þriðjudagur, apríl 19, 2005

Dagur 44 ár 2 (dagur 409, færzla nr. 272):

Hér er svo ný og endurbætt útgáfa af sama kafla í sömu sögu, síðan ca. 1995:

Upphaf

Sir Alex Bach, feitur maður bæði og skorpinn, sextíu og sjö ára, þingmaður í efri deild breska þingsins, og hafði verið í hálfa öld. Hann var með þeim ósköpum fæddur að hafa sex fingur á vinstri fæti og hann var því í verkamannaflokknum. Maður þessi gekk út að bifreið sinni, silfurgráum BMW, ættardýrgrips frá tíð Groliers XXIV, en hann var mikill höfðingi Búa, og öðlaðist mikinn og góðan orðstír í Búastríðunum 1984-6, þar sem hann meðal annarra frægðarverka sem og stórvirkja réði niðurlögum hinnar alræmdu ókindar Rowlands Westwood, betur þekktur sem Epsononwa, sem lauslega snarað útleggst Skallablettarotta. Hann, þ.e Sir Alex, opnaði ættardýrgripinn og steig inn. Þegar hann ræsti bílinn varð hann var við ljós á himni sem nálgaðist óðfluga. Ljós þetta var í öllum litum regnbogans, og virtist breyta um lögun í hvívetna og mynnti einna helst í útliti á fjóra uppblásna líknarbelgi úr rauðskjöldóttri belju bundna saman með þæfðri kattargörn. Skyndilega var ljósið aðeins um 10 metra frá ökutæki Sir Alexar. Eftir að hafa sveimað um yfir ökutækinu þónokkra tíð, líkt og blindfullur kólibrífugl með astrónómískar geðflækjur og á meskalíni, sendi þessi furðulegi ljósgjafi frá sér rauðleitan geisla sem hitti bílinn miðsvæðis í gegnum topplúguna. Ægileg sprenging rauf næturkyrrðina. En um tíu mínútum síðar þegar fyrsti lögreglubíllinn kom á vettvang var ljósið skæra á bak og burt og bifreið Sir Alex Bach hafði fuðrað upp.

Þetta er miklu flottara svona, ekki satt?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli