laugardagur, janúar 15, 2005

Dagur 317:

Útvarp. Í útvarpi er vinsælt að hafa menn sem eru hressir og vinalegir, að minnsta kosti ef eitthvað er að marka hann Jón hérna.

Ég er hress, ég er vinalegur - sérstaklega eftir 1-2 flöskur af víni. Ég er málið næstu 70 árin eða svo. Afhverju fer ég ekki í útvarp? Ég get sponsorað vín - gegn einni flösku á dag. Já. Ég gæti verið með minn eigin þátt: "Í glasi í hádeginu!"

Ég get fjallað um daginn og veginn. Ástand mála í Elliðavoginum, snjó, hálku, svoleiðis kjaftæði. Ég get verið með svona útvarp umferðarráð. Já. Ég legg til að andlit verði spreyjuð á þjóðvegina eins og í auglýsingunni, svo ég viti hvar ég á að mökka af stað á kagganum mínum.

Ég hef skoðanir á hlutunum, sem amma telur einmitt að sé mikilvægara en að hafa aðgang að staðreyndum. Hún var nefnilega uppi í móðuharðindunum, og man því ekki stundinni lengur, hvað þá tímana tvenna.

Ég veit allt, ég skil allt, ég fatta allt miklu betur en Ingvi og Stefán.

Ég get talað við hálf-heiladautt fólk alveg eins og þeir hjá dægurmálaúvarpi rásar 2. Ég get gefið vinninga eins og liðið á FM og Bylgjunni. Ég get plöggað baneitraða drykki eins og Diet-þetta og Max-hitt.

Eða:

Ég get alveg verið í sjónvarpi!

Ég get alveg mætt heim til fólks og sagt því að húsgögnin þess séu athyglisverð. Ég get spurt hvort hlutir séu frá Epal, Kópal eða PayPal.

Ég get setið kjur í klukkutíma og lesið upp random bull sem ég eða einhver annar hefur grafið upp af internetinu, alveg eins og Auddi og Sveppi.

Ég get alveg sett upp illskuglott og spurt fólk hvað flaug í huga þess þegar barnið þess dó, og rætt svo um sæta kettlinga strax eftir hlé, eða talað við fórnarlömb eineltis og nauðgana og snjóflóða, eða fólki sem varð fyrir einelti eftir að því var nauðgað á meðan það lenti í snjóflóði og missti öll börnin sín, hundinn, köttinn, báðar beljurnar og páfagaukinn, og farið svo útí að ræða blómaskreytingar, alveg eins og Sirrý.

Ég get alveg fengið til mín rithöfunda, og tilkynnt þeim: "Nú var að koma út eftir þig bók."

Ég tel mig líka vera fullfæran um að sjóða saman leikna seríu, líkt og mörgum á undan mér hefur mistekist. Trykkið er að hafa hvern þátt bara nógu stuttan. Svona korter.

Ég kíki á það ef ég fæ ekki vinnu í álverinu.

This site is certified 57% GOOD by the Gematriculator

Engin ummæli:

Skrifa ummæli