laugardagur, janúar 31, 2009

Dagur 333 ár 4 (dagur 1793, færzla nr. 761):

1994

Það ár var eitt af þessum kennaraverkföllum, ef ég man rétt.

En að tónlist ársins: Nirvana hætti, vegna þess að aðal gæinn í þeirri grúppu tók upp á því að fremja sjálfsmorð. Í staðinn byrjuðu spice girls. Til að vega upp á móti þeirri hörmung byrjuðu líka Rammstein & placebo.

Síbylja ársins:Beck.Enigma. Fyrir þá sem hafa ekki efni á róandi.Green DayBlurSoundgarden. Þetta var á Jólarásinni í gamla daga. Talandi um jólarásina...The Prodigy.

Aðeins minni síbylja:Nine inch nails. (segið það tíu sinnum, hratt.)Beastie Boys.

Og annað:Portishead. Hefði getað sett inn eitthvað þekktara... hey, klikkið bara.Cradle of filth. Merkilegt nokk, þá er þetta ekki norsk hljómsveit...Napalm death.

Og Íslenska lagið:Það er hugsanlegt að ég gæti fundið eitthvað annað - bara man ekki eftir neinu öðru...

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Dagur 329 ár 4 (dagur 1789, færzla nr. 760):

1993

Það ár voru óeirðir um hverja helgi í miðbæ Reykjavíkur, vegna þess að það var bannað að hafa bari opna lengur en til 2:00, og þá var vel ölvuðu fólki sópað út ágötu, þar sem það gat svo slegist, ælt, og oltið aðeins um.

Árið 1993 var þetta kallað Chevrolet Suburban.Hljómsveitir stofnaðar það ár: Filter, Backstreet boys, Supergrass, Symfóníuhljómsveit Tékklands, Daft Punk, Dimmu Borgir ofl...

En byrjum á síbyljunni:Cranberries.Lenny Kravitz.Crash test dummies.Björk.Nirvana - þetta er um 1993 - ótækt að mynnast ekki á þá.4 non blondes.Wu-tang clan. Annað hvort það eða Cypress Hill.

Annað sem kom út en enginn heyrir nokkurntíma í útvarpinu:Entombed.Death. Árin 1990-1995 circa voru góður tími fyrir bæði Þungarokk (með stórum staf) og Rapp (Líka með stórum staf.)

Og Íslenska lagið:Langur formáli á Hollensku... held ég. Þetta r svolítið mikið öðruvísi en allt annað á listanum, ekki satt?

laugardagur, janúar 24, 2009

Dagur 326 ár 4 (dagur 1786, færzla nr. 759):

Hingað komið þið til að gleyma óeirðum og kreppu! Hér er bara röflað um misáhugaverða tónlist frá árinu 1992.

1992 hættu Sykurmolarnir. En í stað þeirra byrjuðu Amon Amarth, Nada Surf, Blink 182, og fullt af öðrum.

En förum bara að telja upp þetta markverðasta:Nirvana. Hefur hljómað nær stöðugt síðan.Madness. Getur tekið á taugarnar eftir nokkra stund.Right said Fred. Ég neita að tjá mig.Ace of Base. Ég hef ekki heryt þetta í 1000 ár... eða 17. Whatever.White zombie.Body Count.The Cure. Hljómsveitin þar sem allir líta út eins og Tim Burton.Megadeth. Myndbandið við Hangar 18 er betra, en það lag kom út árið áður...Ministry. Það var allt fullt af svona músík.House of pain. Rapp, þú getur ekki haft 1992 án þess. Svo hér er smá meira:Dr. Dre & Snoop Dogg.R.E.M átti á árinu eitt eða tvö þolanleg lög, en það er aðallega ÞETTA myndband sem er eftirmynnilegt.Rage against the machine. Næstum allt sem eitthvað er varið í með þessari grúppu kom út á árinu.Ice Cube.Leonard Cohen. Mér hefur alltaf þótt textinn sniðugur.Radiohead. Þetta var hugsanlega vinsælasta lag ársins - en birtist aldrei á hinum mjög svo fræga og reglulega pirrandi Íslenska Lista. Enginn man lengur hvað var á þessum lista núna.

Ég ætla að láta þetta nægja í dag. En fyrst:

Íslenska lagið:Gott stöff. Jæja, látið ekki henda í ykkur grjóti.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Dagur 323 ár 4 (dagur 1783, færzla nr. 758):

Höldum áfram að rifja upp tónlist síðasta áratugar.

1991.

Það ár dó Leo Fender, gæinn sem fann upp rafmagnsgítarinn.

Hellingur af allskyns liði gaf út plötu - gerist á hverju ári. Mikið af því er gleymt núna, sem betur fer. Ég meina, viljum við virkilega muna eftir janet Jackson, Naughty by nature, Paulu Abdul, Vanilla Ice eða Bananarama?

Það man enginn eftir Alison Moyet.

Ryfjum upp nokkra hluti sem koma liklega aldrei aftur:Public Enemy & Antrax gáfu út þetta einkennilega lag.EMF gaf þetta út, og það var í auglýsingum, ef ég man rétt. Ég man ekki hvað var verið að auglýsa hinsvegar.Ice-T. Þið vitið, gæinn sem leikur Fin í Law & Order? Hann hefur átt mörg afar kómísk móment í gegnum tíðina.Cypress Hill. Það er ótækt að skella upp lista af random lögum frá síðasta áratug án þess að hafa smá rapp með. Eiginlega ætti að vera mikið af því. Vegna þess að allir alvöru gangsterarnir voru skotnir, og hinir hafa róast með árunum.Nirvana, með lagið sem gerði þá fræga.Metallica, með lagið sem flestum kemur í hug þegar þeir heyra þá nefnda. Eins og gefur að skilja eru til nokkur misþekkt cover af þessu.Blur. Mikið spilað það ár.Chris Isaak. Það er til af þessu ágætt cover.Massive attack.Guns & Roses.Sepultura.

Og það er best að ljúka þessu með íslensku lagi:Complett með myndbandi, síðan 1991, auðvitað.

mánudagur, janúar 19, 2009

Dagur 321 ár 4 (dagur 1781, færzla nr. 757):

Hann Boggi var núna að ryfja upp fyrir okkur tónlist síðasta áratugar. Helminginn af henni, reiknast mér til - eða partý-teknó hlutann.

Satt að segja fór sú músík fyrir ofan garð og neðan hjá mér.

Hann bendir réttilega á að það þarf ekki nema eitt lag til að ryfja það upp. Þetta var allt jú sama lagið, nema með mismunandi texta. Svo voru rímix... sem voru verri.

En það er eins og mig minni nú að fleiri lög hafi verið samin og spiluð á síðasta áratug, svo ég mun nú fara yfir eitthvað af því, ár fyrir ár. Og sleppa partý-teknóinu. Það er svona eins og grænmeti, það er grænt, slepjulegt, og á ekkert heima á disknum. Og ég vil það ekki. Og Boggi er búinn að ryfja það upp.

***

Árið 1990 voru meðal annars stofnaðar hljómsveitirnar Perlusulta (pearl jam), The Prodigy, In Flames, Body Count, Spin doctors, Lamb of God, Destiny's child, Stone Temple pilots, Take That, Type O negative og Brutal Truth.

Þið kannist við eitthvað af þessu.

Allskonar ferleg bönd gáfu út plötu að ár: New Kids on the block er gott dæmi, og María Karrý. Björk gaf líka út plötu með einhverju tríói.

En nóg komið af röfli. Nú koma tóndæmi:Já, þetta kom út 1990. Og þetta líka:Sem við þekkjum öll betur sem Tómatsósulagið. 1990.Þetta voru eftirminnilegustu diskólög ársins 1990. Förum nú út í eitthvað sem hefur enst betur:Depeche Mode.Sköllótta kellingin.Pantera. Reyndar var árið 1990 ágætt fyrir þungarokk. Megadeth, Iron maiden og meira að segja Deep Purple gáfu eitthvað út.Slayer.LL cool J. Enn lifandi skilst mér, ólíkt flestum Ganster röppurum áratugarins, sem voru lang flestir skotnir, enda alvöru gangsterar. Þeir skjóta hann bara seinna.Happy Mondays.Angelo Badalamenti. Fyrir sjónvarpsþætti sem meikuðu ekki sens. Svolítið eins og Lost núna.

Áratugurinn á undan smitaðist allverulega út á árið, svo það kom út stöff sem ég hélt að væri miklu eldra:Ég hélt að þetta væri síðan 1987... sirka.Þetta hélt ég líka að væri aftur úr grárri forneskju.Og þetta. Allt frá 1990.

Ég held ég sé með eitthvað af öllu. Það var miklu meira af stöffi, og þetta er bara smá sýnishorn sem gefur ekkert rétta mynd af árinu. Til dæmis held ég varla að kynslóðin á undan kannist mikið við LL Cool J eða Slayer. Þau voru of upptekin við að hlusta á HLH, Brimkló, og kannski Alison Moyet.

Einnig taka glöggir lesendur eftir að á listanum er ekkert íslenskt. Hér með er bætt úr því:Verið hrædd. Verið mjög hrædd. það sem vinnur júróvisjón núna verður alveg jafn skelfilegt eftir 19 ár.

Jæja. best að hætta þessu áður en fólk fer að halda að maður viti eitthvað um efnið.

(klukkan er 17:05)

sunnudagur, janúar 18, 2009

Dagur 320 ár 4 (dagur 1780, færzla nr. 756):Það er ekkert að segja.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Dagur 317 ár 4 (dagur 1777, færzla nr. 755):

Reynir var á leið til útlanda seinast þegar ég heyrði í honum. Ætli hann sé í útlandi núna? Noregi, kannski?

Satt að segja athugaði ég ekki að spyrja hann nákvæmlega hvar hann verður næstu 4 vikurnar, en það er einhversstaðar þarna utan lands. Það ku vera erfitt að fá vinnu sem rafvirki innan lands.

Hann sagði mér um daginn að það væri hægt að fá vinnu í álverinu, en það var víst ekki nóg fyrir okkar mann, því hann skuldar skyndilega svo mikið, og kærir sig ekki um að fara á hausinn. Að auki ku auðveldara að komast í álverið ef maður er kvenkyns. Þarf nánast ekkert að vita að uppfylltu því skilyrði.

Kona: því við Íslendingar höfum enga negra.

Ég held það eigi enn að vera hægt að komast í djobb á Reyðarfirði. Kíki kannski á það í sumar.

***

Það hefur svolítið verið talað um lýðræði undanfarið. Að gefnu tilefni held ég að fólk viti almennt ekki hvað það er:

Hér taka sumir þátt í prófkjörum, þar sem raðað er upp á lista innan flokkanna eftir forskrift flokkanna sjálfra.

þ.e: flokkarnir gefa út í hvaða sæti menn mega og mega ekki bjóða sig fram í, þeir fara eftir því að mestu og fáeinir af kjósendum þessara flokka raða þeim í nokkurnvegin þau sæti sem þeir vilja.

Svo fara fram kosningar, sem enda alltaf nokkurnvegin eins, því fólk heldur með þeim eins og það heldur með fótboltaliðunum sínum. Að því loknu rotta flokkarnir sig saman í stjórnir, alveg óháð kjósendum, og safnast í fylkingar sem fá borgað fyrir að vera skráð á þing.

Að vera á þingi er eina vinnan sem maður er ekki rekinn úr fyrir að mæta hvorki né vinna.

Nú, svo þegar búið er að kjósa og flokkarnir búnir að koma sér fyrir, þá koma stjórnendur þeirra flokka sem flesta kjósendur hafa saman og stjórna öllu.

Sem sagt, einræði.

Það hefði verið hægt að spara fullt af pening og kjósa bara einn einræðisherra. Alltaf á 4 ára fresti. Það hefði verið alveg jafn lýðræðislegt og kerfið sem við erum með núna (og verðum með eftir 10 ár, grunar mig.)

Það hefur svosem verið sagt að lýðræði virki ekki. það er alveg rétt, að vissu leiti. Sjáum bara Sviss. Þar er kosið um allan fjandann. Sem er að vissu leiti gott, en getur líka verið óþolandi. Þar má til dæmis ekki þvo bílinn sinn, hengja út þvott eða slá gras á Sunnudögum; og það er að auki ólöglegt að framleiða, selja, eiga eða bara geya Absinth, en það má drekka það. (svona eins og vændislögin, ekki satt?)

Svona lagað kemst í lög þegar það er lýðræði. Sem segir okkur það að lýðurinn í Sviss hefur of mikil völd.

Að vísu fylgir þetta öllum stjórnkerfum sem fá of mikil völd:

Í Svíþjóð má ekki mmála húsið sitt nema hafa málningarleyfi, og þar er bara þingræði - ólíkt okkur. Í Noregi þarf að kaupa sérstakt sjánvarpsleyfi til að eiga sjóvarp, og annað til að eiga vídjótæki. Í Kanada er ólöglegt að príla í trjám, í Danmörku er löglegt að brjótast úr fangelsi, og í Bretlandi telst það hryðjuverkl að taka upp farangur sem hefur verið skilinn eftir.

Ekkert af þessum löndum býr við fullkomið lýðræði, og öll hafa þau yfir að ráða löngum lista af dularfullum og fáráðlegum lögum, sem sumum er meira að segja farið eftir - í einhverju öðrum tilfellum er það hreinlega ómögulegt. Mikið af Dönskum umferðarlögum er til dæmis þannig.

Ástæðan er mér augljós: kerfin eru að stjórna hlutum sem þau eiga ekkert með að stjórna. Hvað hefur annað fólk, Ríkið eða sveitarfélög til dæmis með það að gera hvort eða hvenær eða hvernig einhver málar húsið sitt? Eða hvort einhver á sjónvarp eða prílar upp í tré?

Það á ekkert heima á neinu þingi, í lögum eða skal nokkurntíma fara til kosninga. Fólk getur bara átt það við sig sjálft hvort það kaupir sér sjónvarp til að horfa á milli þess sem það málar húsið sitt og prílar í trjám.

Hér á landi hefur mikil áherzla verið lögð á að banna fólki að drekka brennivín, taka í nefið, skjóta meindýr og hvaðeina annað, neyzlustýring hefur verið reynd frá því í einokuninni með afar slæmum afleiðingum fyrir landsmenn, og allskyns vitleysu.

Svo ég legg til lausn:

Ekki kjósa um það ef það hefur ekki áhrif á stærri hóp en einn mann eða tvo. Góð þumalputtaregla fyrir bæi er, að ef það hefur áhrif á helming manna í meðalstórri götu þá ættu íbúarnir þar að kjósa um það, ef það hefur áhrif á meira en eina götu ættu allir bæjarbúar að kjósa um það, og ef það hefur áhrif á 15% landsmanna ættu allir að kjósa um það.

Annars á það bara að vera löglegt, sama hvað það er.

sunnudagur, janúar 11, 2009

Dagur 313 ár 4 (dagur 1773, færzla nr. 754):

Það er komið að kvikmynd kvöldsins, og þá verða að vera treilerar:Comedian.Thundercats.The last man on earth.

Kvikmynd kvöldsins:

Creature from the haunted sea, frá 1961.Eins og gefur að skilja er þessi mynd mikið dramatískt snilldarverk, vegna þess að allar svarthvítar myndir eru mikil dramatísk snilldarverk. Þess vegna eru þær svarthvítar, því þær eru svo mikið drama. Kvikmynd er alltaf einu skrefi nær því að fá óskarinn ef hún er svarthvít. Líka ef hún er svona hálftíma of löng. Reyndar, hver mínúta sem kvikmynd fer yfir 90 mínútur gefur stig hjá akademíunni.

Allt í lagi, skrímslið lítur út eins og Homer Simpson með þara á hausnum. Þetta er samt alveg áhorfanleg mynd, svona næstum, en mest vegna þess að hún er ekki nema 74 mínútur að lengd. Sko, auka korter... það væri slæmt. Samt var orginal útgáfan 10 mínútum styttri.

Þessi mynd hefur það allt: bát, skrímsli, fólksvagen og fjársjóð.

Allt í lagi, það er kannski ekki allt, en það er allt mjög mikilvægt.

Kvót:

Mary Belle: You made that monster up out of thin air! Now don't try to tell me it's real. I'm not that stupid.
Peter: Well, I am!

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Dagur 310 ár 4 (dagur 1770, færzla nr. 753):

Á síðasta ári tókst mér - ef ég man rétt - að lesa 3 1/2 bók... svona sirka. Fyrir utan skólatengt efni, sem reyndist að mörgu leiti áhugaverðara, satt að segja.

Í byrjun árs las ég Hring Tankados (Digital Fortress á frummálinu,) eftir Dan Brown.

Það var nú meiri vitleysan. Það var í raun stutt saga, en allt sem minnst var á í henni var útskýrt í miklum smáatriðum, frá sögu þess til helstu nota, hvaða efni eru notuð í slíka hluti og hvar þau efni eru unnin osfrv.

Da Vinci lykilinn fékk ég gefins.

Sú bók var allt í lagi. Í raun það sama og sú sem ég ræddi hér að ofan, nema allar persónurnar hétu öðrum nöfnum.

Leviatan, eftir Boris Akunin.

Það er svona Agötu Christie saga, með einhverjum morðingja um borð í stóru skipi á leið eitthvert. Svo er einhver sérvitur ofur-hugsuður sem leysir málið, auðvitað. Munurinn á þessu og hvaða Agötu Christie Opus sem er er að það er meira farið út í ástæður allra morðanna en hjá henni.

Samt, Agatha Christie er betri, oftast.

Svo las ég eitthvað af Flateyjargátu. Sú bók er eftir einhvern náunga sem ég man ekkert hvað heitir.

Allavega, það finnst lík, það er dautt, og það er á Breiðafirðinum. Svo er mikið talað um íbúa Flateyjar. Flatey flatey flatey.

Það er stórlega allt of mikil Flatey, og allt of lítil gáta. Inn á milli eru svo partar úr einhverjum pistlum um Flateyjarbók, sem afreka það helst að vera áhugaverðari en sagan sjálf.

Ég gafst upp á blaðsíðu 84... eða 94. Ég þoldi ekki alla þessa Flatey, súrsaða selhreyfa og ruglaða íbúa. Það var ekkert spennandi búið að ske, og ekkert spennandi leit út fyrir að vera á leiðinni að ske, bara endalaus Flatey og súrsaðir selir.

Hvernig væri að skrifa bók sem heitir Vestmannaeyjagáta, og byrjar á því að það finnst lík, en að öðru leiti er bara um fólk sem situr inni í þjóðhátíðartjaldi og borðar lunda.

Ég á nú bók eftir Arnald. Ég hef ekki heyrt neitt nema slæma hluti um hann - sem fólk vill meina að séu allt jákvæðir hlutir.

Kem að því seinna.

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Dagur 308 ár 4 (dagur 1768, færzla nr. 752):

Jæja, reynum þá að spá í framtíðina.

Gefið er að Ríkið mun klúðra einhverju, svo það er ekki spádómur, heldur staðreynd.

Innan lands:

Það verða óeirðir, þær umfangsmestu síðan Gúttóslagurinn var haldinn við mikinn fögnuð aðstandenda.

Um og yfir 5000 manns flytja úr landi á árinu. Sumir eftir gjaldþrot, aðrir í leit að vinnu til að forðast gjaldþrot.

Svo kemur eldgos.

Utan lands:

Þessar smávægilegu erjur í mið-austurlöndum verða ekki að meiriháttar stríði, frekar en önnur upphlaup þar hingað til.

Erjur Indverja og Pakistana breytast heldur ekki í stríð á árinu.

Kína finnur fyrir atvinnuleysi sökum minni kaupgetu vesturlandabúa, og taka því með því að byggja borgir til að halda liðinu í vinnu. Þeir hafa efni á því í smá stund.

Svo kemur eldgos.

mánudagur, janúar 05, 2009

Dagur 307 ár 4 (dagur 1767, færzla nr. 751):

Þá ætla ég að líta aðeins á hvernig mér gekk að spá fyrir um framtíðina um síðustu áramót:

Ríkið gerir eitthvað asnalegt sem bitnar á allri þjóðinni,

Já. En þetta var auðvitað gefið.

en að vanda fagna 25% þjóðarinnar.

Engin merkjanleg fagnaðarlæti, en 75% þjóðarinnar virðast vera að mótmæla einhverju.

Svona um það bil 10% af því sem klúðrast endar í fjölmiðlum, en ekkert verður gert í því.

Merkilegt nokk, þá virðist þetta vera rétt líka.


Femínistar segja eitthvað afar talíbanalegt.


Auðvitað - sérstaklega femínistar í VG. Var það samt ekki í ár sem Kolla þarna vildi hætta að dubba krakka upp í bleikt eða blátt eftir kyni? Eða var það í fyrra?


Það verður verðbólga upp á svona 7%.


Bjartsýns spá það. Hún er vel yfir 14%, og fer hækkandi.

Það verður sett sölumet á einhverju. Einhverju tilgangslausu.

Grand theft auto 4 seldist í 2000 eintökum. 98% aukning á sölu Toyota. 4000 tonn af lýsi flutt út.

Og nú að því minna líklegu:

Það mun koma eldgos. Ég er alltaf að spá því, svo það hlýtur að rætast svona fimmta hvert skifti, að jafnaði.

Nei, en það varð jarðskjálfti.

Árekstur loftsteinsins og Mars verður afskaplega flott sjó.

Gerist bara næst.

Húsnæðisverð mun lækka að raunvirði.

Og hvort það gerði!

Í krónum talið ekki svo mikið, en um svona 7% í raun.

Þið óskið þess núna að það hefði bara lækkað svo mikið.

Fólk fer þá að fara að hafa efni á því aftur - innan tveggja ára eða svo.

Að gefnum 2008 launum, sem eru að lækka það mikið að enginn hefur efni á húsnæði á stórlega niðursettu verði heldur.


Femínisti mun eignast (glasa*)barn, og nefna það "F-4." Kyni þess verður haldið leyndu.


Þarf að kanna það mál einhverntíma í góðu tómi.

Bandaríkjamenn munu skifta um forseta, og fara beint í stríð við Íran.

Já og nei. Það verður kannski stríð við Íran á þessu ári í staðinn.

Ekki nauðsynlega í þesari röð. Ísraelar munu taka þátt í því. Þeir munu segja að það sé vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.

Þessi partur af spádómnum er enn í fullu gildi, þó hann hafi ekki ræst á rétta árinu.

Þetta verður til þess að dollarinn fellur niður í svona 45 krónur. Sem aftur veldur því að átta tonna pallbílar verða mjög billegir.

Eins og íslenska hagstjórnin er, þá fellur krónan hraðar en dollarinn sama hvað kaninn gerir.

Hestur og maður deyja í hörmulegu bílslysi milli landcruiser 200 jeppa með hestakerru og átta tonna amerísks pallbíls. Hestsins verður sárt saknað, enda jarðaður með viðhöfn. Illa farið með gott kjöt þar.

Gott gisk, en nei.

Lögreglan mun byrja að eltast við þá sem reykja opinberlega. Í framhaldið mun glæpum fjölga sem því nemur, við mikla undrun fjölmiðla, og skelfingu húsmæðra um alla Reykjavík.

Nú eru mótmælendur aðal málið.

Löggan fær langþráðar rafbyssur, og það líða ekki nema tveir mánuðir áður en fyrsta dauðsfallið verður af þeim sökum.

Sem betur fer gekk þetta ekki eftir.


Fleiri löggur verða barðar á þessu ári en því síðasta.


Að sögn gekk þetta eftir. Og ekki bara af þeim ástæðum sem ég hafði í huga þá.

Bandaríska hryðjuverkalöggjöfin verður til þess að 90% allra sem ferðast til landsins verða ólöglegir innflytjendur og dópsmyglarar.

Langar þig til USA? Já, kannski, en er ekki betra að fara til Portúgal? Maður verður ekki gegnumlýstur eins oft á leiðinni þangað.

Það mun koma á daginn að Fidel Castro er búinn að vera dauður í 2 ár. Maðurinn sem kemur fram fyrir hans hönd er tvífari hans sem hefur unnið við að vera skotmark launmorðingja hjá honum síðan 1977.

Þeir halda því þráfaldlega fram að þetta sé ekta Kastró sem er þarna í jogginggallanum.

Sama með þennan norður Kóreiska þarna.

Rússar taka að sér að reka herstöð á Íslandi, að ríkisstjórn landsins óforspurðri.

Þá hefði ég hlegið.

Það mun finnast Al-Kæda sella á landinu. Tíu árum síðar mun koma í ljós að Björn Bjarna flutti hana inn sjálfur til að búa til hryðjuverkaógn til að sérsveitirnar og greiningardeildirnar hefðu eitthvað að gera.

Ekki enn.

Fólk verður beðið um að halda niðri í sér andanum í eina mínútu á dag eða meira til að draga úr losum gróðurhúsalofttegunda. Á sama tíma munu allir ráðherrar og þingmenn fá sér nýjan landcruiser, því það stendur "200" á honum.

Sem betur fer heyrum við minna í þessum kvimleiðu umhverfissinnum núna. Verra er af hverju það er.

Í tíð svarta svansins munu draugar fortíðar tákna helför gegn græna manninum á meðan styttan af Einari Ben mígur á mann og annan og svínið svitnar í sána.

Já...

Það verða kannski spádómar næst.

föstudagur, janúar 02, 2009

Dagur 304 ár 4 (dagur 1764, færzla nr. 750):

Kommúnistaflokkurinn hefur ákveðið að það sé ekki nóg að innheimta afnotagjöld af bara sumum, og vera með her af gluggagægjum á sínum snærum til að komast að því hverjir eru með sjónvörp og útvörp - með ærnum tilkostnaði.

Nú eiga allir að borga, hvort sem þeir eiga tæki eða ekki, burtséð frá notkun.

Flokkurinn hefur talað.

Vill nú einhver fara og henda grjóti í þá og kveikja í nokkrum köplum? Þeir hlusta ekki, svo það má meiða þá - ekki að tekið verði mark á því, það bara skapar ákveðna vellíðan.