miðvikudagur, maí 30, 2007

Dagur 84 ár 4 (dagur 1179, færzla nr. 552):

Það er furðu lítið á seyði. Maður bara vaknar, fær sér morgunmat og fer svo og... annaðhvort í vinnu eða að horfa á sjónvarpið. Eða út með hundinn. Sjá dýrið hafa uppi á öllum stöðum á leiðinni sem eitthvað/einhver hefur kastað af sér vatni. Ég þarf ekki þær upplýsingar.

Þá er hægt að lesa fréttir: flest umferðaróhöpp á Reykjanesbraut. Og? Næstflest eru á Miklubraut. Hef ég ljósin þar grunuð, en ég held að hraðakstri verði kennt um. Hraðakstri er kennt um allt. Allt frá Kvefi til Hiroshima & Nagasaki.

Éttu úldinn hund, kona... stórfrétt auðvitað.

Og Eimskip er stærst sinnar tegundar í heiminum. Ísland, best í heimi.

Allt sem ríkið potast ekki í vex og dafnar, og öfugt. Það sem ríkið potast í og vex, vex á sama hátt og krabbamein: það stækkar, en enginn kærir sig um það af sömu ástæðu og enginn vill krabbamein: það veldur erfiðleikum, þröngvar sér inna svið þar sem það á ekkert heima.

Jæja.

Skriðdrekar til sölu. Gaman. Væri alveg til í einn. Góður á rjúpu og sel. 7.62 cal byssuna notar maður á rjúpuna, 105 mm hólkurinn nýtist á sel. Vegur um 18 tonn. Það er ekkert. Rétt örfáum tonnum þyngri en vinsælasti jeppi á íslandi, og sá er ekki með skriðbelti. Að auki nær hann ekki nema 68 km hraða, sem þýðir að löggan mun aldrei freistast til að sekta þig, jafnvel ekki úti á þjóðvegi.

Allir þurfa einn, held ég.

laugardagur, maí 26, 2007

Dagur 80 ár 4 (dagur 1175, færzla nr. 551):

Í dag var góður dagur til að fara með hundinn niður í fjöru og leyfa honum að baða sig upp úr grút. Því hundum finnst það svo gott.

Eitthvað er nú kvikyndið samt orðið slappt eitthvað. Nennir varla að hlaupa á eftir köttum lengur. Slen, held ég, eða elli. Dýrið er jú 12 ára. Sem er eins og hvað? Ég veit ekkert hvernig þessi hundaár eru útreiknuð. Sennilega há elli. 250 ár eða eitthvað.

Kannski þarf að þvo hundinn á eftir. Er ekki aleg viss um hvernig á að gera það - seinast henti ég dýrinum bara í baðið, smúlaði það, setti á það sjampó og hárnæringu og skolaði svo vel. Læt einhvern annan stressa sig á því, held ég.

Hvað annað á svosem að gera en að labba með hundinn?

fimmtudagur, maí 24, 2007

Dagur 78 ár 4 (dagur 1173, færzla nr. 550):

Og þegar ég er búinn að vera hér í um viku, þá hefur þegar einhver kveikt í bíl uppi á velli sér til skemmtunar og yndisauka - en samt ekki alveg viljandi - Björn búinn að flytja inn 2 finna í óljósum tilgangi - sennilega til að láta þá sópa gólfið eða eitthvað, veit það ekki, og ... já. Mér tókst ekki einusinni að vera á eyjunni fyrstu vikuna. Var sendur út af örkinni til að borða humar í Hvalfirði.

Þetta er svona eins og venjulega bara að öðru leiti.

Hvað get ég nú gert af mér?

miðvikudagur, maí 16, 2007

Dagur 70 ár 4 (dagur 1165, færzla nr. 549):

Þetta er orðið öðruvísi en í gamla daga.

Í gamla daga, allt þar til bara núna nýlega, eyddu bílar bara 10 lítrum á hvert tonn, á góðum degi. Sumir bílar undir 800 kílóum komust undir 5 á hundraðið, ekkert mál. '82 Ford Fiesta til dæmis, og Suzuki Alto. Alto með sjálfskiftingu mun hafa eytt um 10. Þessir bílar voru með low-tec blöndung.

Svo komu allar þessar öryggskröfur - uppúr 1990. Og farartækin þyngdust talsvert. Ég skora á ykkur að fynna bíl undir 800 kílóum núna. Það var allt fullt af þessu einusinni. Núna? 1100 kíló, lágmark. Meðal fólksbíll er um 1300 kíló. Til samanburðar, þá er 1988 Dodge Aries ekki nema 1050 kíló, það sama og 1985 Honda Accord, og Ford Taunus er jafnvel léttari. 1995 Corolla með aðeins 2 hurðum er 1050 kíló. Svei. Miklu minni bíll. Og 1975 Ford Torino er svona 1800-1900 kíló.

Ég vil kenna hraðari þróun um.

Bílvélar þróuðust svo andskoti hægt eitthvað framanaf öldinni. En samt ekki. Þetta dót var allt til strax árið 1930, það var bara ekki notað því það var svo dýrt - svona eins og yfirlyggjandi knastásar og hvað þetta nú allt heitir. Extra ventlar... blah bla bla.

Það voru blöndungar í bílum allt fram til 1990, þó beinar innspýtingar hefðu verið fundnar upp fyrir 1960. 230 Bens vélin er að megninu til frá því 1930.

Kaninn var mjög aktívur í vélunum eftir stríð. Hann var aðallega í því að gera þær stærri og öflugri. Hvað þaær eyddu skifti minna máli. Þess vegna voru á mörgum þeirra 4 hólfa blöndungar, stundum tveir, og hemi heddarar, jafnvel forþjöppur. Sem er allt gott og blessað ef maður vill bíl sem nær 250 km hraða á svona 10 sekúndum, en eyður allt að 100 á hundraðið á meðan.

Venjulegur amerískur bíll, til dæmis svona Tórínó, var að eyða alveg vel 25 á hundraðið. Svoleiðis bíll var kannski með 302 eða 351 Windsor eða 429 V-8. 7 lítra mótor. Með þannig vél gat maður séð bensínmælinn fikra sig niður ef maður gaf hraustlega í.1975-6 Ford Torino

Núna? Volvo XC90 er meira en 250 kílóum þyngri, en eyðir samt minna. Að vísu á langkeyrzlu, en samt... talaði við gæja um daginn sem kom akandi á Lincoln navigator. Sá sagði að bíllinn eyddi þetta 15 á hundraðið hjá sér.Þetta er 1975 Ford Tórínó. Sorrý, nútíma ökutæki eru bara ekki fyrir augað.

Svo það hefur einhversstaðar orðið gífurleg framför, sem er eins gott, því djöf... druslurnar eru að safna spiki á undraverðum hraða. 2.3 tonn? Þetta er allt hljóðeinangrun. Í raun er bíllinn bara 1 tonn.

sunnudagur, maí 13, 2007

Dagur 67 ár 4 (dagur 1162, færzla nr. 548):

Sjáum nú til, ég spáði að kosningarnar færu svona: "D fær 40%, S fær 25%, VG fær 10%, F fær 7-8%, B fær 10%" (1.1.07 - skoðið bara sjálf). Og hvernig fór? Jú, einhverjar Serbneskar lessur unnu þetta!

Nei annars: D fékk 36,6%, S fékk 26,8%, VG fékk 14,3%, F fékk 7,2%, B fékk 11,7 og I fékk 3,3%, en ég gerði ekki einusinni ráð fyrir þeim flokk.

Sem sagt, það skeikaði ekki nema 3,4 á D, 1,8 á S, 4,3 á VG, 1,7 á B og ég var með F nokkurnveginn rétt. I var hinsvegar 100% rangt, þar sem ekki var gert ráð fyrir þeim flokk. Nálægt...

En hvað um það. Mér heyrðist að einhverjir hefðu verið að stroka Árna Johnsen af listanum. Hvað á það að þýða? Það er fullt af fólki á D lista sem má alveg stroka út; Solla á Gullkamrinum, Björn Bjarna, Þorgerður "Ljóska" Katrín; og þeir strika yfir Árna? Hvað er að? Þetta fólk er sko ekki af suðurlandi, það er ljóst! Ef svo er, eru það svikarar. Að strika yfir eina manninn í flokknum sem gerir eitthvað af viti? Svei! Svei svei svei!

föstudagur, maí 11, 2007

Dagur 65 ár 4 (dagur 1160, færzla nr. 547):

Rölti niður í bæ til að sjá risaskessuna. Eða hvað sem þeir kalla þetta. Heimsins stærstu strengjabrúðu. Það var fullt af áhugaverðum bílhræjum á leiðinni. Ég veit ekki hvar þeir hafa fundið svo marga bíla með skoðunarmiða síðan '04.

Og hvernig þeir stóðu að þessu með strætó... það var afar tilkomumikið.

Svo rölti ég upp laugarveginn - eða niður laugarveginn. Ég fór einhverja krókaleið upp að Hallgrímskirkju allavega til að skoða þetta risadýr þarna. Hitti á leiðinni niður nokkra furðufugla vafða inn í álpappír. Þeir höfðu hátt. Hef ég þá grunaða um fyllerí.

Fékk líka pylsu. Sem var ágætt, því ég var svangur. Kosningar eru svo sniðugar þannig. Þetta er samt fyrsti maturinn sem ég fæ alla baráttuna.

Ég er búinn að kjósa. En þú?

***

Mynd vikunnar:Mynnir svolítið á plötuumslagið á Nevermind með Nirvana...

mánudagur, maí 07, 2007

Dagur 61 ár 4 (dagur 1156, færzla nr. 546):

Frakkar kusu um daginn yfir sig mann sem er 165 cm á hæð. Samkvæmt fréttum. Jamm. Þá veit maður það. Frakkar hafa góða reynzlu af lágvöxnum þjóðarleiðtogum. Napóleon var ekki nema 82 cm, og hans er enn minnst út um allan heim.

Sem mynnir mig á það, að lágvaxnir höfðingjar hafa of lent í vandræðum eftir að hafa gert innrás í Rússland. Vonandi gerir þessi Sarkósí ekkert slíkt.

Af innlendri pólitík er það að frétta að hún er jafn spillt og venjulega. Þetta ríkisfangsmál er svo augljóslega eitthvað málum blandið að það er kvalafullt að fylgjast með því, og þetta löggudæmi... auglýstu þeir virkilega í lögbirtingu daginn sem fresturinn rann út, og létu gott heita? Og svaraði Rétti maðurinn? Vona ekki. Það yrði miklu fyndnara ef það væri einhver allt annar.

"*Sigh*, við vorum nú eiginlega að vonast til að ráða Togga, en... fyrst þú ert sá eini sem sóttir um..."

Efast um það, samt.

***

Bremsurnar í Kangónum eru að fara. Ég heyri hljóðið sem kemur þegar klossarnir eru horfnir, og málmur nuddast við málm. Jæja... það gæti verið verra. Síðasta sumar brotnuðu bremsurnar af einum af þessum bílum. Það var... áhugavert. Ég lenti ekki í því. Það er samt afar áhugaverð tilfinning, veit ég, að lenda í því að bremsurnar hætti að virka. Hef lent í því. Leið bara mjög vel á eftir.

***

Ég er svolítið syfjaður. Kannski ætti ég að hringja í sjúkrabíl?

föstudagur, maí 04, 2007

Dagur 58 ár 4 (dagur 1153, færzla nr. 545):

Próf í gær. Ekkert að frétta af því. 60%, skilst mér. Eh. Ég fékk gott úr öllu hinu, þannig ég þarf bara að fá 5. Það eru svona 50% líkur á því. Ég er 100% örugglega með hærra en 1. Ég vissi nefnilega örugglega svarið við 6 af 60 spurningum. Held ég.

Ef ekki... ja, þá hef ég eitthvað að dunda mér við á næsta ári.

***

Svo er það sumarvinnan. Ég ætti kannski að kíkja á Eimskip, og tékka hvort ég get ekki fengið vaktir á þeim dögum sem ég verð ekki á vellinum?

Í kína er hægt að fá vinnu við auglýsingar - hér til hliðar er einmitt mynd af nokkrum kínverskum stelpum að auglýsa sápu. Þeir gera þetta pínu öðruvísi þar. Auglýsa hlutina eins og hugmyndin var að þeir væru notaðir. Sem fær mig til að velta fyrir mér hvernig kínverskar dömubindaauglýsingar eru...

Hvað um það. Sumarið er á leiðinni, ef ekki hreinlega komið. Og þá mun verða sól, og veður og... fyllerí... og kappakstur, og fullt af öðrum hlutum. Alltaf þegar skólinn er búinn, um, leið og sólin er komin á loft, fer fólk út að keyra. Liðið er ekkert búið að sletta úr klaufunum í allan vetur. Annað hvort stendur það bílana flata, eða það fer niður í bæ og lemur einhvern.

Það er sumar, tími fyrir útivist. Í vetur héldu menn sig heima til að berja á hvor öðrum innan dyra.

Það er kominn tími til að fara út, og þenja drusluna. Til þess voru þær keyptar. Nema liðið sem fékk sér Landcrusher. Það þarf að þenja þær druslur bara til að vera ekki hreinlega fyrir.

Eða ertu kannski sammála umferðarstofu/ráði/stofnun?

Ókey. Ég skal segja eitthvað sem þér geðjast þá:

Ef þú ekur of hratt muntu deyja. Börnin þín munu fá krabbamein og deyja. Litlir sætir páskaungar munu deyja. Deyja deyja deyja. Því þú keyrir of hratt. Krabbamein segi ég! Dauði dauði dauði. Og MS og kólera og AIDS, þetta mun allt spretta upp úr jörðinni og láta ykkur öll rotna að innan.

Nema þið séuð kjur. Þá muniði ekki deyja. Því hraði drepur! Verið kjur. Verið heima hjá ykkur.

Annars deyr þetta loðna dýr:

miðvikudagur, maí 02, 2007

Dagur 55 ár 4 (dagur 1150, færzla nr. 544):

Ég var að hugsa, í framhaldi af fréttum um daginn: ef það er svo að lóðaverð er of hátt fyrir alla nema þá sem hafa 400K og yfir á mánuði, hvernig fer þá með liðið sem er í láglaunastöðum, eins og götusóparar? Þeir geta brátt ekkert búið í Reykjavík. Og tæplega hafa þeir efni á einhverju meiriháttar commute til vinnu. Svo þeir geta varla unnið í Borg Óttans, er það?

Svo heyrði ég af fjöldanum öllum af auðum húsum þarna uppi á heiði. Ekki það að þau skorti í mínu nánasta umhverfi. En hver vill kaupa þetta? Ég meina, þetta eru allt forljótar og illa smíðaðar fúnkisbyggingar. Smíðaðar af pólksum kolanámumönnum sem hafa aldrei blandað steypu, og sennilega minnst sofið á vinnutímanum, sem er ekki til að bæta verklagið.

Klæðningin datt af skuggahverfisblokkunum. Ef þið trúið mér ekki, akið þá þar framhjá og lítið á.

Það hefði verið betra að leyfa hverjum að smíða það sem hann vildi þarna.

En hvað um það. Nú, þegar fólk vill frekar búa í Keflavík en í 101, þá býst ég við að aðeins ein gerð af fólki muni sitja þar eftir: fólk sem kypti áður en verðið fór yfir kaupgetu. Og nú geta þau ekki selt, því enginn hefur efni á fasteignunum, nema bankinn.

Ég býst við að bankinn muni líka eignast þessa kofa uppi á heiði, þegar verktakinn annaðhvort fer á hausinn, eða selur til að hindra að hann fari á hausinn - og þeir einu sem geta borgað uppsett verð eru bankarnir, og þeir munu gera það til að hindra að verðið lækki.

Hvað svo?

Nú, bankarnir gætu skifst á íbúðum innbyrðis til að halda verðinu uppi. Keypt upp allt 101 svæðið. Þá byggju þar engir. Þetta væri eins og Kalli er einn í heiminum.

Svo, þá geta þeir gefið þessi hús sem hluta af starfslokasamningum. Eða, þeir geta gefið góðu starfsfólki þau. "Vinnið hjá okkur í yfir 10 ár, og fáið hús!" verður nýtt slagorð KB. Það er ég viss um að margir eru til í að vinna á taxta verkalýðsfélaganna, ef á móti kemur frítt húnæði. það er góður díll.

Svo ég segi það: í framtíðinni munu einungis bankamenn og gamalmenni búa í Borg Óttans. Gamalmennin því þau bjuggu þar fyrir, hinir af þeim ástæðum sem ég gaf upp. Börn bankamanna munu sjá um að sópa göturnar. Vinnuskólinn, sko. Allir aðrir munu búa í Keflavík, Sandgerði og Vogum.

Árið 2050 megiði grafa þennan póst upp og sjá hvort ég hef ekki haft rétt fyrir mér.