fimmtudagur, september 30, 2004

Dagur 211:

Ég er í einhverju óstuði. Hvað er hægt að gera í dag? Fátt. Glápa á tívið, reyna að skrifa ritgerð... það á eftir að verða skrautlegt. Merkilegt annars með þessar ritgerðir. Mig grunar alltaf að maður fái mínus stig fyrir að hafa þær skemmtilegar. Jafnvel þegar það er ekki á kostnað efnisins. Það er svona grunur síðan úr framhaldsskóla.

Það væri jafnvel helvíti sniðug hugmynd að leggjast bara niður og gera ekkert.

Veit ekki, veit ekki...

miðvikudagur, september 29, 2004

Dagur 210:



Þetta er mynd dagsins. Hún hefur ekkert með daginn að gera annað en að vera mynd dagsins.

Sá um daginn undarlega íþrótt í sjónvarpinu. Þetta var einskonar demolition-derby á hjólastólum. Já, það voru örugglega 20 manns á parketlögðu gólfi, og þeir voru allir á hjólastólum, og voru að klessa hver á annan á handahófskenndan hátt. Afar sérstakt. Hef ekki séð svona áður.

Það eru sko ólympíuleikar fatlaðra. Hvar annarsstaðar sér maður mann með bara eina hendi stökkva langstökk? Ætli hann geti nokkuð stokkið lengra því hann er léttari?

Ég nennti ekki að horfa á venjulegu ólympíuleikana. A: því þeir snerust nær eingöngu um handbolta, og handbolti er alltaf hvort eð er, og B: þeir voru bara ekki nógu skrýtnir fyrir mig.

þriðjudagur, september 28, 2004

Dagur 209:



Og komum okkur nú beint að efninu, sem er, ef mér skjátlast ekki: nákvæmlega ekki neitt. Fann þó eitt dálítið sniðugt, þetta. Nú getiði tekið enskan texta, og skoðað hvers kyns höfundurinn er! Jibbí!

Helvítis kjaftæði. En ég verð samt að prófa þetta á einhverjum... Hmm... fann eitt fórnarlamb:

Words: 115
(NOTE: The genie works best on texts of more than 500 words.)Female Score: 255Male Score: 195
The Gender Genie thinks the author of this passage is: female!

Og það var rétt... merkilegt.

mánudagur, september 27, 2004

Dagur 208:

Var á röltinu í gærkvöld. Það er enginn í Elliðaárdalnum í myrkrinu. Sem er kannski ekki skrítið, það verður svo helvíti dimmt þarna. Það sáust engar stjörnur í nótt, og tunglið var heldur lágt á himni. Bara ljósin í bænum, og þau voru frekar til trafala en hitt.

Það eru góðir göngustígar þarna, sem hlykkjast svona inn á milli trjánna. Svo er niðurinn í umferðinni í fjarska, og niðurinn í ánni aðeins nær. Mjög róandi umhverfi. Allt verður grátt í myrkrinu, hafiði tekið eftir því? Þegar maður er kominn inn á milli trjánna, er allt grátt.

Svo, þegar ég hafði gengið í gegnum skóginn, og var kominn hinumegin, þar sem niðurinn í umferðinni yfirgnæfði næstum lækinn, þá varð ég var við að ég var kominn með marga skugga. Örugglega fjóra, misdaufa. Ennþá ekkert að sjá nema svart á gráu, þannig að ég efast um að ég hefði getað náð mynd af þessu merkilega fyrirbæri hefði ég haft myndavél.

Stundum heyrðist mér sem fleyri væru þarna á ferðinni en ég, ég þóttist heyra fótatak. Ég hitti tvær manneskjur á leiðinni inn, svo ég hugsaði, að kannski væru fleiri í dalnum en ég. Það er ekki ólíklegt. Elliðaárdalurinn var víst einn aðal-felustaðurinn í stóra kókaínmálinu. Kannski hefði ég getað hitt einhverja athyglisverða bófa?

En þegar ég leit við sá ég engan. Kannski því það var enginn, kannski því það var kol-niðamyrkur, kannski vegna þess að hver sem það var, hafði sá hinn sami beygt af leið, og var kominn inn á milli trjánna.

Ég heyrði þetta alltaf öðru hvoru, fótatak, skammt frá. Og stundum datt mér í hug, að einn af þessum auka skuggum sem fylgdu mér, gætu hugsanlega tilheyrt einhverjum öðrum. Einhverjum sem er ekki svo líkur mér.

Ég sá einusinni kanínu í dalnum. En þá var að sjálfsögðu bjart.

sunnudagur, september 26, 2004

Dagur 207:

Fann 15.000 kall inná bankabók sem ég hélt ekki að innihéldi svo mikinn pening. Ekki slæmt. Nú er að sjá hvort ég geti ekki breytt þeim pening í 20.000 kall.

Það er þessi heimabanki. Sniðugt dæmi. Ég skráði einn slíkan á mig fyrir meira en ári, en hef ekkert fiktað í því fyrr en nú. Merkilegt lítið helvíti. Nú get ég leikið mér að peningunum, eins og Jóakim aðalönd. Ja, kannski ekki alveg eins. Ég held það verði snúið að synda í þessu... Svo vantar mig svona peningatank. Það væri flott.

Svo var ég að horfa á formúluna. Hún var frekar slöpp, að vanda. Ekkert nema þessir bílar, keyrandi í hringi. Engin flott kröss eða neitt. Tímasóun.

This site is certified 52% EVIL by the Gematriculator

Muahahahaha!

laugardagur, september 25, 2004

Dagur 206:

Það rignir enn. Þegar ég kom út voru fleyri lauf á framrúðunni hjá mér en á trjánum. Þetta er plúsinn við eyðimerkur, engin lauf. Heldur engin rigning. Þegar ég hugsa út í það, eru eyðimerkur hreint ekki svo slæmar. Ef það væri ekki fyrir þennan hita... En hvað með Góbí-eyðimörkina? Mér skilst hún sé ekki svo heit. Og svo er það Atacamaeyðimörkin í Chile. Hún er það sunnarlega, að þar er varla of heitt. Þar rignir heldur aldrei.

Kannski yrði svolítið langt fyrir mig að fara í skólann þaðan.

Svo er nú að byrja í Tívinu fyrsti kappakstur sem haldinn hefur verið í Kína. Kínverjar eru smátt og smátt að verða hægrisinnaðri. Eins og er eru fleiri mjög vel stæðir og ríkir kínverjar en eru bretar á öllum Bretlandseyjum. 200 milljón manns hafa aðgang að internetinu, og það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir kommana að stjórna því hvað fólkið sér og heyrir.

Já. Núna er Kína land tækifæranna.

föstudagur, september 24, 2004

Dagur 205:

Það er ógurlegt veður þarna úti. Og þetta hristir duglega úr trjánum. Það verða ekkert nema greinar á bílastæðinu á eftir. Hvað þá úti í garði. Þetta er einn af þessum dögum þegar gott er að eiga bíl.

Það er fátt eins dásamlegt og að sitja í bíl, í hlýjunni, og vera að fylgjast með einhverjum sem er að hjóla. Á móti vindi. Í rigningu og roki. Eins er gaman að hugsa til fólksins sem þarf að nota strætó. Það fer út, og gengur óravegu í regninu, til þess að bíða í korter úti í slagveðri -því í íslenskri veðrátt blæs regni og kulda inn í skýlin, gefið að það séu skýli- og hundblotnar.

Haha! Hí á ykkur!

Hmm... skyndilega lítur þetta ekki svo illa út, er það? Svona er þegar maður hefur eitthvað til að gleðjast yfir.

fimmtudagur, september 23, 2004

Dagur 204:

Heyrði af bíllausa deginum í kvöldfréttum sjónvarps. Hefði trúlega keyrt meira ef ég hefði vitað af honum. Hvernig annars dettur þessu líði í hug að einhver sem á annað borð eigi bíl fari að heiman án hans? Býr þetta lið kannski ekki í Borg Óttans?

Seinast þegar ég tók strætó, þá var sko farið með mig lengri leiðina. Svo var ekið yfir á rauðu nokkrum sinnum, og uppi á gangstétt, og svo á einum stað fór ökumaðurinn afturí til að rabba við farþega, og þar dvaldi hann í um 10 mínútur.

Já. Strætó. Það er í einokunarbissness.

Og nú, aftur vaknaður of snemma, langar til að vera - í einhverju öðru ástandi, helst sofandi.

miðvikudagur, september 22, 2004

Dagur 203:

Gúllasið gekk bærilega upp. Það var svolítið salt, en ekki svo mjög að það væri farið að verða óþægilegt. Hvað næst? Ég var að pæla í að rista brauð.

Og hvernig gerir maður svo gúllas, myndi einhver spyrja? (Þó ég einhvernvegin efist um það, en ég segi það samt.)

Maður tekur kjötið, og setur það í pott með sjóðandi olíu. Ekki mikilli, bara svona slettu. Þar til kjötið brúnast. Svo setur maður nóg vatn í til aðrétt standi upp úr efstu bitarnir, og síður. Gott er að krydda. Sumir setja gulrætur. Ég hvorki nennti því né hef áhuga á að borða gulrætur.

Þetta kryddar maður með salti og pipar (hverslags piparsveinn væri ég ef ég ætti ekki pipar?) og lárviðarlaufi. Reyndar setti ég fullt af allskonar meira kryddi oní þetta, og maísmjöl (til að þykkja sósuna, hún var eitthvað svo vatnskennd).

Þetta bragðaðist ágætlega.

mánudagur, september 20, 2004

Dagur 201:

Fikt fikt fikt.

Hvað í helvítinu er með þetta MSN? Botna ekkert í því. Sænaði mig inn á það um daginn af rælni, í fyrsta sinn, og hvað gerist eftir ekki eina sekúndu?

Fullt af fólki birtist sem kontaktar! Veit ekki af hverju.

Og, hvernig stendur á því, að þegar umferðin eykst á götunum, þá bregst bærinn við með því að mjókka göturnar, eða á annan hátt gera þær ógreiðfærari? Ef Boggi er þarna að lesa, þá átt þú, sem sálfræðimenntaður maður, að kanna hvort í gatnagerð RKV séu í raun heimskari menn en annarsstaðar á landinu, sem er mín kenning. Og af hverju er það svo?

Það þarf að komast að þessu. Maður veit ekki nema það séu til pillur við þessu.


sunnudagur, september 19, 2004

Dagur 200:

200 dagar? Að hugsa sér að ég skuli nenna þessu... jæja.

Ég hef tekið eftir því, að á sumum gatnamótum kviknar fyrr á ljósunum öðru megin. Ég hvorki veit né skil af hverju það er svoleiðis. Fyrst þegar ég tók eftir þessu, hélt ég að strætó væri alltaf að fara yfir á rauðu. En nei, bara úr annarri áttinni.

Ég er kominn með þetta spaghetti-dæmi alveg á hreint! Nema, þ.e, þennan hluta þar sem ég á að fjarlægja það af veggnum á eftir... amma er ekkert of ánægð með það hjá mér. -Næst, gúllas! Eða amk eitthvað sem ég vona að lýkist gúllasi, eða í það allra minnsta, bragðist eins og gúllas...

Og meðan ég man:

This site is certified 43% EVIL by the Gematriculator

laugardagur, september 18, 2004

Dagur 199:

Var að hugsa, eins og venjulega.

Ef maður á bíl, sem maður fékk á 100.000 kall, og er að baorga af þessu 50.000 á ári í vigerðir, það sama í tryggingar, og svo eyðir þetta 10-15 á hundraðið, hve dýrt er það?

Það væri að gera 200.000 á árinu sem bíllin er keyptur, +bensín, sem er 10-15k á mánuði, eða 120-180k á ári, eða samanlagt 320-380K. Eftir það er það 220-280K, því þá er búið að kaupa bílinn.

Ef hins vegar keyptur er nýr bíll. Gefum okkur að um sé að ræða ódýrustu týpu. Á lánum er það 20K á mánuði, +bensín og tryggingar.

Gefum okkur að sá bíll eyði 7-8 á hundraðið, eða 84-96K á ári.

Að reka þann bíl kostar því 374-386K á ári, á hverju ári.

Eftir 5 ár, er sá sem keypti nýjan bíl sem bilar aldrei því búinn að eyða 1.900K, en hinn, 1.350k

Fyrir muninn er hægt að reka notaða bílinn í 2 ár.

Gaman að hugsa til þess.




föstudagur, september 17, 2004

Dagur 198:

Bjórkvöld í gær. Sem olli því að ég vaknaði jafnvel fyrr en venjulega, og finnst mér þó nóg um. Hegðaði mér... já, ætli við látum þá lýsingu ekki bara nægja?

Ég dansaði amk ekki uppi á borðum. Sem er mjög gott. Prófaði litháenskan bjór. Hann bragðaðist mikið öðruvísi. Ekki ósvipað og sínalcó...

Og nú lykta ég hörmulega. Ég fæ klígju af þessu. Þessi lykt sem kemur, og festist í mér, og fer ekkert fyrr en eftir langa mæðu. Og ég á enga sök þar á. Ég reyki ekki.

Hefði sennilega mátt við því að drekka aðeins minna. Ég finn það á mér.

--

Einhver Eiríkur bauð öl á línuna. Það var mjög höfðinglegt af honum. Að vísu á það hlut í líðan minni áðan - þangað til ég ældi... Sem er ekki æskilegt. En samt er það æskilegt, því mér leið talsvert betur á eftir. En slæmt, því þar fór morgunmaturinn, og mér finnst einhvernvegin að ég fái ekki nóg út úr matnum þegar hann fer út aftur á þennan hátt.

Og svo brosir fólk til mín. Hvað sagði ég eiginlega?

fimmtudagur, september 16, 2004

Dagur 197:

Það var fullt af laufum á bílnum mínum í morgun. Og lika trjágrein. Svona lagað gerðist aldrei í eyjum. Mér er meinilla við tré útaf svona hlutum. Og svo er langholtsvegurinn fullur af þessum fjanda!

Þetta heldur þó vindinum í skefjum...

miðvikudagur, september 15, 2004

Dagur 196:

Bætti við link. Nú geta allir notal Illskumælinn til að tékka á hversu illar heimasíður þeir hafa. Forvitin, er það ekki?

En ég hef tékkað, og þau sem ég hef tékkað á eru ekki það ill, nema kannski Þóranna...

Ég veit ég var með þetta hérna fyrir einhverjum mánuðum, en þá náttúrlega gleymdi ég að setja upp link hér til hliðar, sem er náttúrlega bráðnauðsynlegt öllum þeim sem vilja komast að hve ill bloggin þeirra eru.

Ég myndi segja eitthvað meira sniðugt, til dæmis hvað ég var að gera í gær, en satt að segja er ég bara búinn að gleyma því.

Já, meðan ég man: þessi færzla er 52% Ill.

(það er Þóranna, það má ekki einusinni mynnast á hana!)

þriðjudagur, september 14, 2004

mánudagur, september 13, 2004

Dagur 194:

Helgin var... öðruvísi. Fór alla leið til Ólafsfjarðar og til baka. "88 módel Range Rover eyðir 12 á hundraðið á langkeyrzlu, by the way.

Þett var ekki mín hugmynd, heldur ákváðu foreldrar mínir það að gaman væri að láta bílinn bila undan sér eitthverstaðar uppi á heiði. Svo hringdu þau í mig, og ég náði í þau.

Það var andskotanum dimmara þarna fyrir norðan. Ók yfir fugl sem var að skokka á veginum. Sá tvo menn draga dauðan hest uppúr skurði. Ók frammá hóp hestamanna í myrkrinu.

Allt styður þá kenningu mína að hestamenn séu vitlausari en annað fólk. Það er eitthvað stórlega að þessu liði. Það getur ekki verið í lagi með fólk sem finnst virkilega gaman að moka flór.

Svo var þetta pakk þarna í myrkrinu, í dökkum fötum, sitjandi á dökkum hestum, algerlega ljóslaust og án endurskyns... ÚTI Á MIÐJUM VEGI! eins og fífl.

Ég verð ekkert undrandi ef það verður keyrt yfir þetta lið.

Hitti svo ömmu. Það verður að hitta hana. Það er ekki hægt að keyra alla leið norður, og hitta hana svo ekki.

Jæja.

laugardagur, september 11, 2004

Dagur 192:

11 september. Ah. Merkur dagur í sögunni. Dagurinn þegar kaninn fékk afsökun til að nota talibana í skotæfingar.

Merkileg tilviljun, (eða hvað?) núna um daginn voru Rússar einmitt að fá afsökun til að stunda skotæfingar á þjóð á svipuðum slóðum. Ekki það að þeir hafi mikið þurft afsökun. Rússar hafa aldrei verið miklir PR menn. Maður þarf ekki að vera dipló ef maður á sprengjuna, og hefur fullt af liði sem manni er alveg sama um.

Það hefur annars fátt gerst í vikunni. Eða þannig. Gerðist kannski margt? Lát oss sjá...

Náði í kerru, og flutti alskyns drasl, talaði við athyglisverða manneskju til lengri tíma -bara af því að það var hægt-, setti upp rafmagn í Fjölblendi - eða var það í síðustu viku? Hmm... svo náði ég í þennan jeppa og lét setja í hann rafgeymi.

Hmm. Hamagangur.

föstudagur, september 10, 2004

fimmtudagur, september 09, 2004

Dagur 190:

Vaknaði aftur fyrir allar aldir... þarf þess... ég hefi talið mér trú um að ég þurfi að mæta í tíma.

Veðrið hefur batnað síðan áðan. Það var leiðinda rigning. Þetta ætlar að vera eins og í gær; ógurleg rigning fyrir hádegi, svo jafnast þetta, og verður þolanlegt.

Lendi í eintómu snatti í dag. Þarf að laga póstinn, geri það á leiðinni heim. Svo þarf ég að ná í bíl. Veit ei svo gjörla hvað ég á að gera við hann. Sé frammá að fyrirbærið bverði bara til trafala.

Svo var ég að koma af leiðinlegum leiðinlegum fyrirlestri, með samt mjög athyglisverðri yfirskrift:

Er siðmenning ónáttúruleg?

Merkilegt nokk, komst ég að því að hann var haldinn af femínista. Femínista hef ég aldrei skilið. Þetta lið hefur til dæmis aðra skilgreiningu á "náttúrulegt" heldur en ég.

Verst líkaði mér samt, að það var ekki mikið fjallað um hvernig siðmenning á að vera ónáttúruleg. Og það var lítið imprað á því í mjög löngu máli. Af æ lengri reynzlu er mig byrjað að gruna að femínistar séu upp til hópa mjög leiðinlegt fólk.

En nú hef ég eitthvað til að hugsa um: er siðmenning ónáttúruleg? Ég aðhyllist þá kenningu að hún sé það ekki.

En, ég er náttúrlega ekki femínisti.

miðvikudagur, september 08, 2004

Dagur 189:

það rignir svo mikið að mig er farið að gruna að ég hefði kannski átt að smíða þessa örk sem skrítni kallinn á háaloftinu sagði mér að smíða...

þriðjudagur, september 07, 2004

Dagur 188:

Allt í lagi, ég hef 20-25 mínútur til að sóa. Svo ég get alveg eins skrifað einhverja vitleysu hérna. Ég gæti talað um rigninguna, en ætla ekki að gera það. Ég gæti rætt aðains um tréin og laufblöðin, en nenni því ekki.

Í staðinn, hvað þá?

Ja, það er náttúrlega þessi ísskápur sem ætlar sér að verða til meiri vandræða en hann er verður. Ég nenni ekki að ná í hann. Hann er einhversstaðar í fjarska. Og það er líka hálf tilgangslaust að sækja hann. Að ég tali nú ekki um snúið (sem ég ætla ekki að gera).

Næsta mánudag verður trúlega ekkert að gerast.

mánudagur, september 06, 2004

Dagur 187:

Þessir hálfvitar hjá bænum eru að skemma alveg helling þessa dagana. Á skeiðarvoginum (kíkti á skiltið á leiðinni hingað) eru þeir búnir að fjarlægja hringtorg, og búnir að setja upp umferðarteppu... ég meina ljós. Svo eru þeir búnir að taka aftur bílastæðið sem þeir bjuggu til úr götunni, þetta sem enginn notaði, og setja aftur tvær akreinar, en til að þær séu ekki eins góðar, þá eru þeir að mjókka þær.

Við laugarásinn fara líka fram vegamjókkanir. Allt til að torvelda samgöngur. Ég veit ekki hvað þessir vitleysingar eru að hugsa, þetta styður allt þá kenningu mína að vegakerfi RKV sé hannað af mongólítum á LSD.

Það eru engir gáfaðir menn í vinnu hjá ríkinu, er það nokkuð?

laugardagur, september 04, 2004

Dagur 185:

Og þá er ég kominn til RKV. Aftur. Fór með bílinn í herjólf kl. 7.45. Með farangurinn. Herjólfur fór 8.15. Ég fór kl.9.00 með flugi. Það kom slík demba rétt eftir að vélin var lent, að slíkt hefi ég aldrei séð áður innan landsteinanna.

Á leiðinni til RKV, sá ég herjólf göslast áfram í rólegheitunum.

Fór með frænda í Þorlákshöfn. Kom á undan dallinum.

RKV hefur breyst nokkuð síðan seinast. Fleiri hús. Hringtorg þar sem ekki var áður, vegaframkvæmdir... Reyndar eru framkvæmdir rétt hjá þar sem ég bý, þar sem þeir eru að breyta hlutunum í það sem þeir voru áður en þeim var breytt seinast. Fíflagangur.

Útvarpið datt úr sambandi um daginn, svo nú heyri ég veghljóðin betur. Ég vissi ekki að það ýlfraði svona í dekkjunum þegar ég beygi...

Og hvað nú?

Skal ekki segja.

föstudagur, september 03, 2004

Dagur 184:

Gæti verið að ég þurfi svefn? Ég held ég sé farinn að delera. Það gæti versnað í framtíðinni ef ekkert er að gert. Kannski þarf ég bara að drekka smá kaffi...

fimmtudagur, september 02, 2004

Dagur 183:

Blogg númer 111. Sem er mjög góð tala. Miklu betri en td. 254, eða 769, eða 496.

Las einhversstaðar fyrir löngu að grillkokkar séu í meiri hættu á að fá lungnakrabba, og þeir sem borða grillaða hluti geti fengið magakrabba.

Hægur bruni. Það er málið. Eiturefni verða frekar til við hægan bruna. það er sama hvað er brennt, ef það er brennt við lágan hita verða til 10X fleiri eiturefni en við hærri hita. Við hraðan bruna verður til óson, en það er mjög hæpið að slíkt gerist á grillinu heima. Grilleldur er ekki nógu heitur. Það þarf að vera um það bil 1000 gráðu hiti til að búa til óson. Það vill enginn kótelettur sem hafa verið grillaðar við 1000°C. Það heitir kol.

Bílvélar eru stilltar, viljandi, as per regulation, til að búa til eins mikið af baneitruðum efnum og hægt er. Baneitur er nefnilega bæði slæmt fyrir gróðurinn, og lungun. Svo er hvarfakútur á þessu öllu núorðið. Það kemur möndlulykt úr útblæstrinum þessvegna. Veit ekki af hverju, en það virkar ekki rétt, einhvernvegin.

Við gætum verið að dæla út koltvísýringi, sem fengi grasið og tréin til að vaxa, en nei, við fáum eitthvert eiturefni sem lyktar af möndlum!

miðvikudagur, september 01, 2004

Dagur 182:

Þetta ætlar að verða mjög andstyggilegur dagur. Nei. Þetta er mjög andstyggilegur dagur. Athugun eftir 10 mín... vitiði hvernig það er? Síminn stoppar ekki.

Allt vegna þess að veður og vindar þurfa endilega að vera með einhverja stæla. Strax í gær var pokinn byrjaður að snúast í hringi. Ekki sniðugt. Hef þess vegna eiginlega of lítinn tíma til að slæpast.

Það tók korter að skrifa þetta.