laugardagur, ágúst 13, 2005

Dagur 159 ár 2 (dagur 524, færzla nr. 299):

Í gær kom amma heim úr búðinni. Hún hafði gleymt vörunum sem hún keypti þar, svo ég varð að keyra hana þangað aftur.

En hvað um það.

Hún hafði fest kaup á þessari forláta pizzu með 4 mismunandi tegundum af osti. Ostar. Ég man þegar það var bara ein gerð af osti. Sú gerð gekk undir nafninu "ostur", og var sett ofaná brauð.

Jæja. Allavega, það voru þarna á þessu einar 4 gerðir af osti, í mis lífrænu ásigkomulagi. Og þá meina ég þetta: ein gerðin ráfaði makindalega um pizzubotninn og dáðist að tómatmaukinu, á meðan tvær hinna börðust um yfirráð yfir þeirri fjórðu.

Ég reyndi sem best ég gat að hunsa lætin í ostunum á meðan ég hitaði ofninn. Veinin og hvalaópin í þeim voru svo mjög átakanleg rétt fyrst, en hljóðnuðu á næstu fimm mínuútum eftir að pizzan var komin í ofninn.

Og hvernig bragðaðist?

Ekki ósvipað og ostur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli