mánudagur, maí 31, 2004

Dagur 89:

Var úti. Það er verið að bræða eitthvað. Og nú verkjar mig í lungun. Afar óþægilegt. Gæti þetta verið eiturgas sem lá yfir bænum? Hver veit... Ekki gott.

Þarf að halda mig innandyra þegar það er verið að bræða sé ég. Nema ég sé kominn með pest. Kannski berkla. Sé til með það í vikunni.

Nema auðvitað Hannes hafi smitað mig af þessu sem hann var með. helvítis kvikindið af honum. Hvað eru menn að mæta í vinnuna fársjúkir af kvefi?

Já, hvað var ég að gera í vinnu þarna í fyrra, fársjúkur af flensu og beinverkjum og látum... Þegar ég hugsa til þess, þá stóð ég varla í fæturna, en mætti samt.

En nú... nú verkjar mig þegar ég anda.

Ef ég hósta blóði, þá eru það berklar, annars eitthvað annað.

sunnudagur, maí 30, 2004

Dagur 88:

Mér tóks að framkvæma mjög athyglisverðan hlut nú í gær: Að selja gamla bílinn. Já, selja, fyrir peninga. Bíl sem ég hefi notað til að fara í torfærur á. Bíl sem íbúar borgar óttans hefur þótt mjög gaman af klessa á. Bíl sem lekur meiri olíu en Írösk olíuleiðzla.

Svo það er von enn. Ef það er hægt að selja þennan bíl, er hægt að selja hvað sem er. Góðir hlutir.

laugardagur, maí 29, 2004

Dagur 87:

Frí. Hmm. Of mikill tími. Hvað geri ég þá? Ímeila fólki! Hugmynd! En hvað ætti ég að senda því? Eitthvað sniðugt, auðvitað. Finn út úr þessu.
Dagur 86:

Varð að fresta afríkuinnrásinni vegna skorts á þátttakendum. Vantaði svona 2-3 í viðbót til að þetta gengi upp, óvervelma þetta afríkulið og allt það.

Það bíður betri tíma. Það er annars merkilegt hvað maður kemst lítið í að tjá sig hérna núorðið. Tölvan niðri ræður ekki við þetta almennilega, af einhverjum orsökum.

Hefi svosem tíma í annað núna. Það er helgi. Þá er alltaf tími. En þar sem ég er núna of þreyttur til að afkasta öðru en bara tómu rugli, þá segi ég að gott í dag.

Þarf svo að tékka á því hvort þetta er hundurinn sem er að hlaupa um hér fyrir neðan, eða hvort það eru bara aukahljóð hér líka.

mánudagur, maí 24, 2004

Dagur 81:

Mig langar að gera innrás í eitthvert Afríkuríki. Kongó, til dæmis. Í þeim tilgangi að stela af þeim öllum náttúruauðlindunum. Áhugasamir geta skráð sig hér fyrir neðan. Bring your own gun.

sunnudagur, maí 23, 2004

Dagur 80:

Dagarnir renna allir saman núna. Hvernig ætli standi á því? Skortur á nótt á milli? Kannski...

fimmtudagur, maí 20, 2004

Dagur 77:

Egg. Allir eru með þessi egg. Voða stuð, þetta að ná í egg. Fýlsegg. Fyrst er að fæla fýlinn af egginu. Svo er að taka eggið. Svo er eggið snætt. Jummý. Nei takk.

Mig grunar einhvernvegin að aðal sportið sé að ná í eggið, það að borða eggið sé bara eitthvað sem maður hálf neyðist til að gera eftirá, svona til þess að réttlæta það að maður var að ná í eggið til að byrja með.

Það er ekki gaman að vera fýll í dag.

miðvikudagur, maí 19, 2004

Dagur 76:

Það er merkilegt hvað það gerist lítið þegar ekkert er á seyði.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Dagur 75:

Jagged Alliance er mikill snilldar tölvuleikur. Ekki að það sé neitt nýtt.

sunnudagur, maí 16, 2004

Dagur 73:

Það þarf að opereita þessu með undirferlum og krókaleiðum. Helvítis grafískt kerfi. Það fer allt í kuðung í brávsernum. Þetta er súpa af stöfum sem mér er boðið uppá, allt í einni bendu. En sem betur fer er ég snillingur, annars væri þetta allt ómögulegt. Já. Versta að kunna ekkert í forritun. Snilligáfa eða ekki, það er bara sumt sem þarf að kunna.

laugardagur, maí 15, 2004

Dagur 72:

Þetta er versta nettenging sem ég hef haft í marga mánuði. Og verstu vafrarar sem ég hefi lent í jafnlengi. Þvílík hörmung.

En hvað um það. Plúsinn er að ég er ekki í RKV, og ekki heldur búinn að éta yfir mig.

Hundurinn er bara búinn að sleikja mig lítið ennþá. Sem er gott.

Ég sé til hvernig Þetta virkar.

föstudagur, maí 14, 2004

fimmtudagur, maí 13, 2004

Dagur 70:

Hérna. Mér þótti þetta voðalega fyndið. Langt, en sniðugt. Var alltaf að velta fyrir mér hvaðan þetta var komið. "Það var dimm og stormasöm nótt", já. Yfir klysjan, sú sem ræður yfir öllum hinum.

Svo er þetta. Mér fannst þetta líka nokkuð fyndin lesning. Plottið er svona: kalda stríði er í gangi, og vopnakapphlaupið tekur á sig súrrealískar myndir. Saddam Hússein summonar fram einhverja furðuveru. Snilld.

miðvikudagur, maí 12, 2004

Dagur 69:

Suma daga, fer maður að pæla, hvað eru menn að gera sem eru á þingi. Ég er að spökulera hvort það sé ganja í teinu hjá þeim eða eitthvað. Ég var að glápa á þetta í gær, og það var þarna náungi, sem talaði hægt. Orð fyrir orð, eitt orð í einu, skýrt, og sekúnda á milli. Entist ekki til að glápa á það.

Fjölmiðlafrumvarpið... Urg. Maður fær næstum grænar bólur af að heyra um það. Það er í öllum fjölmiðlum, alltaf. En ég get ekki neitað því að það er ansi merkilegt. Fyrir utan að það brýtur stjórnarskrá á nokkrum stöðum, þá kemur það úr óvæntri átt: frá sjálfstæðisflokknum.

Sem er athyglisvert. Ég hélt að þeir væru til hægri. Svo virðist ekki vera. Þeir eru til vinstri núna. Ég hélt að í cut-throat bisness væru fyrirtækin að cutta hvert annað. Ríkið kæmi þar hvergi nærri. En við gerum hlutina víst öðruvísi hér á Íslandi.

Kannski á að taka Norðurljós niður eins og var gert við Hafskip á sínum tíma.

það allra bezta við þetta allt, er að í þessu máli er gjörsamlega ómögulegt fyrir fjölmiðla að vera óhlutdrægir. Ekki það að fjölmiðlar séu neitt sérlega óhlutdrægir svona yfirleitt.

Á móti á að leyfa 18 ára að kaupa bjór, með flóknum og undarlegum reglum. Það getur aldrei verið einfalt: þú ert bara 18 ára, þú ert bara fullorðinn og mátt alveg rústa meltingarfærunum ef þú endilega vilt. Nei. Það þarf að vera flókið. Þegar þú ert 18, þá máttu kaupa bjór, en bara á föstudögum, og þú mátt ekki kaupa 4xvodka í ís, en þú mátt fá þér kampavín, en bara eftir klukkan 16:00, eða á fimmtudögum á fullu tungli. Þegar þú verður 20, þá máttu kaupa vodka, en bara í Ríkinu eða á barnum, og þá á uppsprengdu verði í báðum tilvikum.

Við ættum að ganga í USA. Að vísu þyrftu krakkar að bíða þartil þeir yrðu 21 til að verzla áfengi, en þeir gætu gert það í hagkaupum eða í drive through liquor, eða hjá kaupmanninum á horninu.

Svo er að verða dýrara og dýrara að taka bílpróf. Má ég benda á hver það er oftast sem borgar það: foreldrar. Allt í lagi, foreldrar og verðandi foreldrar: hvernig lýst ykkur á það?

Ó, við tökum bara lán! Svara sumir. Á 4.5% vöxtum í fjögur ár, vísa debit rað. Skuldum við ekki nóg? En hvað er ég að segja? Ég á í Íslandsbanka. Og Landsbankanum, og hinu, og þessu... Svo, takið lán, fíflin ykkar.

Og nú kostar það 70.000 kall að taka byssuleyfi. Það á að breyta þessu í elítusport. Af hverju? Ja... ef sjálfstæðismenn hafa allt í einu breyst í Marxista... það er þarna jólasveinn á þingi sem vill her... Hvað gera kommúnistar við heri? Nú, þeir kæfa uppreisnir, auðvitað. Og ef aðeins elítan er með byssur, þá er enginn til að skjóta á móti.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Dagur 68:

Ég var að segja frá því þegar ég hitti fólkið í undirheimum Reykjavíkur:

Já, það var allt að horfa á sjónvarp, svo ég var ekkert að trufla það, heldur laumaðist um og skoðaði. Fólkið bjó allt í torfhlöðnum... ekki beint kofum, vegna þess að það var ekki þak, þar sem það var ekki nein úrkoma þarna neðanjarðar, en þetta voru samt veggir, einskonar básar eða eitthvað.

Það voru vegir, eða göngustígar á milli húsa, og um allt loft voru hangandi ljósaperur til að lýsa upp pleisið. Örugglega 2000 stykki, minnst. Raflínur héngu beint niður úr loftinu niður í básana sem liðið bjó í, og loftnetssnúra á móti, meðfram. Öll loftnetin lágu svo út um eitt sameiginlegt gat á loftinu. Einn af þessum dögum þarf ég að fara með GPS tæki þarna niður til að finna út hvar þetta loftnet kemur upp.

Eftir nokkra stund heyri ég umgang í mörgum hýbýlanna. Ég giska á að Leiðarljós hafi verið búið fyrir daginn, og liðið á ferðinni. Þar sem ég var nú óboðinn gestur áræddi ég ekki að láta sjá mig á ferli, svo ég rölti til baka, flýtti mér upp göngin, hljóp framhjá gufuvélunum, vakti með því aðeins of mikla athygli á mér, og fékk fylgdarlið að stiganum.

Ég skaust upp eins hratt og ég komst, með liðið á eftir mér, baulandi og urrandi, lokaði hleranum og velti yfir hann skjalaskáp sem vildi svo vel til að var þar hjá.

Svo rölti ég upp í anddyri aftur.

Og enn var ég ekki með eyðublaðið. Ég leit aðeins í kringum mig, hugsandi sem svo, að þetta merkis-eyðublað hlyti að vera þarna. Sem það reyndist vera. það voru þarna hillur fullar af þessu, í bunkum.

Ég þarf að muna eftir þessu næst.

mánudagur, maí 10, 2004

Dagur 67:

Amma fékk bréf frá grænfriðungum áðan. Þeir hóta að koma ekki til landsins ef við veiðum hvali. Hmm. Við getum veitt hvali, eða fengið alla grænfriðunga í heimsókn... hvort viljiði heldur: grænfriðunga eða hvali?

Grænfriðungar?
Hvalir?

Grænfriðungar?
Hvalir?

Grænfriðungar?
Hvalir?

Er ekki svarið augljóst? Hvalir smakkast betur, er það ekki? Þetta segi ég að vísu bara því ég hef aldrei smakkað grænfriðung. Gæti verið líkur hrefnu, ef hann er matreiddur rétt.

Hvernig matreiðir maður annars grænfriðung? Steikir maður hann á pönnu þar til hann er brúnaður báðumegin, setur hann svo inn í ofn í korter-tuttugu, og ber hann fram með hrísgrjónum og soyasósu? Eða sker maður hann í litla bita, steikir smá, og sýður í gúllas? Eða reykir maður... Hmm. Svo margar spurningar.

Nei, við skulum halda okkur við hvalinn. Verst hvað þeir smurðu mikið á verðið. Þetta á ekki að þurfa að kosta svo mikið. 400 kall á kílóið, eins og þetta norska. (Það var það sem ég borgaði fyrir það.)

matur...

Hin mjög svo trúverðuga saga heldur kannski áfram á morgun.

sunnudagur, maí 09, 2004

Dagur 66:

Hin ofsalega trúverðuga saga heldur áfram:

Þessi dimmu moldargöng voru töluvert beinni en hin tvö, og lágu niður á við. Ég gat mér þess til að ég væri fyrir löngu kominn niður í bergrunninn, en veggirnir voru enn tyrfðir. Það var ekki fyrr en ég kom neðst í göngun, að hurð sem þar var, að eitthvað sást í bergið.

Hurðin var stór og útskorin með einhverju blómamynstri, felld inn í berg. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að banka eða bara ryðjast inn. Ef ég bankaði, þá vekti ég óþarfa athygli á mér, en ef ég ryddist inn, þá gæti ég átt von á að vera eltur um eins og ótýndur innbrotsþjófur.

Ég áhvað að kíkja fyrst inn um bréfalúguna til að sannfæra mig um að enginn væri á ferli hinumegin. Það var enginn, svo ég opnaði dyrnar og gekk inn. Fréttablaðið lá á gólfinu. Þegar ég lokaði dyrunu setti ég það aftur þar sem það hafði líklegast verið, til að vekja ekki grunsemdir.

Nú var ég kominn inn í stórt hvolf, höggvið úr bergrunninum mörgum metrum undir Reykjavík. Svo langt niðri, reyndar, að umferðarniðurinn heyrðist varla. Staðurinn var raflýstur, og það voru þarna einhverjir kofar dreyfðir um, og í þeim voru ljós. Ég ákvað að kíkja inn í einn kofann, og skoða hvað færi þar fram.

Ég valdi mér nálægan kofa, þaðan sem bárust blikkandi ljós, og leið varfærnislega inn um gluggann:

Þar inni sátu tvær mannverur, og voru að horfa á "leiðarljós" í sjónvarpinu. Ég kíkti inn í annan kofa, og þar voru aðrar tvær mannverur að horfa á leiðarljós. Þetta útskýrði afhverju enginn var á ferli: allir voru að horfa á sápuóperur nema þeir sem búa til rafmagnið.

laugardagur, maí 08, 2004

Dagur 65:

Ég held áfram með hina mjög svo trúverðugu sögu:

Ég klifra niður þennan stiga, hann liggur djúpt í iður jarðar, þessi stigi minnti reyndar svolítið á vélinda... Svo loksins næ ég niðrá botn. Það voru kyndlar á veggjunum til að gefa ljós, og nú er véladynurinn háværari en áður.

Það var greinilegt að þetta voru íslenzk göng, þau voru hlaðin úr torfi. Það voru steinhellur á gólfinu, svona eins og í garðinum hennar ömmu. Ég fikraði mig hægt eftir þeim. Þessi göng voru ekki alveg bein, svo ég sá ekki strax fyrir endann á þeim, en þegar ég sá loks út, þá trúði ég vart mínum eigin augum: Ég sé inn í stóran sal, fornlegan að sjá, með viðarklæddum veggjum og miklum bjálkum til að halda uppi loftinu.

Það voru þrjár stórar gufuvélar þarna inni, og það voru meira en tíu manns við þær, að henda í þær allskyns dóti, ónýtum tréhúsgögnum, gömlum vörubrettum... Það voru líka stórir teningar úr pappa á gólfinu, sem þeir voru að brytja í sundur og setja í vélarnar.

Ég laumaðist meðfram veggjunum til að líta betur á þetta. Það var auðvelt, því salurinn var frekar illa upplýstur. Ég sá að það voru göng þarna, bakvið pappírs-staflann, nógu stór til að keyra vörubíl gegnum. Þau voru líka torfhlaðin, með miklum bjálkum með reglulegu millibili til að halda uppi loftinu. Það voru hjólför á gólfinu. Hjólför eftir trukka.

Ég laumaðist inn göngin. Þau voru illa upplýst og verr lyktandi. Einskonar sambland af mold og dieselútblæstri. Ekki hefi ég gengið langt, þegar trukkur birtist fyrir horn, og snýr við í útskoti sem er þarna í horninu, og ég hafði ekki komið auga á. Það var of dimmt. En ég sá þó, þegar trukkurinn bakkar í áttina til mín, að hann er greinilega merktur Sorpu.

Ég forðaði mér út, og faldi mig í öðru horni á meðan trukkurinn var á leiðinni út. Hann var að koma með meiri pappa. Allir mennirnir fóru að ná pappateningunum úr trukknum. Á meðan þeir voru að því, leit ég betur á gufuvélarnar:

Þær voru tengar við dýnamóa, og háspennuvírarnir lágu eftir loftinu inn önnur göng, breið en ekki fær trukkum. Ég ákvað að rölta þar inn. Ef einhver kæmi, þá myndi ég bara segjast vera að leita að skattframtalseyðublaði.

föstudagur, maí 07, 2004

Dagur 64:

Var um daginn í tollhúsinu, þar sem er ætlast til þess að maður skili skattframtalinu, til þess að ná í blöð. Ég fyllti framtalið nefnilega vitaust út, og vissi það - seinna kom reyndar í ljós að ég fyllti það út vitlaust á annan hátt sem ég þekki minna inná... hvað um það, ég fór þar inn, og ég vissi ekkert hvar þeir geyma þessi blöð.

Svo ég leita um svæði. Ég kíkti niður í kjallara - nei, ég var ekkert að spyrjast fyrir í afgreiðzlunni, ég hef svo mikla óbeit á að tala við fólk - og ég veit vel að ég hélt prófdómaranum á snakki áðan í klukkutíma, það er öðruvísi, svona hegða ég mér bara - en ég leitaði að þessum blöðum niðri í kjallara, og þau voru ekkert þar.

En þar er hurð, sem ég opnaði, í þeirri von að það væri kannski lagerinn, þar sem öll formin væru geymd, og ég gæti kannski í leiðinni skráð mig sem einstæða móður með sex börn, í háskóla og 110% örorku. Það væri fínn aukapeningur. A.m.k þar til þeir áttuðu sig á því að ég get ekki undir neinum kringumstæðum verið móðir, hvorki einstæð né annarskonar...

En ég fann inni í þessu herbergi engin slík form. Nei. Það voru bara gamlar tölvur og slíkt, húsgögn síðan 1970, rusl semsagt. Í hinum enda herbergisins vor dyr, sem ég laumaðist til að opna. það var bara lítið herbergi, en á gólfinu var hleri...

Sem ég lyfti auðvitað upp, og kíkti niður. Þetta var forvitnilegt. Það voru tröppur þangað niður, og ég heyrði óm í vélum, djúpt undir niðri...

fimmtudagur, maí 06, 2004

Dagur 63:

Enn að leika mé að gematriculatornum. Setti inn hvað ég heiti og heimasíðuna, og fann að ég er 1% evil, 99% good. Ágætt. Hvað er Boggi? 1% evil, 99% good, Helgi Forseti? sama. Þóranna? 96% evil, 4% good. Haukur? 1% evil, 99% good.

Þóranna er Evil. Í bandalagi með djöflinum. Við verðum trúlega að brenna kvikindið á báli.

Ég er góður, og skil ekkert í því.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Dagur 62:

Ég var að komast að því, að heimasíðan mín, Þ.E bloggið, er einugis 36% evil.

Það var nú ágætt. Og hvernig fæ ég það út? Jú, ég notaðist við þetta: hve Evil er þín heimasíða mælirinn!

Til samanburðar er Helgi Forseti 40% evil, Boggi er 3% evil, Þóranna er 54% evil og Haukur frændi er 6% evil.

Já. Þýðir þetta að við eigum að vara okkur á Þórönnu? Kannski er Boggi einskonar helgur maður, ekki meira vondur en þetta? Við skulum kanna þetta frekar: ég setti inn "In the court of the dragon" eftir Robert Chambers, og það kom út 67% evil.

Sem þýðir að Chambers er meira Evil en Þóranna.

"Whisperer in the Darkness" eftir Lovecraft er einungis 29% evil, Mushasi er 7% evil, "1984" eftir Orwell er 59% evil og "Negotium Perambulans" eftir E.M.Benson er 44% evil.

Schlock Mercenary er 60% evil, JPFO er 18% evil og AK 101 er 34% evil.

Það eru linkar inn á þetta allt hér til hliðar ef þið hafið áhuga.

Af forvitni áhvað ég að tékka hver er með mest Evil linkinn: Þóranna linkar inná Ingibjörgu Guðlaugu, sem er 44% evil, og árgangsmótið sem er 37% evil. Vinir Ketils bónda, sem Helgi linkar inná, eru aðeins 9% evil, á meðan Boggi linkar inn á Animu, sem er 38% evil. Haukur frændi á metið, en hann linkar inná Blogg Hartmanns litla, en á það hefir Ásgerður verið að skrifa, en hún er 54% evil.

Sem þýðir, að ég get þó huggað mig við það að hafa mest evil linkinn, 67%, í gegnum "King in yellow" eftir Robert W. Chambers. Gott stöff það.

Evil evil...

þriðjudagur, maí 04, 2004

Dagur 61:

2 mánuðir. Að ég skuli nenna þessu... reyndar sýnist mér ég hafi nú ekki of oft nennt þessu. Svo hef ég ekki alltaf verið við. Hlaðan er heldur ekkert alltaf opin. O-jæja.

Þá er komið að því aftur: athyglisverðir linkar sem ég nenni ekki að setja til hliðar því ég vil ekki enda eins og Boggi: veggur skammar! Lesið, finnist þið vera gáfaðri en þið eruð! Og Murphy. Hann er úrillur, hann er pirraður, hann var í Nam... nei, í Persaflóanum.

Engar myndir. Þær eru til bölvaðra trafala. Sé að þeim hefur fjölgað á árgangssíðunni. Ég lét ekki taka mikið af myndum af mér. Sem er gott. Mér sýnist nefnilega að mörg ykkar hafi litið skár út fyrir 10 árum eða svo. Þessvegna held ég að það sé best að fólk muni sem minnst eftir mér hvernig ég var þá, og haldi bara að ég hafi alltaf litið svona út eins og ég geri. Borðandi roastbeef og horfandi á TV.

Sem minnir mig á það... það er til reykt svínakjöt heima.

mánudagur, maí 03, 2004

Dagur 60:

Það er komið í tísku nú að smíða byggingar sem hafa ekki rétt horn, þ.e. 90°. það er mikið af þeim í Reykjavík, þær spretta hreinlega upp eins og gorkúlur. Af hverju?

Allar þessar byggingar eiga það sameiginlegt að vera þaktar einhverju sléttu efni í stórum ferköntuðum plötum, sumar eru að auki parketlagðar á veggjum, svo ég nefni sem dæmi hús íslenskrar erfðagreiningar; þetta stóra svarta í mýrinni, Og bygginguna sem reis þar sem var bílasala fyrir ekki tíu árum.

Margar af þessum byggingum eru svartar, eða dökkgrár á litinn, og allar mjög fráhrindandi í útliti. Mætti búast við því á hverri stundu að út úr Seðlabankanum hlypu hundruð Barnason Army (TM) kallar með hulin andlit til þess að herja á litla þorpið í dalnum, með strákofunum og letilegu beljunum, til að ná hetjunni og fara með hana í virki hins illa til pyntingar.

Já, seðlabankinn er fullkomið aðsetur hvers þess sem vill vera Illur Lénsherra.

það vantar bara stóran hnefa úr stáli þarna efst, og lookið væri fullkomnað.

Ekki er hús orkuveitunnar neitt vinalegra. Og þarna eru meira hallandi veggir en ég hélt að væri öruggt. Jafnvel Helgi Hó hefði ekki látið frá sér fara neitt í líkingu við þetta. Nei, hann hefði bráðnað af skömm, og við hefðum orðið að fjarlægja hann með svömpum og vatnsryksugum.

Ef ég væri milljarðamæringur, og vildi láta smíða fyrir mig stóra og mikla höll, þá myndi ég ekki smíða mér svona útlítandi kofa. Nei.

Parketið færi á gólfið hjá mér, fyrir það fyrsta, svo er ég hræddur um að ég myndi láta þá nota annan lit en gráan, eða svartan eða hvítan. Mér er alveg sama þó Völu Matt fynnist þetta allt tóna mjög vel saman, svona grátt og guggið. Reykjavík er alveg nógu grá fyrir.

Það er eins og allir arkitektar með góð sambönd séu að reyna að breyta pleisinu í stóra ótgáfu af settinu í Blade Runner. Brátt mun okkur bara vanta varanlega svarta skýjahulu, og nokkra fljúgandi bíla, og allt verður eins. Mikið djöfull held ég þeir verði ánægðir þá.

Lífgum upp á Reykjavík: spreyjum opinberar byggingar í flúorescent litum!

sunnudagur, maí 02, 2004

Dagur 59:

Helgi Hóseasson. Náunginn á götuhorninu, þessi með skiltið. Þið vitið hvern ég meina. Ef þið akið eftir langholtsveginum hafið þið trúlega séð hann. Hann er húsasmíðameistari.

Þessi maður kom meðal annars að smíði Langholtsvegs 154, þar sem ég hefi nú aðsetur. Það er ekki fullkomin smíð, það hús, ekki það að önnur hús séu neitt fullkomin. Það er til dæmis ekki eitt rétt horn í því. Maður getur séð hvernig loftið hallar öðruvísi en gólfið.

Ekki mikið, maður tekur ekki eftir þessu nema maður horfi sérstaklega eftir því. Svo hefur það sigið aðeins síðan það var smíðað, en það gera öll timburhús. Það er bara eðlilegt.

Það var alltaf kynt aðeins of mikið, afi sá til þess. Það var til dæmis stöðugur 37°C hiti í einu herberginu uppi. Og gluggarnir voru og eru of litlir til að hægt sé að kæla almennilega þegar svo er ástatt. þetta hefur lagast í seinni tíð, nú er líft í öllum herbergjunum. Það er mikill hitamunur á degi og nóttu útaf þessu, sem veldur því að húsið er sífellt á iði.

Traustabrestir. Maður heyrir skruðninga á efri hæðinni. Það er amma, eitthvað að þvælast. Hurð lokast. Jú, það er hún. Síminn hringir. Er amma heima? Það er einhver af gömlu kellingunum sem hún þekkir, og ég segi, jújú, hún er við. Ég heyrði nefnilega í henni uppi á lofti. Og ég fer upp til að vekja hana. Þá sé ég að kellingin er ekki uppi.

Ég segi að amma hljóti að hafa farið út í búð eða eitthvað. Kelling kveðst hringja síðar. Ég held áfram að glápa á sjónvarpið. Nokkru seinna kemur hún heim. Var í heimsókn hjá Völlu, eða Kristínu. Hafði sagt mér frá því, en ég gleymt því, eins og svo mörgu.

Stundum hef ég heyrt stigann marra, líkt og einhver sé að koma niður hann, hægt og rólega. Og það er ekkert gefið að það sé vegna þess að einhver sé að koma niður stigann.

Þetta hefur náttúrlega sína kosti, maður verður til dæmis svo lítið einmana þegar maður heldur að það sé einhver þarna. Svo ef þið eruð ein, þá er illa smíðað og gamalt timburhús kannski málið?

laugardagur, maí 01, 2004

Dagur 58:

Þurfti að bíða í röð í 20 mínútur til að kaupa smjör. Það er sko 1. maí, eins og Helgi Hó er búinn að benda á. Hann var með skilti. "1. Maí" stóð á því. Maðurinn er kannski hættur sem mótmælandi íslands, og farinn að vinna fyrir sér sem dagatal í staðinn.

Jæja. Annars, kom ég auga á þetta um daginn. Skil ekkert í þessu. Set þetta bara inn af rælni, til að angra ykkur, því þið botnið ekkert í þessu heldur. Það er ýmislegt sem poppar upp þarna, á þessu bloggspotti.