fimmtudagur, janúar 08, 2009

Dagur 310 ár 4 (dagur 1770, færzla nr. 753):

Á síðasta ári tókst mér - ef ég man rétt - að lesa 3 1/2 bók... svona sirka. Fyrir utan skólatengt efni, sem reyndist að mörgu leiti áhugaverðara, satt að segja.

Í byrjun árs las ég Hring Tankados (Digital Fortress á frummálinu,) eftir Dan Brown.

Það var nú meiri vitleysan. Það var í raun stutt saga, en allt sem minnst var á í henni var útskýrt í miklum smáatriðum, frá sögu þess til helstu nota, hvaða efni eru notuð í slíka hluti og hvar þau efni eru unnin osfrv.

Da Vinci lykilinn fékk ég gefins.

Sú bók var allt í lagi. Í raun það sama og sú sem ég ræddi hér að ofan, nema allar persónurnar hétu öðrum nöfnum.

Leviatan, eftir Boris Akunin.

Það er svona Agötu Christie saga, með einhverjum morðingja um borð í stóru skipi á leið eitthvert. Svo er einhver sérvitur ofur-hugsuður sem leysir málið, auðvitað. Munurinn á þessu og hvaða Agötu Christie Opus sem er er að það er meira farið út í ástæður allra morðanna en hjá henni.

Samt, Agatha Christie er betri, oftast.

Svo las ég eitthvað af Flateyjargátu. Sú bók er eftir einhvern náunga sem ég man ekkert hvað heitir.

Allavega, það finnst lík, það er dautt, og það er á Breiðafirðinum. Svo er mikið talað um íbúa Flateyjar. Flatey flatey flatey.

Það er stórlega allt of mikil Flatey, og allt of lítil gáta. Inn á milli eru svo partar úr einhverjum pistlum um Flateyjarbók, sem afreka það helst að vera áhugaverðari en sagan sjálf.

Ég gafst upp á blaðsíðu 84... eða 94. Ég þoldi ekki alla þessa Flatey, súrsaða selhreyfa og ruglaða íbúa. Það var ekkert spennandi búið að ske, og ekkert spennandi leit út fyrir að vera á leiðinni að ske, bara endalaus Flatey og súrsaðir selir.

Hvernig væri að skrifa bók sem heitir Vestmannaeyjagáta, og byrjar á því að það finnst lík, en að öðru leiti er bara um fólk sem situr inni í þjóðhátíðartjaldi og borðar lunda.

Ég á nú bók eftir Arnald. Ég hef ekki heyrt neitt nema slæma hluti um hann - sem fólk vill meina að séu allt jákvæðir hlutir.

Kem að því seinna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli