sunnudagur, apríl 06, 2008

Dagur 33 ár 4 (dagur 1493, færzla nr. 669):

Einn daginn leiddist Jónasi voða mikið. Svo hann fór að róta uppi á háalofti. þar fann hann borð-sög. Ekki vissi Jónas alveg hvað hann átti að gera við þessa sög - þar til honum flaug í hug að gaman gæti verið að saga af sér hendina. Svo hann gerði það.



Jónas var ekki fyrr búinn að saga af sér hendina er hann sá ógurlega eftir því. Hann vafði stubbinn og barmaði sér ógurlega, áður en hann rölti niður í bæ.

"Æ-æ, ó-ó," sagði Jónas, og fólkið horfði á hann í forundran.
"Þvílíkt ólán! Ég hef misst aðra hendina!" sagði hann, "ég þarf hjálp!"

Og fólkið safnaðist umhverfis Jónas og vorkenndi honum þar sem hann engdist í ógæfu sinni. Og Jónas var hrærður vegna þess að fólkið vorkenndi honum. Og það fór fram söfnun út um allt land til handa Jónasi. Jónas fékk slatta af pening þann mánuðinn, og gat pantað margar Pizzur.

En athyglin stóð ekki lengi yfir, því skömmu seinna var lítill kettlingur að sögn myrtur á hrottalega hátt, þegar enginn sá til, og líkið fannst ekki, og fólkið varð allt brjálað og fór að fylgjast með því, ef vera skildi að einhver birtist sem það gæti hótað líkamsmeiðingum ef það næði í.

Jónas var líka svosem alveg á því að beita einhvern sem var sakaður um kattapyntingar meiðingum, en hann þjáðist. Hann var líka bara með eina hendi, sem var mikið ólán.

Svo Jónasi fór að leiðast. Og þarna var sögin ennþá inni í bílskúr, og honum flaug í hug hvort ekki gæti verið gaman að saga af sér eins og einn fót.



Það var öllu sársaukafyllra en Jónas bjóst við, ekki verra en þegar höndin fór af, en málið vara bara að Jónas hafði gleymt því hvernig það var. Og það blæddi líka miklu meira. En Jónas batt um sár sitt og stökk út á götu, en var ekki í standi til þess, svona einfættur og svimandi af blóðleysi. Hann datt beint niður stigann heima hjá sér, og féll út á götu þar sem hann rotaðist.

Þegar Jónas rankaði við sér þá var hann á spítala.

"Af hverju ert þú einfættur," spurði einhver Jónas.
"Pólska mafían réðist á mig og sagaði af mér fótinn," sagði Jónas.

Hann hafði varla sleppt orðinu er mikil skelfing greip um sig um allt land. Fólk var fyrir löngu búið að gleyma hinum ógnvænlegu kattapynturum, enada kom á daginn að það var uppspuni frá rótum. En það skifti engu máli lengur, þegar Pólska mafían var mætt, og byrjuð að saga af mönnum fætur.

Jónas var í viðtölum á hverjum degi næsta mánuðinn, og Jónasi leið vel. Svo fékk hann líka verkjalyf. Þau voru góð.

Gerð var mikil dauðaleit að pólsku mafíunni. Hún hafði reyndar verið gerð brottræk viku áður en Jónas fannst úti á götu, en samt var leitað hátt og lágt. Víkingasveitin var kölluð til og gerði hún innrás hjá öllum sem töluðu með hreim, og sprengdi hjá þeim reyksprengjur og úðaði táragasi, enda það nauðsyn þegar leitað er að hættulegum mönnum. Ekkert fannst, svo menn gerðu helst ráð fyrir að hún hefði flúið land.

Loksins var Jónas útskrifaður af spítala. Hann gat nú haltrað um hverfið sitt á hækjunum sínum, og það fáa fólk sem var á ferli heilsaði honum. En það voru mjög fáir á ferli, því allir voru uppteknir við vinnu.

Og innan skamms fór Jónasi að leiðast.

Og Jónasi datt í hug hvort ekki væri skemmtilegt að saga sig í tvennt.

Mánuði seinna fannst Jónas í tveimur pörtum á gólfinu í kjallara sínum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli