sunnudagur, september 30, 2007

Dagur 219 ár 4 (dagur 1304, færzla nr. 591):

Fór í bíó áðan. Bara af því það var ódýrt - og það að ég hafði ekkert sérstakt að gera spilaði örlítið inní. Fékk mér popp, og það var brimsalt.

Sá hið eilífa listaverk "3:10 til Yuma". Það er svona beljudrengjamynd, með öllu. Það voru í henni indjánar. Þrír, nákvæmlega. Það vantaði bara svona kaktus, og þá hefði allt verið komið. Góði kallinn var með hvítan hatt, og sá vondi með svartan, og svo borðuðu þeir baunir og sváfu við varðeld. Þið þekkið þetta. En enginn kaktus.

Það var ekkert slæm mynd, mikið skotið í henni. Sem er náttúrlega hinn definitive mælikvarði á gæði kvikmynda... nú, og sprengingar. Verða að vera svoleiðis. það var þarna sena í byrjuninni með póstvagni. Ég var alltaf að bíða eftir að einhver myndi skjóta gat á bensíntankinn á honum. það hefði einhvernvegin bara verið í takt við allt sem gekk á í því atriði.

Semsagt, sjáið þessa áður en þið komið auga á treilerinn í sjónvarpinu. Ég hlýt að hafa misst af honum. Enda er þetta eina kvikmynd í bíó núna sem ég hef ekki séð auglýsta.

Þetta popp var stórlega allt of salt...

föstudagur, september 28, 2007

Dagur 217 ár 4 (dagur 1302, færzla nr. 590):

Ef einhver byði þér að fara aftur til ársins 1920, aðra leið, myndir þú taka því? Gefum okkur það bara, að þú værir á gangi, og sjálfur andskotinn sprytti uppúr jörðinni og kæmi með þetta tilboð. Engin trikk, þú bara segir já eða nei, og ef þú segir nei, hverfur djöfullinn og ekkert meira gerist, lífið gengur sinn vanagang, en ef þú segir já, þá ferðastu aftur til 1920, og ert bara þar. Svo lifir þú til... einhverntíma bara, eðlilegu lífi miðað við stað og stund.

Jamm.

Fyrst þyrftir þú að finna vinnu. Hana þarftu til að geta borðað og búið einhversstaðar.

Plúsarnir eru náttúrlega þeir, að í denn mátti smíða næstum hvað sem var á hverri þeirri lóð sem maður átti, og lóðir og byggingarefni voru alveg hræbilleg. Maturinn var líka ekkert súper dýr.

En... árið 1920 þurfti venjulegur verkamaður að plotta vel hvað hann gerði við aurinn sem hann fékk, til að vera alveg viss um að hann sylti ekki heilu hungri. Árið 1920 var ekkert óalgengt að það væru í húsum moldargólf, og það í miðri Reykjavík. Árið 1920 var kaldara en nú er, og þá var ekkert óalgengt að fólk dæi úr lungnabólgu, nú, eða innantökum.

Maturinn var líka alveg ferlegur. Það var fiskur í soðið, eða grautur. Eða Kjötsúpa, sem var mölluð í svona viku - mánuð, hve lengi sem hún entist. Sem skýrir innantökurnar.

Það var kannski einn bíll, og kvenfólk og eldri borgarar voru hrædd við hann.

Það gerðist alveg að rónar seldu líkama sinn til læknavísindanna áður en þeir dóu til að eiga fyrir brennivíni. SBR Þórður malakoff.

Það var náttúrlega hægt að flýja til útlanda. Danmörk, til dæmis var miklu betri þá - þrátt fyrir að lungnabólga væri ekkert minna banvæn þar. Danskan skildist nokkurnvegin á þeim tíma, svo og norska og sænska. Enginn "ungdómur", engin Kristjanía, ekkert "ligeglad" kjaftæði. Ég myndi samt halda mig frá Evrópu. Evrópa var ekkert sniðugur staður að vera á milli stríða. En samt... á Íslandi var fólk í moldarkofum til 1940, og í torfhúsum til 1990. Það eimir enn eftir af einokuninni, og það er bara mjög stutt síðan maður varð að fara og rabba beint við bankastjórann til að fá lán.

En, hefði maður mætt á svæðið AD 1920 með svona tonn af skíra gulli, þá horfðu málin öðruvísi við. 20 árum seinn gæti maður átt pleisið. Að því gefnu að spænska veikin gangi ekki frá manni, að sjálfsögðu.

miðvikudagur, september 26, 2007

Dagur 215 ár 4 (dagur 1300, færzla nr. 589):

Eitthvert sauðnaut hefur stillt tölvuna þannig að allt er á frönsku. Sem væri hræðilegt ef ég væri að nota ritvinnzluna. Sem ég var að reyna um daginn. Allt á frönsku. Botnaði ekkert í þessu.

Það tekur mig alltaf smá stund að fatta hvernig hlutirnir virka á öðrum tungumálum. Og það verður of mikið vesen ef letrið er öðruvísi, eins og með Rússnesku og kínversku. Þá fer maður bara að giska á eitthvað.

Helmingurinn af frönsku er stolinn úr latínu, alveg eins og enska, svo það er bærilegt... svo langt sem það nær.

Það þarf til dæmis engan stjörnufræðing til að sjá að "Publier le message" lítur út mjög svipað og "publish message", eða hvað stóð eiginlega þarna á engilsaxnesku. Hinsvegar veit ég ekki hvað "sauvegardner maintenant" þýðir. "Skrúðgarðsvörður", kannski? Veit ekki hvað blogg-vélin hefur við slíkt að gera.

Fichier? Huh? Ficterí í hverju?

Blah.

Jæja.. það gæti verið verra. Einhver gæti hafa sett þetta upp á íslensku. Ég hef nefnilega ekki mikla hugmynd um hvað "skrun" er, og "bilstöng" hljómar eins og verkfæri málmiðnaðarmanns.

Ég meina: Skrun? Hvað í fjandanum var fólk að hugsa? Hvað er það? Hvernig gerir maður svoleiðis? Hvernig var slíkt framhvæmt fyrir daga tölvunnar? Notaði maður einhver efni til þess?

Ja, ég spyr, því fyrir 1940 var kúahland notað í allt, hvort sem var til að súta leður eða til drykkjar. Kannski tengist orðið einhverju slíku, ég get ekki sagt.

Það er margt í tækni sem eldgömul orð eru notuð yfir: sími, mörgþúsund ára gamalt orð yfir mjóan þráð. Mús, lítið meindýr, og lítið og meinlegt tæki áfast tölvum núorðið, sem er að því er virðist algengara í náttúrunni en mýs af holdi og blóði.

Í öðrum tungumálumm er notað orðið "scroll" til að lýsa því þegar maður rúllar niður langan texta á ritvinnslu eða á netinu. Því það lýkist því svolítið þegar maður vindur ofan af bókrollu (scroll) til að lesa það sem þar stendur.

Ég nenni þessu ekki. Ætla að fikta aðeins í paneau lateralinu. Hvað sem það nú er.

mánudagur, september 24, 2007

Dagur 213 ár 4 (dagur 1298, færzla nr. 588):

Hvernig á að elda kjúklingabringur.

Maður tekur bringuna, og sker í hana raufar, báðu megin, og stráir yfir þær pipar, season all, karrý... hinu og þessu kryddi.

Á meðan hitar maður pönnu. Ekki á fullu blasti eins og sumir, heldur bara nóg til að hita pönnuna almennilega. Maður bræðir smá smjör á pönnunni, og leggur kjúklingabringuna á hana. Ef það er of mikill hiti þá snarkar í smjörinu, ef það er nægur hiti bráðnar það bara fljótlega.

Nú er góður tími til að hita ofninn. Upp í svona 200 gráður, cirka.

Þegar bringan hefur verið brúnuð báðum megin, er hún sett inní ofninn. Hér er ágætt að byrja á hinni bringunni. Hún er matreidd eins. (Þetta geri ég því að 1: pannan er ekki mjög stór, og 2: matartíminn verður lengri.)

Svo er að hafa hrísgrjóni til. Mér er alveg sama þó þau komi í pokum sem má sjóða, og það standi í leiðbeiningunum, sjóðið hrísgrjónin í X miklu vatni í pokanum. Það erbara ekki þannig sem ég geri hlutina. Ég mæli þau í bolla, eða litlu glasi - 100-120 cc af hrísgrjónum er alveg nóg. Það fer út í 220-250 cc af vatni.

Fyrst setur maður vatnið í kastarolu, setur smá salt útí, smá smjör, og gott er að setja líka út í það sojasósu. Svo, þegar vatnið sýður, þá hellir maður öllum hrísgrjónunum útí, og lækkar aðeins hitann. Þetta mallar svo á meðan bringurnar eru í ofninum - í 10 mínútur - korter. Þetta tekur bara þann tíma sem það tekur.

Þegar allt vatnið er gufað upp af grjónunum eru þau tilbúin. Það eru yfirleitt holur á yfirborðinu með reglulegu millibili þar sem gufa hefur risið upp. Mjög sniðugt allt saman.

Grjónunum skal dempt á disk og fyrri bringan sett einhverstaðar þarna með - ofaná grónin, við hliðina á þeim, einhverstaðar. Bringan fer afar vel með grjónunum. Svo þegar fyrri bringan er uppurin, þá er bara að ná í hina inn í ofn. Það eiga að vera næg grjón.

Allt í einu langar mig í vatn...

föstudagur, september 21, 2007

Dagur 210 ár 4 (dagur 1295, færzla nr. 587):

Sá einhverja Rússneska ræmu áðan - Konets Sankt-Peterburga frá 1927. Sko, í fyrsta lagi er myndin eins og hún hafi verið edituð saman af einhverjum á spítti. Ekkert atriði er lengra en 2 sekúndur. Sem verður mjög ringlandi eftir smá stund.

Svo er lokaatriðið. En til að fatta það almennilega:

Myndin byrjar á einhverjum sveltandi bændum. Svo flytja þeir í borgina, og rétt hafa efni á einu brauði, og lifa þessvegna við hungurmörk - en eru samt furði feitir. Þeir eru mjög pirraðir á þessu, svo yfirvöld ákveða að fara í stríð til að kýla upp móralinn.

Hérna strax fer myndin að verða súr. Helst er þó að skilja að kommúnistar nái völdum. Gleði, gleði.

Loks endar myndin á að kona aðalsöguhetjunnar kemur að hálfdauðum manni úti á götu. Hún er með fötu fulla af kartöflum. Á meðan hún er að sinna manninum, koma menn og laumast til að snæða nokkrar kartöflur. Hún tekur eftir því, og á endanum gefur hún öllum á götunni kartöflurnar. Þá á hún engar kartöflur.

Svo fer hún í kirkju. Þar eru nokkrir illilegir menn, og þegar þeir sjá að hún á engar kartöflur, þá verða þeir allir mjög glaðir.

Og ég spyr mig: var kvikmyndagerðarmaðurinn að reyna að segja eitthvað?

Ég meina, fyrst á kellingin þó eitt brauð af og til, og nú á hún engar kartöflur.

***

Að öðru hagfræðilegu máli:

Löggan var að bösta nokkra menn fyrir að flytja til landsins 60 kíló af spítti. Sjá má útlistun á því máli á forsíðum blaðanna. Afar lúðalegt allt saman: 48.000 löggur í 300 löndum komu að málinu, 4 skriðdrekar mættu á svæðið, 2 færanlegir eldflaugaskotpallar með ICBM, það kom skip, og 1 tuðra. Einn upplásinn bátur. Einn. Jæja.

Ég yppi bara öxlum.

Ég spyr bara hvort þetta sé í raun eins gott atvik og allir virðast halda?

Förum bara yfir málið:

Hækkar þá ekki verð á spítti? Ef ekki, þá er offramboð. Hafa skal í huga að hægt er að framleiða spítt heima hjá sér hafi maður vit á slíku. Ég myndi bara rabba við efnafræðideildina og sjá hvað þeir hafa að segja um málið. Og ef verð hækkar, er það þá í raun gott? Ég held ekki - því neytendurnir stela þá bara meira.

60 kíló er heldur ekkert lítið magn. Það tekur þetta enginn í aðra nösina. Á móti hef ég ekki hugmynd um hvað menn taka mikið af þessu, en ég veit líka að þetta er ekkert líkt hveiti. Ég get semsagt ekkert reiknað út hvað það tæki casual helgar-neytanda langan tíma að anda þessu öllu að sér.

En hvað um það, þetta efni var ekkert ókeypis, sem þýðir að hér var gífurlegt peningamagn að hverfa úr landi. Og hvert fer það nú? Á haugana.

Og svo kostar sitt að sigla þessu skipi, að ég tali nú ekki um þessa merkis tuðru. Og að senda allar löggur á landinu og helminginn af öllum löggum í evrópu á staðinn, það kostar.

Og hver borgar?

Almenningur. Ekki dópistar. Almenningur. Löggan fær greitt af skattfé, dópistar líka, og þeir ræna líka húsmunum og bílútvörpum.

Hver græðir á þessu? Fréttamenn hafa gaman af þessu um stund, en þeir græða ekkert, ekki þannig. Sjoppan á Fáskrúðsfirði græðir á öllum þessum löggum. Nema þeir hafi með sér nesti. Það hefur komið með tuðrunni.

Já...

Mér sýnist ljóst má að fleiri tapa á þessu máli en hagnast. Ef gaurarnir hefðu komið stöffinu inn í landið þá hefðu þeir þó hagnast, minna skattfé sem því nemur hefði farið í handtöku þeirra og gæsluvarðhald, mikið af þeim fjármunum sem þeir hefðu fengið fyrir góssið hefði borist inn í ríkiskassann gegnum söluskatt, tolla og vörugjöld, og við hefðum heldur ekki þurft að punga út siglingu varðskipsins og þessarar einu tuðru.

Í raun hefði verið betra að leyfa þessum þrjótum að komast upp með þetta. (Þetta eru bófar, ekki bjóða þeim í te.)

Það sem ekki breytist, er að dópistar halda áfram að vera dópistar. Verðið á efnunum hækkar aðeins og lækkar, varðar ekkert um það, þeir bara kaupa. Eiga alltaf nóg af annarra manna pening.

þriðjudagur, september 18, 2007

Dagur 207 ár 4 (dagur 1292, færzla nr. 586):

Lélega kvikmynd kvöldsins er White zombie frá 1932. Það er ekkert sérlega slæm kvikmynd, miðað við ímislegt annað sem ég hef séð. Það skemmir ekki fyrir að ræman er bara rétt yfir klukkutími á lengd.

Hvað um það. Það er þarna Illur sykurframleiðandi, sem er búinn að breyta öllum sem honum er illa við í uppvakninga sem hann lætur svo vinna við að búa til sykur. Vegna þess að hann er Vúdú sykurframleiðandi! Og það líka er nýgift par í fríi. Ekkert vúdú við það. Og það eru uppvakningar. Og skuggalegur kastali á bjargbrún. var ég búinn að segja að þetta tekur bara rúman klukkutíma?... og af youtube.

Helsta tilkall þessarar kvikmyndar til frægðar er nafnið, því einhverjum líkaði það vel, og notaði það á hljómsveitina sína. Meira youtube. og enn meira youtube. Það er helst að hljómsveitin sé þekktari en myndin.

Samt, alveg þokkaleg mynd, og ekkert mikið lengri en venjulegur sjónvarpsþáttur - með auglýsingum.

laugardagur, september 15, 2007

Dagur 204 ár 4 (dagur 1289, færzla nr. 585):

Í dag fór ég og tékkaði á Hamborgarabúllunni. Þessari sem var keyrt á um daginn. Þar var að verki, skilst mér, einhver kunningi hans Óskars á vellinum.

Hamborgarabúllan er alveg agalega lítill staður, maður situr bókstaflega við kliðina á grillinu. Ég lykta enn eins og hamborgari.

Þetta var alveg ágætis borgari, svosem, þykkur og mikill. Alveg hellingur af tómatsósu. Kannski einum of. Þetta er sennilega ideal þynnkumatur. En nú drakk ég bara ekki það mikið í gær...

En hvað um það, alveg í meðallagi. Sem þýðir, hann er betri en Macdónalds.

þriðjudagur, september 11, 2007

Dagur 200 ár 4 (dagur 1285, færzla nr. 584):"223"

Það komu í heimsókn til mín 2 geitungar þegar ég var að snæða morgunverð. Ekki leist mér á það, enda eiga svona flugpöddur það til að fá sér sundsprett í súpunni.

Þessi dýr sveimuðu þarna um í nokkra stund, ógnandi súpunni minni áður en annar brá sér inn í stofu til að skoða sig um þar. Á meðan náði ég að vísa hinum á dyr... eða útum gluggann. Skömmu seinna kom hinn aftur, og lýsti yfir verulegum áhuga á morgunverðinum. Þá náði ég honum. Er þarna á eldhúsborðinu ennþá.

***

Það hefur, að því ég held, aldrei mátt míga á almannafæri á Íslandi. Nú fyrst, 63 árum eftir að landið verður sjálfstætt, á að fara að sekta menn fyrir það. Af hverju var það ekki gert fyrr?

Kenning: því árið 1945 hefði löggan verið kýld köld fyrir athæfið. Núna í seinni tíð hefur landinn róast nokkuð, fitnað. Tekur minna spítt.

Kenning 2: Glæpum var farið að fækka svo mjög að það varð að finna til nýja. Allar þessar löggur þurfa að gera eitthvað.

Það er mikið þusað um zero tolerance aðferðir núna. Sem er auðvitað mjög kristilegt. Jesú þoldi engum neitt, var alltaf að segja þér að berja náungann áður en hann ber þig.

Þetta kemur frá Ameríku núna. Ameríka er nýja Svíþjóð, staðurinn þar sem slæmar hugmyndir eru búnar til. Ég veit ekki af hverju, þessi zero stefna gerir ekkert nema valda úlfúð þar, sýnist mér.

Afhverju eru ekki frekar teknar góðar hugmyndir frá Bandaríkjunum? Drive through-vínbúðir til dæmis, eða vegakerfi sem er smíðað með umferð í huga?

Nei nei, við tökum bara slæmu hugmyndirnar: stríð við hryðjuverk og zero-tolerance. Og svo á að einkavæða orkuveituna. Snilld. Kaninn hefur það þannig. Það er ekkert betra. Svo trassa þeir að gera við kerfið. Á þá ekki næst bara að fara að kæra alla fyrir hvað sem kemur í hugann? (Það mun bara íþyngja réttarkerfinu).

Á sínum tíma var allskyns kjaftæði tekið upp frá Svíum. Bann við héraveiði til dæmis. Að aka um með ljósin kveikt um miðjan dag. Og fullt af litlum aðþrengjandi sósíal-hugmyndum sem hafa með meðferð á glæpamönnum og vangefnum (stundum sama fólkið) að gera.

Ekkert af góðu hugmyndunum, eins og að selja vopn til Afríku.

Svíum er svo annt um öryggið, að skömmu eftir að reiðhjólahjálmar komu til sögunnar hengdu sig fjölmargir krakkar á þeim í leiktækjum. Börn eru nefnilega svo örugg með hjálm. Þess vegna losna spennurnar núna við visst átak.

Nú er Bandaríkjamönnum annt um öryggið. Þess vegna máttu ekki fara á bryggjurúnt lengur. Þú gætir verið hryðjuverkamaður.

Og hvaða bjána datt í hug að aka vinstra megin? Hvaðan kom það? Frá evrópu! Sem betur fer var þeirri vitleysu snarlega hætt. Uhm... snarlega... nokkrir áratugir er snarlega þegar Ríkið á í hlut.

Það má ekki einusinni vera klóróform í nammi. Fjandinn hafi það. Að vísu er enn eter í því, þannig að það virkar næstum eins og það á að gera.

Ekki það að innlendar hugmyndir hafi gegnum tíðina verið eitthvað mikið skárri: Bjórbannið, kvótakerfið, Ríkiseinokun... fyrr á öldum voru menn líka á móti framförum í jarðrækt, af einhverjum orsökum.

Hvaða gerpi fann svo upp kolefnisjöfnun? Sá aðili ætti bara að halda niðri í sér andanum, held ég, til að gefa ekki frá sér kolefni.

Mig grunar að þetta lið viti ekki einusinni hvað koltvísýringur gerir.

laugardagur, september 08, 2007

Dagur 197 ár 4 (dagur 1282, færzla nr. 583):

Var að lesa þetta rugl í blaðinu:

Í Bandaríkjunum er komið svo mikið „awareness" fyrir öllu svona. Hvers vegna er íslenskur ostur með rotvarnarefnum? Hvað er íslenska orðið yfir „awareness"?

Maðurinn er ekki talandi... "Awareness" þýðir "meðvitund", bókstaflega. Að vera var við umhverfi sitt eða eitthvað í því. Ert þú meðvitaður um eiginleika þíns eigin tungumáls?

Hins vegar er ég ekki viss um að til sé enskt orð sem þýðir "vitundarvakning".

***

Fossetinn er niðri núna að teppa lobbíið. Það er verið að starta einhverri sýningu. Þetta er ekki mjög stór bygging, bókhlaðan.

Kom auga á nýja bílinn. Lítur út svolítið eins og uppblásin Corolla. Sá bíl á vegum Ameríska sendiráðsins í gær. Það var Ford Crown Vic með festingum fyrir flaggstangir.

Sko: Lexus LS460 kostar uppúr 12 milljónum á Íslandi. Þeir geta líklega fengið tollana fellda niður, og þá erum við komin nær ameríska verðinu sem er 4.6 milljónir, sennilega 5 hingað kominn.

Ford Crown Vic kostaði úti (það er hætt að framleiða þá núna) 25.000 dollara, eða 1.6 milljónir. Það er svipað og Toyota Yaris.

Svo fann ég þetta: Mercury Marquis. Það er aðeins fínni týpa af Ford Crown Vic, aðeins dýrari. Og ég hrúgaði inná þann bíl öllu flottasta draslinu, lúgu, loftpúðafjöðrun og 6 diska geislaspilara og hvaðeina, og þá kostar þessi bíll 2.5 millur hingað kominn tollfrjálst.

Hérna er þetta sundurliðað:

Options - edit
$295.00 Laminated Security Side Glass
$1,025.00 Moonroof
$300.00 Leather/Wood Steering Wheel w/Redundant Audio & Climate Controls
$395.00 Driver and Passenger Side Airbags
$295.00 Heated Front Seats
$300.00 Rear Air Suspension
N/C Leather Seats w/8-Way Power Driver/Passenger Seats, Includes Rear Center Armrest w/Cupholders
$695.00 Audiophile 6-Disc In-Dash CD Changer (No Cassette)
$695.00 16" Aluminum 9-Spoke Chromed Wheels
N/C 4-Speed Electronic Automatic O/D
N/C P225/60TRx16 A/S WSW Tires

Colors - edit
N/C Exterior - Black Clearcoat N/C Interior - Light Camel $825.00 Destination and Delivery

Total $32,720.00

Aha...

Í kanalandi fær maður bíl með V-8 mótor, 6 sætum, skotti sem er nógu stórt til að rúma 2 lík og skóflu, á sama verði og við molbúarnir erum rukkuð fyrir eitthvað sem lítur út eins og nýra.

Munurinn?

Lexus hefur 2 vélar, drif á öllum, meira torque (ca 500 newton vs 275 hjá Ford - sem væri mjög fyndið ef Forsetinn væri staðinn af að nota. Lögum samkvæmt má ekki nota nema 10% af þessu afli). Fyrir fólk með gras á milli eyrnanna, þá stendur til boða að láta Fordinn ganga á 85% etanóli, og Lexusinn kemst einhverja kílómetra án þess að hafa kveikt á báðum vélunum.

Lexus er ný hönnun, 21 aldar fyrirbæri. Mercury Marquis er undirvagn síðan 1978 (Ford panther), vélarblokk síðan 1990 smíðuð alveg eins og þær voru 1940 úr steypujárni. Úr þessu öllu fæst svipuð eldsneytiseyðzla.

Mercury Marquis er alveg boðlegur undir fyrirmenn í USA, bíll sem kostar eins og einhver smábíll hérna. Spreyjar hann bara svartan, og voila! En hér á landi... við megum þakka fyrir að gæjinn heimtaði ekki að bíllinn væru gylltur, og með svona grindum sitthvoru megin fyrir Íslenska Hestinn! Með slaufum á, að sjálfsögðu.

***

Það hefur eitthvað farist fyrir hjá mér að halda í við klámvæðinguna. Svoleiðis má ekki gerast. Hérna:


Ég ætla að fara núna, og þykjast gera eitthvað.

mánudagur, september 03, 2007

Dagur 192 ár 4 (dagur 1277, færzla nr. 582):

Kominn til RKV. Hér er rigning.

Ég ætla að vona að liðið hafi ekki verið mikið á rúntinum á bílnum í gær. Eða áðan. Ég setti nefnilega ekki á hann bensín fyrir nema 1000 kall. Fyrir svona 20 kílómetrum. Hann á að öllu óbreyttu að ná til RKV, á ljósinu býst ég við. Hann fer svona 100 km á 1000 kalli. Veit ekkert hver langkeyrzlueyðzlan er. Mig grunar að hún sé sama og innanbæjareyðzlan.

Hey, Súkkan hans Reynis eyddi meira á langkeyrzlu en innanbæjar!

Hann kemst. Kannski.