mánudagur, febrúar 27, 2006

Dagur 356 ár 2 (dagur 721, færzla nr. 374):

Hvað segja blöðin í dag?

DV segir að litháíska mafían sé að ná fótfestu á íslandi. Ég vissi ekki að þeir væru með menn í framboði. Hver ætli sé listabókstafurinn?

mbl.is færir okkur lista yfir bestu einræðisherrana.



Hvað er svo með þessa friðarsúlu? 30 milljónir, segja þeir að hún muni kosta, sem þýðir að hún mun kosta þetta á bilinu 60-90 milljónir. Afhverju gefa þeir mér ekki bara peningana. Mig veitir ekki af þeim.

Annar kostur væri að nota aurinn til að mála Hallgrímskirkju í öryggislit: flúorescent appelsínugula. Það væri mjög athyglisvert.

Eða ráða einhvern í borgarstjórn sem veit hvað hann er að gera. Ég veit það er fjarstæðukennd hugmynd, en maður lætur sig nú stundum dreyma. Ekki það að síðustu tveir borgarstjórarnir hafi einusinni verið kosnir. Við lifum ekki einusinni í lýðræðisríki, þið vitið.

En hvað um það: á okkar fagra landi getur verið að sé torveldasta vegakerfið að aka um, en vi eigum enn nokkuð í land með að vera með undarlegustu götuheitin. Nema að sjálfsögðu Þúsöld, og hvað sem það hét, graskvörn eða eitthvað svoleiðis.

Já, og meðan ég man...

laugardagur, febrúar 25, 2006

Dagur 354 ár 2 (dagur 719, færzla nr. 373):

Breytingar. Fólk sem ég setti linka inná hér fyrir ári eða svo, kannski lengur, virðist látið, svo ég tók það út.

Svo eftir 15 daga þá verð ég búinn að halda þessu bloggi út í 2 ár. Hvernig lýst ykkur á það?

Kannski verða einhverjir athyglisverðir linkar ryfjaðir upp?

Listinn er hálf tómlegur... Hvern get ég sett í staðinn? Hmm... Jón Helgi var svolítið skemmtilegur ef ég man rétt. Hef ekki skoðað loggið hans í háa herrans tíð. Ég ætti kannski að bæta úr því... eftir helgi. Svona hluti þarf maður að melta með sér eins og góða steik.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Dagur 351 ár 2 (dagur 716, færzla nr. 372):

Fyrr í mánuðinum datt mér í hug að hefja viðskifti á Wall Street... og einhverjum fleiri stöðum, svona til að prufa.

Til þess þurfti ég að eignast reikning í dollurum. Svo ég gerði það. Það er hægt yfir netið. Setti inn á það eitthvað af aurum og keypti hlut í nokkrum - þ.e. 2 framandi fyrirtækjum.

Svo hækkuðu blessuð fyrirtækin mín í verði, um svona 10%. Gaman. Svo féll krónan. Þá hækkaði virði peninganna sem urðu eftir á dollarareikningnum. Meira gaman.

Á móti lækkuðu þau fjölmörgu íslensku fyrirtæki sem ég á í eitthvað, svo það vegur upp á móti. Ekki það mikið samt. Ég man til þess að þau hafi lækkað meira. Ég þarf að fara að selja þau. Til að eiga pening. Fá mér skuldabréf eða eitthvað.

Mig vantar enn svona, hvað eigum við að segja, 30 milljónir til að lifa af.

30.000.000, venjulegir bankavexir eru um 4%. Í banka gæfi það af sér 1.2 milljónir á ári, eða 100.000 á mánuði. Gæti vel búið í eyjum fyrir þann pening býst ég við.

Það er miklu meiri peningur en ég á. Lottóið er á eftir...

mánudagur, febrúar 20, 2006

Dagur 349 ár 2 (dagur 714, færzla nr. 371):

Ég datt í stiganum um daginn, sem væri ekki frásögum færandi í sjálfu sér, nema...

Nú, ég missteig mig eitthvað þarna og datt, og rak fótinn svo heiftarlega í að það kom risastórt blæðandi sár. Sem ég reyndar vissi ekki af fyrr en seinna um daginn... en hvað um það. Þetta sár er staðsett rétt fyrir ofan annað sár, engu minna, sem er búið að vera að gróa þarna í eins og tvær vikur. Það var verulega stórt sár.

En. Þó fyrra sárið hafi nú á sínum tíma verið mjög stórt og mikið, þá varð ég ekki var við það þegar það myndaðist. Ég hef ekki hugmynd um hvernig mer tókst þarna að stórslasa mig. Ég veit ekki hvað það var búið að vera þarna lengi þegar ég fyrst tók eftir því.

Sem fær mig til að velta fyrir mér: hve mikið man ég af atburðum dagsins svona venjulega? Hvað er ég eiginlega að gera þennan tíma sem ég man ekki eftir? Eða er ég að stunda eitthvað á nóttunni kannski? Án þess að ég viti nokkuð af því?

Ég veit það ekki. Kannski er ég bara svona tilfinningalaus stundum. Kannski er það eitthvað í matnum. Kannski er það eitthvað sem er ekki í matnum. Hver veit. En þar til ég kemst að því, þá veit ég ekki meir. Ég gæti þessvegna verið að stunda einhver myrkraverk þennan hluta sólarhringsins sem ég man ekkert eftir.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Dagur 345 ár 2 (dagur 710, færzla nr. 370):

við vitum öll að ósonlaginu stafar hætta af beljum, svo og eru þær ein af orsökum gróðurhúsaáhrifa. Þetta er vegna þess að beljur borða mikið gras, og allir sem borða mikið gras leysa mikið vind.

Og í iðralofti kúa er metan, en það er einmitt efni sem er stórskaðlegt stöðugleikanum, og veldur einmitt þessum gróðurhúsaáhrifum sem ég mynntist á hér að ofan.

Hvað á þá að gera?

Skjótum beljunum út í geim, segi ég. Það er auðvelt. Við bara einfaldlega teipum logandi zippokveikjara rétt undir endagatinu á hverri belju og bíðum. Fyrr en síðar mun beljan leysa vind, og eins og allir vita þá brennur metan, og þegar kviknar í beljuloftinu þá mun beljan skjótast af stað eins og raketta, og fljúga alla leið út í geim, þar sem hún mun svo sveima um himinhvolfin, og jafnvel hitta öll þessi astrónaut sem eru þar á ferli.

Þetta er staðreynd. Hvernig haldið þið annars að astrónaut hafi komið til? Auðvitað við tilraunir bandaríkjamanna til að nota naut til að skjóta gervitunglum á sporbaug. Rússar gerðu svipaðar tilraunir, en við köllum þeirra búfé kosmónaut.



Þar höfum við það. Höfum þó í huga að hver belja getur ekki borið neinn farm, enda bara nóg metan í hverri belju til að skjóta henni einni á loft.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Dagur 343 ár 2 (dagur 708, færzla nr. 369):



Þar sem það er Valentínusardagur...

Þetta er mynd af 1928 Thompson, caliber .45 (11.37 mm - 230 grain) með 50 skota magasíni. Þetta tæki getur skotið 800 kúlum á mínútu, þ.e.a.s tæmt magasínið á um 4 sekúndum, gefið að notað sé 50 skota magasín. Til eru 100 skota, en lang algengust eru 30 skota magasínin sem herinn notaði. Þau eru líka líklegust til að virka rétt.

Byssan samanstendur af 38 einstökum hlutum, allt með talið, og er hægt að taka hana alveg í sundur með höndunum. Prótótýpan samanstóð af aðeins 11 pörtum.

Lögreglan í New York var fyrst til að taka þessa hólka í notkun, en svo tók herinn uppá að beita þeim. Ekki er vitað til þess að glæpamenn hafi í miklum mæli notað þessi vopn, nema þá helst í kvikmyndum, þó er vitað að John Dillinger átti eina - sem hann stal af löggu.

Það var viljandi gerð mjög erfitt fyrir fólk að verða sér úti um vopn af þessari gerð frá upphafi. Samt sem áður áttu glæpamenn ekki í neinum vandræðum með að plaffa á hvorn annan. Bonnie og Clyde til dæmis, rændu oft Browning rifflum af hinum og þessum - her, lögreglu osfrv. Það eru miklu öflugri vopn.

En hvað um það.

Anno domini 1929 lét Al Capone drepa nokkra menn úr gengi óvinar síns, Bugs Moran. Hugmyndin var að kála Moran, en hann mætti ekki í eigin morðtilræði, og því fór sem fór.

Og til þess að drepa þá sem þó mættu, notuðu morðingjarnir vélbyssur: Thompson.

Sjónarvottar segja að þeir hafi mætt í lögreglubíl, og verið í lögreglubúningum. Þeir voru líka með vélbyssur. Förum nú aðeins yfir þetta:

Aðeins örfáir bófar komu nokkurntíma höndum yfir slík tæki. Jafnvel menn eins og 'Machine Gun' Jack McGurn notuðu ekki slík tól, þó vissulega hljómi "machine gun" meira ógnandi en "pistol". Það er líka miklu auðveldara fyrir löggur að mæta á löggubíl, íklæddir löggubúningum.

Al Capone var á sínum tíma einn ríkasti maður í landinu. Ég held hann hefði alveg geta borgað nokkrum löggum til að taka þetta að sér. Sem myndi skýra af hverju málið upplýstist aldrei.

Það er einföld útskýring. Einföldu skýringarnar eru oftast réttar.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Dagur 342 ár 2 (dagur 707, færzla nr. 368):

Alltaf heyrir maður athyglisverða hluti í fréttum: nú síðast var það að djöfladýrkendur vilja reisa sér kirkju/hof/musteri eða hvað sem þeir kalla það.

Ég hélt að Hvítasunnufólkið ætti nóg af kirkjum.

Svo var það þetta með hermennina í írak fyrir 2 árum. Jup. Nýjustu fréttir. Allavega þá skil ég vel hvað þeim gekk til, og ætla ekki að láta það til mín spyrjast að ég þykist ekki átta mig á því. Annað væri nefnilega hræsni.

Ég meina, hvað mynduð þið gera ef stór hópur brjálaðra unglinga myndi taka upp á því að gera aðsúg að ykkur? Bara leyfa þeim það? Nei, þið mynduð berja þá, og það væri rétt af ykkur.

Ekki fordæma ykkar eigið eðli, það er ósiður.

Hér með er ég ekki að segja að rétt sé að ráðast á hópa unglinga bara upp úr þurru, heldur er ég að segja að ofbeldi beri að svara með meira ofbeldi. Augu fyrir auga, annars verður heimurinn blindur.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Dagur 340 ár 2 (dagur 705, færzla nr. 367):

Nöfn á Íslandi eru að verða undarlegri og undarlegri. Þetta verð ég var við í vinnunni.

Ég sá á listanum götunafnið "Árkvörn". Mér finnst það allt hið undarlegasta. Það samanstendur af einhverju náttúrufyrirbæri, Á, annars vegar, og eldhúsáhaldi hinsvegar, eða kvörn.

Sem er skárra en götunafnið "Þúsöld", sem samanstendur af einhverju sem er ekki orð annars vegar, og einhverju random orði hinsvegar. Ég meina, hvað er "þús?" Eða "Söld?" Ég veit ekki hvað það þýðir. Hitt er ljóst að um gæti verið að ræða orðið "Þú", eða "öld". Hitt er bara einhverjir stafir í einhverri röð.

Við skulum skoða möguleikana sem felast í þessum nafngiftum:

Nú væri til dæmis í framtíðinni hægt að búa við götu sem heitir: "Fosshrærivél", eða "Hveravöfflujárn."

Á hinn bóginn gæti næsta gata verið kölluð "Ykkursmuf" eða "Garfþið".

Athyglisvert.

Svo heyrði ég í fréttum í gær að mannanafnanefnd (sama fólkið og vill helst ekki að bróðir minn heiti Virgill) ætlar að leyfa nöfnin Appelsína, en bara ef það er á spænsku, og Bill, sem er stytting á William, en ekki Michael með c-i.

Athyglisvert.

Má maður þá nefna afkvæmi sín nöfnum sem eru orð á spænsku? Hvað með þá nöfn eins og "Queso" (Ostur), "Plátano" (Banani), eða "Pepino" (Gúrka)?

Eins styttingar á engilsaxneskum nöfnum, td: Fred, Bob, Joe eða eitthvað því um líkt.

Ég veit enn ekki um neinn sem heitir Nonni. Það bara hlýtur að vera leyft. Þeir væru ekki samkvæmir sjálfum sér öðruvísi.

Jæja, ég þarf að fara að lemja bílinn minn með hamri. Og spila í lottóinu. Ef ég vinn eitthvað mikið þá gef ég Reyni bílinn og kaupi eitthvað nýrra.

This site is certified 68% GOOD by the Gematriculator

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Dagur 338 ár 2 (dagur 703, færzla nr. 366):

Bíllinn fór ekki í gang í gær. Það er í honum rafmagnsgremlin. Sama hvað ég fiktaði í tengjunum þá gerðist ekkert. Ef það fer ekki í lag þegar hlýnar þá freistast ég til að kveikja í honum.

Svo kom ég heim og þá komst ég að því að hann Hjalti litli hefur rænt strætóklinkinu mínu. Helvítis kryppildið. Ef þú ert að lesa þetta sauðurinn þinn, þá er ástæða fyrir því að þessir aurar voru þarna. Þú skuldar.

Ég kom heim um svipað leyti og amma. Hún sagði mér að ég svaraði henni aldrei. Upp úr þurru sagði hún þetta. Ég hélt að fyrst yrði hún að spyrja einhvers áður en ég yrði að svara. Mér skylst helst á henni að svo sé ekki.

Það eru ekki bara ungar stúlkur sem eru hálf klikkaðar, það eru líka gamlar kellingar sem hafa þann eiginleika. Fólk breytist nefnilega ekki með árunum. Nema þá helst að það fái Alzheimer, Sýfilis eða eitthvað þaðan af verra.

Svo eru vitleysingar sendandi mér SMS, heimtandi að ég kjósi. Hey, ég gerði það í gær.

Það er vinna á eftir. Vantar eignlega að bíllinn fari í gang til þess að drösla mér þangað og þaðan. Það eru góðar líkur á að hann geri það ekki.

Ekkert nema vesen.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Dagur 336 ár 2 (dagur 701, færzla nr. 365):

Hey, ef þið læsuð eftir mig einn pistil á dag núna, þá tæki ár að fara í gegnum allan listann. Flott.

En hvað um það, hér er lokaþáttur af hinu æsispennandi og mjög svo raunsæa leikriti sem ég hef því miður hvorki tíma né pening til að setja á fjalirnar:

Fótur er hugarástand:

3:

Hallur og Bjarni eru úti að aka. Það glymur í talstöðinni:

Talstöð: Bíll 22, það hefur verið framið morð á veitingastaðnum Le déchets répugnants. Þið eruð í næsta nágrenni, haldiði að þið takið það ekki?
Bjarni: við erum á leiðinni.
Hallur: er morð refsiverður glæpur?
Bjarni: það fer eftir því hver fremur það.

***

Hallur og Bjarni mæta á vetvang: Sunna liggur dauð á gólfinu, þakin þykku lagi af ælu frá toppi til táar svo hvergi sést í hold né klæði. Uppúr brjóstkassa hennar stendur hnífsskaft. Við hlið hennar liggur Tumi í eigin ælu, fölur og tekinn, engist við að kúgast, en hefur ekkert til að æla. Hjá honum situr Kolbrún Lind, einnig þakin ælu um allan líkamann en rauð af blóði á höfðinu, og klappar barninu sínu.

Hallur: allt í lagi. Hvað gerðist hér?
Kolbrún: Ég ætlaði ekki að gera það.
Hallur: þá er það allt í lagi.
Þjónn: hvað með skemmdirnar?
Hallur: hvaða skemmdir?
Þjónn: nú, barnið hennar ældi út allt veitingahúsið, svo nú eru allir gestirnir flúnir.
Kolbrún: Þú mundir ekki segja þetta ef það væri þitt barn sem hefði ælt út um allt!
Þjónn: Kæra frú, mín börn koma málinu ekkert við...
Kolbrún: þið eruð alltaf eins! Ekkert sem þið gerið er ykkur að kenna! En ég skal sko segja ykkur það, að það er líka óþefur af ykkar ælu!
Þjónn: Fröken...
Kolbrún: engin hortugheit! Þetta er mitt barn! Það hefur ekki skemmt neitt! Þetta er ykkur að kenna!
Þjónn: þið sjáið að konan er svolítið illa fyrir kölluð...
Kolbrún: hvað varstu að kalla mig? Þú skalt ekki komast upp með þetta!

Kolbrún tekur gaffal og stingur þjóninn ítrekað með honum. Þjónninn deyr.

Kolbrún: Ó nei! Hvað hef ég gert?

Kolbrún fellur á hné sér og lítur á gólfið. Þar er stór hraukur af kekkjóttri seigfljótandi ælu sem hún rekur andlitið á kaf ofaní. Hún lyftir höfðinu aftur upp:

Kolbrún: oj...
Hallur: (við Bjarna) vilt þú snerta hana?
Bjarni: nei. Þetta mál er upplýst. Förum.

***

Máni er að ráðfæra sig við Höskuld:

Máni: hér stendur að þú hafir framið nauðgun.
Höskuldur: ég gerði það ekki.
Máni: en nauðgun er glæpur.
Höskuldur: ég nauðgaði engum, það er lygi.
Máni: það breytir því ekki að nauðgun er refsiverður glæpur. Þú ferð örugglega inn fyrir þetta.
Höskuldur: en ég gerði ekkert!
Máni: ég er ansi hræddur um að ég geti ekki mikið hjálpað þér.
Höskuldur: hvernig er hægt að dæma mig fyrir eitthvað sem ég hef ekki gert.
Máni: þú varst kærður, það er nóg.
Höskuldur: já en...
Máni: því miður.
Höskuldur: en ef kæran er dregin til baka?
Máni: nauðgun er samt glæpur.
Höskuldur: allt í lagi... þá kæri ég Furu Ösp líka.
Máni: fyrir hvað?
Höskuldur: Nauðgun.
Máni: Ertu að segja að Fura Ösp hafi nauðgað þér? Hvernig?
Höskuldur: með því að kæra mig fyrir nauðgun.

***

Hallur og Bjarni banka upp á hjá Furu Ösp. Fura kemur til dyra, haldandi á hundi:

Bjarni: Fura Ösp Hallormstedeskøg?
Fura: já?
Bjarni: þú ert hér með handtekin fyrir nauðgun.
Fura: hvað? Ég hef ekki nauðgað neinum.
Bjarni: Jú, Höskuldur hefur kært þig, við verðum að handtaka þig.
Fura: Þetta er fáráðlegt.
Bjarni: nei, þetta er glæpur.
Fura: Nei! Ég er fórnarlambið hér!
Bjarni: það breytir því ekki að þú ert líka nauðgari.
Fura: hvað með hundinn minn?
Bjarni: hann verður í góðum höndum.

***

Feng Su Ling er að búa til súpu í eldhúsinu á kínverska veitingastaðnum sínum Gullna Drekanum þegar það er barið að dyrum. Feng opnar dyrnar, og þar stendur Hallur, haldandi á hundinum hennar Furu:

Hallur: sæll Feng.
Feng: Hallur! Gaman að sjá þig!
Hallur: ég get ekki stansað, en ég heyrði að þig vantaði alltaf ódýrt kjöt.
Feng: Já, mig vantar kjöt. Kjöt mjög dýrt.

Hallur réttir Feng hundinn:

Hallur: þetta ætti að endast í viku eða svo.
Feng: Takk.

***

Kolbrún kemur heim til sín með Tuma í fanginu. Þegar hún kemur inn í stofu sér hún að þar stendur sjálfur Andskotinn í öllu sínu veldi, og teygja sig logar umhverfis hann og uppúr ljótri holu við hlið hans:

Satan: Kolbrún, ég er kominn til að fá forræði yfir syni mínum.
Kolbrún: hey! Ég var full þegar það gerðist! Ég samþykkti ekki neitt! Og þú hefur aldrei borgað meðlög!
Satan: Ég er líka kominn vegna hins málsins...
Kolbrún: hins málsins?
Satan: já, þú sagðir að ef ég gerði þig unglega til fertugs mætti ég eiga þig eftir það. Þú ert fertug. Ég á þig.
Kolbrún: Hvernig dyrfistu...
Satan: ég er Satan, sjálfur andskotinn. Ég má alltaf eiga fólk eins og þig. Reyndar allt fólk, ef marka má suma lifendur.
Kolbrún: þú munt iðrast þess!
Satan: ég ætla ekki að tala við þig. Þú átt að vera matur fyrir köttinn minn, hann Hnoðra. Hann mun melta þig að eilífu. Komdu.

Satan réttir út hönd sína og brosir vingjarnlega.

Kolbrún: Aldrei!

Satan yppir öxlum:

Satan: ókey.
Kolbrún: Ég kæri þig!
Satan: gerðu það; ég hef alla beztu lögfræðingana.

Satan veifar hendinni og jörðin rifnar undan fótum Kolbrúnar; hún og Tumi hverfa niður í undirheima. Mikill eldur gýs upp á eftir þeim og svo lokast holan. Satan hverfur og ofaní sína holu, og svo verður allt sem fyrr.

***

Máni er úti í hesthúsinu sínu að moka skít. Þá skyndilega myndast mikil hola á gólfið, svo stór að hesturinn hverfur þar ofaní, og upp sprettur Satan sjálfur.

Máni: Hvað er eiginlega að þér maður! Sjáðu hvað þú gerðir við hestinn minn!
Satan: Þegiðu. Þetta leikrit er orðið alltof langt og leiðinlegt. Þú þarft þessvegna að koma með mér.
Máni: Ha? Af hverju.
Satan: vegna þess að höfundurinn nennir ekki að skrifa meira um þig.
Máni: Hvað hef ég gert?
Satan: þú hefur verið óáhugaverð persóna. Komdu.

Satan dregur Mána með sér niður í eldsdýkið. Jörðin lokast á eftir þeim og allt verður sem áður.

***

Máni, Tumi og Kolbrún sitja á kafi í glóandi hrauni líkt og þau séu í heitum pott, á meðan þrír púkar dunda sér við að stinga þau til skiftis með heygöfflum.

Kolbrún: Þetta er allt þér að kenna!
Máni: hey! Þú varst leiðinleg líka!
Kolbrún: Þú varst leiðinlegur fyrst!

Púki stingur Kolbrúnu í hausinn með gafflinum sínum og ýtir henni á kaf í hraunið. Þegar hún kemur upp aftur er allt hold brunnið af henni. Tumi snýr höfðinu á sér 360°.

Endir

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Dagur 334 ár 2 (dagur 699, færzla nr. 364):

Hér heldur hið einstaklega gáfulega og raunsæa leikrit okkar áfram:

Fótur er hugarástand, annar þáttur:

2:

Fura kemur inn í stofu. Þar liggur Höskuldur í leisíboj stólnum sínum og hreyfir sig ekki.

Fura: Ó nei! Höskuldur er dauður!

Fura flýtir sér að hringja í lögregluna.

***

Lögreglumennirnir Hallur og Bjarni eru úti að aka:

Hallur: Bjarni, ég var að velta fyrir mér, af hverju eru bóksalar kallaðir bóksalar en ekki bókasalar?
Bjarni: hvað meinarðu?
Hallur: nú, ekki köllum við bílasala bílsala, er það? Eða fasteignasala fasteignsala?
Bjarni: við tölum heldur ekki um dópasala eða sprúttasala. Hvað meinarðu?
Hallur: sko, það eru bækur um bækur frá bókum til bóka, og bílar um bíla frá bílum til bíla, og við tölum um bílasala, með ai, en bóksala með engu ai. Hvert fók auka aið?
Bjarni: þegiðu Hallur.

Það glymur í talstöðinni:

Talstöð: útkall vegna dularfulls dauðsfalls í Fimbulmörk 7. Bíll 22, getið þið tekið það?

Bjarni: bíll 22 hér, við förum á vetvang.

Skömmu seinna renna Hallur og Bjarni í hlað. Þar stendur Fura haldandi á hundi. Þegar þeir nálgast hana miðar hún hundinum á þá:

Fura: sjáðu mennina koma? Þetta er löggan. Já. Sjáðu lögguna.
Hallur: sæl, ég heiti Hallur Ísfjörð, þetta er Bjarni Krummesteð. Þú ert?
Fura: Fura Ösp Hallormstedeskøg.

Bjarni ritar það hjá sér.

Hallur: hvar er líkið segirðu?

Fura bendir þeim að koma með sér inn, mikið niðri fyrir og faðmar hundinn að sér. Hún leiðir þá inn í stofu og bendir á Höskuld.

Fura: hann er hér.

Hallur nálgast Höskuld, leggur fingur á háls hans til að athuga púlsinn. Við það vaknar Höskuldur, og verður hann afar undrandi þegar hann sér Hall og Bjarna.

Höskuldur: hverjir eru þið og hvað eruð þið að gera? Afhverju ert þú að pota í mig?
Hallur (við Bjarna): hann er ekki dauður.
Fura: hann er lifandi! Það getur ekki verið!
Bjarni: Þá er málið leyst, líkið er ekki dautt. Förum.
Fura: en hann leit út fyrir að vera dauður! Þetta er svo niðurlægjandi! Mér finnst eins og mér hafi verið nauðgað!
Bjarni: nauðgað? Hver nauðgaði þér?
Fura: ha? Já! Höskuldur gerði það, með því að vera ekki dauður.
Bjarni: aha! Glæpur hefur átt sér stað! Höskuldur, þú ert hér með handtekinn fyrir nauðgun.
Höskuldur: ha? Gerði ég hvað? Hvenar?
Bjarni: þú verður að fara með okkur niður á stöð svo við getum yfirheyrt þig.
Höskuldur: en ég hef ekki gert neitt.
Bjarni: jú, hún Fura hér hefur sakað þig um nauðgun.
Höskuldur: en ég hef aldrei nauðgað henni.
Bjarni: en nauðgun er glæpur.
Höskuldur: en ég hef ekki gert neitt!
Bjarni: ertu ekki sámmála mér því að nauðgun sé glæpur?
Höskuldur: jú, vissulega er nauðgun viðurstyggilegur glæpur.
Bjarni: og finnst ér ekki að við nauðgunum verði að vera hörð viðurlög?
Höskuldur: vissulega, öllum nauðgurum ætti að refsa harðlega.
Bjarni: þarna sérðu. Við verðum að handtaka þig svo hægt sé að refsa þér harðlega fyrir nauðgun.
Höskuldur: en ég hef ekki gert neitt af mér!
Bjarni: Þú hefur verið sakaður um nauðgun, og nú máttu ef guð leyfir dúsa í fangelsi í mörg ár.
Höskuldur: nei!
Fura: deyr hann?

***

Máni og viðhaldið hans Mjöll eru úti á lífinu, á leið upp Laugarveginn:

Mjöll: förum hérna inn.
Máni: ókey.

Þau fara inn á Wunder-barinn. Skömmu seinna koma þau út aftur. Þau ganga svolitla stund.

Mjöll: förum hérna inn.
Máni: allt í lagi.

Þau fara inn á Lú-barinn. Skömmu seinna koma þau út aftur, og sér þá lítillega á þeim. Þau ganga smá spöl. Þau eru fyrir framan Kró-barinn:

Mjöll: förum hér inn.
Máni: eigum við ekki að fara að týgja okkur heim?
Mjöll: hvað?
Máni: við erum búin að fara á nógu marga bari í kvöld, er þetta ekki nóg?
Mjöll: Oh, þú gerir aldrei neitt sem ég vil. Við förum aldrei neitt saman, aldrei út á lífið, aldrei út að borða, við göngum ekki einusinni upp Laugarveginn saman. Skammastu þín svona fyrir mig?
Máni: erum við ekki á Laugarveginum núna?
Mjöll: Þú ert svo vanþroskaður! Komdu með mér einhvert út, og vertu með mér.
Máni: ókey, hér inn?
Mjöll: ó, þú ert svo mikil elska!

Þau fara inn á Kró-barinn. Þau panta drykki, og eru hálfnuð með sitt hvort glasið þegar síminn hans Mána hringir:

Máni: Máni Snær hér. – Já, ég er lögmaður. – Aha. – þú veist að nauðgun er glæpur? – Já, ég get tekið málið að mér. – Hmm. – á morgun. – Alveg rándýrt. – Allt í fína. Bless.
Mjöll: hver var þetta?
Máni: nýr skjólstæðingur.
Mjöll: oh! Loksins þegar við erum úti á rómantísku fylleríi þá hringir einhver hálfviti! Þú verður að fá þér annað starf.
Máni: en það er svo hip og kúl að vera fær lögfræðingur.
Mjöll: það er miklu meira hip og kúl að vera hönnuður, eða fasteignasali.

***

Kolbrún Lind og Sunna Sól eru á leið út á lífið. Þær koma sér í sparigallann og hringja í leigubíl. Á meðan er Tumi inni í eldhúsi keflaður og bundinn við stól.

Sunna: leigubíllinn er kominn.
Kolbrún: aha.

Sunna opnar dyrnar.

Kolbrún: bíddu.
Sunna: hvað?
Kolbrún: við getum ekki bara skilið hann eftir.

Þær leysa Tuma, og taka úr honum keflið.

Tumi: Morðingjar!
Kolbrún: þegiðu eða þú færð ekki að fara með okkur.
Tumi: hvert eruði að fara?
Kolbrún: við erum að fara út að borða. Þú átt að vera góður á meðan.

Þær fara með Tuma með sér út í bíl, á meðan ólgar Tumi allur.

***

Kolbrún og Sunna og Tumi sitja við borð á afar fínum veitingastað. Tumi er tekinn að hristast illilega og froðufella. Þjónn kemur að borðinu þeirra og spyr:

Þjónn: eru dömurnar tilbúnar að panta?
Kolbrún: já...
Tumi: Ég vill fá ostaköku!
Kolbrún: vertu stilltur Tumi.
Tumi: Ég vill fá snúð!
Kolbrún: Tumi minn...
Tumi: Ég vill! Ég vill! Ég vill!

Tumi lemur borðið svo fast að allt það sem þar er ofaná tekst á loft.

Kolbrún: Tumi, þetta er fínn veitingastaður...
Tumi: mér er alveg sama. Ég vill nammi!
Kolbrún: það er ekki til nammi.
Tumi: Ekkert nammi?

Tumi ælir yfir borðið.

Sunna: Oj! Þetta er ógeðslegt!
Kolbrún: er þín æla eitthvað geðslegri?
Sunna: Hvað meinarðu?
Kolbrún: ekki hef ég séð að þín æla sé eitthvað geðslegri en hans æla.
Sunna: hvað kemur það málinu við?
Kolbrún: Láttu mig sjá. Ældu á borðið.
Sunna: ég ætla ekkert að fara að æla á borðið! Það er ógeðslegt!
Kolbrún: ertu að segja að barnið mitt sé illa upp alið? Mér þætti gaman að sjá þig reyna að ala upp barn!

Hausinn á Tuma snýst 360 gráður, á meðan stendur kekkjótt spýjan út út honum, yfir Kolbrúnu og Sunnu og lítillega á þjóninn.

Kolbrún: Tumi, þetta er nóg.
Sunna: Þetta er nýr kjóll!

Tumi snýr sér að Sunnu og ælir framaní hana.

Sunna: Mamma!
Kolbrún: þú hefur móðgað mig og barnið mitt í síðasta sinn!

Kolbrún tekur hníf og rekur hann á kaf í Sunnu. Blóð sprautast af miklu afli framaní Kolbrúnu. Tumi ælir meira.

Lok annars þáttar.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Dagur 332 ár 2 (dagur 697, færzla nr. 363):

Ég lét mér detta í hug um daginn að skrifa leikrit, því ég sá nokkuð ömurlegan þátt í sjónvarpinu um daginn. Skemmtanagildi hans var dauðadæmt frá upphafi, enda áherzlan á drama. Það, og nafnið á þáttunum er það asnalegasta sem ég hef séð í langan tíma. Og ég hugsaði: ég get gert betur.

Svo hér kemur það: hið frábæra leikrit "Fótur er hugarástand" eftir mig. Þið getið dundað ykkur við það í ykkar frítíma að setja það upp.

Fótur er hugarástand

Glæpaleikrit í fáeinum þáttum.

Persónur:

Máni Snær: snjall lögfræðingur
Drífa Mjöll: viðhald
Fura Ösp: innanhússarkitekt
Kolbrún Lind: eiginkona Mána
Tumi Freyr: leiðinlegur krakki
Höskuldur: fórnarlamb
Sunna Sól: listamaður
Hallur og Bjarni: löggur
Þjónn: þjónn
Feng Su Ling: kínverskur matsölumaður.
Satan: hann sjálfur.

1:

Það er kvöld. Höskuldur liggur á gólfinu heima hjá sér. Dyrnar eru opnaðar og Fura Ösp kemur inn, sér Höskuld liggjandi á gólfinu:

Fura: Ó nei! Það er búið að myrða Höskuld!
Höskuldur: Ha? Nei, ég bara ligg hérna því það er svo gott fyrir bakið.
Fura: guði sé lof!

***

Máni Snær liggur sofandi uppí rúmi. Dyrnar opnast og in kemur Tumi Freyr, sonur hans úr nokkrum fyrri hjónaböndum. Tumi heldur á risastórum málmgjöllum, og er með dómaraflautu í kjaftinum. Hann prílar upp í rúmið, kemur sér vel fyrir og byrjar svo að hoppa í rúminu, berja saman málmgjöllunum og flauta með dómaraflautunni. Máni vaknar með andfælum:

Máni: leggðu frá þér þessi hljóðfæri Tumi minn.

Tumi heyrir ekkert og heldur áfram að hamast. Máni hækkar raustina:

Máni: Tumi minn! Tumi... æ, ég nenni þessu ekki.

Máni stígur fram úr rúminu, og röltir fram í elhús. Tumi eltir hann þangað, klingjandi gjöllum og flautandi allan tímann. Máni fær sér morgunmat í rólegheitunum og reynir að lesa blöðin. Eftir svona korter gefst Tumi upp á hamaganginum:

Tumi: gemmér að borða!
Máni: það er kókópöss inní skáp.
Tumi: Ég vil að þú hellir því í skál fyrir mig!
Máni: Þú ert orðinn svo stór að þú átt að geta fengið þér að borða sjálfur.
Tumi: Ég klaga þig til barnaverndareftirlitsins! Gemmér kókópöss! Núna!
Máni: Tumi minn...
Tumi: Ég vil fá kókópöss! Gemmér kókópöss! Núna! Arrg!
Máni: Tumi...
Tumi: Nei!

Tumi hendir sér í gólfið og byrjar að grenja hástöfum. Auk þess lemur hann með báðum hnefum og báðum fótum í gólfið. Máni stendur upp og dregur hann inn í forstofu:

Máni: Tumi Freyr, ég hef ekki tíma til þess að standa í þessu, ég þarf að fara í vinnuna.
Tumi: Ég fer með!
Máni: Tumi minn, ég lofaði mömmu þinni að fara með þig til hennar.
Tumi: Nei! Nei! Nei! Þú getur ekki gert mér þetta!

Máni reynir árangurslaust að klæða Tuma í úlpu, húfu og skó. Að lokum neyðist hann til að teipa hendurnar og fæturnar á Tuma saman, og teipa svo fötin og skóna á hann. Að svo búnu tekur Máni Tuma undir hendina of labbar með hann út.

***

Kolbrún og Sunna eru uppi í rúmi, naktar, að reyna að hafa kynmök. Allt í einu ýtir Kolbrún Sunnu frá sér:

Kolbrún: ég nenni þessu ekki.
Sunna: er eitthvað að?
Kolbrún: Sunna, sko, ég veit að við erum alveg rosalega hip og kúl á meðan við erum saman og allt það, en, það er bara eitthvað... æ ég veit það ekki.
Sunna: er ég feit?
Kolbrún: Það er ekki þú, það er ég. Þú ert mjög falleg og allt það. Ég bara get þetta ekki. Ég held ég sé... gagnkynhneigð.
Sunna: *tekur andköf*
Kolbrún: Fyrirgefðu. Það er allt í lagi að vera ekki samkynhneigð. Við getum samt ennþá verið vinir, er það ekki?
Sunna: Æi, reyndar þá er ég líka bara að þykjast. En það er svo inn að vera gay. Allar vinkonur mínar eru í samtökunum 68. Þau bjóða upp á svo góða leik-aðstöðu fyrir börnin, vissir þú það?

Dyrabjallan glymur. Kolbrún og Sunna standa upp, og reyna að finna eitthvað til að klæða sig í. Þegar þær eru í takt við nýjustu tískustrauma þá fara þær báðar til dyra.

Máni stendur á tröppunum, við hlið hans er Tumi, með úlpu, húfu og skó teipaða við sig á viðeigandi stöðum.

Kolbrún: Sunna Sól, segðu honum að hann sé of seinn.
Sunna: Þú ert of seinn.
Máni: segðu henni að ég sé ekkert of seinn. Ég eigi að koma á morgun.
Sunna: hann segist ekki vera of seinn, hann eigi að koma á morgun.
Kolbrún: segðu honum að hann sé þá of snemma, ég vil ekkert taka við krakkanum núna.
Sunna: hún segir að þú sért of snemma á ferðinni, og hún vill ekkert taka við krakkanum núna.
Máni: segðu henni að ég sé upptekinn. Hún hlýtur að geta hugsað um hann í einn auka dag.
Sunna: hann segist vera upptekinn, og að þú hljótir að geta tekið við honum einn auka dag.
Kolbrún: segðu honum, ókey, en þá verður hann að taka hann alla næst helgi.
Sunna: hún segir, ókey, en þá verður þú að taka hann alla næstu helgi.
Máni: segðu henni að það sé ekki sanngjarnt. Ég verð með fólk í mat þá.
Sunna: hann segir að það sé ekki sanngjarnt...
Kolbrún: Máni, ég fer í mál við þig og fer frammá að þú takir að þér allan umgegnisrétt að barninu. Já! Ég ræð heilan her af lögfræðingum, og læt setja á hann nálgunarbann við mig! Já! Hlustaðu á mig! Ha! Já! Ég mun sjá til þess að þú munir þurfa að ala önn fyrir þessum krakka alla hans ævi! Já! Uhmu! Já!
Máni: það er ekki mannúðlegt! Og þetta er líka þitt barn.
Kolbrún: en ég er lessa, ég get ekki hugsanlega hafa eignast þetta barn.

Kolbrún grípur Sunnu og kyssir hana.

Kolbrún: sjáðu bara!
Máni: en...
Kolbrún: Ekkert en. Farðu, og hafður gerpið með þér.

Kolbrún skellir hurðinni. Máni tekur Tuma upp, fer með hann bak við hús og laumar honum inn um opinn glugga. Tumi krækir fótunum í gluggakarminn svo hann fellur ekki inn, en Máni nennir ekki að ýta honum lengra heldur hleypur á braut.

Inni snýr Kolbrún sér að Sunnu:

Kolbrún: Veistu Sunna, ég held ég sé hætt við að hætta að vera lessa.

Sunna brosir, og þær faðmast.

Sunna: förum saman í bað.
Kolbrún: já, gerum það!

Kolbrún og Sunna fletta sig klæðum og hlaupa skríkjandi að baðherbergishurðinni. Þær fallast í faðma áður en þær opna dyrnar:

Þá blasir Tumi við þeim, hangandi á hvolfi niður úr glugganum, grettir sig illilega og urrar á þær. Kolbrún og Sunna öskra.

Lok fyrsta þáttar.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Dagur 331 ár 2 (dagur 696, færzla nr. 362):

Aygo, með tryggingum, kostar næstum 2 milljónir. Samkvæmt auglýsingunni í fréttablaðinu, eða blaðinu, eða mogganum. Það þýðir að þessar gallabuxur sem hann er miðaður við kosta næstum 1 miljón.

Hverskonar gallabuxur eru þetta eiginlega? Er í þeim svona æpot? Sem fær músík dánlódaða í áskrift beint frá flytjanda? Kannski örbylgjuofn líka? Innbyggt nudd? Hvaða eiginleika hafa þessar svakalegu buxur eiginlega, sem réttlæta þetta gífurlega verð? Og hvar fást þær? Ég er forvitinn um þetta.



Vissulega veldur þetta allt mér miklum vangaveltum.

Ég þarf að fara heim og drekka te. Hætta að hugsa um dýrar gallabuxur, eða litla og mjög svo dýra bíla.



Hugsum stórt.