þriðjudagur, mars 27, 2007

Dagur 19 ár 4 (dagur 1114, færzla nr. 532):

Fór í fermingarveizlu um daginn, í Forgarði Helvítis, held ég. Allavega var eitthvert evil-symbol á fortjaldinu, og veggirnir voru svartir og rauðir. Að auki var nokkuð heitt. En maturinn var fínn. Ég fann áðan smá keim af marsipani síðan þá.

Þarna voru náttúrlega 200 manns sem ég kunni lítil deili á.

Hvað meira?

Já, ég var að kynna mér það um daginn, að eitt af einkennum koffeineitrunar er niðurgangur. Þannig, að ef þú drekkur voða mikið kaffi, og færð niðurgang í framhaldinu, er ráðlegt að ræða við lækni. Eða það stendur amk á internetinu.

Amfetamín getur valdið sömu einkennum, en þau teljast þá ekki til eitrunar. Svo, ef þú tekur amfetamín og færð niðurgang, þá er það ekkert mál; þetta á að vera svona. Hinsvegar getur það stöff valdið hjartsláttartruflunum, sem geta verið sérlega varasamar ef maður er með einhverja meðfædda galla.

Og ef maður fær sér að drekka mjöð úr vissum mexíkönskum kaktusum gæti maður komið auga á nokkra karólínska míníscula... uppi á borði... spilandi á hljóðfæri, syngjandi og dansandi...

This site is certified 32% EVIL by the Gematriculator



Hallelúja.

laugardagur, mars 24, 2007

Dagur 16 ár 4 (dagur 1111, færzla nr. 531):



Nú er að koma sumar, og þá fara að koma allskyns langar, dýrar og afar slæmar myndir í bíó. Margar þeirra eru gerðar af Bruckheimer og í þeim er Nicholas Cage. Fyrir þá sem ekki vita hver það er, þá er það gæjinn með langa andlitið sem var í "the Rock" og "Con Air" og mörgu öðru.



Reyndar hef ég skoðað þetta mál aðeins, og mér hefur sýnst að sá náungi sé í flestum sumarmyndum sem ganga eitthvað. Fáir vita til dæmis að Nicholas Cage var í bæði "ID 4" og "Pirates of the caribbean". Það vita það nefnilega fáir, en Keira Knightly er í raun bara karakter sem er leikinn af Nicholas Cage. Og í ID 4 lék hann dauða geimveru, enda er sú dauða geimvera lang-eftirmynnilegasti karakterinn í þeirri mynd.



En hvað um það. Ef það er svo, þá er örugg leið til að gera sumar-blokböster bara að láta Bruckheimer ráða Nicholas Cage, og gera svo kvikmynd með fullt af sprengingum og almennu kjaftæði.



Til dæmis Godzilla! Já, ég veit að það er búið að gera ameríska útgáfu af því. En ekki með Nicholas Cage, þess vegna var sú mynd líka hálfgert klúður. Þeir eiga náttúrlega að ráða gæjann sem leikur Godzilla venjulega, og koma svo með eitthvað orginal plott... með Nicholas Cage að sjálfsögðu.



Nicholas Cage vs. Godzilla!

Nicholas Cage stígur á land einhversstaðar, upp úr sjónum, og byrjar að sparka í nokkur háhýsi úr pappa og gifsi.

Godzilla er heima hjá sér, með bjór í hendinni að horfa á sjónvarpið.



Herinn reynir að ráða niðurlögum Nicholas Cage með ýmsum ráðum, til dæmis með því að skjóta á hann CGI eldflaugum, en þegar það dugir ekki þá hringja þeir í Godzilla.

Bardagi aldarinnar upphefst. Fullt af húsum hrynja. Sprengingar, læti, harðfiskur. Þið þekkið þetta. Svo kemur Súpermann inní þetta einhvernvegin, og alheimurinn springur í loft upp. Gott stöff, það.



Ég ætla að fara að gera eitthvað uppbyggilegt núna.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Dagur 13 ár 4 (dagur 1108, færzla nr. 530):

Ah...

Ég fékk miða frá skattinum í morgun. Jamm. Í morgun. Þar stóð allskonar drasl um hvernig ég gæti skoðað skattskýrzluna á netinu. Svo ég fór á netið og kíkti á þetta. Netið bauð mér að fylla út skattskýrzluna á netinu. Nennti því ekki, hugsaði að ég fengi eyðiblað með pósti á endanum.

Svo fór ég til ömmu, til að tala aðeins við hana, horfa á fréttir og svona - því hún býst jú við mér.

Þá heyri ég að það eigi að skila framtalinu í dag. Þá fyrst. Og ég er ekki búinn að fá neitt framtal í þessum skrifuðum orðum.

Svo ég stökk upp í bókhlöðu. Jújú, það er hægt að skila þessu öllu á netinu, segir netið. Svo ég geri tilraun til þess:

Tilraun 1: netið segir mér að það sé villa í framtalinu. Það mun vera rétt, en það mun að auki ekki vera fræðilegur möguleiki að leiðrétta það, svo ég hugsa: ég er að gera þetta vitlaust.

Tilraun 2: ég skoða netið betur og finn einfalt, aðeins of einfalt form sem ég get fyllt út. Svo ég geri það. Þá vill netið vita á hvaða reikning það getur sent mér endurgreiðzluna. Huh? Eithvað er ekki rétt, en til að vita hvað er á seyði næ ég í veflykilinn til að sjá hvað gerist.

Í millitíðinni lokar bókhlaðan - hún lokar sko 22:00. Svo ég skoða þetta í annarri tölvu... og sé ég þá ekki að ég var þarna næstum búinn að svíkja stórfé út úr ríkinu. Flott mál. Geri það næst. Flý svo úr landi. Til Mexíkó eða eitthvað.

Allavega þá komst ég að því að það er ekki vinnandi vegur að skila framtalinu á vefnum, svo ég prentaði þetta bara út og skutlaði því innum lúguna hjá þeim. get alltaf stolið af þeim pening á næsta ári.

Rafræn skil? Helvítis kjaftæði!

þriðjudagur, mars 20, 2007

Dagur 12 ár 4 (dagur 1107, færzla nr. 529):

Það hefur sína kosti og sinn afar sérkennilega galla að vera á Corollu. Allt í lagi, þetta apparat eyðir ekki nema rétt um 9 á hundraðið. En á móti týni ég honum alltaf á stæðinu, og þarf að leita. Það er svosem ekkert nýtt, hinn bíllinn er silfurgrár, og það er svona eins og að leita að glærum bíl að leita að svoleiðis.

Var að keyra áðan, og tók eftir því að jafnvel litlir bílar eins og Golf gnæfa yfir mér eins og einhverjir bergþursar. Það var ekki þannig. Neibb. Og: ef ég hefði lent í árekstri á Cherokee hefði það ekki kostað mig mjög mikið að gera við það. Reyndar var sá bíll alveg klesstur: steypudæla hafði lent á bílstjórahurðinni þegar Reynir átti hann, Kristín Bassa bakkaði á frambrettið, og örugglega eitthvað meira sem engin ummerki sáust eftir.

Dodgeinn tók út VW og Skoda, og þar áður eitthvað annað. Það var alltaf snúið uppá bílstjórahurðina á honum, svo sást út. Hann þoldi þetta allt.

Sem fær mig til að hugsa: kannski er þetta ekki nógur málmur? Ef ég keyri á, þá er það bara búið; þarf að finna annan bíl.

Eða: ég get fiffað þennan aðeins til...

Sko, ég bolta stífur í framendann, bý til svona grind umhverfis vélina svo hún verði ekki fyrir óþarfa hnjaski, með krossstífum og hvaðeina, svo er gott að útbúa veltibúr inni svone eins og á Rallýbíl - gæti komið sér vel, hver veit? Gera þetta svolítið rammgert. Skifta kannski sætinu út fyrir rallý-sæti, með 4 eða 5 púnta belti. Veitir ekki af í umferðinni hérna.

En þá ræður hin auma 1300 vél ekki við að bifa bílnum. Kannski spurning að redda einni 2 lítra úr Carinu? Eða bara 460 Ford frá Reyni? Það ætti sko að hreyfa bílinn úr stað! Hvar ætti ég nú að koma henni fyrir... í farþegasætinu auðvitað! Hah! Ef það passar ekki undir húddið...

Væri flott mál. Skoða þetta á eftir.

sunnudagur, mars 18, 2007

Dagur 10 ár 4 (dagur 1105, færzla nr. 528):

Bankaði uppá hjá Reyni í gær. Mér sýndist hann vera við. Var að spá í að ræða við hann, fara svo niður og borða kjúklingaáleggið sem ég átti síðan... einhverntíman. Var farinn að verða svolítið svangur eftir að hafa hangið yfir einhverju verkefni með einhverju fólki í um 3 klukkutíma, og svo hjálpað pabba að setja ísskáp uppá bíl og ná í hjólhýsi.

Ég held ég myndi frekar kjósa húsbíl - miklu minna vesen að flytja.

En hvað um það. Hjá Reyni var einhver kunningi hans sem þið þekkið örugglega ekki en ég hef hitt áður. Var sá ný-mættur á svæðið. Ég hafði varla sest niður þegar dyrabjallan glumdi, og annar kunningi Reynis kom í heimsókn.

Það var Portúgali, Georg að nafni, skilst mér.

Nú, við sátum þarna um stund, og ræddum um ísbirni. Þá mundi Reynir allt í einu eftir því að hann átti Krónhjört inn í ísskáp, sem hann hafði ekki komist í að snæða - og nú var þessi portúgali í heimsókn, sem er víst mikill listakokkur...

Hvað um það, Reynir fékk gæjann til að elda krónhjörtinn, og bauð einum til viðbótar - sá heitir Árni, og býr rétt hjá - er víst eitthvað skildur mér. Hann kom með flösku af víni, sem kom ágætlega út með þessu villidýri. Náunginn á víst gott safn heima hjá sér.

Það var svosem ágætt að fá að borða. Krónhjört? Það er ágætt kvikyndi á bragðið. Fínn laugardagsmatur. Rennur ágætlega niður með smá Baron de Ley.

föstudagur, mars 16, 2007

Dagur 8 ár 4 (dagur 1103, færzla nr. 527):



Þetta er Mauser 98. Illugi á einn svona, fékk hann fyrir slikk einhversstaðar. Alveg hörkugræja, gæti hitt eitthvað með þessu. Nazistarnir voru með þetta út stríðið. Sem þýðir að það á að vera til slatti af þessu ennþá hér og þar.

Það er allt fullt af misvísandi merkingum útum allt: nazista lógó á öllu, og Júgóslava lógó hér og þar líka - þetta kom úr herfangi sem Júgarnir stálu af nazistum í heimstyrrjöldinni.

Við vorum um daginn að bera þennan riffil saman við annan riffil sem hann á, Mosin-Nagant. Það er smá munur: Mauserinn hittir það sem honum er miðað á, Mosin-Nagant hittir það ef það er lengst í fjarska, annars þarf að miða allnokkuð fyrir neðan skotmarkið.

Mosin-Nagant slær eins og .22. Mauser 98 slær eins og... ja, það kemur eitthvað högg sem maður verður aðeins var við. Við getum borið það saman við Tikka, sem slær nokkuð hressilega. Það venst samt.

Þetta er náttúrlega tækni síðan 1898, svo þetta er pínulítið flóknara allt en það þarf að vera - en það virkar fullkomlega ennþá. Svona rifflar hafa almennt ekkert breyst síðan 1950. Þá var bolta-mekanisminn fullkomnaður. Skotvopn hafa almennt ekkert þróast neitt mikið síðan þá. Enda svosem ekki mikið til að endurbæta. Svona eins og blýantar; þarf mikið að eiga við þá hönnun?

þriðjudagur, mars 13, 2007

Dagur 5 ár 4 (dagur 1100, færzla nr. 526):

Ég var að hlusta á einhvern gæja tjá sig um klámmyndir í útvarpinu um daginn. Hann laug því að hann hefði verið að stúdera fyrirbærið.

Þetta voru allt voða ofbeldisfullar klámmyndir sem hann var að horfa á. Allt. Undantekningarlaust. Voða kinký stöff greinilega.

Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki séð voða margar klámmyndir - og finnst hin týpíska íslenska kvikmynd bara yfirdrifið nógu klámfengin - man ekki til þess að hafa séð heila löggilta klámmynd reyndar. Man ekki eftir neinum ofbeldisverkum í því sem ég hef séð. Hlýt að hafa misst af þeim pörtum.

Ég hélt að það væri til klámmynd fyrir hverja perversjón; dýraklám, barnaklám, homma/lessuklám.... meira að segja tilfinningaklám - en það er aftur á móti alltaf sýnt í sjónvarpinu á prime-time.

Það er ég viss um að það er fullt af fólki þarna úti sem finnst klámið ekki fullkomnað fyrr en einhver er kýld/ur, en það geta varla verið allir, er það? Þá hlítur að vera tl slatti af mjög óofbeldisfullu klámi.

En að ætla að horfa á einungis klámmyndir þar sem verið er að stunda barsmíðar, og alhæfa út frá því um alla línuna... það er eins og að segja að allar teiknimyndir séu um Mikka mús.

Hvar var Mikki Mús í Fred Flintstone þáttunum?

Um daginn heyrði ég vísað til athyglisverðrar rannsóknar: fólk var látið horfa á 3 mismunandi senur í sjónvarpi, og atferli þess og líðan mælt á eftir. Þetta var eitt atriði með ofbeldi og líkamsmeiðingum, ástarsena, og eitthvað passíft stöff - alþingi eða dýralífsþáttur eða eitthvað ámóta.

Jújú - fólk mældist marktækt árásargjarnara og pirrað eftir að hafa horft á... ástarlíf. Hitt virkaði víst lítið til breytinga.

sunnudagur, mars 11, 2007

Dagur 3 ár 4 (dagur 1098, færzla nr. 525):

http://b2.is/?sida=tengill&id=220677

Sjáið þetta. Hvað hefði gerst ef löggan hefði látið vera að elta þessa gaura? Þeir voru næstum því búnir að valda hörku árekstri þarna með því að stoppa á öfugum vegarhelming, tvisvar, og þá náttúrlega beygðu þessir bófar undan, og munaði litlu að þeir lentu á bíl sem var bara á ferð þarna í seinna skiftið.

Svo klesstu þeir aftaná einhvern.

Mig grunar að það hefði nú ekki verið minnst á þennan glannaskap í fjölmiðlum ef rallið hefði endað með að bófarnir keyrðu beint framan á þennan grá bíl. Ekki var neitt sagt þegar þeir keyrðu aftaná þennan pallbíl. Ætli löggan valdi svona löguðu oft?

Jamm. Einmitt þegar kaninn er að hætta þessu, þá byrjar íslenska löggan. Frábært. Ég sem hélt að hugmyndin væri að valda EKKI hættu í umferðinni? Það þurfti nokkur hundruð dauðsföll dreyfð yfir 40 ár til að kaninn hætt þessum stælum, kannski gildir það sama hér.

Það er ekki eins og þeir geti ekki bara gengið upp að þessum gaurum seinna. Ég meina, þetta eru alltaf sömu 50 mennirnir! Þeir útiloka bara þá sem eru ekki í steininum þá, og það eru einhverjir af hinum.

Jæja. Ekki komust þeir nú hratt. Rétt dóluðu þetta á mest 100, og það niður brekku. Þessi pallbíll var ekki gerður fyrir hraða, sýnist mér. Og engin umferð af viti. Ef þetta hefði gerst á milli 16:00-18:00, hefði þetta endað mjög snögglega í einhverri umferðarteppu.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Dagur 364 ár 3 (dagur 1094, færzla nr. 524):

Jæja. Fékk mér annan bíl. Enginn hefur hringt út af þeim gamla. Jæja...

Þetta er töluvert nýrri bíll og minna keyrður. Og minni. 2 sæti og pyntingabekkur. Þið þekkið settöppið. Mjög vinsælt. 1300 vél, beinskift, geislaspilari, rafmagn í rúðum. Sentrallæsingar sem virka. Veltistýri.

Ekkert óþarfa krapp sem er bara fyrir: dráttarkúla (1300 vél, muniði?), topplúga, svona dót til að reka hnén í. Mér er alveg fokking sama hvernig tískan er, ég vil ekki bíl með fítusum sem ég rek hnéin í. Það er ámóta gáfulegt og útvíðar buxur.

Sjáum nú hvort þetta apparat endist fram á næsta ár.

***

Hlustaði á í fréttum allskyns þvælu að vanda.

Ungdómshúsið í Danmörku var rifið, við mikla óánægju aðila sem áttu það ekki, en bjuggu þar í óþökk þeirra sem áttu það. Sniðugt. Svo kemur á daginn að þetta eru einhver alþjóðleg glæpasamtök, þessi ungdómur sem býr þarna. Fólk sem sest að í tómum húsum, og grípur til ofbeldis ef það á að reka það út þegar á að taka húsin aftur í notkun eða rífa þau. Þeir brutust víst inn í sendiráð í frakklandi og rústuðu það til að mótmæla. Svo kom bakköpp frá Svíþjóð.

Á að vorkenna þessu liði? Held ekki.

Þessir Danir...

Í öðrum fréttum er þessi gæi sem var böstaður í USA fyrir það eitt að lemja mann ítrekað með beisball-kylfu svo hann bíður þess ekki bætur, og ræna hann svo. Já, ég veit að þetta er varla glæpur hér á landi, svona ámóta alvarlegt og að ljúga að mömmu sinni, en þeir líta þetta aðeins öðrum augum í Virginíu.

Ég er að velta fyrir mér, á þessi gæi sér feril hér á landi líka? Það er ekki ólíklegt. Hvað sem öðru líður, þá sé ég enga ástæðu til að flytja hann hingað aftur. Þetta er ofbeldismaður og ræningi. Við höfum nú þegar alveg nóg af slíku. Við eigum að þakka kananum fyrir að geyma þennan náunga.

Bandarískur refsiréttur er allur hinn undarlegasti: það er hægt að stinga í djeilið krökkum undir 12 ára fyrir kynferðislega misnotkun, sem er náttúrlega furðulegt, og svo koma inn mönnum í 20 ár fyrir morðtilræði og rán, sem meikar alveg sens.

Berum þetta saman við Ísland, þar sem menn mega búast við 10 ára setu í fangelsi fyrir fíkniefnasmygl, og 5 árum fyrir morð. Fyrir rán og gripdeildir með slatta af líkamsárásum inn á milli erum við að tala um næturgistingu í klefa með möguleika á 2-3 mánuðum ef illa liggur á dómaranum.

Hvernig væri að sameina þessi tvö kerfi, og fara milliveginn: við sleppum því að stinga inn 11 ára krökkum fyrir kynferðislega áreitni, geymum morðingja inni forever, ræningja og ofbeldismenn í 10-15 ár, og dópsmyglara inni sem styst.

Hvernig væri það?

***

Já... þetta er eftir:

laugardagur, mars 03, 2007

Dagur 360 ár 3 (dagur 1090, færzla nr. 523):

Það er voðalegt vesen að hafa ekki bíl. Það þarf meira að segja bíl til að leita almennilega, nema maður sé til í að kaupa einn bara blint í gegnum símann. Ég hef heldur eiginlega engan tíma á virkum dögum í þetta. Helv.

það er klukkutíma labb í vinnuna. Ég hef ekki hugmynd um havr strætó stoppar hér í grenndinni, svo það er annaðhvort að rölta alla leið upp í bókhlöðu eða á Hverfisgötu. Veit ekki hvort á að nenna því. Það rænir mig alveg jafn mikið matartímanum að bíða við bókhlöðuna. Ég þarf nefnilega að borða - mér finnst það amk betra. Gat ekkert borðað í gær fyrr en ég kom heim úr vinnu.

Og reiðhjól? Langar ekki að mæta blautur. Hvorki í vinnu né heim.

Þarf að fara að hringja í fólk út af bíl.