímeil. Eitt á sama stað og ég hyggst hringja í núna á eftir. Allt lítur þetta hálf - ekki vel - út. Á einum staðnum get ég bara verið 1 mánuð, á öðrum þarf ég að vera kvenkyns, og á þeim þriðja eru 2 stelpur.

Svo ég býst við ég væri í góðum málum ef ég þyrfti bara íbúð í 1 mánuð og væri kvenkyns.

Sé til hvernig þetta gengur.

Þungarokkarar í skrímslabúningum unnu júróvisjón. Það er auðvitað bara enn eitt tákn um að heimsendir sé í nánd. Ég held að heimsendir komi um leið og ég finn íbúð.

"Já, þú getur verið hér!"
KABÚMM!

Já. Heimsendir er í nánd.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Dagur 71 ár 3 (dagur 801, færzla nr. 411):

Rafmagnið hefur ekkert tollað inni alla vikuna. Fyrst var það Bússi eitthvað að fikta, nú hefur skúringafólkið hellt vatni á eitthvað rafdót í vaskahúsinu.

Ég fann slatta af gömlum hljóðsnældum um daginn. Mér sýnist þær séu frá bilinu 1987-1992, kannski '93. Mikið af Stormsker, og mikið af gumsi sem ég hef aldrei áður heyrt. Síðan ég fór að hlusta á þetta í bílnum hefur tilfynningin verið svona eins og að hlusta á Bylgjuna, án allra þessara pirrandi og vitlausu þula.

Hvenær var Stormsker í Júróvisjón? '88? '89?

Var annars að horfa á þessa júróvisjón þætt með Eiríki Hauks og có. Skoplegt stöff, það. Lögin eru undantekningalítið alveg ferleg. Flest eiga fullt í fangi með að fylla út í þessar 3 mínútur sem þau mega vera, og eru því einstaklega endurtekningasöm og ergileg.

Árið 1960 þá voru engin lög lengri en 3 mínútur.

En hvað um það, Eiríkur og có sjá einhvern gífurlegan gæðamun á öllum þessum mis-mónótóníska hryllingi, og gefa lögunum stig. Mér fannst tilfinnanlega vanta uppá möguleikann á mínus stigum. Í júróvisjón byði það uppá möguleikann að vinna með 0 stig.

Hvað vinnur svo? Hverjum er ekki sama. Einhver austur-evrópskur grautur sennilega. Öll ræða um hve mikla möguleika hitt eða þetta lagið hefur er merkingarlaust. Mér hefur nefnilega sýnst að það lag sem vinnur fái ekki endilega spilun í útvarpi á eftir, nema af skildu. Til dæmis nefni ég norska lagið hér um árið, sem vann ekki, en var spilað í botn og er enn.

En hvað um það:
Auglýsingar
Meira af sama.

Það er voðalegt að sjá fína íbúð auglýsta, með öllu, og á Íslandi, aðeins til að komast að því að hún er á Akranesi, Egilsstöðum eða í Vík.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Dagur 69 ár 3 (dagur 799, færzla nr. 410):

Örbylgjuofnar, þeim er ekki treystandi. Og svo er fólk að þykjast matreiða í þessu. Ég tek eftir því að ef maður ætlar að sjóða súpu í svona græju þarf maður að fara varlega. T.d áðan, þá skreið súpan uppúr bollanum og flaut um allt.

Í gær gerðist eitthvað svipað. Þá hafði ég þó notað heitt vatn fyrst. Ég held ég verði mér úti um prímus. Þetta er ótækt. En svona er það, þessir sauðir sem ég er svo óheppinn að vera skyldur sitja ekki eða standa öðruvísi en taugaveiklaða fíflið hann Bússi segi þeim hvort, og þess vegna "þurftu" þau að fjarlægja ofninn strax.

Raunverulega ofninn, þ.e. ekki örbylgjuofninn. Maður vissi alveg hvar maður hafði gamla ofninn. Ég veit hinsvegar ekkert hvað sá nýi gerir. þessvegna gæti hann einn daginn stokkið út í garð, og farið að elta ketti, og ... geislað þá, eða eitthvað.

Ahh... Það góða er, að það er ómögulegt að finna til minnimáttarkenndar innanum öll þessi fífl. Það slæma er, að ég er umkringdur fíflum.

Amen

sunnudagur, maí 14, 2006

Dagur 67 ár 3 (dagur 797, færzla nr. 409):

Það er snúið mál að búa í Borg Óttans. Erfitt að fá gistingu inni á salerni fyrir minna en 150.000 á mánuði, fyrir skatt.

Boggi benti mér á að hægt gæti verið að dvelja í Odda, þar sem þar er opið allan sólarhringinn. Sniðugt, það. Ég gæti farið í bað hjá ættingjum. Það er hægt að ganga hringinn, það er svo mikið af ættingjum í bænum, að ég þyrfti ekki að hitta hvert þeirra nema aðra til þriðju hverja viku. Það er náttúrlega líka afsökun til að hitta þetta fólk, sem ég hitti afar sjaldan ef frá er talið þetta óþægilega mál með flutning.

Ég held samt ennþá að ég fari bara til eyja um mánaðarmótin. Þangað til held ég áfram að leyta.

***

Húsið á Langó er tómt. Þar er ekkert nema rúmið sem ég sef í og örbygjuofn, sem mér lýst illa á að nota til matargerðar. Örbylgjuofnar eru til að hita popp og matarafganga síðan í gær, ekki til að elda máltíðir.

Og hvað er eiginlega með þessa kjúklingamylsnu sem þetta lið skildi eftir? Ekki dettur þeim í hug að ég borði þetta? Og þau fóru með allt kryddið.

***

Þarf að halda áfram að hringja. Náði í talhólf áðan. Ég tala aldrei inná talhólf. Það er hlutur sem ég skil ekki. SMS skil ég lítið, þessvegna nota ég það nánast ekkert. Talhólf er bara afsökun til að nenna ekki að svara í símann. Svo gleymist að kíkja inn í það líka.

Skilaboð á talhólfi er semsagt glötuð skilaboð. Gleymið þessu bara. Svarið í símann.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Dagur 64 ár 3 (dagur 794, færzla nr. 408):

Engin íbúð, ekkert herbergi. Og nei, það kemur ekki til greina að ég borgi 40.000 kall fyrir herbergi. Það er prinsippmál. Mér er sama hvað fasteignaverðið er, það er okur.

Auglýsingar
Meiri auglýsingar.

Og ég borga ekki formúgu fjár til að fá einhvern annan til að leyta fyrir mig. Ef ég fæ ekki húsnæði fyrir 1. Júní, þá fer ég til eyja. Sem er á vissan hátt gott, því Reykjavík er hrein illska falin í fúnum við, steinsteypu og malbiki. En á vissan hátt slæmt því það er alls ekkert gefið að ég geti svo fengið gistingu í þessum háskólaíbúðum, og það er málið með þetta rúm, sem ég veit ekki hvar ég á að setja.

Ég hef 2-3 vikur enn.

sunnudagur, maí 07, 2006

Dagur 60 ár 3 (dagur 790, færzla nr. 407):

Sendi 2 ímeil í dag. Skoða niðurstöðurnar á morgun.

Það er próf á morgun. Skoða það. Veit að það fer fram í Háskólabíói. Það væri fínt ef þeir gætu skellt einni ræmu á á eftir, og við gætum öll fengið okkur popp.

Þær eru merkilegar þessar smáauglýsingar. Reyndar auglýsingar almennt. Það mynnast fæstir á verðið, og ef það er mynnst á það, þá er það verð frá X. Sem þýðir X+Y, sem er meira en X, bara ekki vitað hve mikið meira.

Ég held svei mér þá að ég hafi aldrei ekki verið truflaður á próftíma. Hvernig á því stendur að þessir ættingja-dónar geta ekki séð mig í friði á þessum tíma fynnst mér merkilegt. Annars eru engar hreyfingar á þessu pakki. Eina leiðin til að losna við óþarfa áreyti væri að flytja úr sólkerfinu. Það væri flott. Þá geti ég komið og áreytt þau, ekki öfugt.

Mig vantar svona geimskip. Ég hef því miður ekki fundið neitt í smáauglýsingunum.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Dagur 56 ár 3 (dagur 786, færzla nr. 406):

Úr auglýsingum:

"lítið snyrtilegt 6fm.herb við HÍ 107 rvk
Laust strax,leigt til amk 6 mánaða. Aðgangur að wc (hvorki sturta/bað né eldhús). Einungis reglusamt fólk. Verð 17.000 kr á mán. Uppl: 869-3224"

6 fermetra skápur? Vá. Fínt ef ég þyrfti ekki stundum að fara í bað líka. Ég held að vinnufélagar mínir yrðu ekki hrifnir.

Það er mikið til að 2-20 fermetra "herbergjum" með engum aðgangi að baði. Hver ætli leigi þar? Ef ég þyrfti stað til að geyma lík, þá væri þetta fínt býst ég við. Ég get ímyndað mér samtalið þegar líkið væri byrjað að lykta:

"Hey, kunningi þinn er farinn að lykta ansi illa þarna inni."
"Auðvitað, það er ekkert bað."
"Já... ég skil."
"Spreyaðu bara lofthreynsi undir hurðina."

"FJARKAHÚS Á SPÁNI TIL SÖLU
Glæsilegt hús rétt suður af Torrevieja. Tvö svherb. (auðv. að bæta við þriðja). Sam.sundlaug V.159 þ. evrur; ca 12,5 m.kr. Sjá www.geocities.com/orlofshus/sala"

Ég veit ekki. Þetta er örugglega fínt hús og allt það, ég held hinsvegar að þetta 5 tíma flug til og frá vinnu gæti orðið erfitt. Það er líka mikið af þessu. Og íbúðir í Köben... svei.

Merkilegt.

Ég sendi fyrirspurnir hingað og þangað. Ég býst við að einhver hringi á eftir eða í kvöld eða á morgun.