þriðjudagur, september 11, 2007

Dagur 200 ár 4 (dagur 1285, færzla nr. 584):



"223"

Það komu í heimsókn til mín 2 geitungar þegar ég var að snæða morgunverð. Ekki leist mér á það, enda eiga svona flugpöddur það til að fá sér sundsprett í súpunni.

Þessi dýr sveimuðu þarna um í nokkra stund, ógnandi súpunni minni áður en annar brá sér inn í stofu til að skoða sig um þar. Á meðan náði ég að vísa hinum á dyr... eða útum gluggann. Skömmu seinna kom hinn aftur, og lýsti yfir verulegum áhuga á morgunverðinum. Þá náði ég honum. Er þarna á eldhúsborðinu ennþá.

***

Það hefur, að því ég held, aldrei mátt míga á almannafæri á Íslandi. Nú fyrst, 63 árum eftir að landið verður sjálfstætt, á að fara að sekta menn fyrir það. Af hverju var það ekki gert fyrr?

Kenning: því árið 1945 hefði löggan verið kýld köld fyrir athæfið. Núna í seinni tíð hefur landinn róast nokkuð, fitnað. Tekur minna spítt.

Kenning 2: Glæpum var farið að fækka svo mjög að það varð að finna til nýja. Allar þessar löggur þurfa að gera eitthvað.

Það er mikið þusað um zero tolerance aðferðir núna. Sem er auðvitað mjög kristilegt. Jesú þoldi engum neitt, var alltaf að segja þér að berja náungann áður en hann ber þig.

Þetta kemur frá Ameríku núna. Ameríka er nýja Svíþjóð, staðurinn þar sem slæmar hugmyndir eru búnar til. Ég veit ekki af hverju, þessi zero stefna gerir ekkert nema valda úlfúð þar, sýnist mér.

Afhverju eru ekki frekar teknar góðar hugmyndir frá Bandaríkjunum? Drive through-vínbúðir til dæmis, eða vegakerfi sem er smíðað með umferð í huga?

Nei nei, við tökum bara slæmu hugmyndirnar: stríð við hryðjuverk og zero-tolerance. Og svo á að einkavæða orkuveituna. Snilld. Kaninn hefur það þannig. Það er ekkert betra. Svo trassa þeir að gera við kerfið. Á þá ekki næst bara að fara að kæra alla fyrir hvað sem kemur í hugann? (Það mun bara íþyngja réttarkerfinu).

Á sínum tíma var allskyns kjaftæði tekið upp frá Svíum. Bann við héraveiði til dæmis. Að aka um með ljósin kveikt um miðjan dag. Og fullt af litlum aðþrengjandi sósíal-hugmyndum sem hafa með meðferð á glæpamönnum og vangefnum (stundum sama fólkið) að gera.

Ekkert af góðu hugmyndunum, eins og að selja vopn til Afríku.

Svíum er svo annt um öryggið, að skömmu eftir að reiðhjólahjálmar komu til sögunnar hengdu sig fjölmargir krakkar á þeim í leiktækjum. Börn eru nefnilega svo örugg með hjálm. Þess vegna losna spennurnar núna við visst átak.

Nú er Bandaríkjamönnum annt um öryggið. Þess vegna máttu ekki fara á bryggjurúnt lengur. Þú gætir verið hryðjuverkamaður.

Og hvaða bjána datt í hug að aka vinstra megin? Hvaðan kom það? Frá evrópu! Sem betur fer var þeirri vitleysu snarlega hætt. Uhm... snarlega... nokkrir áratugir er snarlega þegar Ríkið á í hlut.

Það má ekki einusinni vera klóróform í nammi. Fjandinn hafi það. Að vísu er enn eter í því, þannig að það virkar næstum eins og það á að gera.

Ekki það að innlendar hugmyndir hafi gegnum tíðina verið eitthvað mikið skárri: Bjórbannið, kvótakerfið, Ríkiseinokun... fyrr á öldum voru menn líka á móti framförum í jarðrækt, af einhverjum orsökum.

Hvaða gerpi fann svo upp kolefnisjöfnun? Sá aðili ætti bara að halda niðri í sér andanum, held ég, til að gefa ekki frá sér kolefni.

Mig grunar að þetta lið viti ekki einusinni hvað koltvísýringur gerir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli