miðvikudagur, maí 02, 2007

Dagur 55 ár 4 (dagur 1150, færzla nr. 544):

Ég var að hugsa, í framhaldi af fréttum um daginn: ef það er svo að lóðaverð er of hátt fyrir alla nema þá sem hafa 400K og yfir á mánuði, hvernig fer þá með liðið sem er í láglaunastöðum, eins og götusóparar? Þeir geta brátt ekkert búið í Reykjavík. Og tæplega hafa þeir efni á einhverju meiriháttar commute til vinnu. Svo þeir geta varla unnið í Borg Óttans, er það?

Svo heyrði ég af fjöldanum öllum af auðum húsum þarna uppi á heiði. Ekki það að þau skorti í mínu nánasta umhverfi. En hver vill kaupa þetta? Ég meina, þetta eru allt forljótar og illa smíðaðar fúnkisbyggingar. Smíðaðar af pólksum kolanámumönnum sem hafa aldrei blandað steypu, og sennilega minnst sofið á vinnutímanum, sem er ekki til að bæta verklagið.

Klæðningin datt af skuggahverfisblokkunum. Ef þið trúið mér ekki, akið þá þar framhjá og lítið á.

Það hefði verið betra að leyfa hverjum að smíða það sem hann vildi þarna.

En hvað um það. Nú, þegar fólk vill frekar búa í Keflavík en í 101, þá býst ég við að aðeins ein gerð af fólki muni sitja þar eftir: fólk sem kypti áður en verðið fór yfir kaupgetu. Og nú geta þau ekki selt, því enginn hefur efni á fasteignunum, nema bankinn.

Ég býst við að bankinn muni líka eignast þessa kofa uppi á heiði, þegar verktakinn annaðhvort fer á hausinn, eða selur til að hindra að hann fari á hausinn - og þeir einu sem geta borgað uppsett verð eru bankarnir, og þeir munu gera það til að hindra að verðið lækki.

Hvað svo?

Nú, bankarnir gætu skifst á íbúðum innbyrðis til að halda verðinu uppi. Keypt upp allt 101 svæðið. Þá byggju þar engir. Þetta væri eins og Kalli er einn í heiminum.

Svo, þá geta þeir gefið þessi hús sem hluta af starfslokasamningum. Eða, þeir geta gefið góðu starfsfólki þau. "Vinnið hjá okkur í yfir 10 ár, og fáið hús!" verður nýtt slagorð KB. Það er ég viss um að margir eru til í að vinna á taxta verkalýðsfélaganna, ef á móti kemur frítt húnæði. það er góður díll.

Svo ég segi það: í framtíðinni munu einungis bankamenn og gamalmenni búa í Borg Óttans. Gamalmennin því þau bjuggu þar fyrir, hinir af þeim ástæðum sem ég gaf upp. Börn bankamanna munu sjá um að sópa göturnar. Vinnuskólinn, sko. Allir aðrir munu búa í Keflavík, Sandgerði og Vogum.

Árið 2050 megiði grafa þennan póst upp og sjá hvort ég hef ekki haft rétt fyrir mér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli