mánudagur, apríl 26, 2004

Dagur 53:

Heyrði útundan mér í gær að fallbyssa hefði sprungið í loft upp á mannfagnaði niðri í bæ. Sperrti eyrun. Auðvitað. Var hér á ferðinni frekar lítil fallbyssa, einungis nokkur kíló að þyngd, og úr pottjárni. Slíkan grip er hægt að verzla sér hér.

Mínar heimildir, (Reisubók Jóns Indíafara) segja mér, að þegar danskir kanónusmiðir voru búnir að steypa hólkana, röðuðu þeir þeim upp, hlóðu þá, komu fyrir kveik á milli þeirra allra, kveiktu í, og hlupu í burtu. Þetta var gert vegna þess að viss fjöldi af fullgerðum kanónum sprakk alltaf í loft upp, og fæstir kærðu sig um að vera nærri er það gerðist.

Hefi ég eftir öðrum heimildum, (fallbyssuskyttu vestmannaeyjabæjar) að járnkanónur eigi það til að springa í loft upp eftir langvinna notkun, sökum málmþreytu. Var þetta þekkt vandamál til forna, og var passað uppá að skifta alltaf reglulega um kanónur. Sömu heimildir segja að brons-kanónur deildu ekki þessu vandamáli. Þær þendust bara út með tímanum þartil þær urðu ónothæfar (en sennilega mun öflugri áður en þær fóru úr notkun).

Bendi ég hér með þessum merka félagskap á þennan kost, bronsfallbyssur. Þær springa ekki.

Reyndar er ekki mælt með af framleyðanda að verið sé að plaffa úr þessum tækjum. Þau eru upp á punt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli