mánudagur, október 31, 2005

Dagur 238 ár 2 (dagur 603, færzla nr. 329):



Ég rambaði frammá þennan link um gröfur. Fannst þetta afar spaugilegt.

Það er örugglega voða gaman að vera á gröfu, kremja kluti, keyra yfir þá, velta þeim um koll og svo frv.



Sjáið stærðina á þessu!

Og úr því ég er byrjaður að pæla í eyðileggingu og veseni... nú, þá held ég bara áfram:



Hvað er þetta? Nú, þetta auðvitað.

föstudagur, október 28, 2005

Dagur 235:

Jæja, þá er byrjað að snjóa. Það þýðir að við getum farið út og byrjað að búa til snjókalla.

En það þýðir líka að maður kemst í jólaskapið fyrr. Næst er bara að byrja að baka, eða ef maður kann það ekki, finna einhvern sem kann það og þvinga viðkomandi til þess.

Já, fátt er eins jólalegt og að renna til í hálkunni. Sem mynnir mig á það, ég er á nærri sléttum sumardekkjum. En það gerir ekkert til, því ég hef drif á öllum! Hah!



Já.

Sem aftur mynnir mig á það:

fimmtudagur, október 27, 2005

Dagur 234 ár 2:

Þá er komið að stjörnuspánni:

Vatnsberinn:

Í dag er góður dagur fyrir vatnsberann að panta pítsu og horfa á sjónvarp.

Fiskurinn:

Óvæntur atburður mun henda fiskinn í dag - nema hann lesi þetta, þá býst hann við honum.

Hrúturinn:

Hrúturinn þarf að róa sig niður í dag, fá sér kakó, kleinur og svo kannski að leggja sig aðeins í sófanum.

Krabbinn:

Krabbinn er mjög meinlegur í dag, sem og aðra daga.

Ljónið:

Í dag er ljónið á veginum.

Nautið:

Nautið hefur verið hálf beljulegt í dag, og mun þurfa að beita bolabrögðum til að líða betur.

Tvíburarnir:

Annar tvíburinn er með alvarlega lifrarskemmd sem mun draga hann til dauða fái hann ekki heilbrigða lifur fljótlega. Hlauptu, heilbrigði tvíburi! Hlauptu!

Meyjan:

Meyjuna grunar að sinn heittelskaði leiti til annarra kvenna á bak við sig. Það gæti verið rétt, er meira að segja mjög líklegt, því hann fær aldrei neitt hjá meyjunni.

Vogin:

Vogin gæti hugsað til þess hvort hún er löggild. Þær vogir sem eru á Vogi eru örugglega löggildar.

Sporðdrekinn:

Sporðdrekinn lifir í þeirri blekkingu að hann sé heppinn. Lukkutölur hans eru 2 & 14.

Bogmaðurinn:

Veðurspáin er ekki hliðholl Bogmanninum. Veðrið sjálft er afar hrifið af honum, en spáin er honum andsnúin. Illt er í efni.

Steingeitin:

Í dag er góður dagur fyrir steingeitina að leigja spólu, td "Capricorn One" með OJ Simpson og gæjanum þarna í Law & Order, og borða poppkorn.

Þetta var stjörnuspáin. Vona að þið hafið gagan af.

miðvikudagur, október 26, 2005

Dagur 233 ár 2:

This site is certified 47% EVIL by the Gematriculator

Seinast var síðan 47% evil þann 2. des 2004.

Illst hefur hún verið 57% það var 27 jan.
Minnst ill hefur hún verið 14% þann 9 okt.

Að öllu jöfnu hefur hún verið undir meðallagi ill.

Auðvitað verður að tékka á þessu mjög svo áreiðanlega testi hér til að komast til botns í þessu:


How evil are you?


Það er greinilegt hve upptekinn ég er.

þriðjudagur, október 25, 2005

Dagur 232 ár 2:

Þegar ég mætti upp í bókhlöðu varð ég var við það að fyrir marga er ein tölva ekki nóg. Sumir finna hjá sér þörf fyrir að nota tvær - eina fyrir hvora hendi.

Mér var hugsað til þess er ég sá einusinni Tori Amos spila í þættinum hans Jay Leno. Hún spilaði á tvö píanó samtímis. Það er hennar trikk. Ef það eru margir sem geta þetta, þá held ég hún verði að finna sér betra trikk. T.d spila á þrjú píanó samtímis.

En svo er ég líka að velta öðru fyrir mér: hvers vegna skildi nokkur þurfa tvær tölvur? Er þetta nokkuð annað en stælar, eða hefur fólk sumt í alvöru náð að koma sér í slík vandræði að virkilega þurfa tvær?

Ég meina, ég nenni varla að nota eina tölvu, hvað þá tvær. Hvað ætti ég að gera við extra tölvuna? Sörfa netið á henni meðan ég spilaði Doom í hinni? Hvað?

laugardagur, október 22, 2005

Dagur 229 ár 2:

Hvernig stendur á því að mikla brautin annar minni umferð núna en hún gerði fyrir breytingu? Ekki hefur umferðin aukist um 100% síðan þá?

Kenning:
1: Það eru of mörg umferðarljós. Það þarf að fjarlægja þau öll.
2: Það þarf aðra lykkju þar sem brúin er. Eina til að komast niður komi maður frá hlemmi, aðra til að maður komist niður frá öskjuhlíð.
3: Það þarf lykkju þar sem beygt er inn á flugvöll, eða stórt hringtorg til að auka flæði umferðar. Það þarf að vera breitt svo menn geti athafnað sig þar á trukkum.

Þar sem miklabraut liggur þvert á hlíðarnar þarf hringtorg. Það mun mikið liðka umferð. Svo þarf eina stóra lykkju við mót miklubrautar og grensásvegar. Þá yrði hægt að aka alla leið að ljósunum við afleggjarann uppá Þorlákshöfn án þess að stoppa. Þar þarf að setja upp almennileg gatnamót, helst lykkju.

föstudagur, október 21, 2005

Dagur 228 ár 2:

Auglýsingar eru alveg sérstök fyrirbrigði á dagskrá sjónvarpsstöðvanna. Reyndar líka í útvarpi, en þar eru þær reyndar meiri truflun frá músík - ef frá er skilið þetta stutta tímabil þegar Sigurjón Kjartansson og co voru að auglýsa Domino's pizzur.

Ég furða mig stundum enn á þvottaefnisauglýsingunni þarna með hrukkóttu kellingunni.

"Hey þú!" segir kelling. Maður heyrir í henni og röltir nær henni. Þegar hann kemur í færi skvettir hún á hann einhverjum litsterkum vökva.

"Hann er undrandi, en það er ég ekki," segir kelling.

Auðvitað er hún ekki undrandi, hún gerði þetta! Hún vissi allan tímann að hún gerði þetta.

Nú er komin önnur auglýsing fyrir þetta þvottaefni sem ég hef enn ekki náð að festa athyglina við.

Svo er auglýsingin með bílnum hans Ofur-Baldurs. "Allir hafa sitt stolt," segja þeir. Hvað er athugavert við bílinn hans Ofur-Baldurs? Þetta er eins og Kadilakk, segir hann, lítur kannski út eins og uppblásinn Ástin Míní, en nú til dags líta allir bílar út eins og sandkassaleikföng hvort eð er.

Svo er meira óþolandi gerð auglýsinga:

"Ég ætla bara að bíða!" tilkynnir mér rödd. Eftir hverju? Kemur ekki á daginn að þetta er ein af þessum fjölmörgu "ekki gera þetta" auglýsingum. Ef hlutirnir eru enn eins og þeir voru þegar ég var yngri er nú verið að gera grín að þeim sem tóku þátt í þessari auglýsingu, hvort sem það er gert góðlátlega eða ekki.

Mér líkaði betur við auglýsinguna þar sem gæinn henti krakkanum niður stiga. Það var fyndið nokkrum sinnum í röð. Auglýsingin þar sem gæinn keyrði á vin sinn, augljóslega viljandi varð ekki fyndin fyrr en eftir tvö þrjú skifti - þegar ég veitti því athygli að gæinn tók róttæka beyju lengst uppá gangstétt til að aka yfir félaga sinn - og varð svo smám saman gömul.

Ég er enn að velta því fyrir mér, gleymi því enda alltaf jafnóðum, hvort auglýsingin með fljúgandi reiðhjólinu er ein af þessum auglýsingum, eða hvort það er bara tryggingafélag að selja líftryggingar.

***

Ég er enn að bíða eftir að einhver geri almennilega kvikmynd. Ef auglýsingarnar eru orðnar svona tilkomumiklar, afhverju eru þá allar íslenskar kvikmyndir ennþá svona, ja, fúlar. Kannski þarf bara sú kynslóð sem öllu ræður ennþá að leggjast í helgan stein, eða undir helgan stein.

Þá kannski gerir einhver kvikmynd um menn sem keyra yfir fullt af börnum á reiðhjólum, og fullt af gangandi vegfarendum uppá gangstétt, og aka því næst á fullu inn í kringluna í leit að auðveldari bráð.

Ég myndi borga fyrir að sjá það.

fimmtudagur, október 20, 2005

Dagur 227 ár 2 (dagur 592, færzla nr. 322):

Datt nokkuð í hug: Ég ætla að gera eins og Boggi, og grafa upp hvað ég var að segja fyrir ári. Kannski get ég einhverntíma tekið mig til og grafið upp hvað ég var að gera fyrir 10 árum... sem mynnir mig reyndar á nokkuð...

Allavega:

miðvikudagur, október 20, 2004

Dagur 231:

Rakst á þetta: Bannað að framleiða Hitler

Bannað að framleiða Hitler? Hmm... hugsa ég, af hverju? Svo kemst ég að því að það má ekki framleiða spilakassa, og nefna þá "Hitler". Sem er alveg jafn skrýtið. Þessi Hitler er kominn í þá mjög athyglisverðu stöðu, að vera álitinn Guð.

Lof mér að útskýra:

Einungis það að nefna nafn hans fær fullt af fólki í útlöndum (og kannski fáeina veiklaða einstaklinga hér) til að skjálfa á beinunum. Þó hann sé búinn að vera dauður í mörg ár. Já, það hafa nefnilega liðið fáein ár síðan 1945. Svona 2 eða 3 amk.

Guðlegt, það segi ég. Fólk trúir á hann, líkt og grikkir trúðu á Hades. Það hlýtur að koma að því að einhver stofnar svona Hitler-költ í kringum hann. Næg er hysterían. Ennþá.

Ég persónulega er mótfallinn því að óttast löngu látna menn.

Posted by: asgrimur / 9:54 AM

Gaman af þessu.

Þetta er gott trikk hjá Bogga þegar hann hefur ekkert að segja, að ryfja bara upp fortíðina. Fortíðin var nefnilega góður tími, þegar við þurftum ekki að hafa áhyggjur af neinu nema framleiðslu á hlutum sem heita Hitler.

mánudagur, október 17, 2005

Dagur 224 ár 2 (dagur 589, færzla nr. 321):

Ég hef verið að pæla í nokkrum hlutum undanfarið, og er með kenningar:

1:

Baugsmálið.

Ég hef enn ekki skilið það allt, og mun seint, enda vill enginn tala af lagalegum ástæðum. Fullt af fólki er til í að hreyfa tunguna og gefa frá sér hljóð, en ekkert af því er í neinum tengslum við efnið sem þau þykjast ræða um, svo ekkert er þar að fá.

Á hinn bóginn held ég að ég hafi skilið hvernig kellingin þarna, þessi sem var á öllum forsíðunum um daginn, Jóna eða eitthvað, þið vitið, þessi gamla, feita þarna, sem hefur mikið verið röflað um í tengslum við málið, ég tel mig vita hennar sögu:

leiðréttið mig ef ég segi eitthvað rangt...

1: kvensan kemur sér upp líkamsræktarstöð.
2: líkamsræktarstöðin fer á hausinn.
3: kvensan hittir Jóhannes í bónus, og hann tekur hana upp á sína arma.
4: kvensan heimtar að Jóhannes í bónus borgi það sem uppá vantar í þrotabúi hennar sjálfrar.
5: Jóhannes í bónus vill ekki borga.
6: kelling móðgast mjög og það kemur til málaferla sem berast út á götu.

Sem sagt, kellingin hefur í raun ekkert tilkall til þess að vera hluti af þessu annars dularfulla máli. Hún er hluti af allt öðru og auðskiljanlegra máli, og er í raun vondi kallinn í því.

Hvar Davíð kemur inn í það veit ég ekki, en ég hef enn þá kenningu að það tengist krabbameini í skjaldkirtli og ofsóknarhugmyndum sem kunna að stafa af slíkum kvillum.

***

Annað sem ég hef hugsað um er Haltu Kjafti, spjallvefur Vina Ketils bónda. Sá vefur sýnist mér hálf dauður síðan Húgó nokkur lokaði fyrir alla heimskulegustu þræðina: 1000 hlutir til að gera á fimmtudögum, og 100 hlutir til að segja ef maður rekur tána í þröskuldinn og svo frv.

Mig grunar að þeir þræðir hafi haldið fólki við efnið. Nú þegar það er ekkert heimskulegt lengur að stunda, þá hefur fólk minni ástæðu til að fara á spjallþræðina.

***

Hvað er málefnaleg umræða?

til að komast að því þurfum við fyrst að átta okkur á:

1: hvað eru málefni?
2: hvað er umræða?
3: hvað er að vera "einhvers-legur"?

Umræða, er þegar einhver eða einhverjir halda ræður eða tala saman um eitthvað.

Málefni, hlýtur að vera það sem mál er búið til úr. Kannski er meint pappamál. Ef svo er, þá er ljóst að málefni er pappír. Ef meint er plastmál, þá virðist málefni vera plast.

málefnaleg umræða er þá umræða um pappír eða plast. Sem er vissulega mjög undarleg niðurstaða í ljósi þess hvenaær þessi ferlegi frasi er notaður.

Málefni gæti líka verið það sem talmál er gert úr, þ.e.a.s. orð og hljóð úr munni.

Þá skulum við skoða hvað það er að vera "einhvers-legur". Það er að sjálfsögðu að líkjast einhverju, eða vera einhvernveginn augljóslega eða sjáanlega á einhvern hátt. Þ.e: að vera bjánalegur er að vera eins og bjáni, að vera ógurlegur er að lýkjast ógri, og þar farm eftir götunum.

Vissulega leiðir af þessu að vera málefnalegur er að lýkjast orðum eða hljóðum úr munni.

Og þar hef ég niðurstöðuna:

Málefnaleg umræða er umræða sem líkist helst því þegar talað er.

Þetta útskýrir nú ýmislegt.

laugardagur, október 15, 2005

Dagur 222 ár 2 (dagur 587, færzla nr. 320):

Ég var að glápa á fréttirnar í gær, með öðru auganu... eða var það í fyrradag? Man ekki svo gjörla. En hitt veit ég að það eru komið nýtt orðskrípi inn í pólitíska umræðu: dylgjur.

Nú geta pólitíkusar sagt "hann lýgur þessu" og litið út eins og fávitar í leiðinni. Hvernig? Jú, það er miklu erfiðara að hlusta á setningar eins og "hann er með einhverjar dylgjur um þetta mál" en einfalda kjarnyrta íslensku eins og "hann lýgur því!"

Og þeir eru ekki enn búnir að þvo burt hið einstaklega heimskulega orðasamband: "þessi orð dæma sig nú sjálf".

Förum aðeins yfir aftur hvernig orðasambandið "þessi orð dæma sig sjálf" er heimskulegt:

Orð geta ekki dæmt sig sjálf. Einungis menn geta dæmt orð, dæmt þá hvað þau þýða í hinum ýmsu setningum, til dæmis geta menn dæmt hvað orðið "á" þýðir.

Ef orð væru viti borin fyrirbæri væri brot á þeim í sjálfu sér að nota þau svona eins og við gerum, með því að skella þeim upp á auglýsingar og á fullt af stöðum sem ég er ekkert viss um að skini borði orð myndi vilja vera á.

Hvernig myndi til dæmis orðinu "bakarí" líka að vera sett upp á salerninu? Hvernig ætli orðinu "salerni" annars myndi líða?

Nei, orð eru ekki viti borin, og dæma ekkert, síst af öllu sjálf sig, frekar en osti bragðast hann sjálfur best.

Svo ef einungis menn geta dæmt orð, hvað er þá fólk að meina þegar það segir hluti eins og: "þessi orð dæma sig auðvitað sjálf".

Nú, mín ágiskun er þessi: þegar fólk segir "þessi orð dæma sig sjálf", þá þýðir það að sá sem talaði er ekki hrifinn af þeim orðum sem hafa verið töluð eða skrifuð, en getur ekki fengið sig til þess að segja "mér líkar ekki það sem þessi maður er að segja" því það er of einstaklingsbundið. Einnig hljómar það afar fáviskulega að segja: "allir sjá að þetta er bara bull."

Af hverju vill fólk ekki segja: "þetta er bara bull"? Nú, þá þarf það að rökstyðja það. Segja afhverju því finnst orðin bara bull.

Þetta pakk talar allt dulmál.

Væri ekki heimurinn betri ef menn notuðu orð meira bókstaflega?

Bleika kanínan pissar á Einar Ben. Hallelúja, Amen.

miðvikudagur, október 12, 2005

Dagur 219 ár 2 (dagur 584, færzla nr. 319):

var að velta fyrir mér stjörnumerkjunum. Ég held að ég hafi fundið mitt:

laugardagur, október 08, 2005

Dagur 215 ár 2 (dagur 580, færzla nr. 318):

Var að horfa eitthvað á sjónvarpið í gær. Ákvað að kíkja aðeins betur á þann klaufalega nefnda þátt "Íslenska Batselorinn". Ég hafði nefnilega rekist á part af hunum um daginn, og sá ekki betur en dömurnar sem þeir hjá skjá 1 höfðu fengið væru allar komnar vel yfir þrítugt.

Svo ég kem mér betur fyrir í sófanum og geri tilraun til að horfa á þetta. Ég sá fljótt að þetta er mjög samræmt efni, þessi þáttur. Hann er allur jafn bjánalegur.

Svo kynna þær dömur sig fyrir áhorfendum, og ég verð nokkuð hissa á að sjá að þær eru ekki allar komnar yfir þrítugt. Margar eru meira að segja yngri en ég. Og þær eru allr alveg ferlega ófríðar. Mikið svakalega. Með því að tína kvenfólk milli 20-30 af handahófi úr Kringlunni hefði fengist hópur sem væri skárri í útliti en þetta lið.

Allt mjög skoplegt að sjálfsögðu. Svo nennti ég ekki að horfa meira heldur fór að gera eitthvað annað. Man ekki hvað, en grunar að það hafi haft eitthvað með að gera að horfa á hina stöðina.

Hvað dettur þeim í hug næst? "Íslenski Sörvævirinn"? Sörvævor: Geldinganes? Sörvævor: Viðey? Eða kannski "Næsta Íslenska Top Módelið"? Sú sem vinnur fær að launum samning hjá Eskimó og mun birtast í heilli opnu hjá "Séð & Heyrt".

Svo er RÚV með eitthvað leikið efni. "Kalla-kaffi". Ég hef ekki þorað að horfa á þá þætti af ótta við að deyja úr bjánahrolli.

föstudagur, október 07, 2005

Dagur 214 ár 2 (dagur 579, færzla nr. 317):

Það rignir svolítið.

Jæja. Ég var á leið hingað í hlöðuna þegar einhver kelling nam staðar úti á miðjum vegi. Ég veit ekki af hverju hún gerði það. Hún var ekki nálægt ljósum, hvort sem þau voru rauð eða græn, heldur áhvað hún bara skyndilega að stoppa. Ég vona að trukkur keyri yfir hana. Það á ekki að leyfa svona liði að komast upp með svona vitleysu.

Annars:

1977 módel Ford Fiesta var 755 kíló og með 1100 vél, og eyddi svona 5-6 á hundraðið. það er minna en lítri per 100 kíló, en nálægt. Þessi bíll var með blöndung, eins og flestir bílar fram til 1990 eða svo.

2005 Fiesta er 1137 kíló, með svipaða vél. Hvað eyðir svoleiðis? 5-8 á hundraðið. Það er nánast lítri per 200 kíló. Ef hann væri léttari og minna væri pælt í hvers eðlis útblásturinn er þá gæti hann eytt minna.

Svo er allur þessi rafmagnsbúnaður. Þurfum við hann? Ég held ekki. Ég get lifað af án ABS og rafmagnsstöðugleikabúnaðar og GPS og fjarlæðarskynjara og hvaða drasl meira er eiginlega verið að setja í öll ökutæki nú til dags.

Það er ég viss um að ef allt þetta stöff væri fjarlægt þá yrði bíllinn heilum 100 kílóum léttari.

Ariesinn sem ég átti var ekki með rafknúnum stöðugleikabúnaði, en samt valt hann ekki þó ég tæki vinkilbeygjur á 100 km/h á honum. Það söng svolítið í dekkjunum, en bíllinn tolldi á réttum kili og fór þangað sem ég vildi að hann færi. Sá bíll var 1050 kíló.

Það er enginn bíll lengur svo léttur.

Hvað er svo með innréttingarnar í þessu? Hvað eiga allir þessir stokkar í miðjunni að þýða? Þarf ég í alvörunni að aka með hnéin saman? Af hverju? Hver stendur fyrir þessu?

Í gamla eins tonns Ariesnum var hægt að koma útvarpi fyrir með miðstöðvarstjórntökkunum og öllum þessum loftútblástursopum og tökkum sem þarf til að kveikja og slökkva á hinu og þessu á þess að þurfa að grípa til þess að skella einhverjum meiriháttar fyrirferðamiklum stokki í miðjuna. Er þetta ofviða nútíma hönnuðum, eða eru það bara evrópumenn og Japanar sem kunna ekki að gera þetta?

Og af hverju er Mitsubishi pajero eins og Toyota Hi-Ace í akstri en ekki öfugt? Enginn fólksbíll (Pajero, Landcruiser og jafnvel Patrol er Fólksbílar. Því til stuðnings bendi ég á að þeir eru boðnir með leðursætum og rafdrifnum rúðum) á að vera í akstri eins og einhver sendibíll.

Ég geri mér grein fyrir að Chevy Caprice er eins í akstri og Blazer, eða er það öfugt? Hvorugur sá bíll er neitt líkur International rútu í akstri. Merkilegt, ekki satt?

Ég vil meina að hægt sé að smíða bíl sem er um tonn, en samt nógu stór og rúmgóður til að ég geti setið með hnéin í sundur undir stýri, of fólk í aftursætinu sé ekki að reka hnéin í bakið á mér. Þetta hefur verið gert.

fimmtudagur, október 06, 2005

Dagur 213 ár 2 (dagur 578, færzla nr. 316):

Að venju veit ég í dag hvorki havð ég er að gera né hvað ég á af mér að gera. Það er bara eitt sem er nokkuð ljóst, og það er að ég fer ekki að skoða Október festið í ár. Í staðinn fer ég að vinna.

Já, í staðinn fyrir að eyða pening og hella mig fullan, þá fer ég að vinna mér inn pening, og ekki að hella mig fullan.

Ekki það að ég hafi hingað til tímt að drekka mig mjög fullan á Október festinu. Né nennt því. Það er of þröngt á þingi þarna. Of löng bið eftir meira öli.

Já, ég býst við að ég verði frekar þurr þetta árið. Sennilega næstu líka.

***

Að tengdu máli:

Ég heyri að vitleysingarnir sem öllu stjórna ætli nú að hindra dópista í að kaupa sér nú lögleg eiturlyf með því að gera þeim það ólöglegt.

Ég spái því að við þetta leiðist blessaðir mennirnir út í glæpi, alvöru glæpi sko, ekki lélega glæpi sem koma bara niður á þeim, heldur innbrot og rán og svik vændi og hvaðeina.

En auðvitað er betra að hafa brjálaða dópista farandi um ránshendi en að hafa þá rólega heima hjá sér eða undir tré eða hvar sem þeir halda sig eiginlega.

Ég er á öðru máli en yfirvöld, enda er ég ekki slíkur mannvinur að ég vilji gera mönnum lífið erfiðara og kvalafyllra en það er, og slík er illska mín að ég er hreint og beint á móti innbrotum og líkamsárásum í ránsskyni.

Þvert á móti legg ég til að skammtastærðir þessara stórhættulegu vanabindandi efna verði stækkaðar, helst upp í hundrað töflur á viku eða meira eftir þörfum. Þetta verði svo selt á lágu verði til hver þess sem er svo vitlaus/vonlaus að hann telur sig þurfa þess með.

Ég spái því að það sem ég legg til verði ekki framkvæmt. Ég hef í huga að þetta er sama fólkið og breytti Hringbrautinni. Meikar hún sens? Ekki fyrir mér.

sunnudagur, október 02, 2005

Dagur 209 ár 2 (dagur 574, færzla nr. 315):

Kominn tími til að ryðja út úr sér meiri merkingarlausri þvælu. Eða hvað? Hefur það sem ég segi kannski einhverja hulda merkingu? Hver veit?

Hvað er hægt að gera í dag? Nú, þið getið til dæmis tekið þátt í þessu útboði.

Eða þið getið drukkið sápulög. Eða þið getið horft á sjónvarpið. Samt er mest lítið að hafa þar, svo ég mæli frekar með að þið takið spólu.

En nú er líka hægt að leigja DVD, þó ég kalli það samt að taka spólu, af gömlum vana. Það eru athyglisverðir hlutir. Á þessum diskum er stundum fullt af mis-athyglisverðu aukaefni.

Það er kommentarí með öllu, virðist vera. Til dæmis var kommentarí með Nosferatu. Mér þótti það mjög einkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að allir sem unnu við þá kvikmynd eru fyrir löngu dauðir. Samt, miklu betri mynd en ég þorði að vona.

Kommentarí eru oft mjög óviljandi spaugileg. Menn hafa til dæmist einhvernveginn álpast til þess að sjóða saman kvikmynd sem meikar nokkurnveginn sens alveg fyrir slysni, og nota þá tímann til að hrósa hinum og þessum fyrir vel unnin störf. Hljómar kannski eins og óskarsverðlaunaræða, bara lengri.

"Já, maðurinn sem á þessa belju sem sést í þessu atriði þarna... nei bíddu... hvar er beljan? Þarna! Sjáið! Hann var mjög almennilegur og gaf okkur alltaf límonaði á meðan við vorum á túninu hans at filma beljuna... sem þið sjáið bregða fyrir aftur ... þarna. Einmitt."

Já. Það er ekki margt að gera annað um helgar en að glápa á sjónvarpið. Það kemur að því að ég fer að nenna að hreyfa mig aftur. Málið er að ég borða ekki nóg eins og er til að hafa orku til þess, sem er líklega eins gott, veðrið hefur ekki verð það gott.

Jæja, þetta fer að vera orðið gott. Hvað eru þetta annars mörg orð? 378 með myndum. Afhverju nenni ég þessu? Ég þarf að drekka meira. Eða ekki. Ég býst við ég þurfi mest að hætta þessu og fara og gera eitthvað meira uppbyggilegt. Eins og að borða, svo ég geti farið út að labba eða eitthvað. Skoða athyglisverð tré og slíkt.

Já, og hér er ný mynd fyrir ykkur úr því hin er horfin: